Samtök hernaðarandstæðinga fordæma loftárásir
—
Samtök hernaðarandstæðinga gáfu þann 14. apríl út ályktun um loftárásir Bandaríkjann, Frakklands og Bretlands á Sýrland.
„Samtök hernaðarandstæðinga fordæma loftárásir Bretlands, Frakklands og Bandaríkjanna á Sýrland. Árásin var gerð án samþykkis Sameinuðu Þjóðanna og áður en að eftirlitsmenn frá OPCW, samtökum gegn útbreiðslu efnavopna, komu til Douma til að rannsaka fullyrðingar um beitingu þeirra. Aðgerðirnar grafa því undan alþjóðastofnunum sem hafa það að hlutverki að leysa úr deilumálum og takmarka útbreiðslu vopna. Loftárásir sem þessar geta aldrei orðið til þess að koma á friði heldur auka þær hættuna á átökum við Rússa með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Auk þess er það þversögn að hefna fyrir mannfall óbreyttra borgara með sprengjuárásum sem valda bara frekari dauða og eyðileggingu. Samtök hernaðarandstæðinga mælast til þess að íslensk stjórnvöld standi gegn frekari árásum aðildarríkja NATÓ á Sýrland og taki þátt í því að fá stríðsaðila að samningaborðinu og binda þannig enda á styrjöldina með friðsamlegum hætti.“