Rætur Kóreudeilunnar
—
Samkvæmt boðskap vestrænu heilaþvottavélarinnar, sem endurvarpað er samviskusamlega af íslensku fréttastofunum, eru stjórnvöld Norður Kóreu stórhættuleg umheiminum fyrir brjálsemi sakir. Þó eru þau, eftir að þau misstu bakhjarl sinn, heimskommúnismann, fyrst og fremst til að hlæja að, skv. sama boðskap. Samt er það svo að það er ekki brjálsemi og árásarhneigð Norður-kóreskra leiðtoga sem veldur spennunni þar. Ekki heldur leifar af „gagnkvæmri tortryggni“ Kalda stríðsins. Heldur hefur meginorsökin alla tíð verið botnlaus yfirgangur forysturíkis Vestursins gagnvart þessu litla landi, Norður-Kóreu, og Kóreu allri.
Til að skilja ástandið á Kóreuskaga er óhjákvæmilegt að seilast aftur í og aftur fyrir Kóreustríðið (1950-53). Jaltasamningurinn undir lok heimsstyrjaldarinnar síðari gerði ráð fyrir sameiginlegu hernámi Kóreu af hálfu Bandaríkjanna og Sovétríkjanna meðan hernám Japans væri upprætt. Kórea hafði þá verið undir grimmdarlegu japönsku hernámi frá 1910. En þegar Japanir höfðu gefist upp og áður en til hernáms landsins kom hafði þjóðfrelsishreyfing Kóreu komið upp ákveðnu stjórnkerfi sem borið var uppi af sk. „alþýðunefndum“ og miðstjórn þeirra, og stefndi á fullt sjálfstæði.
Sovétmenn sendu her inn í landið frá norðri en Bandaríkin sendu skömmu síðar miklu stærri her inn að sunnan og hernámu beinlínis suðurhluta landsins. Bandarísk herstjórn beitti strax yfirdrifnum herstyrk af því hún óttaðist hið pólitíska ástand innan landsins, nefnilega mikinn styrkleika kommúnista og eindreginna þjóðernis- og andheimsvaldasinna í þjóðfrelsishreyfingunni, ástand sem einkenndi flest hernámssvæði Japana í Austur-Asíu í stríðslok (eins og reyndar líka hernámssvæði Þjóðverja í Evrópu). Það gilti m.a. um Kóreu, allt Indó-Kína, Filipseyjar og ekki síst Kína.
Bandaríkin höfðu í áratugi leynt og ljóst tekið fullan þátt í borgarastríðinu í Kína, veitt Kuomintang og Sjang Kæ Sjek gríðarlegan hernaðarstuðning gegn kommúnistum á millistríðsárunum, á árum seinna stríðs og eftir stríðið. Það kom fyrir ekki og við kínversku byltinguna 1949 hraktist her Sjang Kæ Sjeks út á eyjuna Taiwan – sem USA gerði þá auðvitað að hinu „eina rétta Kína“.
Þjóðir nýlendna og yfirráðasvæða heimsvaldasinna risu upp til þjóðfrelsis hver af annarri. En samtímis voru Bandaríkin í miklum hnattveldisham eftir heimsstyrjöldina – og nú ætluðu þau ekki að láta raunasöguna frá Kína endurtaka sig. Þau tóku við stríði Frakka gegn þjóðfrelsisöflum Víetnam og Indó-Kína 1954 (fyrir utan ótal íhlutanir í S-Amreríku, Miðausturlöndum o.s.frv.). En þá þegar höfðu þau nauðgað Kóreu.
Fjandsamleg meðhöndlun Vestursins á Norður-Kóreu æ síðan hefur byggst á þeirri staðhæfingu – sem bandaríska heilaþvottavélin hefur matað Vestrið með í 75 ár – að stríðið hafi byrjað sem „tilefnislaus árás Norður-Kóreu 25. júní 1950 að undirlagi Sovétríkjanna“. Það er ranghverfa sannleikans. Sovétmenn viðurkenndu þjóðfrelsisöfl landsins, en það gerðu Bandaríkin ekki heldur hertóku einfaldlega landið sunnan 38. breiddarbaugs. Sovétmenn sendu aldrei stóran her inn í Kóreu og drógu hann svo út 1946, fjórum árum fyrir Kóreustríðið, á meðan Bandaríkin héldu miklum her sínum áfram í landinu án þess að spyrja landsmenn. Þeir voru einfaldlega hernámsaðili sem átti þarna ekkert erindi og engan rétt.
Formlegt hernám Bandaríkjanna stóð til 1948 í sífelldum blóðugum átökum við þjóðfrelsisöflin í suðurhluta landsins. En árið 1948 settu Bandaríkin til valda í suðurhlutanum (sem hét eftir það Suður-Kórea) lepp sinn Syngman Rhee, sem þá hafði búið í Bandaríkjunum í 40 ár. N-Kórea lýsti skömmu síðar yfir sjálfstæði og landamæraátök hófust.
Bandaríkin réðu nær öllu hjá Sameinuðu þjóðunum á þessum árum, ekki síst af því Sovétríkin samtímis hundsuðu SÞ, einkum til að mótmæla útilokun Kína úr samtökunum. Í krafti þess gat Truman í fyrsta lagi trommað í gegn viðurkenningu SÞ á leppstjórninni í Suður-Kóreu og þegar landamæraátök þróuðust yfir í stríðsátök 1950 gátu Bandaríkin komið á fót „bandalagsher“ undir eigin forustu en í nafni Sameinuðu þjóðanna, til að berjast gegn Norður-Kóreu. Sovétmenn sendu aldrei her í Kóreustríðið. Helsta hernaðaraðstoð þeirra við landið var í formi sprengjuflugvéla og kennara til að kenna á þær.
Bandaríkin réðu engu að síður loftrýminu yfir Kóreu. Stríð þeirra gegn Norður-Kóreu var háð af eindæma hrottaskap. Fleiri sprengjum var varpað á landið en varpað var á Þýskaland og Japan samanlagt í seinni heimsstyrjöldinni. Þegar stríðið hafði staðið í hálfan fimmta mánuð sendi Kína landher yfir landamærin til Kóreu og jafnaði það leikinn og átakalínur læstust nærri 38. breiddarbaug. Vopnahlé var þó ekki samið fyrr en í júlí 1953.
Tölur um mannfall í Norður-Kóreu eru yfirleitt á bilinu 25-35% þjóðarinnar. Borgir og bæir voru nær þurrkuð út. Mannfall í suðurhlutanum var minna en gríðarlegt líka. Til samanburðar misstu Bretar minna en 1% þjóðarinnar og Bandaríkin 0.3% þjóðarinnar í seinni heimsstyrjöldinni.
Frá vopnahléinu 1953 hafa Bandaríkin neitað Norður-Kóreumönnum um friðarsamning sem er allt sem þeir fara fram á. Á meðan þeir hafa hann ekki treysta þeir ekki á annað en eigin varnargetu. Og Bandaríkin geta fyrir vikið haldið sínum 15 herstöðvum í Suður Kóreu sem mynda mikilvægan hlekk í herstöðvaneti þeirra í Asíu og umhverfis Kína. Auk þess að halda flotaæfingar kringum Kóreuskaga, hóta Norður-Kóreu valdaskiptaaðgerðum og halda þannig landinu í stöðugri spennitreyju.