Mearsheimer, Diesen, Mercouris: Úkraína og Ísrael stefna í ósigur

28. október, 2024

Stóru stríðin tvö í samtímanum þróast ört, af einu stigi á annað. Lausn þeirra er hvergi í sjónmáli. Í báðum tilfellum er alvarleg stigmögnun nær. Hún vofir yfir og allt um kring.

Norski alþjóða-stjórnmálaprófessorinn Glenn Diesen heldur úti eigin hlaðvarpi á Substack með greinum og viðtalsþáttum. Oft er það í samvinnu við hinn breska Alexander Mercouris – og birtist efnið þá einnig á öðru afburðagóðu hlaðvarpi, The Duran.

Nýlga kallaði Diesen til viðtals stjórnmálafræðinginn góðkunna og «realistann» John Mearsheimer. Sá var í upphafi Úkraínustríðsins 2022 einangruð rödd, hrópandi i eyðimörkinni, en nú er hann að verða spakvitringur sem margir leita úrlausnar hjá. Hann er spakvitur um Palestínu/Ísrael og reit (ásamt Stephen Walt) áhrifamikla bók: The Israel Lobby and U.S. Foreign Policy.

Umræðurnar í þættinum snérust um áðurnefnd tvö stríð í hinu geópólitíska samhengi, og gáfu gott yfirlit yfir stöðuna í þeim . Þátturinn nefnist Ukraine & Israel On the Path to Defeat (sjá hann hér).

Úkraínustríð að komast á lokastig

Fyrst var stríðið í Úkraínu tekið fyrir. Þar hefur þróunin á vígvellinum hert á sér eftir tiltölulega kyrrstöðu um skeið. Glenn Diesen segir:

Úkraínustríðið virðist vera að komast á lokastig. Víglínur Úkraínuhers halda áfram að hrynja, og skortur á mannafla og vopnum gerir Rússum kleift að þrýsta sér í gegnum víglínurnar á auðveldri hátt en áður, sem leiðir til þess að birgðalínur raskast og stórir hópar úkraínskra hermanna eru umkringdir. Eins og búast má við á lokastigum stríðs eykst mannfall gríðarlega á þeirri hlið sem tapar.

Eftir því sem sígur á ógæfuhlið fyrir Úkraínuher sýnist Zelensky, skiljanlega, verða örvæntingarfyllri, sbr. nýlega „siguráætlun“ hans sem hann rigsaði með um Evrópu. Sú „siguráætlun“ gekk einkum út á að draga Vestrið beinna inn í átökin og fá grænt ljós á „djúpan“ eldflaugahernað inn í Rússland, sem er uppskrift að kjarnorkustríði. En þau loforð fékk hann ekki. Um framhaldið segir Glenn Diesen:

Hvenær hefjast samningaviðræður? Vesturlönd eru farin að breyta frásögninni um stríðið til að búa almenning undir samningaviðræður eftir að hafa í tæp þrjú ár dælt út falsupplýsingum um mannskaða-hlutföll og látið sem NATO og Úkraína væru að vinna… Vandamálið er að eftir því sem staða Rússlands styrkist enn frekar gagnvart NATO munu skilyrði Rússa í friðarviðræðum verða mun erfiðari. Það verður erfitt og niðurlægjandi að sætta sig við kröfu Rússa um að hætta skuli við útvíkkun NATO, binda enda á viðveru NATO í Úkraínu og samþykkja sársaukafullar eftirgjafir landsvæða.

Þetta er eðli staðgengilsstríðsins. Vestrið leggur til byssur og sláturverkfæri en Úkraína slátrið og blóðið. Vestrið hefði fyrir löngu samið við Rússa ef það væru vestrænir hermenn sem þar féllu í slíku ógnarmagni. Hlutverk Úkraínu er ekki að sleppa sem best úr stríðinu heldur að veikja og skaða Rússland. Vestrið hleypir þess vegna ekki að hugsuninni um að blása  af NATO-aðildar áform, áform sem eru orsök deilunnar. Þó að stríðið muni tapast má enn vinda meira blóð úr staðgenglinum, í von um að það veiki óvininn.

Stríðið í Miðausturlöndum gengur lítið betur

Þegar talinu víkur að Miðausturlöndum byrjar Mearsheimer á að draga saman í stuttu máli þróunina kringum átökin á  Gaza og segir:

Ísraelar eru álíka sjálfsblekktir og Zelensky er. Ísrael er í vondum málum og Bandaríkin djúpt innblönduð þar í, og þess vegna í jafn vondum málum. Ísraelar eiga í þrennum stríðsátökum: átökunum á Gaza þ.e.a.s. þjóðarmorðinu á Gaza, átökunum við Hizbollah í Líbanon og átökunum við Íran. Lítum á þetta: 1) Þeir hafa ekki sigrað Hamas, ekki fengið gíslana aftur, ekki náð að „hreinsa“ Gaza. Svo lausn þeirra er þjóðarmorð á Gaza sem er orðið að siðferðilegum bletti á Ísrael og Bandaríkjunum um ókomin ár. Aðalatriðið í þessu samhengi er að Hamas eru ekki sigruð, og munu ekki verða sigruð. 2) Hvað Hizbollahsamtökin snertir þá munu þeir [Ísrael] ekki sigra þau heldur. Þeir reyna að hindra Hizbollah í að skjóta flugskeytum inn í Ísrael. Fyrsta aðferð var að reyna að afhöfða forustu Hamas, drepa Hassan Nasrallah og allmarga aðra foringja. Virkar það? Nei. Önnur aðferð er refsiaðgerðir gegn almennum borgurum í Líbanon, þeir hafa nú drepið 2000 almenna borgara inni í Líbanon. Virkar það? Nei. Þá reyna þeir þriðju baráttuaðferðina, að gera innrás í Líbanon. Virkar það? Nei, þeir verða fyrir alvarlegu mannfalli og miðar furðulega lítið áfram. Útkoman er sú að Hizbollah heldur áfram að skjóta flugskeytum inn í Ísrael og Ísrael getur ekki hindrað það. 3) Átökin við Íran hófust 1.apríl með árás Ísraels á sendiráð Írans í Damaskus. Íranir hefndu sín með skotárás 14. apríl.  Síðan, þann 31. júlí, drap Ísrael Ismail Hanyeh [stjórnmálaforingja Hamas] í Teheran. Og 1. október hefndu Íranir sín með flugskeytaárás. Það sýnir að Íranir leika harðan bolta. Ísraelar segjast ætla að hefna sín, og við bíðum öll eftir að það verði.

Það sem er að gerast er að Ísrael og Íran ganga augljóslega upp stiga stigmögnunar og það eru engin merki um að Ísrael hafi stigmögnunaryfirburði. Þeir munu ekki vinna neinn raunverulegan sigur á Íran, þeir munu ekki sigra Hizbollah og þeir vinna ekki neinn raunverulegan sigur á Hamas heldur. Innan Ísraels eru skæð miðflóttaöfl, herinn er þreyttur og uppgefinn, siðferðisstyrkurinn er dvínandi og þeir eiga í erfiðleikum með mönnun hersins.

Þátttakendurnir þrír í umræðunum eru sammála um að sú stefna sem Ísrael fylgir, studd af Washington og Vestrinu, horfi alveg framhjá pólitískri lausn Pelestínudeilunnar, pólitískt séð verður staðan, og deilan í heild, stöðugt óleysanlegri fyrir þá. Mearsheimer heldur áfram:

Ísraelar trúa á „lurka-diplómatí“ (big stick diplomacy). Þeir trúa því að þeir geti tekið fram sinn sterka her og lamið andstæðingana sundur og saman. Þeir tala um sína „stigmögnunaryfirburði“ o.s.frv. En vandamálin eru í grundvallaratriðum pólitísk. Munum fræg ummæli Clausewitz: „Stríð er framlenging stjórnmálanna með öðrum aðferðum.“ Ísrael hefur hins vegar engan áhuga á pólitískum lausnum, þeir trúa að „lurkurinn“ leysi öll þeirra vandamál.

Þetta er sjálfsblekkjandi, sérstaklega af því hernaðaryfirburðir þeirra yfir andstæðingana eru ekki lengur fyrir hendi… Andstæðingarnir hafa að vísu almennt ekki stóra heri en þeir hafa flugskeyti og Ísrael hefur ekki aðferðir til að ráða við þau…

Það var áður stefna Ísraela að vera alltaf öruggir um að geta unnið þessi stríð upp á eigin spýtur – að vera ekki háðir öðrum löndum um annað en það að skaffa sér vopnin og slíkt. En nú eru Ísraelar rækilega háðir Bandaríkjunum og fleirum hernaðarlega. Þegar Íran gerði árás 14. apríl svöruðu Ísrael plús Bandaríkin plús Frakkar plús Bretar plús Sádar og Jórdanar og léku lykilhlutverk í að elta uppi og stöðva flugskeyti frá Íran. Nú fyrir skömmu, í biðinni eftir átökum við Íran, komu Bandaríkin fyrir THAAD-batteríi í Ísrael og létu fylgja 100 manns til að þjónusta það. Við [Ameríkanar] erum því djúpt sokknir í stríðið… En strategísk staða Ísraels er mjög bág og versnandi.

Það er þrautalending Ísraela, sem þeir vinna sleitulaust að, að draga Bandaríkin beint inn í átökin. Og það skapar allskyns vaxandi vandamál fyrir Bandaríkin í Miðausturlöndum. Alexander Mercouris dró nokkrar heildarályktanir af umræðunni um Gazastríð:

Ég hefði haldið að þungvægir hagsmunir Bandaríkjanna – bæði upp á eigin hag og hag Ísraels – segðu þeim að þeir ættu að reyna að hemja Ísrael og fá það til að semja frið við Palestínumenn og við nágranna sína, af því brautin sem þeir eru á leiðir til hernaðarlegs og siðferðilegs gjaldþrots. Aðferð þeirra mun mistakast og hún dregur Bandaríkin inn í stríðið. Bandaríkin ættu ekki að vilja þetta, en við skulum sjá: Aðra hverja viku heyrum við að Bandaríkin séu ekki hamingjusöm, heyrum um rifrildi í síma milli Bidens og Netanyahu. En hver er svo niðurstaðan? Bandaríkin afhenda Ísraelum alltaf viðstöðulaust vopnin og verja þá alltaf í Öryggisráðinu o.s.frv. M.ö.o. Bandaríkin styðja Ísrael áfram eftir þeim kúrs sem leiðir landið – og Bandaríkin þar með – til skipbrots. Bandaríkin hafa vald til að hindra katastrófuna, en nota það ekki.

Athugasemd

Niðurstaða umræðnanna hjá Glenn Diesen er sú sem segir í fyrirsögn að Úkraína og Ísrael stefni bæði tvö til ósigurs. Sem yrðu um leið heimssögulegir ósigrar Bandaríkjanna og Vestursins. Þróunin  í Úkraínustríðinu er vissulega komin nokkru nær þeim lyktum en í Miðausturlöndum.

Þessi tvö stríð hafa fleira sameiginlegt en þennan líklega ósigur Vestursins. Bæði eru þau staðgengilsstríð, bæði í meginatriðum staðgengilsstríð bandaríska heimsveldisins. Bandaríkin hafa forðast að leggja sjálf til mannaflann í stríð sín eftir Íraksstríðið sem hófst 2003. En nú sýnist staðgengilsaðferðin ekki ætla að duga þeim lengur (í heimi með dvínandi ofurvaldi Bandaríkjanna).

Sameiginlegt einkenni stríðanna tveggja er m.a. að þau ramba nú bæði á jaðrinum þar sem þau breytast úr staðgengilsstríði og yfir í „beint“ stríð bandaríska heimsveldisins við tvo meginandstæðinga sína, annars vegar Rússland og hins vegar Íran. Bandaríkin og Vestrið vilja ekki horfast í augu við að stríð þessi muni tapast. Og virðast stefna yfir „jaðarinn“. Erfitt er að sjá fyrir sér slík umskipti í stríðinu án þess að það stigmagnist til kjarnorkustyrjaldar. Einmitt sú framtíðarsýn var þó ekki rædd að sinni í umræðunum hjá Glenn Diesen. En þáttinn þarf að sjá í heild sinni.