Lockheed Martin kynnir til sögunnar nýjar tegundir morðvopna

26. ágúst, 2023 Jón Karl Stefánsson

Blússandi gangur er nú meðal vopnaframleiðenda í Bandaríkjunum og sífellt koma fram ný vopn frá þessum stórfyrirtækjum. Meðal þessara vopna eru svokölluð Directed Energy Weapons (DEW). Íslendingar, sem hafa fengið þann heiður að fá þrjár B-2 dauðaflaugar á Keflavíkurflugvöll, fá kannski að kynnast þessum vopnum á næstunni.

Lockheed Martin hefur kynnt með stolti til sögunnar nýja tegund morðvopna sem þegar eru komin í notkun. Á heimasíðu fyrirtækisins er kynningarsíðan „Next-Gen Defenses“ þar sem nýjasta viðbótin eru svokölluð „Directed Energy Weapons“ (DEW). Þessi tækni felst í því að beina mikilli orku, t.d. sólargeislum, á þröngt afmarkað skotmark. Mikil orka myndast þar og skotmarkið brennur með á þriðja þúsund gráðu hita á augabragði. Hægt er að koma vopninu fyrir á skipum, skriðdrekum, bílum, og svo flugvélum og jafnvel gervitunglum. Hægt er að myrða, brenna og eyðileggja hvað sem er á jörðu niðri, á sjó og í lofti á augabragði, nánast án þess að nokkur verði þess var að árás hafi farið fram.

Meðal annarra nýrra vopna sem komin eru á markaðinn eru svo hljóðvopn (acoustic weapons), sem nota má til að þagga niður í mótmælendum heima fyrir, „taktísk kjarnorkuvopn“ (tactical nuclear weapons), sem notast má við í minni kjarnorkuárásir, efnavopn sem unnin eru í samvinnu við Bandaríska varnarmálaráðuneytið og ríki á borð við Úkraínu (biological threat reduction program), og svo ný kynslóð af ofurfráum sprengiflaugum sem geta rifið hvaða hús eða faratæki í tætlur á augabragði.

Mikill og blússandi uppgangur hefur verið hjá vopnaframleiðendum á borð við Lockheed Martin að undanförnu. Reuters fréttastofan greindi frá því í byrjun árs 2023 að tekjur vopnaframleiðenda í Bandaríkjunum hefðu aukist um heilar 49% á milli áranna 2021 og 2022. Fyrirtækin hafa selt ógrynni skriðdreka, flugvéla og þeirra morðtóla sem eru í boði. Ef tekst að koma í veg fyrir friðarviðræður og láta styrjaldir nútímans vara sem lengst, þá má ætla að vopnaframleiðendur græði enn meira. Með þeim gróða má svo framleiða enn betri eyðileggingarvopn fyrir styrjaldir framtíðar.

Íslenskir fréttamiðlar hafa farið mikinn að undanförnu að lýsa því að hvorki meira né minna en þrjár B-2 árásarvélar eru nú á Íslandi. Þetta eru að sögn fréttamanna dýrar og flottar vélar sem geta borið allt að 16 kjarnorkuvopn. Bandaríkjaher er einmitt eini herinn sem beitt hefur slíkum vopnum gegn óbreyttum borgurum, bæði í Japan og einnig í kyrrahafseyjum sem lagðar voru í rúst í nafni vopnaþróunar. Vopnaframleiðendur eru mjög duglegir í lobbýisma og ætla má að þessi mikli uppgangur tryggi enn betur en nokkurn tímann fyrr að stjórnmálamenn sem tala fyrir ófriði og stríðsátökum verði áberandi á komandi misserum. Þeim hefur orðið vel ágengt að sigra hug og hjörtu fólks um allan heim. Nýleg sending af klasasprengjum til Úkraínu lýsti Ríkisútvarpið á þann hátt að „þær gefa góða raun í að brjóta varnir þeirra á bak aftur“. Slík frétt sýnir hversu vel vopnaframleiðendum hefur orðið ágengt í fortölulistinni. Framtíðin er björt hjá vopnaframleiðendum.