Samruni Fox og Disney og framtíð hugverka

15. desember, 2017 Bjarmi Dýrfjörð
Jörðin með eyrum Mikka Mús

Núna á dögunum fréttist að Walt Disney-fyritækið hafi samþykkt að kaupa meirihluta þeirra hugverka (IP) í sjónvarpi og kvikmyndum sem 21st Century Fox á réttindi að. Í hópi þeirra hugverka eru til að mynda The Simpsons og Modern Family í sjónvarpi, og seríur s.s. X-Men og Alien á stóra skjánum; Þar að auki kemur fjöldinn allur af efni undir 20th Century Fox merkinu, ásamt því að Disney mun öðlast dreifingarrétt á upprunnalega Star Wars þríleiknum, sem þeir höfðu ekki áður.

Kaupverðið sem nefnt hefur verið eru $52,4 milljarðar eða um 5,5 billjón kr., en það samsvarar ríflega tvöfaldri vergi landsframleiðslu Íslands fyrir árið 2016. Mun þá 21st Century Fox halda eftir fréttastöðvum sínum Fox News og hluta af stöðinni Sky.

Fulltrúar fyrirtækjanna og aðilar sem hafa fylgst náið með kaupunum hafa haft orð á því að stærsta hindrunin í vegi fyrir samrunnanum gæti verið bandarískt samkeppniseftirlit, en margir hafa bent á (sérstaklega fólk á vegum neytendasamtaka vestra) að téðar stofnanir séu ekki í ástandi til að gera mikið, þar sem þær séu að miklu leyti undir áhrifum þeirra aðila sem koma að málinu.

Þetta markar stóran lið í áframhaldandi höfundaréttar-þenslu Disney. Nú er svo komið að gríðarstór hluti nútíma dægurmenningar er undir stjórn einnar samsteypu, og útlit er fyrir að sú samþjöppun haldi áfram. Þessi þróun felur í sér mikla hættu fyrir neytendur, og á óljósari máta fyrir samfélagið sjálft. Eftir því sem stærra hlutfall vinsælla hugverka er í eigu eins fyrirtækis, því auðveldara er fyrir það fyrirtæki að beita neytendur einokun og því erfiðara er fyrir neytendann að eiga val í því hvert fé hanns rennur. Ef flestöll dægurmenning sem þú hefur gaman af er í eigu sama fyrirækisins þá gætir þú átt erfitt með að hafa ofan af fyrir þér án þess að styrkja það fyrirtæki fjárhagslega í leiðinni, og breytir þá engu hver skoðun þín á fyrirtækinu er. Þannig auðveldar það fyrirtækinu að sölsa fleiri hugverk undir sig og málið vandast enn.

Samfélagslega hættan er sú, að þessi fyrirtæki eru að vinna með menningu. Ef fyrirtæki eins og Disney hefur sterka afstöðu í einhverju máli, eða vill ekki umræðu um eitthvað málefni (gyðingahatur Walts Disneys er hið sígilda dæmi) þá er það í valdamikilli stöðu til að hafa áhrif á samfélagsumræðu. Það á auðveldara með að koma sínum sjónarmiðum að og halda andstæðum sjónarmiðum frá eins og Fox News gerir fyrir íhaldsöm og nýfrjálshyggju- sjónarmið í Bandaríkjunum (og þar er það m.a. „hliðstæður” fréttaflutningur Fox sem hefur valdið tilvistarspekilegu krísunni „alternative facts” eða sannlíki þar vestra). Þannig öðlast slík fjölmiðlafyrirtæki gríðarlegt dulið samfélagsvald.

Nú er raunin sú að samkeppnis og eftirlitsstofnanir eiga að tryggja að ekki sé hægt að treysta slík völd á fárra hendur, en fyrir vestan hafa þau brugðist, og hér á Íslandi hafa þau líka oft brugðist áður og eru til um það fjölmörg dæmi olíufélaga og banka. Þar sem hagsmunaaðilar geta breytt lögum, haft áhrif á skipan fólks í stöður, eða bara haft áhrif á fólkið sem er í þeim stöðum fyrir er ekki endilega öryggi að finna í eftirlitsstofnunum. Það er undir almenningi komið að vera alltaf á varðbergi gagnvart þessu, en raunin er að þessi hætta verður áfram til staðar undir núverandi hagkerfi