Jökulsprungur stjórnvalda
—
Fyrir einskæra heppni sluppu tveir ferðalangar við jökulsprungusvæði á ferðalagi sínu á skíðum að Grímsvötnum á Vatnajökli, nú í miðjum júní mánuði þegar meðalhitastigið um hásumar á jöklum er við frostmark. Ferðalangarnir tveir hittu á vorferð Jöklarannsóknafélags Íslands, sem forðaði þeim úr tvísýnum aðstæðum. Enginn lifir lengi í eftir fall ofan í dauðadjúpar sprungur jökulsins, jafnvel þó heilu björgunarsveitirnar séu sendar, köldum og illa höldnum til björgunar. Sprungan kremur líkamann en kuldinn miskunnar sig yfir hann, deyfir hann og svæfir svefninum langa.
Kaldir og illa haldnir eru víðar á landinu en í dauðadjúpum jökulsprungum. Heimilislausir í þéttbýli, þurfa að draga fram lífið um frostmarkið á veturna, fastir í viðjum margþættrar mismununar og sæta fordómum, en kuldi stjórnvalda eru miskunnarlaus svipuhögg á mennsku okkar. Meðal okkar eru þau sem enga mennsku eiga, vilja helst keyra svipuna harðar áfram, svo hart, að sem næst gangi lífi. Þau vilja etja samferðamönnum okkar á sprungusvæðin svo þau falli í jökulsprungur stjórnvalda.
Að etja atvinnuleysistryggðum á jökulsprungurnar
Kona með 2 veik börn missti atvinnuleysisbætur sínar í 2 mánuði, fyrir að mæta ekki á fund hjá VMST sem boðaður var með eins dags fyrirvara rétt fyrir jólin. Á þeim tíma voru tvö veik börn á heimilinu og hún átti enga leið að komast á boðaðan fund, auk þess að hún sá ekki boðunina fyrr en eftir fundinn. Hún hafði samband við Vinnumálastofnun um leið, en svarið var að ekkert væri hægt að gera. Mál nr. 117/2024
Kona með tvö veik börn missti atvinnuleysisbætur sínar í 2 mánuði, fyrir að mæta ekki á fund hjá VMST sem boðaður var með eins dags fyrirvara. Því varð hún að velja á milli þess að borga leigu og kaupa mat fyrir börnin hennar þrjú. Mál nr. 228/2023
Í báðum ofangreindum tilvikum var um að ræða konur af erlendum uppruna, án foreldra eða fjölskyldu sem getur hlaupið í skarðið þegar veikindi ber að garði.
Kona veik með Covid-19 missti atvinnuleysisbætur sínar, ekki aðeins í 2 mánuði, heldur missir hún alveg réttinn til atvinnuleysistrygginga, þar sem hún missti af lögboðnum fundi hjá Vinnumálastofnun, sem boðaður var með þriggja daga fyrirvara. Læknar höfðu heimsótt hana nokkrum sinnum á meðan á veikindum hafi staðið, henni leið mjög illa og gat farið fram úr rúminu. Hún var of veik til að skoða síma sinn og svara tölvupóstum. Hún hélt að hún væri að deyja. Hún vissi ekki af fundinum en strax þegar henni leið betur skoðaði hún tölvupóst sinn og sendi læknisvottorð til að staðfesta veikindin. Í sjónarmiðum Vinnumálastofnunar kemur fram að stofnuninni barst læknisvottorð hennar enda var þess krafist. Í vottorðinu er greint frá því að hún hafði verið óvinnufær með öllu á tímabilinu 10. til 23. janúar 2024 vegna sjúkdóms. Í kærumálinu eyðir VMST 10 línum af texta til að gera lítið úr læknisvottorði læknis hennar með dylgjum um dagsetningar læknisvottorðsins, en ekki með læknisfræðilegum staðreyndum. Mál nr. 100/2024
24 mánaða reglan
Nokkur hluti málanna einkennist af að felld eru niður réttindi hins tryggða eftir 24 mánuði í stað 30. Þetta er gert þegar hinn tryggði hefur náð 24 mánuðum, og atvik eins og þau hér að ofan verða til þess að hann missir þau í 2 mánuði. Stjórnvöld beita viðurlögum til að sem fæstir bjargist aftur upp úr jökulsprungunum.
Íþyngjandi ákvarðanir Vinnumálastofnunar
Daði Már Kristófersson hagfræðingur, skrifaði í Vísbendingu um áhrif þess að missa atvinnu, en það á engu síður við um að missa atvinnuleysistryggingar: „Fótunum er kippt undan framtíð þeirra einstaklinga sem missa [framfærsluna] með tilheyrandi fjárhagsvandamálum, áhyggjum og kvíða. Þetta bitnar á einstaklingnum, hans nánustu og samfélaginu“. Um er að ræða íþyngjandi ákvarðanir VMST sem varða fjárhagslega afkomu skjólstæðinga þeirra sem eiga í vök að verjast, þar sem tímafrestur þeirra rennur út, meðan vafi leikur á um hvort kerfi VMST láti skjólstæðingana vita um stöðu máls þeirra og hvort meðferð þeirra upplýsinga samræmist lögum um persónuvernd.
Vinnumarkaðurinn þarf visst atvinnuleysi til að halda launum niðri. Hagfræðingar telja nauðsynlegt og óumflýjanlegt að viss hluti vinnufærra manna, sé atvinnulaus. „Atvinnuleysi er óumflýjanlegur hluti eðlilegs vinnumarkaðar. Rekstur fyrirtækja er sveiflukenndur og háður mörgum breytilegum þáttum.“ [Daði Már Kristófersson hagfræðingur, „Til varnar atvinnuleysisbótum“, Vísbending Kjarnans, 33. tölublað, 11.09.2020].
Aðför Vinnumálastofnunar að 300 skjólstæðingum
Meðan starfsfólk Vinnumálastofnunar verða flest í sumarfríi, fjarar undan þeim 7 daga fresti sem um 300 skjólstæðinga stofnunarinnar hafa til að andmæla, þar sem rúmlega árs gömul mál hafa verið send í innheimtu, en eins og segir í einu bréfanna er um að ræða svokallaða aðför að lögum:
Samkvæmt 6. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar eru ákvarðanir Vinnumálastofnunar um endurkröfu ofgreiddra atvinnuleysisbóta skv. 2. mgr. 39. gr. aðfararhæfar. Samkvæmt upplýsingum Gísla Davíðs, lögfræðings VMST, var verið að senda um 300 gömul mál í innheimtu þegar þetta er skrifað.
Hlutleysi Vinnumálastofnunar og gagnsæi upplýsinga
Lögfræðingurinn upplýsti, að VMST hafi verið að breyta kerfinu sínu síðastliðin 2 ár eða frá í maí 2022, og vonast sé til, að því ljúki í lok ársins 2024. Lögfræðingurinn nefndi, að birtingar skjala í kerfum VMST séu almennt samþykktar sem grundvöllur aðfarar að lögum.
Vafi leikur á, hvort kerfi VMST láti skjólstæðingana vita um stöðu máls þeirra, en í öllum málum VMST segir að boðun hafi verið send á skráð netfang og í farsímanúmer viðkomandi.
Tölvupóstar fara fyrst um kerfi VMST, síðan um kerfi Símnets í eigu Símans HF, þá um kerfi bandaríska einkafyrirtækisins Microsoft og að lokum um kerfi internetveitu sem skjólstæðingurinn á áskrift hjá. SMS skilaboð eru send í gegnum kerfi Símnets í eigu Símans HF og þá um kerfi farsímafyrirtækisins sem skjólstæðingurinn á áskrift hjá. Í báðum tilfellum er um að ræða greidda áskrift, þannig að ef skjólstæðingurinn hefur af einhverjum ástæðum ekki greitt áskriftina, geta skilaboðin ekki borist skjólstæðingnum. Ennfremur eru fjölmörg dæmi þess að tölvupóstar tefjist vikum saman vegna truflana og netárása og berist jafnvel alls ekki. Ekkert þessara fyrirtækja bera bótaábyrgð ef skjólstæðingurinn verður fyrir fjárhagslegu tjóni vegna bilunar í þjónustu þeirra. Því má velta fyrir sér hversu langt sé til að VMST byrji að nota samfélagsmiðla annarra bandarískra einkafyrirtækja eins og META og noti Facebook Messenger til að birta tilkynningar sínar.
Í einu máli kom í ljós að Vinnumálastofnun hafði skráð hjá sér skilaboð til skjólstæðings þann 2. mars 2023, en kerfi VMST, var stillt þannig að þau voru hulin skjólstæðingnum. Skjámynd af skilaboðum skjólstæðingsins, fyrir og eftir viðtal við lögfræðing VMST sýnir svo ekki verður um villst, að skilaboðin voru hulin en birtust síðan eftir viðtalið, rúmu ári eftir dagsetningu skilaboðanna.
Úrskurðarnefnd Velferðarmála
Hjá úrskurðarnefndinni eru 169 mál sem innihalda orðin „Mínum síðum“ sem er aðgangur skjólstæðinga VMST að kerfunum. Í langflestum þessara mála, hefur Úrskurðarnefnd Velferðarmála litið á Mínar Síður VMST, sem trausta óvilhalla heimild um það sem gerst hefur í málunum og að ekki halli á skjólstæðinga VMST.
Í málinu hér að ofan, gat lögfræðingur VMST látið birtast ný skilaboð sem dagsett voru rúmu ári aftur í tímann. Kanna mætti hvort slíkt megi leggja að jöfnu við skjalafals og einnig hvort VMST skrái slíkar breytingar og haldi nákvæmar skrár yfir allar slíkar breytingar. Í fyrstnefnda málinu að ofan nefndi skjólstæðingurinn að hún hefði fyrst séð skilaboðin eftir að hinn boðaði fundur hefði átt sér stað, en svar VMST var að ekkert væri hægt að gera. Í engu málanna tekur Úrskurðarnefnd Velferðarmála, undir efasemdir skjólstæðinga um áreiðanleika skilaboða VMST.
Forréttindi valdastéttarinnar
Hinn tryggði má að hámarki vera veikur í 5 daga, samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá 2010. Í Covid-19 faraldrinum var þessi frestur ekki endurskoðaður og honum ekki breytt. Sama ríkisstjórn dældi milljörðum úr ríkissjóði í einkafyrirtæki í formi Covid-styrkja. Í mörgum þessara mála, tók VMST sér um mánaðar frest til að svara nefndinni, en gefa hinum tryggðu aðeins 7 daga frest til að svara. Löggjafinn á Alþingi krefst 100% mætingar af atvinnuleysistryggðum. Mæting alþingismanna í þeirra eigin störf eru langt frá að vera 100%. Þarna endurspeglast þau forréttindi sem valdastéttin telur sig eiga rétt á. Því þarf að breyta.
Persónuvernd
Í lögum um persónuvernd, er svokölluð meginregla um gagnsæi upplýsinga í 17. grein laganna. Þar segir m.a. að „Hinn skráði á rétt til upplýsinga um vinnslu, hvort sem persónuupplýsinga er aflað hjá honum sjálfum eða ekki“. Engum slíkum upplýsingum hefur verið kallað eftir í málum úrskurðarnefndarinnar og virðist sem skjólstæðingar VMST geri sér almennt ekki grein fyrir þessari vinnslu upplýsinga þeirra, en svo virðist sem þessar upplýsingar séu ekki gagnsæjar hjá VMST.
17. grein persónuverndarlaga skylda ábyrgðaraðila, sem í þessu tilfelli er VMST, til að „gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja gagnsæi upplýsinga og tilkynningar til skráðs einstaklings […] svo að hann geti neytt upplýsingaréttar síns og réttar til aðgangs“.
Ekkert þeirra mála sem Úrskurðarnefnd Velferðarmála hefur haft undir höndum, benda til þess að VMST uppfylli þessar skyldur sem ábyrgðaraðili. Í lögunum stendur:
Ef líklegt er að öryggisbrestur við meðferð persónuupplýsinga leiði af sér mikla áhættu fyrir réttindi og frelsi einstaklinga skal ábyrgðaraðili tilkynna skráðum einstaklingi um brestinn án ótilhlýðilegrar tafar.
Vinnumálastofnun ber svokallaða ábyrgðarskyldu og vinnsluskyldu sem stofnunin hefur hugsanlega brotið gegn, við vinnslu persónuupplýsinga í málum um 300 skjólstæðinga. Send var fyrirspurn til Persónuverndar um hvort VMST hafi sinnt skyldu sinni vegna öryggisbresta. Fyrirspurnin til Persónuverndar var í þremur liðum:
1. skilaboðum dagsett 2. mars 2023 var haldið leyndum fyrir skjólstæðingi í rúmt ár, á meðan stofnunin var í málsmeðferð með mál hennar.
Skjámynd af skilaboðum, fyrir og eftir viðtal skjólstæðings við lögfræðing VMST, sýnir svo ekki verður um villst, að skilaboðin voru hulin en birtust síðan eftir viðtalið, rúmu ári eftir dagsetningu skilaboðanna. Þann 19. júní 2024 gat hún ekki séð skilaboðin, en hún gat séð þau þann 21. júní 2024 eftir að Gísli Davíð Lögfræðingur VMST, lofaði að senda henni þau gögn sem hún hafði sent í málinu. Hún hafði kvartað við hann um að hún fengi ekki að sjá gögnin sem hún hafði sent þeim, hverjar tímasetningarnar voru á þeim og nákvæmlega hvað hafði gerst.
Hinar tilkynntu breytingar á upplýsingum dagsett 2. mars 2023, voru gerðar þann 21. júní 2024 milli kl. 09:00 og 11:00, líklegast um kl. 10:30 þegar lögfræðingurinn gerði breytingar í kerfinu, sitjandi bak við þykkan glervegg og bakhlið tölvuskjás hans sneri að mér. Starfsfólk VMST á að uppgötva slíkar breytingar og tilkynna til Persónuverndar samkvæmt 27. gr. Sömu laga um Öryggi persónuupplýsinga og tilkynningar um öryggisbresti. Slíkt skal gera innan 72 klst., mánudaginn 24. júní 2024 kl. 11:00.
Framangreint gæti verið brot á 17. gr. meginreglu um gagnsæi upplýsinga, rétt hins skráða til upplýsinga og aðgangs í lögum um vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018.
Hér er spurt hvort VMST hafi tilkynnt slíkan öryggisbrest fyrir kl. 11:00 þann 24. júní 2024 ?
2. Lögfræðingnum varð tíðrætt um að birtingar skjala í kerfum VMST sé almennt samþykkt í málum Úrskurðarnefndar Velferðarmála. Hjá úrskurðarnefndinni eru 169 mál sem innihalda orðin „Mínum síðum“ sem er aðgangur skjólstæðinga VMST að kerfunum. Í lang flestum þessara mála, er litið á Mínar Síður VMST, sem trausta óvilhalla heimild um það sem gerst hefur í málunum og að ekki halli á skjólstæðinga VMST. Lögfræðingurinn upplýsti, að VMST hafi verið að breyta kerfinu sínu síðastliðin 2 ár eða frá í maí 2022, og vonast sé til að því ljúki í lok ársins 2024.
Hefur VMST tilkynnt öryggisbresti vegna kerfisbreytinga á tímabilinu 2022 til 2024 ?
3. Samkvæmt upplýsingum Gísla Davíðs, lögfræðings VMST, var verið að senda um 300 gömul mál í innheimtu þegar þetta er skrifað. Málin eru frá vorinu 2023 en voru fyrst send í innheimtu rúmu ári seinna, rétt fyrir sumarfrí starfsmanna VMST, en aðeins er veittur 7 daga andmælaréttur, sem kemur að litlu gagni þegar starfsmenn eru í sumarfríi en þarna er um að ræða verulega áhættu fyrir réttindi og frelsi um 300 einstaklinga, þar sem hér er verið að vega að framfærslu þeirra.
Samkvæmt 6. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar eru ákvarðanir Vinnumálastofnunar um endurkröfu ofgreiddra atvinnuleysisbóta skv. 2. mgr. 39. gr. Aðfararhæfar.
Hefur VMST tilkynnt öryggisbresti sem leiddu til þessara aðfara og til þess að mál um 300 einstaklinga voru látin bíða í rúmt ár með þeim afleiðingum að skjólstæðingar missa í reynd andmælarétt sinn ?
Persónuvernd fékk samhljóðandi fyrirspurn í hendur þann 28. júní 2024, en viku seinna höfðu engin svör borist.