Lífskjarasamningar!?

9. apríl, 2019 Björgvin Leifsson


Varla hefur farið fram hjá neinum að aðildarfélög ASÍ undirrituðu nýjan kjarasamning við SA í síðustu viku eftir langa og stranga samningalotu þar sem verkafólk beitti verkfallsvopninu í fyrsta skipti í langan tíma. Samningarnir sem náðust eru að sönnu nokkuð lægri en lagt var upp með en hins vegar margfalt betri en þeir smánarsamningar, sem ASÍ gerði við atvinnurekendur í tíð fyrri forseta eða allt frá því að kratahagfræðingarnir náðu þar völdum þar til þeim var hent út síðast liðið haust.

Hækkanir fyrir lægsta hluta launaskalans eru umtalsverðar og sömuleiðis er meiri þrepasköttun jákvæð. Það fer hins vegar fjarri að kjarasamningarnir séu einhvers konar sósíalískur sigur eða jafnvel sigur sósíalismans yfir atvinnurekendum eins og sumir hafa látið liggja að á Fésbók (Facebook). Þvert á móti bendir ánægja framkvæmdastjóra SA og fjármálráðherra með samninganafrekar til þess að verkafólk hefði getað náð betri samningum meðþví að halda út eilítið lengur. Svo virðist að gjaldþrot Wow Air hafi einhvern veginn höggvið skörð í samstöðuna.

Eitt er mjög slæmt við þessa samninga og það er að gefa eftir greidda kaffitíma í skiptum fyrir styttri vinnuviku. Verkafólk á ALDREI að gefa eftir áunnin réttindi! Það er sjálfsagt að krefjast styttri vinnuviku en það á ekki að gerast á kostnað áunninna réttinda. Um leið og við gefum eitthvað eftir gagnvart auðvaldinu gengur það bara á lagið.

Einnig er varasamt að nú eru farnar að heyrast raddir um að aðrir launþegar verði að halda að sér höndum vegna þess að ekki sé meira til skiptanna eða að minnka verði launabilið í landinu til aðjafna kjörin, m.ö.o. að jafna kjörin niður á við. Þetta er láglaunasjónarmið, sem verkalýðsleiðtogarnir virðast því miður deila enn þá með ríkisvaldinu og SA. Við heyrum alkunna frasa eins og „Núna þurfa aðrir að bíða. Þetta er ekki tíminn fyrir hálaunafólk að sækja sér kjarabætur.“ eða „Svigrúmið í hagkerfinu hefur verið notað.“. Út frá þessu sjónarmiði hefur deilan alltaf snúist um að leiðrétta kjör HINNA LÁGLAUNUÐU, lægst launuðu hópanna gagnvart öðru launafólki með áherslu á krónutöluhækkanir í stað prósentuhækkana. Nú þegar er byrjað að leggja mikla pressu á opinbera starfsmenn, jafnvel iðnaðarmenn o.fl. að slaka á sínum kröfum. Þetta er borgaralega líknarhyggjan í verkalýðsbaráttunni, sem klýfur hreyfinguna í staðþess að hóparnir styðji baráttu hvers annars: Að stéttabaráttan snúist um að jafna launaflokka launafólks en ekki aðmeginþorri launafólks hrifsi kjarabæturnar frá auðvaldi og elítu. Þessi hugsunarháttur hefur ráðiðríkjum í ASÍ í áratugi og það er miður að hann virðist alls ekki á förum. Nær væri fyrir launalögguna í ASÍ að fylgjast með og koma í veg fyrir brot á réttindum launafólks innan sinna vébanda en að tala niður kjarabaráttu annarra hópa.

Það er full ástæða til að óska verkafólki til hamingju meðþennan áfanga því að þetta er áfangi en ekki sigur eins og formaður Eflingar hefur réttilega bent á. Hins vegar verður að setja bæði ! og ? við orðið "lífskjarasamningar". Þetta nýyrði inniber að nýundirritaðir kjarasamningar muni bæta lífskjör alþýðu í þessu landi meira en nokkrir aðrir kjarasamningar, sem gerðir hafa verið. Það er dálítið vel í lagt að gefa sér það fyrir fram en miðað við alla þá smánarsamninga, sem kratahagfræðingarnir gerðu fyrir láglaunahópana hér áður fyrr (og þarf ekki að fara aftar en til 21. desember 2013) fer varla hjá því að hinir nýju samningar muni bæta kjör hinna lægst launuðu – amk í bili.