Neyðarlán og niðurgreiðslur

29. janúar, 2019 Björgvin Leifsson


Isavia & Pósturinn

Síðla hausts 2018 var nokkuð fjallað um það í fréttum að til stæði að veita Íslandspósti neyðarlán upp á u.þ.b. einn milljarð og niðurgreiða innanlandsflug, a.m.k. hjá einokunarfyrirtækinu sem heitir nafnskrípinu Air Iceland Connect. Út af fyrir sig er ágætt að póstþjónusta á Íslandi leggist ekki af og að flugmiðaverð innlands lækki til hagsbóta fyrir almenning. Það má þó gera nokkrar athugasemdir við ofangreinda gjörninga, sem byggja á því að um almannaþjónustu er að ræða, sem ætti að vera í höndum almennings, þ.e. félagsvædd og þar með rekin af ríkinu.

Áður en Landssíminn var seldur á sínum tíma var búið að aðskilja póstþjónustuna frá þeirri ríkisstofnun, sem áður hét Póstur og Sími. Póstþjónustan var svo „einkavædd" undir nafninu Íslandspóstur ohf, þ.e. hagnaðardrifið ríkishlutafélag, með tilheyrandi hækkunum á burðargjöldum og minnkandi þjónustu eins og alltaf gerist þegar almannaþjónusta er hagnaðarvædd. Nú er svo komið á tímum mikillar fækkunar bréfasendinga að hið ohf-vædda fyrirtæki er komið í blindgötu, sem það kemst engan veginn út úr þrátt fyrir ofangreint neyðarlán, enda mun bréfasendingum með póstinum halda áfram að fækka frekar en hitt.

Póstþjónusta er hins vegar almannaþjónusta og á að vera rekin á félagslegum grunni eins og öll almannaþjónusta ætti að vera. Að veita hagnaðardrifnu ríkishlutafélagi, sem starfar eftir forsendum og lögmálum einkarekna markaðarins, neyðarlán upp á milljarð er ekkert annað en sóun á almannafé. Nær væri að ríkið gerði Íslandspóst að ríkisstofnun og félagsvæddi þessa sjálfsögðu þjónustu.

Innanlandsflug á Íslandi hefur líklega alltaf verið allt of dýrt, oft í skjóli einokunar þess flugfélags, sem áður hét Flugfélag Íslands. Þjónusta þessa félags hefur enn fremur farið versnandi á undanförnum árum og áratugum undir yfirskini hagræðinga í rekstri, sem þýðir á mannamáli að félagið hefur aflagt flug til margra áfangastaða og virðist geta pantað íþyngjandi aðgerðir af hálfu Isavia ohf gagnvart litlum keppinautum, sem reyna að halda uppi flugi til þessara sömu áfangastaða. Í staðinn fyrir að niðurgreiða flugmiða á okurverði ætti ríkið að yfirtaka þessa sjálfsögðu almannaþjónustu. Allar innanlandssamgöngur ættu að vera reknar á félagslegum grunni til hagsbóta fyrir almenning.


-Björgvin Leifsson