Indland er við þröskuld náttúrulegs hjarðónæmis – en lokunarstefnan hefur skelfilegar afleiðingar
—
Niðurstöður eru komnar í víðtækri mótefnamælingu á íbúum Nýju Delhí í Indlandi. Rannsóknin var framkvæmd (í janúar) af þarlendum heilbrigðisyfirvöldum. Rannsökuð voru sýni úr tilviljunarúrtaki 28.000 þátttakenda í 11 hverfum borgarinnar. Í ljós kom að 56% þátttakenda mældust með mótefni, sem þýðir að þeir höfðu fengið í sig veiruna, náð sér og myndað ónæmi fyrir henni. Þetta ónæmishlutfall er algerlega án bólusetninga, en afar fáir hafa verið bólusettir frá því að bólusetningar hófust, 16. janúar s.l.
Ef þessar tölur eru yfirfærðar yfir á borgina alla, þá þýðir þetta að 56% af 16,8 milljónum íbúa borgarinnar, eða 9,4 milljónir manna, hafa smitast af sars-CoV-2 veirunni, í það minnsta, ef tekið er tillit til þess að hjá sumum, allt að 10%, verður t- og b- frumu ónæmi nægilegt og líkaminn myndar því ekki mótefni þrátt fyrir að hafa sterkt ónæmi gegn veirunni. Yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem sýkst hafa af veirunni voru því ekki með nógu mikil einkenni til þess að þeir hafi verið skimaðir sérstaklega fyrir veirunni og opinbera sýkingartalan er því einungis brot af raunverulegri útbreiðslu sars-CoV-2 í landinu.
Þetta víðtæka smit og ónæmi gegn sars-Cov-2 veirunni er skýringin á því hvers vegna tilfellum af covid, og einnig dauðsföll af völdum þess tiltekna sjúkdóms, hefur fækkað stöðugt síðan í byrjun september í fyrra. Greind tilvik og dauðsföll eru óðfluga að nálgast núll, þrátt fyrir að fáir hafi verið bólusettir þar. Að sýkjast og ná sér veldur öflugasta ónæmi gegn sars-cov-2 sem hægt er að ná og 56% íbúa borgarinnar eru því þegar ónæmir gegn sars-CoV-2 veirunni. Af þessum sökum lýsti borgarstjóri Nýju Delhi því, líklega réttilega, yfir að borgarbúar væru svo gott sem búnir að sigrast á veirunni og faraldurinn væri því yfirstaðinn (Elegant, 2021).
Nákvæmlega sama þróun hefur átt sér stað um allt Indland, þ.e. staðfestum tilfellum hefur fækkað sífellt síðan í september og því má ætla að Indland sé við þröskuld þess að fá hjarðónæmi. Covid-19 er ekki lengur faraldur í Indlandi. Lokaniðurstöður á skaðsemi covid-19 í Indlandi eru því bráðum komnar. Heildarfjöldi sýkinga er að öllum líkindum nálægt 56% af heildar íbúafjölda í Indlandi (1.366.000.000), eða 764.960.000. Heildarfjöldi látinna af völdum covid er áætlaður 155 þúsund. Dánartíðni í kjölfar smits af sars-CoV-2 veirunni í Indlandi er því 0,02%.
Covid hefur því ekki reynst sérstaklega hættulegur sjúkdómur í Indlandi. Til samanburðar létust um 440 þúsundir Indverja úr berklum árið 2018, um þrefalt fleiri en hafa látist í heild sinni af covid í Indlandi. Þá þarf að hafa í huga að miklu færri tilvik, þ.e. tæplega 3 milljónir tilvika, af berklasjúkdómnum greindust. Covid er nú brátt úr sögunni sem faraldur í landinu, en berklar, malaría, gulusótt og aðrir árlegir sjúkdómar munu halda áfram án neyðarkalla frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni.
Þetta er enn ein birtingarmynd þess að covid hefur einkum herjað á hinn vestræna heim, og covid er einkum að koma illa út á Vesturlöndum. Frá sjónarhóli ríkja á borð við Indland, þar sem farsóttir á borð við malaríu, berkla og gulusótt herja ár hvert og leggja að velli langtum fleiri manneskjur en þessi tiltekna nýja veirusýking, hlýtur fárið í kringum covid að opinbera að það eru vesturlandabúar sem eru við stjórn í alþjóðastofnunum heimsins. Tilmæli WHO um lokanir, sóttkví, grímunotkun o.s.frv. voru ekki bara óþarfar, enda er nú ljóst að þessar aðgerðir gerðu ekkert til að hindra útbreiðslu sjúkdómsins, heldur voru beinlínis skaðlegar, og þá ekki lítið.
Indversk stjórnvöld hlýddu tilmælum WHO um mjög strangar aðgerðir við covid. Niðurlæsingar (lock-down) voru fyrirskipaðar af Narendra Modi, forsætisráðherra, og samþykktar með mjög skömmum fyrirvara í Indlandi þann 24. mars í fyrra. Almenningur fékk einungis fjórar klukkustundir til að undirbúa sig fyrir þær. Milljónir verkamanna þurftu að flýja í örvæntingu heim til sveitanna (Roy, 2020).
Það má telja með ólíkindum, en þessar skelfilegu aðgerðir voru unnar úr forskrift þeirrar stofnunar sem stendur fyrir stærstu einstöku fjárframlögunum til WHO. Síðasta sumar hittust Modi og Bill Gates á netráðstefnu þar sem Modi beinlínis tjáði að hann hefði í öllu fylgt ráðum Gates og höfuðáhersla væri að fylgja þeirri leið Bill and Melissa Gates Foundation að leggja allt kapp í þróun bóluefna (Kashyap, 2020). Hann gekk svo langt að tilkynna fyrir alþjóð að Bill and Melissa Gates Foundation myndi taka forystuhlutverk í mótun samfélagsins eftir Kórónakrísuna. Að hans eigin sögn myndu þessi einkasamtök tölvumógúlsins “taka forystuhlutverk í að greina nauðsynlegar lífsstílsbreytingar, efnahagsskipulag, félagslega hegðun, leiðir til að dreifa út menntun og heilbrigðisþjónustu” og að “Indland myndi með glöðu geði sinna sínu hlutverki” fyrir þetta mæta einkaframtak (Kashyap, 2020). Stærsta lýðræðisríki heims var þannig lagt að fótum tölvumógúlsins.
Afleiðingarnar af þessum aðgerðum eru að reynast skelfilegar. Strax síðasta sumar lýstu menn yfir áhyggjum af því að aðgerðirnar gætu valdið enn meiri fátækt og hungri í landinu til langframa vegna alvarlegra efnahagslegra áhrifa aðgerðanna. Flutningslínur fyrir matvæli og aðrar vörur rofnuðu og meira en 135 milljónir starfa töðuðust vegna innilokunarstefnunnar (Roy, 2020). Sjálfsmorð og geðræn vandamál hafa einnig aukist mikið vegna aðgerðanna. Hundruð þúsunda fjölskyldna í Indlandi hafa þurft að minnka matarinntöku á árinu. Fátæktin sem nú blasir við Indverjum er ekkert minna en hörmuleg og enginn endir virðist á (Krishnan, 2020).
Ástandið á eftir að versna til muna, bæði á Indlandi og í öðrum þróunarríkjum. David Beasly, forstöðumaður Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna (WFP) varaði við því að tölurnar bentu til þess að fjöldi þeirra sem myndu búa við hungurmörk, þ.e. að eiga hættu á því að deyja úr hungri, hafi aukist frá 135 milljónum manna á heimsvísu til 270 milljóna, þ.e. tvöfaldast. Kannski erum við Vesturlandabúar svo firrt samkennd með þriðja heiminum að 135 milljónir manna séu ekki ástæða til að gagnrýna aðferðarfræði WHO? Að minnsta kosti fer lítið fyrir sögum um þessar hrikalegu hörmungar sem bíða okkar fátækustu bræðra og systra í fjölmiðlum okkar ríka lands.
Heimildir
Elegant, N. X. (2021, 3. febrúar). Survey finds 56% of Delhi has Covid antibodies, adding to India's declining cases mystery. Fortune magazine, online. Sótt þann 12.02.2021 frá https://fortune.com/2021/02/03/delhi-covid-antibodies-india-declining-cases-herd-immunity/?fbclid=IwAR2fT9ljfGOuGK-3KskXXyb0y_vjhsnN_QZe6PwvVN3gakm9mryoZQdUzOU
Kashyap, S. (2020). PM Modi discusses COVID-19 situation and vaccine to cure it with Bill Gates Sótt frá https://www.oneindia.com/india/pm-modi-discusses-covid-19-situation-and-vaccine-to-cure-it-3088812.html
Krishnan, M. 2020 (16.10.2020). Coronavirus exacerbates India's hunger problem. Deutsche Welle (DW). Sótt þann 14.02.2021 frá https://www.dw.com/en/about-dw/profile/s-30688
Roy, A. 2020 (23.maí). After the lockdown, we need a reckoning. Financial Times. Sótt 14.02.2021 frá https://www.ft.com/content/442546c6-9c10-11ea-adb1-529f96d8a00b?fbclid=IwAR1D8PEdOFXLLxQBFwmZMrQeNQ-GJYKazT9jtZnBfJ82650rFEgNoDQMcF4