Réttið hlut ljósmæðra!

Ef hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum sækir sér framhaldsmenntun og sérhæfir sig sem ljósmóðir, lækkar hún í launum. Hvaða barn sem er getur séð að þetta nær ekki nokkurri átt. Þegar ljósmæður reyndu að sækja sér kjarabætur með verkfalli 2015, var sett lögbann á verkfallið. Núna grípa þær örþrifaráðið: uppsagnir.

Fyrir utan að launin séu órökrétt og óréttlát, þá þarf að staldra við hérna. Út í hvað erum við komin þegar ljósmæður segja unnvörpum upp störfum vegna bágra kjara? Halda ráðamenn að það verði erfitt fyrir þær að fá vinnu annars staðar? Halda ráðamenn að þeir geti fundið nýjar ljósmæður bara sisona?

Það er pínlegt að hlusta á ráðamenn reyna að afsaka þrjósku sína. Fjármálaráðherra, sem sjálfur fékk veglega launahækkun nýlega og hreykir sér auk þess af góðri stöðu ríkissjóðs, sagði í ræðustóli Alþingis að launakröfur þeirra væru óásættanlegar. Það vil ég sjá áður en ég trúi því. Heilbrigðisráðherra útskýrði þetta með því að þær væru í BHM en ekki FÍH. Er í alvöru ætlast til þess að fólk taki mark á þessu?

Það verður ekki varið með tækum rökum, að ljósmæður séu með lægri grunnlaun en hjúkrunarfræðingar og það verða varla sett lög sem banna uppsagnir. Þannig að uppsagnarfresturinn tifar og landsmenn eru í senn kvíðnir og fullir samúðar með málstað ljósmæðra.

Ráðamenn, hættið að leika hörkutól. Það er óviðeigandi og ótrúverðugt. Semjið við ljósmæður og afstýrið þessu neyðarástandi.