Ræða Skúla úr aldarafmæli Októberbyltingarinnar
—
Eins og sagði frá í fyrri grein var haldið upp á aldarafmæli októberbyltingarinnar þann 7. nóvember í Iðnó. Þar komu fram ræður eftir Véstein Valgarðsson og Skúla Jón Unnarson. Það stóð til að Sólveig Anna Jónsdóttir myndi líka halda ræðu en hún handleggsbrotnaði daginn fyrir viðburðinn. Hér hefur áður verið birt ræða Vésteins en hér á eftir fylgir ræða Skúla.
Góða kvöldið.
Þegar ég var að vinna í þessu erindi setti ég mér það markmið að minnast ekkert á Lenín, Trotskí eða Stalín í því. Það kemur fljótlega í ljós hvort það tókst hjá mér.
Í leiðara fyrsta tölublaðs tímaritsins Endnotes, sem helgað var uppgjöri við byltingarhreyfingar 20. aldar, var bent á að þegar Marx skrifaði hin frægu orð „arfur allra liðinna kynslóða hvílir sem farg á heila lifenda“ hafi kommúnisminn eingöngu verið til sem framtíðarsýn. Í dag sé það hins vegar þannig að ekki bara eigi kommúnistar og anarkistar sér orðið tiltölulega langa sögu, heldur virðist oft sem þeirra eigin saga eigi hug þeirra allan. Hafi ákall Marx um að láta „hina dauðu grafa hina dauðu“ átt við árið 1852 á það ekkert síður við núna. Það er þó staðreynd að sagan hefur alltaf áhrif á hvar við stöndum í dag en líka hvert við stefnum. Jafnvægi þarf að vera milli þess hversu mikið við hugum að fortíð okkar, nútíð og framtíð en við komumst ekki hjá því að hugsa um allt þetta. Skilningur okkar á fortíðinni er líka breytilegur, hann breytist með tímanum, með nýjum forsendum og endurmetum við atburði fortíðarinnar í ljósi þess hvar við stöndum í dag. Þetta hlýtur að eiga sérstaklega við um jafn afdrifaríkan atburð og rússnesku byltinguna. Hina dauðu þarf að grafa aftur og aftur.
Rússneska byltingin einkenndist af bæði miklum sigrum og ósigrum, þar sem í sigrunum fólust líka ósigrar og ósigrunum sigrar. Það sem einna helst vekur með mér sjálfum innblástur við rússnesku byltinguna eru þeir möguleikar sem ekki urðu að veruleika, sú þróun sem stöðvuð var eða kæfð annaðhvort vegna borgarastríðsins eða þeirrar stefnu sem tekin var af valdhöfum. Verkafólk tók yfir verksmiðjur og aðra vinnustaði og hóf að reka þær sjálft í sameiningu. Verkalýðsstéttin, bændur og hermenn mynduðu ráðin sem voru mun lýðræðislegri stofnanir en borgaraleg þjóðþing. Það hefði verið betra ef þessi þróun hefði fengið að ganga lengra og verða ráðandi í samfélaginu.
Merkilega lítið er talað um ávinninga rússnesku byltingarinnar í þágu kvenfrelsis og þátt kvenna í henni. Verkakonur léku mikilvægt og stundum leiðandi hlutverk í stéttabaráttunni í aðdraganda byltingarinnar og meðan hún var að eiga sér stað. Þær gengu djarfar fram en karlar oft á tíðum og eru sagðar hafa gegnt lykilhlutverki í að steypa einveldinu. Verður þáttur einnar persónu þar seint ofmetin. Alexandra Kollontai var ekki bara einörð baráttukona fyrirbæði frelsun kvenna og verkalýðsstéttarinnar heldur var hún fyrsta konan í heiminum til að gegna ráðherraembætti. Hún hafði djúpan skilning á samspili kyns og stéttarstöðu löngu áður en við fórum að tala um samtvinnun. Að mínu mati er Alexandra Kollontai mikilvægasta einstaka persónan úr hópi Bolsévika aðeins að undanskildum Lenín. Rússland keisaratímans var öfgakennt feðraveldi þar sem konur voru beinlínis eign eiginmanna sinna. Þeir höfðu lagalegan rétt til að berja eiginkonur sínar. Eftir að Bolsévikarnir komust til valda var lagaleg staða kynjanna jöfnuð. Þær öðluðust ferðafrelsi, skilnaðir voru gerðir eins auðvelldir og mögulegt var, fóstureyðingar voru gefnar frjálsar, launuðu fæðingarorlofi komið á og hugmyndin um óskilgetin börn felld úr lögum til að tryggja jafnrétti barna, svo eitthvað sé nefnt. Margir af ávinningunum voru síðar dregnir til baka og ekki var þetta jafnrétti alltaf til staðar í reynd. Þrátt fyrir það voru þetta allt risavaxin framfaraskref á sínum tíma, svo ekki sé talað um í landi eins og Rússlandi þess tíma. Þetta er mikilvægt að hafa í huga núna þegar í Rússlandi dagsins í dag er staðan sú að heimilisofbeldi hefur verið gert löglegt á ný með yfirgnæfandi meirihluta á þinginu. Það segir okkur allt sem segja þar um í hvaða farvegi þessi mál eru í Rússlandi Pútíns. Þótt Sovétríkin hafi verið eins og þau voru er fátt sem færst hefur til betri vegar eftir að þau liðu undir lok.
Rússneska byltingin var meira en bara valdtaka Bolsévika. Hún var verkalýðsbylting sem miðaði að því að koma á stéttlausu samfélagi þar sem allir fengju að njóta sín. Segja má að einn stærsti lærdómurinn sem draga megi af rússnesku byltingunni og örlögum hennar sé sá að frelsun verkalýðsstéttarinnar, og í kjölfarið allra undirokaðra hópa, sé ósamrýmanleg stigveldislegu valdi. Sé ósamrýmanleg hvers konar stigveldi, jafnvel þegar hinu nýja stigveldi er ætlað að tryggja yfirráð alþýðunnar. Frelsun verkalýðsstéttarinnar og annarra undirokaðra hópa getur ekki átt sér stað í samfélagi þar sem stigveldi og ójöfn valdatengsl ríkja. Þýðing rússnesku byltingarinnar fyrir okkur í dag er vonin sem liggur í þeim möguleikum sem ekki urðu. Það sem ekki varð þá getur þó hins vegar orðið síðar en það mun ekki gerast af sjálfu sér.