Ræða Ögmundar hjá Stefnu 1. maí

1. maí, 2019 Ögmundur Jónasson


Stefna félag vinstri manna hélt kraftmikinn morgunfund á Hótel KEA. Mættir um 40 og ræðumaður Ögmundur Jónasson. Hann ræddi m.a. blairisma, frjálshyggju-alþjóðavæðingu, orkupakka, Venesúela og nýja forustu í verkalýðshreyfingunni.

Það er ánægjuefni að sækja fund Stefnu, félags vinstri manna, og það á sjálfum degi verkalýðsins, 1. maí. Sunnan heiða hefur Stefna legið í dvala um langt skeið en æ oftar heyrast raddir um að bera þurfi að nýju glóðir að félagsstarfi Stefnu. Þá hafa menn horft til Akureyrar um hið góða fordæmi og rauðan logann sem þar brann og brennur enn.

Í mínum huga táknar Stefna festu í stjórnmálum, enda Stefna félsgsskapur þeirra sem staðráðnir eru í því að láta ekki stundarvinsældir villa sér sýn og stundarhagsmuni afvegaleiða sig. Til gamans í þessu tilliti og ef til vill líka til upplýsingar og gagns, því það varpar skýru og um leið svolítið skondnu ljósi á þessa afstöðu, að þegar merki félagsins var hannað, en það gerði Páll Svansson Jóhannessonar úr Kötlum, samkvæmt hugmynd Baldurs Jónassonar heitins, hagyrðings frá Húsavík, þá var það ásetningur að á merkinu skyldu sjást svanir á flugi. Og svanirnir skyldu að sjálfsögðu fljúga til vinstri. En þegar á það var bent að svanirnir kæmu þá til með að fljúga aftur úr fánunum eða bréfsefninu sem þeir prýddu, aftur á bak samkvæmt lesauganu, og að skilja mætti það svo og leggja út á þann veg, að förinni væri heitið til fortíðar, ekki fram á við, þá þótti Stefnufélögum það vera í góðu lagi. Ef fljúga þyrfti til baka til að komast betur nestuð til nýrrar framtíðar þá skyldum við gera það alls óhrædd og ófeimin enda baráttu-arfur fyrri tíðar ekki til að fara í felur með.

Mig langar til að segja ykkur frá ráðstefnu sem ég sótti í síðustu viku í Newcastle á Englandi en þar var einmitt rætt talsvert um samtímann og framtíðina en jafnframt með skírskotun til fyrri tíma. Á ráðstefnunni var fjallað um barátttu í Bretlandi í lok seinna stríðs við að koma fátæku fólki úr heilsuspillandi raka-húsnæði í gott og hlýtt félagslegt húsaskjól, að koma á menntakerfi öllum opið og heilbrigðiskerfi sem tæki utan um alla; kerfi sem læknaði þig vegna þess að þú værir veikur, ekki vegna þess að þú gætir greitt úr eigin vasa. Í skýrslu sem kennd var við Beveridge nokkurn voru þessi úrræði tíunduð og lagður grunnur að samfélagi velferðar sem hefði að leiðarljósi að hugsa um hvern og einn frá vöggu til grafar: From the cradle to the grave. Þannig hljómaði það á ensku í Beveridge-skýrslunni.

Það var svo löngu seinna að til sögunnar kom Margrét Thatcher, íhaldsjárnfrúin, og sagði að allt þetta væri mikill misskilinnigur, það væri ekki til neitt sem héti samfélag, bara einstaklingar sem kepptu sín í milli.

Beveridge-skýrslan var talsvert til umfjöllunar á ráðstefnunni, eins konar útgangspunktur, en ekki Margrét Thatcher nema þá óbeint og vissulega má það til sanns vegar færa að svo hafi verið. Ráðstefnan sem stóð daglangt, frá morgni og vel fram á kvöld, var skipulögð á þann veg að tekin voru fyrir afmörkuð efni og varið tveimur þremur tímum til hvers þáttar. Í upphafi kynnti einstaklingur sem fengið hafði að reyna í eigin lífi hvernig kerfið starfaði og við hvað væri að etja af hálfu þeirra sem ættu allt undir því að velferðarkerfið væri hlutverki sínu vaxið og sinnti þörfum og þar með velferð skjólstæðinga sinna. Síðan komu í ræðustól sérfræðingar sem störfuðu innan kerfisins og fólk sem hafði innsýn í málin frá ýmsum hliðum. Að þessum ræðuhöldum loknum skiptust fyrirlesarar á skoðunum og opnað var fyrir spurningar og vangaveltur úr sal. Þar var mikill samhristingur af fólki, fræðimenn, stjórnmálamenn, áhugafólk um efnið og í þeim hópi fjöldi fólks sem hafði kynnst kerfinu af eigin raun og vildi koma sjónarmiðum um kost og löst á framfæri. Þarna var með öðrum orðum teoría og praxis í bland og umæða beintengd inn í reynsluheiminn. Þetta þótti mér aðdáunarvert fyrirkomulag í ráðstefnuhaldi um málefni samfélagsins.

Og það var einmitt í umræðu við salinn um félagslegt húsnæði sem hún tók til máls konan sem ég hafði hug á að segja ykkur frá; konan sem vakti upp hugrenningartengsl við svanina sem fljúga til vinstri, og í myndrænum skilningi til fortíðar, í merki Stefnu. Hún sagðist nefnilega vilja hverfa til baka í tíma, hún saknaði fortíðarinnar, fortíðar með verkamannabústöðum sem allur almenningur átti greiðan aðgang að og heilbrigðiskerfi þar sem fjármálamönnum var haldið utandyra. Gamli tíminn var betri, sagði þessi ræðukona úr sal og nefndi bæði vögguna og gröfina sem velferðarsmiðir fyrri tíma höfðu vísað til. Uppi varð fótur og fit í pallborði sérfræðinganna og þytur fór um salinn. Mér fannst það þó vera jákvæður þytur, jafnvel ferskur andblær í þessu ákalli um gamla daga. Fyrstu viðbrögð voru þó ekki jákvæð. Getur það verið að til sé fólk sem vilji hverfa til fortíðar þar sem barnadauði var margfalt meiri en nú er, var spurt, allur aðbúnaður lakari, fátækt meiri, kaupmáttur minni, lífið einsleitara, varla viljum við hverfa aftur á bak í tíma?

En salurinn hafði skilið hvað konan átti við, að hún vildi hvorki barnadauða né híbýli án salerna eins og fátækt fólk hafði búið við í hennar bernsku. Auðvitað vildi hún njóta þess munaðar sem nútíminn bauð almenningi upp á, ferðalög og klæðin góð, auðveldari ferðamáta og fjölbreyttara og gjöfullla líf á svo marga lund.

Hennar skilaboð voru miklu djúpstæðari en pallborðið ætlaði. Hún var að tala um félagslega ábyrgð og kosti þess að heyra til samfélagi; samfélagi sem hefði skyldum að gegna, samfélagi sem ætlað væri að axla ábyrgð.

Þessi skilaboð úr verkamannaíbúð í Newcastle urðu mér umhugsunarefni og eiga að verða okkur öllum umhugsunarefni, sérstaklega á degi sem þessum, baráttudegi verkalýðsins, en að sjálfsögðu einnig aðra daga og helst alla daga: Áminningin um félagslega ábyrgð, réttindi fólks og skyldur okkar sem samfélags.

Hægri bylgjan sem einkennt hefur samfélagsþróunina í hinum vestræna heimi á liðnum fjörutíu árum útvistaði og einkavæddi ekki bara innan heilbrigðisþjónustu, í samgöngukerfi og raforku, gaf ekki bara vatnið og yfirráð yfir auðlindum; ábyrgðinni var einni útvistað. Þegar þú sækir rétt þinn gangvart einkareknu kerfi er ekki við samfélagið að eiga heldur einka-klínikkina sem skar þig og hnoðaði í það skiptið. Það er til hennar sem þú sækir skaðabætur fyrir dómi en ekki þess samfélags sem áður var ætlað að halda um þig hlýrri hendi og veita þér umhyggju allt frá vöggu þinni til grafar.

Margrét Thatcher var ekki eini leiðsögumaðurinn inn í þennan heim. Hún var einhverju sinni að því spurð, járnfrúin breska, hvert væri hennar mesta pólitíska afrek um dagana, og hún svaraði að bragði: Hann heitir Tony Blair! Og þannig var því farið að ekki voru það bara hægri haukar sem flugu til hægri heldu einnig vinstri vængurinn sem tók að rífa okkur út úr stefnuföstu oddaflugi sem allir vissu hvert var heitið og vildi með okkur þangað sem við nú erum komin: Nefnilega að ræða um frekari markaðsvæðingu orkunnar og hvernig megi enn betur greiða götu auðkýfinga sem vilja sölsa undir sig auðlindir og land. Þegar verkamannabústaðakerfinu var komið á laggirnar á millistríðsárunum var það þekkt hve kröfuhörð verkalýðshreyfingin og hennar baráttufólk var. Héðinn Valdimarsson vildi þannig bestu eldavélar sem völ væri á í verkamannabústaðina við Hringbraut í Reyjavík, ekki þær næst bestu.

Þetta fólk hafði unnið stríðið gegn hugarfari örbirgðarinnar, það er að segja gegn þeirri hugsun að einhverjum væri ætlað það hlutskipti að búa við fátækt og ill kjör ; það hafði unnið stríðið sem kallað var eftir og hvatt var til í Kommúnistaávarpinu tæpri öld fyrr, eða hugleiðið þau baráttumarkmið sem þar voru sett fram um húsnæði, menntun fyrir alla, heilbrigðis- og heilsugæslu öllum til handa og félagslega stjórn á bönkum og peningakerfi. Allt þetta var nú að komast í réttan farveg, ennþá voru vissulega til saggaholur í Newcastle og íbúðarbraggar hér á landi en hugarfarsbyltingin hafði hafið innreið sína og sigurinn fólst í því að samfélagið var farið að skynja ábyrgð sína, skynja ábyrgð sína sem samfélag. Þetta hafði ekki gengið baráttulaust fyrir sig og ekki án átaka en um síðir þá varð þetta svo. Þó hefur aldrei neitt verið fast í hendi enda verða kjör almennings aldrei trygg á meðan fjármagnið og handhafar þess leika lausum hala.

Og nú er raunveruleg hætta á því að fyrri sigrar renni okkur úr greipum og hér þarf verkalýðshreyfingin að gæta vel að sér. Verkalýðshreyfingin má ekki verða of upptekin af eigin tækjum og tólum til að leysa málefni samfélagsins, þannig má endurhæfingarstofnunin VIRK ekki verða til þess að grafa undan því heilbrigðiskerfi sem við rekum saman og byggingafélög verkalýðsfélaga mega ekki verða til að svelta félagsleg úrræði sveitarfélaganna. Freistnivandinn er mikill af hálfu sveitarfélaganna að útvista ábyrgðinni, af hálfu verkalýðsfélaganna að reka bisniss.

Mér brá þegar ég heyrði á tal innanabúðarfólks úr þessum ranni tala um það í útvarpi fyrri fáeinum dögum hve vel hefði gengið að draga úr reglugerðarfargani húnæðismálanna eins það var orðað; mér skildist að þegar hefði verið dregið úr einhverjum kvöðum vegna aðgengis fatlaðs fólks og væri það vel og nú hefði sá árangur náðst að ekki þyrfti að láta geymslur fylgja íbúðarhúsnæði. En ekki mætti láta staðar numið, ekki væri nóg að gert, næst væru það fáránleg ákvæði um hljóðeinangrun og brunavarnir sem þyrfti að losna við!

Hvað hefði Héðinn sagt? Hinir efnaminni þurfi ekki lengur geymslur, hafa bara skíðin á stofuveggnum, setja kassabílinn hans Gumma litla á áramótabrennuna og henda gömlu minningabókunum og hvers vegna ættu menn að kippa sér upp við að heyra skvaldur á milli íbúða? Bara notalegt, alla vega þar sem heimilisfriður er sæmilegur og menn hafa unun af að hlusta á börn æfa sig á básúnu.

Ég hef mikla trú á þeirri forystu sem komin er til áhrifa í verkalýðshreyfingunni. Drífa Snædal, nýr forseti ASÍ, var ein af stofnendum Stefnu hinn 10. maí 1998 og veit að hverju þarf að hyggja þegar flugið er tekið fram á við.

Amma hennar var Elín Guðmundsdóttir, mikil báráttukona fyrir réttindum kvenna og verkalýðsins almennt, og afi hennar Stefán Ögmundsson, forystumaður prentara um árabil og um skeið varaforseti ASÍ. Hann hlaut þyngstan dóm, eins árs fangelsisdóm og var sviptur kosningarétti og kjörgengi, fyrir mótmæli við Alþingishúsið þegar þjóðin var skráð í NATÓ að henni forspurðri fyrir sjötíu árum. Alls hlutu tuttugu manns dóma í kjölfar mótmælanna enda enginn skortur á ljúgvitnum við réttarhöldin. Þar var allt á einn veg og fara því engar sögur af dómum yfir þeim sem stýrðu táragasinu eða héldu um kylfurnar á Austurvelli hinn 30. mars árið 1949.

Fangelsisdómum var ekki framfylgt af ótta við viðbrögð almennings. Safnað var 27.364 undirskriftum til stuðnings þeim sem hlutu dóma og voru undirskriftalistarnir afhentir forseta Íslands árið 1952. Það var þó ekki fyrr en 30. apríl 1957 sem sakaruppgjöf var veitt. Þá höfðu sjö menn, ásamt Stefáni, verið án kosningaréttar og kjörgengis í fimm ár. Einn þeirra var Jón Múli Árnason, faðir Sólveigar Önnu, formanns Eflingar. Af þessu má margt læra um yfirgang og ranglæti en líka eindrægni og óttaleysi í baráttu gegn hernaðarhyggju og heimsvaldastefnu og síðan hverju samstaða almennings skilar. 27.364 undirskriftir árið 1952 og voru þá engin rafræn tól til að auðvelda söfnun!

Þetta voru baráttumenn jöfnuðar og menningar. Ég man að Stefán Ögmundsson, sem stóð fyrir stofnun Menningar- og fræðslusambands alþýðu, MFA, sagði mér einhverju sinni að tvennt mætti aldrei gleymast, að berjast gegn fátækt og fyrir menningu. Fólk sem á menningu, sagði hann, þekkir hana og hefur vald á henni, verður aldrei yfirbugað. Baráttumenn þessarar kynslóðar horfðu inn á við, inn í eigið samfélag en einnig út á við, voru alþjóðasinnar, ekki í þeim skilningi sem sumir vilja nú temja sér, að undirgangast markaðshyggju á borð við þá sem Evrópusambandið boðar eða hafið þið hugleitt að samkvæmt skilmálum sem við höfum undirgengist þarf að bjóða alla starfsemi sem hið opinbera hyggst fela einkaaðilum að reka, og er að umfangi eitt hundrað milljónir eða meira, út á gervöllu hinu evrópska efnahagssvæði? Nú er slíkt útboð í burðarliðnum varðandi Sólheima í Grímsnesi þar sem er heimili og vinnustaður fyrir fatlað fólk og Skálatún í Mosfellsbæ gæti einnig þurft að fara í útboð suður eftir öllum Balkanskaganum, í Ruhrhéraðinu, Bæjaralandi, Bilbaó og Berlín. Og svona mun verða farið með heilsugæslustöðvar sem fengnar verða einkaaðilum til rekstrar, það er að segja ef við látum af slíku verða. Undirboð og fjármálabrask á ekki heima í velferðarkerfi. Þar á markaðshyggja ekkert erindi.

Einn málsvari Orkupakka þrjú sagði í umræðu á Alþingi og vildi þá hrekja fullyrðingar um að fullveldi Íslands væri í hættu, að utanaðkomandi þrýstingur á orkugeirann komi aðeins til með að verða “hagrænn en ekki samkvæmt erlendu valdboði.”

En þarna hitti hann naglann á höfuðið. Hið erlenda valdboð gengur einmitt út á að markaðsvæða þennan geira, þannig að hann lúti fyrst og síðast hagrænum og óheftum lögmálum framboðs og eftirspurnar. Hvers vegna óheftum? Vegna þess að þegar upp verður staðið mun hafa verið búið svo um hnúta að sjónarmið lýðræðisins komi þar hvergi nærri. Við andstæðingar Orkupakkans teljum hins vegar að tryggja eigi hag almennings í gegnum eignarhaldið bæði á auðlindunum og vinnslunni en ekki í gegnum markaðinn með tilheyrandi eftirlitsstofnunum um samkeppni og neytendavernd. Neytendavernd þarf vissulega að vera til staðar en ekki á forsendum markaðskerfis. Við viljum með öðrum orðum að ábyrgðin, yfirráðin, réttindin, skyldurnar, allur pakkinn, sé hjá okkur en ekki hjá haukum og gömmum kauphallanna.

Alþjóðahyggjan sem róttækir verkalýðssinnar fyrr á tíð og nú á tímum hafa kallað eftir er samstaða um heiminn allan gegn ofríki þeirra sem vilja ráða og ráðskast í krafti auðs og valda – auðvalds.

Togstreitan á milli þessara afla annars vegar og almennings hins vegar birtist í alþjóðasamningum um markaðsvæðingu sem eiga það sammerkt að vilja færa úrskurðarvald í deilumálum frá dómskerfum ríkja yfir í gerðardóma þar sem peningavaldið ræður lögum og lofum. Þegar þetta hefur gerst er ekki að sökum að spyrja eða með hverjum skyldi hjartað hafa slegið í gerðardómnum sem ákvað hvort nýrri ríkisstjórn í Slóvakíu hefði verið heimilt að vinda ofan af einkavæðingu í heilbrigðiskerfi sem ákveðin hafði verið af forveranum í stjórnarráði þess lands?

Skyldi það ekki hafa verið með fjárfestinum sem sagður var hafa tapað á fjárfestingu sinni vegna inngrips hins lýðræðislega valds? Varla gat það inngrip hafa talist vera málefnalegt. Að sjálfsögðu ekki enda varð sú niðurstaðan, himinháar skaðabætur til fjárfestanna úr vasa skattgreiðenda í Slóvakíu!

Þau eru ótal svona dæmin og þarf ekki gerðardóma auðvaldsins til. Það er ekki lengra síðan en í haust að ESA, dómstóll Evrópska efnahagssvæðisins, dæmdi okkur, íslenska skattgreiðendur, til að greiða innflutningsversluninni, Högum og félögum, þrjá milljarða í skaðabætur því ríkisstjórn Íslands hefði á sínum tíma sett í lög þá kvöð að hrátt kjöt mætti aðeins flytja til landsins að það væri frosið. Þetta var gert í því skyni að sporna gegn að því illvígar bakteríur bærust í menn með innfluttri matvöru. Þetta þótti hins vegar stríða gegn fjórfrelsinu margrómaða, frjálsu flæði fjármagns, vöru, þjónustu og vinnuafls. Og síðan segja menn nú að í orkumálum dugi íslensk lagasetning eða yfirlýsing ráðherra og fráfarandi orkumálastjóra hjá ESB til að tryggja Íslendingum full yfirráð yfir orkunni og ákvörðunum um sæstreng.

Alþjóðlegri verkalýðshreyfingu tókst í bandalagi við fátækustu ríki heims upp úr aldamótunum að stöðva framsókn markaðsaflanna að því marki sem henni var stýrt og fram haldið á vinnsluborði Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, World Trade Organization. En eftir að GATS samningarnir, General Agreement on trade in Services, strönduðu undir lok fyrsta áratugar nýrrar aldar vegna slíkrar alþjóðlegrar samstöðu, bauð ríkasti hluti heimsins upp í leynilegan vangadans á bak við tjöldin undir nýjum skammstöfunum, TISA, hét það núna, Trade in Services Agreement. (Samningamenn kölluðu sig í kersknisfullum ástarbréfum sín í milli, sem aldrei áttu að fara hátt “bestu vini þjónustuviðskipta, Really Good Friends of Services”). Þarna voru saman komin öll ríkustu ríki heims, fimmtíu að tölu, vel innan við helmingur þeirra ríkja sem tekið höfðu þátt í Gats-viðræðunum, þeirra á meðal öll ríki Evrópusambandsins, Bandaríkin, Kanada, Japan og að sjálfsögðu Ísland sem tók undir með hinum í skýrslu til Alþingis að leikurinn væri til þess gerður að komast að niðurstöðu og stilla svo hinum snauða heimi, Indlandi, Filippseyjum Brasilíu, Suður-Afríku og fleiri ríkjum upp við vegg gagnvart orðnum hlut. Orðalagið var ekki svona nákvæmt en inntakið þetta. Öllu þessu má fletta upp.

Leynimakkið var hins vegar afhjúpað þökk sé Wikileaks sem upplýsti um gang viðræðnanna, samtakanna sem Julian Assange stofnaði á sínum tíma. Utanríkisráðherra Bretlands sagði þegar bresk yfrvöld höfðu fengið stjórnvöldin í Ekvador nú á dögunum til að framselja Assange úr sendiráði Ekvador í London þar sem Assange hafði fengið hæli undanfarin ár, að enginn maður ætti að standa ofar lögunum. Hann ræddi það ekki við þetta tækifæri breski utanríkisráðherrann, að uppljóstranir Assanges voru um stríðsglæpi hermanna eigin þjóðar, Breta svo og Bandaríkjamanna og fleiri bandalagsþjóða í NATÓ sem framdir voru í Afganistan, Írak og víðar.

Og talandi um að standa ofar lögum þá meinaði Bandaríkjastjórn nýlega dómara við Alþjóðastríðsglæpadómstólinn í Haag að koma til Bandaríkjanna því grunur léki á að viðkomandi kynni að vilja rannsaka tiltekna stríðsglæpi Bandaríkjamanna sem að sjáfsögðu neita að eiga aðild að Alþjóðastríðsglæpadómstóli; með öðrum orðum, þeir standi ofar lögum!

Á þessu berum við nokkra sök því þetta eru helstu vinir Íslands á alþjóðavettvangi, “vinir” sem við styðjum í orði og verki. Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í nýafstaðinni Íslandsheimsókn að Íslendingar væru staðfastir og traustir vinir. Hann notaði ekki orðið viljugir eins og einhvern tímann varð frægt en fannst það örugglega eiga við þegar íslenski utanríkisráðherrann hringdi í forseta-kandídat Trumps í Venesúela og sagði honum að héðan í frá litu Íslendingar á hann sem réttkjörinn forseta lands síns. Allt sagt og gert í okkar nafni – eða þannig.

Hún nefndi ekki sérstaklega Venesúela, Líbíu, Palestínu, Sýrland eða Kúrdistan eða önnur svæði þar sem mannréttindi eru troðin í svaðið með okkar fulltingi beint og óbeint, heldur yfirgang fjármagns hér innanlands, konan em skrifaði mér um daginn og sagðist stundum öskra, öskra í hljóði yfir því ranglæti sem við létum viðgangast.

Ég svaraði henni ekki en geri það nú:

Öllu þessu getum við breytt og munum breyta. Aldrei megum við gleyma þeim miklu sigrum sem unnist hafa í rás mannkynssögunnar; við þurfum bara að koma auga á þá og þekkja hvað það var sem knúði þá fram. Það var samstaða almennings í baráttu gegn handhöfum auðs og valda og síðan samvinna um réttlátar lausnir; það var virðing fyrir því besta í mannsandanum. Og ef við þurfum að líta til liðins tíma í leit að vitneskju og fróðleik

… ef við þurfum að fljúga til baka til að ná í sannfæringuna, staðfestuna og óttaleysið þá gerum við það …

Þá fljúgum við með Stefnu út úr rammanum … og tökum síðan flugið til framtíðar.