SAGNFRÆÐINGAR TALA UM NATÓ OG 30. MARS 1949
—
SAGNFRÆÐINGAR TALA UM NATÓ OG 30. MARS 1949
Morgunblaðið er í miklu hátíðarskapi þessa dagana. Tilefnið talið vera ærið, NATÓ 75 ára.
Varðberg fengið til að fræða og upplýsa
Til þess að aðstoða ríkisstjórnina við hátíðahöldin hefur verið gerður samstarfssamningur við Varðberg, helsta stuðningsfélag NATÓ hér á landi til áratuga og snýr samstarfið að “kynningu og fræðslu á sviði öryggis- og varnarmála, í tengslum við 75 ára afmæli stofnsáttmála Atlantshafsbandalagsins.”
Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að samstarf utanríkisráðuneytisins við Varðberg hafi alltaf verið með miklum ágætum og “stuðlað að upplýstri umræðu og fræðslu um öryggis- og varnarmál í gegnum tíðina. Það er mikilvægt að efla upplýsta umræðu um gildi bandalagsins á þessum tímamótum… “ (Mbl., 27. mars).
Sagnfræðingur kallaður til vitnis um “breytta ásýnd” NATÓ
Þessi tímamót sem utanríkisráðuneytið vísar til voru síðan til umfjöllunar í Dagmálum Morgunblaðsins og í blaðinu sjálfu, hinn fjórða apríl, á sjálfan afmælisdaginn.
Þar var rætt við Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, sem í þessu viðtali var aðallega sagnfræðingur því þannig var hann kynntur til sögunnar.
Og sagnfræðingurinn, Guðni Th. Jóhannesson, rakti sögu NATÓ og skýrði síðan út það sem þeir Bjarni utanríkisráðherra kalla tímamót í sögu bandalagsins, það er að segja “innrás Rússlandshers í Úkraínu”. Þá hafi orðið algjör kaflaskil “sem sjáist hvað best í því að Finnar og Svíar hafi ákveðið að öryggi ríkjanna sé best tryggt með aðild að bandalaginu.” Segi Guðni “það risastórt skref í sögu þessara ríkja.”
Og enn hefur blaðið eftir Guðna að stuðningur Íslendinga við aðild að NATO hafi sjaldan eða aldrei verið meiri og vitnar blaðamaður síðan beint í orð hans: „Aðild Finna og Svía hefur breytt ásýnd bandalagsins stórkostlega að þessu leyti hér á þessum hluta jarðkringlunnar.“
Aðsúgur að Alþingi og grjótkast
Í Dagmálsviðtalinu sem Morgunblaðið rekur síðan fjallar Guðni Jóhannesson um 30. mars 1949 og segir m.a.:
“Aðsúgur var gerður að Alþingi og hörð átök urðu á Austurvelli þar sem m.a. táragasi var beitt og aðild Íslands svo samþykkt undir grjótkasti í miklum darraðardansi 30. mars 1949. Guðni segir að þá nótt og þar á eftir hafi menn staðið vörð um heimili Bjarna Benediktssonar eldri, þáverandi utanríkisráðherra, og Ólafs Thors, formanns Sjálfstæðisflokksins. Þá rifjar hann upp að leyfi hafi fengist til hlerana á símum þeirra sem þóttu ógna öryggi ríkisins til þess að ganga úr skugga um að menn hefðu ekki valdarán í hyggju eða eitthvað slíkt. Guðni segir hitann í mönnum hafa að hluta helgast af kröfunni um þjóðaratkvæði. Frekar en að Alþingi afgreiddi viðamikið mál af þessu tagi með einni lítilli þingsályktun skyldi þjóðin eiga síðasta orðið.”
Svo eru til aðrir sagnfræðingar
Ekki er neinu logið hér. En til eru þeir sagnfræðingar sem myndu hafa lagt áherslu á ýmsa aðra þætti sem aftur hefðu gefið allt aðra mynd en þá sem þrenningin, Morgunblaðið, Bjarni og Guðni draga upp.
Það er til dæmis mikil einföldun á sögu NATÓ á síðari árum að staðnæmast við innrás Rússa í Úkraínu án þess að fjalla um grundvallarbreytinar á áherslum bandalagsins, útþenslu til austurs, kröfum um aukna vígvæðingu og íhlutun bandalagsins utan þess svæðis sem aðildarríkin taka til – allt óháð hernaði Rússa í Úkraínu.
Breytt ásýnd Norðurlandanna
Guðni segir að innganga Svía og Finna í NATÓ sé “risastórt skref í sögu þessara ríkja,” og að þetta skref “hafi breytt ásýnd bandalagsins stórkostlega að þessu leyti hér á þessum hluta jarðkringlunnar.“
En hér skortir á að botnað sé með mun víðari skírskotun til að fá heillega mynd. Þannig myndi sá sagnfræðingur sem þetta skrifar vilja velta því fyrir sér á hvern hátt innganga einkum Svía sé “risastórt skref”. Í Svíþjóð er nefnilega að vakna umræða um þessi efni þegar það nú rennur upp fyrir mönnum að samhliða inngöngunni í NATÓ er bandaríski herinn að fá aðstöðu fyrir hertól sín víðs vegar um Svíþjóð í ætt við það sem Danir og Norðmenn eru einnig að heimila, opna lönd sín fyrir hernaðarumsvifum Bandarikjamanna í á þann hátt sem aldrei hefur verið áður. Í þessu samhengi má spyrja hvort það sé aðeins ásýnd NATÓ sem sé að taka breytingum, hvort ásýnd Norðurlandanna sé ekki eining að gera það og að Ísland sé þar engin undatekning þótt Svíþjóð sé augljósasta dæmið. Víða á þeirri sömu jarðarkringlu og hér hefur verið nefnd er horft til Norðurlandanna í forundran yfir fylgispekt þeirra við hernaðaröflin, skort á sjálfstæði og sjálfsvirðingu. Þykir mörgum sú ásýndarbreyting dramtísk en á sllt annan hátt en rakið var í afmlisumfjöllun Morgunblaðsins.
Hvítliðar, fangelsisdómar og svipting kjörgengis og kosningaréttar
Varðandi mótmælin á Austurvelli 30. mars 1949 þá þykir mér undarlegt af hálfu sagnfræðings og fjölmiðils, sem vill láta taka sig alvarlega, að láta ósagt um hvítliðana sem réðust á mótmælendur á Austurvelli og síðan réttarhöldin í kjölfarið þar sem tuttugu einstaklingar voru dæmdir til fangelsisvistar og átta af þeim sviptir kjörgengi og kosningarétti, nokkuð sem var ekki leiðrétt fyrr en árið 1957. Guðni víkur að hlerunum sem beitt var “til þess að ganga úr skugga um að menn hefðu ekki valdarán í hyggju eða eitthvað slíkt.”
Þeir sem létu mynda pólitíska ofbeldissveit til að berja á mótmælendum, nýttu sér tök sín á ríkisvaldinu til að fá þá dæmda suma hverja til fangelsvistar og svipta kosningarétti og kjörgengi, hleruðu síðan forsvarsfólk úr verkalýðshreyfingu og stjórnmálum “til þess að ganga úr skugga um að menn hefðu ekki valdarán í hyggju eða eitthvað slíkt.” Eitthvað mikið vantar hér inn í til að fá raunsanna og sanngjarna mynd af þessum atburðum.
Tvær andstæðar fylkingar
Án þess að hafa þessa mynd skýra fyrir hugskotssjónum skilja menn illa það sem á eftir kom því eftir þassa atburði má heita að þjóðin hafi verið klofin í tvær fylkingar og til urðu samtök sem þessar tvær fylkingar samsömuðu sér við, annars vegar Samtök hernámsandstæðinga, síðar herstöðvarandstæðinga, og nú Samtök hernaðarandstæðinga og hins vegar Varðberg, samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál.
Báðar þessar hreyfingar eru vissulega til en þurfa að hafa mismikið fyrir lífinu.
Ríkisstjórnin styrkir Varðberg með fjármunum okkar allra!
En áður en sá sagnfræðingur sem hér skrifar lýkur máli sínu leyfir hann sér að mótmæla því að sitt skattfé til ríkisins verði látið renna til Varðbergs – samtaka með NATÓ merkið á bréfshaus sínum – enda algerlega ósammála því að þau samtök hafi “stuðlað að upplýstri umræðu og fræðslu um öryggis- og varnarmál í gegnum tíðina”.
Sjá, Nató við Rauða borðið
Sjá, Vilja úrögn úr NATÓ