Norræn réttlætiskennd tekur breytingum

3. janúar, 2024 Ögmundur Jónasson

Í vikunni [þ.e.a.s. 13/12] fór fram í Osló fundur forystufólks Norðurlandanna.

Þau ályktuðu um stríðið í Úkraínu. Nefndu þau ýmis skilyrði sem þyrfti að uppfylla svo binda mætti enda á ófriðinn. Það sem upp var talið voru þau atriði sem vitað er að standa helst í vegi fyrir friðarsamningum! Þar má vísa til viðræðna sem á sínum tíma voru nærri því að skila árangri, annars vegar í samningaviðræðum kenndar við Minsk milli Úkraínu og Rússlands undir handarjaðri Frakka, Þjóðverja og Hvít-Rússa á árunum 2014 og 15 og hins vegar í viðræðum sem fram fóru skömmu eftir innrás Rússa m.a. undir handarjaðri Tyrkja og Ísraela en þá voru það Bandaríkjamenn og Bretar sem bönnuðu að skrifað yrði undir enda NATÓ-aðild Úkraínu þar ekki á döfinni og ekki enn búið að koma Rússum niður á hnén einsog margoft hefur komið fram hjá bandarískum ráðamönnum að sé endanlegt markmið þeirra með stuðningi við stjórnvöld í Úkraínu.

Vert er að hafa í huga að lykilatriði við þessi samningaborð og það sem skilað hefur árangri, hefur alla tíð verið hið sama og fulltrúar stórveldanna sammæltust um þegar Sovétríkin voru liðuð í sundur og Varsjárbandalagið lagt niður á tíunda áratug síðustu aldar, að draga ætti úr vígbúnaði í Evrópu, fjarlægja vopn í stað þess að fjölga þeim. Illu heilli var NATÓ bandalagið enn til staðar og hefur allar götur siðan róið að því öllum árum að fjölga innan sinna raða með tilheyrandi kröfum um aukinn vígbúnað.

Strax við sjálfstæði, á tíunda áratugnum, lögðu Úkraínumenn sjálfir ríka áherslu að landið stæði utan hernaðarbandalaga. Það féll hvorki í góðan jarðveg í Brussel né í Washington. Ófriðurinn í austurhluta Úkraínu sem hófst fyrir alvöru árið 2014 er síðan kapítuli út af fyrir sig en hefur aldrei fengist heiðarlega ræddur í okkar heimshluta. Það gerðist hins vegar í fyrrnefndum viðræðum í Minsk og virtist geta skilað árangri.

Þarna eru þræðir sem hefði þurft að taka upp af hálfu Norðurlandanna.

Sú var tíðin að Norðurlöndin voru talin málsvarar friðsamlegra lausna, viðræðna fremur en vopnvalds til að útkljá deilur. Eflaust er nokkuð til í því að fjarlægðin geri fjöllin blá og mennina mikla eins og stundum er sagt og að einhverju leyti kunna þetta að hafa verið ranghugmyndir, í það minnsta glitti oft í tvískinnung. Þannig voru Svíar, svo augljóst dæmi sé tekið, mjúkmálir þegar þeir kvöddu sér hljóðs um alþjóðamál á sama tíma og þeir högnuðust grimmt á vopnasölu. Það breytir þó ekki því að oft voru skilaboðin frá Norðurlöndunum inn í umræðuna á heimsvísu í þágu friðar og velvildar en ekki ófriðar og óvildar.

Nú eru aðrir tímar. Samkvæmt norrænni forskrift á stríðinu í Úkraínu ekki að linna fyrr en “réttlætinu” hefur verið fullnægt, Úkraína komin í NATÓ, stríðsglæpadómstóll tekinn til starfa og tjónaskrá verið gerð til að styðjast við þegar reikningur verður sendur rússnesku þjóðinni og hún þannig gerð ábyrg fyrir því hvernig komið er. Umsjón með gerð þessa syndaregisturs hefur verið falin Íslendingi, Róberti Spanó, enda okkur sagt að Íslendingar vilji “fylgja málinu eftir”. Menn kunna að minnast þess að Róbert var sæmdur sérstöku tyrknesku sæmdarmerki þegar hann gegndi embætti sem forseti Mannréttindadómstóls Evrópu. Athöfnin fór fram í þeim háskóla þar sem hlutfallslega flestir kennara höfðu verið fangelsaðir vegna skoðana sinna. Erdogan forseti lýsti velþóknun sinni á þessari orðuveitingu en hún var að sama skapi veitt við lítinn fögnuð þeirra sem voru þá og eru enn í fangelsi vegna baráttu í þágu mannréttinda í Tyrklandi. Hefði mátt fenna ögn betur yfir þessa yfirsjón dómarans (sem þetta vonandi var) áður en hann tekur að sér það verkefni að segja til um rétt og rangt í Úkraínu.

Ekki þykir mér sómi að framgöngu Norðurlandanna. Undirlægjuháttur þeirra við bandaríska heimsvaldastefnu, NATÓ og hernaðarhyggju almennt er með ólíkindum. Mér kemur þessi fundur í Osló og fleiri samsvarandi fundir á liðnum misserum fyrir sjónir sem framhald stigvaxandi niðurlægingar Norðurlandanna allra og þá ekki síst Íslands.

Fram hefur komið í fréttum að ríkisstjórn Íslands telji sig hafa staðið sig framúrskarandi vel gagnvart Úkraínu:

Hún hafi opnað Ísland öllum Úkraínumönnum sem hingað hafa viljað koma;

sent umtalsverða fjármuni til Úkraínu;

gefið hreyfanlegt sjúkrahús til nota í hernaðinum;

veitt “varnaraðstoð”, og er þar sennilega átt við vopnaflutningana sem íslenskum skattgreiðendum var gert að fjármagna, varla ullarvettlingana sem góðviljaðar konur prjónuðu og þáverandi utanríkisráðherra sagði að myndu í vetrarkuldunum án efa gagnast byssuskyttum að skjóta af meiri af nákvæmni;

slakað á heilbrigðiskröfum vegna innflutnings á hráu kjúklingakjöti frá Úkraínu;

bannað að veita rússneskum sjómönnum þjónustu í íslenskum höfnum;

slitið ýmsum tenglsum við Rússland og lokað sendiráði Íslands í Moskvu, væntanlega til að leggja áherslu á að við Kreml ætti ekki að ræða fyrr en “réttlætinu” hafi verið fullnægt…

En hvað skyldi þeim sem gjalda með blóði sínu þykja um þessa norrænu réttlætiskennd; þessa hvatningu um að berjast til síðasta manns þar til réttlæti er að fullu náð og tryggt að óvinurinn fái makleg málagjöld?

Það fer eflaust eftir því hver spurð eru, móðirin og faðirinn sem misst hafa son sinn á vígvellinum, eða hin sem eru óhult, fjarri þessum blóðvelli; þau sem taka við skipunum eða hin sem skipa fyrir.

Fréttir sem við fáum daglega af “afreksverkum” á vígvellinum vekja óhug. Ekki síst fyrir þá sök að morð skuli talin til afreka ef morðingjarnir eru “réttu” megin.

Ríkisstjórn Zelenskys Úkraínuforseta var ein fárra ríkisstjórna heims, auk ríkisstjórna Bandaríkjanna og Ísraels, sem greiddi atkvæði gegn vopnahléi á Gaza. Engan frið þar fyrr en “réttlæti” Ísraelsríkis hafi verið fullnægt enda hafi Ísrael rétt á að verja sig. Háð sé réttlátt stríð.

Í sama streng tók forstjóri NATÓ um Tyrklandsstjórn ekki alls fyrir löngu, þegar ofbeldisaðgerðir hennar á hendur Kúrdum stóðu sem hæst. “Tyrkir hafa rétt á að verja sig”, sagði Stoltenberg þegar tyrkneski herinn hóf eina morðárásahrinuna.

Ranglætið verður með öðrum orðum að réttlæti og má ætla að því meira ofbeldi sem beitt er þeim mun meira verði réttlætið sem aftur minnir á ódauðleg orð Jóns Hreggviðssonar í Íslandsklukkunni:“Vont er þeirra ránglæti, verra þeirra réttlæti.”

Er ekki nóg komið?

Hvernig væri að íslensk stjórnvöld legðu sitt á vogarskálar friðar, stilltu sér upp til varnar því fólki sem til stendur að fórna – leiða til slátrunar svo fullnægja megi réttlæti hernaðarhyggjunnar? Gildir þá einu hvar þá hyggju er að finna, í Tel Aviv, Kænugarði, Moskvu, Teheran, London eða Washington …

Athugasemd:

Lítið leggst fyrir Norðurlönd. Eitt sinn svolítið sjálfstæð ríki. Ekki lengur. Það má bæta smáræði við þessa góðu grein Ögmundar um stuðning Norðurlanda við Úkraínu.

Norðurlönd hjálpa sem sagt ekki Úkraínu nema síður sé. Norðurlönd hjálpa hins vegar BNA og NATO við að fjármagna og vígvæða stríðsreksturinn gegn Rússlandi þar sem Úkraína er staðgengill, fórnarpeð og fallbyssufóður. Svo er hér lítil ný viðbót um hið lítilsiglda hlutverk Norðurlanda á alþjóðavettvangi.

Frá stofnun NATO 1949 voru grannar okkar á Norðurlöndum tvískiptir: Tvö lönd voru utan NATO en tvö inni: Noregur og Danmörk), þau tvö settu nokkur skilyrði við aðildinni, einkum það að þar yrðu aldrei erlendur her og erlendar herstöðvar á friðartímum (til að róa stóra grannann í austri). Sumarið 2021 ákvað Noregur að fella úr gildi «Herstöðvayfirlýsinguna» frá 1949 og hleypa Bandaríkjaher inn. Síðan hafa fjórir herflugvellir og ein flotastöð verið færð honum (BNA hefur þar frjálsan aðgang og m.a.s. lögsögu). https://steigan.no/2021/11/stortinget-ma-si-nei-til-den-nye-baseavtalen-med-usa/  Þetta var ári fyrir innrás Rússa í Úkraínu 2022. Eftir hana hefur svo landslagið breyst hraðar æi? í s0? sömu átt. Finnland og Svíþjóð inn í NATO Norðurlönd þar með sameinuð undir bandarísk hernaðaryfirráð. Og nú rekur hver viðburðurinn annann. Í þessum desembermánuði 2023 hafa Svíþjóð, Finnland og Danmörk gert sams konar samninga við Bandaríkin og Noregur gerði áður: Bandaríkin fá frjáls afnot herflugvöllum í öllum löndunum. Mest munar um Finnland. Þar fær Bandaríkjaher frjálsan aðgang að 13 herflugvöllum í næsta nágrenni við Rússland. Moskva svarar og segir að nú þurfi snarlega að auka vígbúnaðinn í Norðvestur-Rússlandi. https://news.antiwar.com/2023/12/21/us-granted-access-to-military-bases-in-denmark-under-new-deal/

Norðurlönd þjappa sér æ fastar upp í herfangið á Sam frænda. Innst í fanginu kúrir NATOandstæðingurinn Katrín Jakobsdóttir. Þetta gefur þeim í Pentagon líklega hamingjutilfinningu að eiga svona þæg börn. En öryggi okkar, eykst það? Nei, því miður, öðru nær.

Ritstjórn

Grein Ögmundar birtist áður á vefsíðu hans 16. desember.