Íran og Hizbollah slá tilbaka – fyrir Palestínu

3. október, 2024

Stórstríð er í sigti – eða byrjað. Andspyrnuöxullinn í Miðausturlöndum greiðir Ísrael högg tilbaka. Þau högg eru nauðsynleg og réttlát. Netanyahu virtist á undanförnum vikum hafa unnið sigra sem gátu veikt baráttuna til stuðnings Palestínu, ekki síst sálfræðilega og siðferðilega. Hefði hann komist upp með að myrða foringja andspyrnunnar, Haniyeh og Nasrallah – með þeim aðra foringja og hundruð almennra borgara – ef Íran og Hizbollah hefðu aðeins hótað gagnaðgerðum en síðan bakkað og beygt sig fyrir ofbeldinu hefði það gefið Netanyahu fulla drottnunarstöðu kúgarans en veikt baráttustöðu og baráttuanda andspyrnuaflanna á öllu svæðinu.

Árás Írans breytir stöðunni. Skotflaugar Írans sanna sig að vera í heimsklassa, og Andspyrnuöxullinn lýsir yfir að hann sé óhræddur, jafnvel við það Miðausturlandastríð sem Ísrael lengi hefur reynt að framkalla.

Skoðum skotflauga-árásina sjálfa. The Cradle skrifar

Íranar skutu hundruðum eldflauga á Ísrael seint þann 1. október í umfangsmikilli hefndarárás sem ráðamenn í Teheran segja að hafi hæft í mark, á margar herstöðvar víðs vegar um landið.

„Við beindum sjónum okkar að þremur herstöðvum: Nevatim, sem hýsir F-35 flugvélar, Netzarim, sem hýsir F-15 þotur sem notaðar voru við morðið á Sayyed Hassan Nasrallah, leiðtoga Hezbollah-samtakanna, og Tel Nof herstöðinni í Tel Aviv með Fattah-eldflaugum,“ segir í tilkynningu frá Íranska byltingarverðinum (IRGC) eftir að allt að 400 flugskeytum var skotið á loft, þar á meðal Fattah-sjálfsskotflaugum.

Íranska aðgerðin var kölluð „True Promise 2“ og beindist að „nokkrum flug- og ratsjárherstöðvum, sem og miðstöðvum fyrir ráðagerðir og skipulagningu á morðum gegn leiðtogum andspyrnunnar,“ sagði í annarri yfirlýsingu IRGC.

„Þrátt fyrir að svæðið sé varið með fullkomnustu og þéttustu varnarkerfi heims, náðu 90 prósent árásanna að skjóta á skotmörk sín og valda því að síoníska stjórnin er dauðhrædd við yfirburði Íslamska lýðveldisins í hernaði og leyniþjónustu,“ segir enn fremur í yfirlýsingunni.

Skotmörkin voru sem sagt hernaðarleg, hervellir og stjórnstöðvar og beindust alls ekki gegn almennum borgurum. Aðgerðin var afmörkuð endurgjaldsaðgerð. Ísrael talar niður eftir bestu getu og ritskoðar árángur hennar. Lesum áfram frá The Cradle:

„Í samræmi við lögmæt réttindi og með það að markmiði að koma á friði og öryggi í Íran og á svæðinu, hefur verið brugðist við árásum síonista með afgerandi hætti,“ sagði Masoud Pezeshkian, forseti Írans, í gegnum samfélagsmiðla.

Ráðamenn í Teheran staðfestu að árásin væri svar við morði Ísraelsmanna á Ismail Haniyeh, pólitískum foringja Hamas-samtakanna, í Teheran fyrr á árinu og á Hassan Nasrallah, aðalritara Hezbollah-samtakanna, í Beirút í síðustu viku.

Myndskeið sem deilt var á samfélagsmiðlum sýnir hvernig Írönum tókst að skjóta flugskeytum á skotmörk á allt að 30 mínútna kafla í Tel Aviv.


Bandaríkin með?

Ekki síður mikilvægt er að fylgjast með viðbrögðum, og þátttöku  Bandaríkjanna í deilunni. The Cradle heldur áfram:

Stjórnvöld í Washington staðfestu að þau hefðu hjálpað Ísraelum að hindra eldflaugaárásirnar, því Jake Sullivan, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna, sagði við blaðamenn á þriðjudag að „eyðingarvélar bandaríska flotans hafi tekið þátt í því með ísraelskum loftvarnarsveitum að elta uppi skotflaugar á leið inn á svæðið“ og hann kallaði aðgerðir Írana „óskilvirkar“.

„Við höfum gert okkur ljóst að árásin mun hafa alvarlegar afleiðingar og við munum vinna með Ísrael að því að láta svo verða“ bætti Sullivan við.

Ísraelsher hótaði einnig að sprengja mikið af sprengjum um Vestur-Asíu á næstu klukkustundum.

Lloyd Austin varnarmálaráðherra Bandaríkjanna ræddi við Yoav Gallant, ísraelska starfsbróður sinn, skömmu eftir aðgerðir Írana og áréttaði „járnhnefa-skuldbindingu“ Hvíta hússins gagnvart vörnum Ísrael, sagði Pat Rider, talskona Hvíta húsins.

Vesturveldin ganga í sama takt. Á vef RÚV má að morgni 2. október lesa þetta um árás Írana: „Evrópusambandið, Bretland og Spánn fordæma árásina og stjórnvöld í Bandaríkjunum lýsa fullum stuðningi við Ísrael.“ Aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres fordæmdi hins vegar aðeins „útvíkkun og stigmögnun átakanna“ án þess að fordæma Íran sérstaklega. Og þar með lýsti Katz utanríkisráðherra Ísraels Guterres strax sem „persona non grata“ sem ekki fengi að heimsækja Ísrael framar, enda væri Íran „mothership of global terror“.


Aðdragandi aðgerðarinnar

Íran er höfuðafl Andspyrnuöxulsins. Í þeim herbúðum hafði gætt óþreyju og óþolinmæði eftir svarviðbrögðum við stöðugum og vaxandi ofbeldisyfirgangi Ísraels.

Hið gagnrýna bandaríska vefrit Moon of Alabama greinir aðdraganda írönsku aðgerðarinnar á þessa leið:

Undafarinn var sá að Ismail Haniyeh, stjórnmálaleiðtogi Hamas var myrtur af Ísrael við innsetningu nýkjörins forseta Írans, Masoud Pedzeshkian. Ali Khamenei, andlegur leiðtogi Írans sem og Íranski byltingarvörðurinn hótuðu skjótum gagnaðgerðum. En nýkjörni forsetinn er „hófsamari“ og hann vildi leita samninga, hann vildi veðja á að Bandaríkin vildu og gætu komið á vopnahléi. Samkvæmt kosningaprógrammi sínu lagði  Pedzeshkian einnig ríka áherslu á að semja við Bandaríkin um framgang kjarnorkuáætlunar Írans. Gagnaðgerðir frestuðust, og það sýndist ljóst að alvarlegur ágreiningur var fyrir hendi innan íranska stjórnkerfisins.

Moon of Alabama skrifar síðan:

Svo féll Hassan Nasrallah, leiðtogi Hizbollah og einn helsti arkítekt Andspyrnuöxulsins. Nokkrir aðrir leiðtogar Hizbollah og Abbas Nilforoushan, aðstoðarforingi Íranska byltingarvarðliðsins (IRGC), féllu með honum… Morðið á Nasrallah sýndi fram á að hófsemin í stefnu Peshkins hafði brugðist.

Eftir þetta breyttist tónninn hjá íranska forsetanum í málinu. Skiljanlega þurfti þó samræmingu með bandamönnum Írans áður en þær hæfust. Mishustin forsætisráðherra Rússlands kom til Teheran 30. september (einnig í öðrum erindagjörðum). Á sameiginlegum blaðamannafundi með Pedzeshkian tjáði Mishustin sig um nýja stigmögnun í Miðausturlöndum, átök sem nytu stuðnings Bandaríkjanna, en sem „óháð lönd eins og Íran og Rússland yrðu að auka samvinnu sín á milli til að vinna gegn.“

Það eru  allar líkur á að Rússland hafi verið vel upplýst um komandi aðgerðir Írana. Íranski byltingarvörðurinn hóf aðgerðir sínar aðeins nokkrum klukkutímum eftir að  rússneski forsætisráðherrann yfirgaf Teheran.


Ísraelsher ræðst inn í Líbanon – fær svar

30. september tilkynnti Ísrael bakmönnum sínum í Washington að nú hæfist „takmörkuð, staðbundin herferð“ á landi inn í Líbanon gegn Hizbollah, studd af lofther og stórskotaliði. Samkvæmt vefritinu POLITICO mun Ísrael hafa fengið græt ljós frá Washington áður en innrásin hófst. 

En Ísraelsher (IDF) hefur fengið að finna að það er sitt hvað að sprengja líbanesísk íbúðahverfi úr lofti og að mæta Hizbolla í návígi á heimavelli. Annan október vitnar The Cradle í tilkynningu frá Hizbollah að andspyrnuhreyfingin hafi  hindrað tilraun IDF til að þrengja sér inn á líbanskt landsvæði:

Til varnar Líbanon og þjóð þess mættu stríðsmenn frá íslömsku andspyrnunni við sólarupprás 2-10-2024 fjandsamlegum ísraelskum fótgönguherstyrk sem reyndi að þrengja sér inn í bæinn Odaisseh í átt frá Khallet al-Mahafer og ullu þeim tjóni og neyddu þá til að draga sig tilbaka,“ sagði Hizbollah á miðvikudagsmorgun.

Þjóðarmorðið heldur áfram á Gaza, af óskertu afli og djöfulskap. Tugir drepnir dag hvern, eða hundruð. Atburðir síðustu daga sýna þó vel að Gazabúar standa ekki einir í vopnaðri varnarbaráttu sinni, að stuðningsöfl Palestínu og palestínsks þjóðfrelsis yfirgefa ekki bræður sína og systur þó að þau við það fái sinn skerf frá ofbeldis- og sláturmaskínu Ísraels/USA.