Nítján hundruð áttatíu og fjögur, endurlesning

24. maí, 2024 Katjana Edwardsen

Myndin var af gerð sem var úthugsuð til þess að augun virðist fylgjast með hverri hreyfingu manns. STÓRI BRÓÐIR FYLGIST MEÐ ÞÉR, stóð undir myndinni.“ (bls. 7)

Þrúgandi, gjörstýrt samfélag

Andrúmsloftið í fyrstu köflum sögunnar er þrúgandi. Allar hreyfingar aðalpersónunnar, hver andardráttur, er skráður af „víðvarpa“. Aðalpersónan veit að hann mun hverfa fyrr eða síðar, sekur eins og hann er um „hugsanaglæp“.

„Stórhættulegt var að láta hugann reika þegar maður var á stað sem opinn var almenningi eða innan víðvarpasviðs. Smávægilegasta atvik gat komið upp um fólk. Taugakipringur, ómeðvitaður áhyggjusvipur, sá ávani að tauta fyrir munni sér – hvaðeina sem talist gat óeðlilegt eða benti til einhvers pukurs.“ (70)

Þeir munu elta hann uppi, óhjákvæmilega, og þegar hann er horfinn, verða engin ummerki um hann, eins og hann hefði aldrei verið til.

„Nöfnum fólks var eytt úr skrám, allar skýrslur um athafnir þess voru afmáðar, því var neitað, að það hefði nokkurn tímann verið til og svo gleymdist það. Maður var afnuminn, gerður að engu – eimaður var það kallað.“ (25)

Aðalpersónan, Winston, vinnur í Sannleiksráðuneytinu. Starf hans er að eyða óþægilegum hlutum úr fortíðinni og kasta þeim í „minnisgatið“. Hann veit of mikið og líkar ekki það sem hann veit.

Flestir, auðvitað, eru ekki skotmörk. Verkalýðurinn („Prólið“) er næstum aldrei það. En flokksmenn, sem eru ábyrgir fyrir vörnum kerfisins, með þeim er náið fylgst. Þeir sem eru of skarpskyggnir, sem hugsa sjálfstætt, eiga á hættu að verða eimaðir.

Um Sovétríkin?

Þangað til nú, hélt ég að dystópía George Orwell frá 1949 fjallaði um Sovétríkin. Þar eru jú tíu ára áætlanir og nokkrir daglegir bollar af ógeðslegu áfengi.

Síðan fór ég að taka eftir fjölda undirförulla smáatriða. Fyrst, atburðir sögunnar gerast ekki í Rússlandi, heldur í London, einni af þremur stórborgum Eyjaálfu – ríkis sem nær yfir það sem við þekkjum sem Norður-Ameríku, Ástralíu og Bretland.

Annað (og mikilvægast) er að „fólkið“ – 85 prósent af íbúafjölda Eyjaálfu – er ekki dýrkað, heldur fyrirlitið. Það er ómenntað og þar af leiðandi ekki mjög snjallt. Engin tilraun er gerð til að mennta það, þvert á móti; því er veitt stöðug vímugefandi skemmtun.

„Þarna var fjöldi sérstakra deilda sem fengust við öreigabækur, tónlist, leiklist og afþreyingu almennt. Gefin voru út lágmenningarblöð, sem birtu nánast ekkert nema efni um íþróttir, glæpi og stjörnuspeki, ómerkilegar ástarsögur, kvikmyndir löðrandi af samförum og vélrænir grátsöngvar, sem alfarið voru framleiddir í þar til gerðum útgáfukviksjám. Þá samdi sérstök undirdeild subbuleg klámarit, sem send voru út í innsigluðum pökkum. Öllu öðru flokksfólki en því sem starfaði við útgáfu þeirra var bannað að líta í þau.“ (50)

Seinna í bókinni finnur Winston sig hugsa við nokkur tækifæri að „fólkið er okkar eina von“.

„Ef til var minnsta von, hlaut hún að felast í verkalýðnum, því einungis þar, meðal þess afskipta aragrúallra íbúa Eyjaálfu, var hægt að framleiða þá orku, sem ráðið gæti niðurlögum flokksins.“ (77) 

„Þeir munu aldrei gera uppreisn, fyrr en þeir vakna til vitundar og þeir munu ekki vakna til vitundar, fyrr en eftir að þeir hafa gert uppreisn.“ (79)

Svo Winston þráir byltingu. Deildi George Orwell þrá eftir byltingu með aðalpersónu sinni?

Stríð án enda

Þriðja er þráhyggjan fyrir stríði, hið ríkulega nærða hatur og ótti við óvininn. Hatur og ótti við óvininn nærir stríð sem aftur nærir hatur og ótta við óvininn. Stöðugt stríð er vélin sem heldur kerfinu á floti. Það heldur íbúunum við vinnu, hagkerfinu gangandi, og Flokknum með óumdeild völd, þar sem stríð og ótti við óvininn, styrkir hollustu íbúanna við Flokkinn.

Stríðið er ekki hugmyndafræðilegt. Það hefur engan tilgang, í raun, nema þann að viðhalda völdum Flokksins. Vonin er auðvitað að stjórna heiminum öllum sem – okkur er sagt – er skipt milli þriggja stórvelda, ekkert þeirra kommúnískt.

„Winston kannaðist vel við þessa byggingu. Hún var safn sem notað var til alls konar áróðurs – fyrir líkön af eldflaugasprengjum, flotvirkjum, vaxmyndauppstillingar sem sýndu ódæði óvinanna og annað því líkt.“ (108) 

„Stríðssefasýkin er linnulaus og almenn í öllum löndum. Athæfi á borð við nauðganir, rán, barnamorð, smættun heilla þjóða niður í þrælastétt og refsiaðgerðir gegn föngum, sem jafnvel ná til þess að fólk er soðið lifandi eða kviksett, eru talin eðlileg. Þegar slík grimmdarverk eru framin af þeim aðila sem maður sjálfur fylgir og ekki af andstæðingnum, þá eru þau auk heldur talin til verðleika.“ (199)

Hin tvö stórveldin eru – gettu hver? – Evrasía (Rússland) og Austasía (Kína). [Hvernig gat Orwell giskað á þetta árið 1949?]

Það sem mér, sem endurles nú þessa bók, fannst mest heillandi voru hins vegar smáatriði áróðursstríðsins. Áróðursstríðið er háð gegn eigin íbúum Eyjaálfu með tólum eins og:

Nýmáli (endurbyggingu), tvíhyggju (afnámi rökfræði) og hinni stöðugu endurritun sögunnar. Óþægilegar staðreyndir gærdagsins, um þær er ekki rætt, þeim er ekki neitað; þær hverfa einfaldlega. Þær eru þurrkaðar af töflunni af [Google leit] skjáum okkar.

Í lokin hefur Winston lært ekki bara að segja, heldur raunverulega trúa því að 2 + 2 sé jafnt og 5. Rétt eins og við í Vestrinu höfum lært að trúa sannarlega að „við verjum“ frelsi, réttlæti og lýðræði.

Til þess að þjálfa borgara í að ástunda tvíhyggju, lætur Flokkurinn þá bíta í það sem virðast bjánaleg slagorð, eins og:

STRÍÐ ER FRIÐUR

FRELSI ER FJÖTUR

FÁFRÆÐI ER STYRKUR

Sem þýðingar á því til nútímans, legg ég til, til dæmis:

PAX AMERICANA

FRJÁLS MARKAÐUR

WIKILEAKS Í HLEKKJUM

Ég var ekki til á dögum Stalíns, en ég hef hitt fólk sem hefur verið andófsmenn í ýmsum alræðisríkjum, sem hefur lifað í stöðugum ótta við að vera nefnt og fordæmt af einhverjum pyntuðum, sem hefur grunað að hlerunarbúnaður væri falinn á ólíklegustu stöðum. Það hafa verið kunningjar sem neituðu að nota öryggisbelti, sem gættu þess alltaf að standa við vegg. Í stuttu máli þekki ég sem staðreynd árið 2024 margt af því sem er talið skáldskapur í skáldsögunni 1984.

Það sem kemur mér á óvart, hins vegar, er hvað aðferðirnar sem lýst er varðandi áróðursstríð eru nákvæmlega endurskapaðar á Vesturlöndum í dag. Hefur Orwell óvart kennt valdamönnunum listina um „tvíhyggju“? Hafa þeir líka lært af honum um minnisgöt?

Eða hvað um stríð án enda? Lærði hann kannski af þeim?

(Tilvitnanir í bókina 1984 og blaðsíðutal byggja á útg. frá 2015 í þýðingu Þórdísar Bachmann, Ugla útgáfa)