Hvert er markmið verkalýðshreyfingarinnar?


Grein sem birtist í Kjarnanum 10. mars 2019 eftir Þorvarð Bergman Kjartansson.

Samfélagið skiptist gróflega í tvo hópa: þá sem halda sér og sínum uppi með vinnu sinni; og þá sem halda sér og sínum uppi með vinnu annarra. Kapítalíska kerfið byggist alfarið á tengslunum á milli vinnandi manns og atvinnurekanda. Vinnandi maður hefur ekkert að selja á markaðnum nema vinnuna sína. Atvinnurekandinn ræður hann til að búa til verðmæti sem hægt er að selja á markaði. Í staðinn býður hann honum laun.

Starfsmaðurinn kemur í vinnuna fimm sinnum í viku, notar sína vöðva og heila til að búa til verðmæti og þegar vinnudagurinn er búinn fer hann heim og skilur verðmætin eftir hjá atvinnurekandanum.

Það er mikilvæg forsenda fyrir því að þetta fyrirkomulag eigi sér stað. Heildar verðmæti þess sem vinnumaðurinn býr til þarf að vera meira en peningurinn sem atvinnurekandinn borgar honum til baka. Ef vinnumaður býr til stól sem er 10.000 kr. virði í sölu, þarf atvinnurekandinn að borga honum minna en 10.000 krónur. Ef vinnumanninum er borgað virði vinnu sinnar er enginn afgangur fyrir atvinnurekandann. Í kapítalísku kerfi munt þú aldrei fá borgað virði vinnuframlagsins sem þú skilar.

Atvinnurekandinn og vinnumaðurinn hafa gagnstæð markmið. Atvinnurekandinn vill fá eins mikil verðmæti (vinnu) úr vinnumanninum fyrir eins lág laun og hægt er. Á sama tíma vill vinnumaðurinn fá eins há laun frá atvinnurekandanum fyrir eins litla vinnu og hægt er. Atvinnurekendur hafa í eðli sínu yfirhöndina á þessu sviði þar sam þeir eru fáir en vinnandi fólk er margt. Ef þú ert ekki til í að taka þeim kjörum sem þér eru boðin er röð af fólki úti sem myndi taka vinnuna í þinn stað.

Eina vopnið sem vinnandi fólk hefur sér til varnar er skipulögð verkalýðshreyfing sem er tilbúin að draga línu og segja „við vinnum ekki fyrir minna en þetta“. Þetta virkar aðeins með samstöðu vinnandi fólks. Þetta hefur vinnandi fólk oft þurft að gera og nú þurfum við að gera þetta aftur. Ef fólk fær ekki nógu há laun til að halda sér uppi er það atvinnurekandinn sem hefur ákveðið að þú átt ekki skilið hærri laun en þetta. Og ef þau eru ekki nóg til að lifa af, þá hefur hann ákveðið að þú eigir það ekki skilið. Þetta er ofbeldi. Ofbeldi sem hendir fólki út á götuna. Ofbeldi sem sveltir fólk seinni part hvers einasta mánaðar.

Á sama tíma og við þurfum að standa fast saman til að berjast fyrir okkar, þá er einn mikilvægur punktur sem við þurfum að muna. Það er að við höfum gert þetta oft áður í áranna rás. Við sem verkalýður höfum barist fyrir okkar, aftur og aftur. Síðan, þegar við lítum undan, rýrna gæðin og þá er tími til þess að berjast fyrir því aftur. Þetta er barátta eftir baráttu í endalausu stríði.

Stríð sem endar aldrei verður aldrei unnið. Og þá vaknar upp spurningin um hvernig baráttan verði unnin. Hvernig myndi það líta út?

Mér finnst það einkennilegt hvað fáir hugsa um það og finnst eins og verkalýðsbaráttan snúist um það að berjast að eilífu. Berjast í dag til að lifa af og berjast svo aftur á morgun.

Markmiðið hefur gleymst, en það markmið var meðvitað á upphafsdögum verkalýðsbaráttunnar. Uppruni baráttunnar byggist á tengslunum á milli atvinnurekanda og vinnandi manns. Svo lengi sem þessi tengsl eru til staðar mun baráttan halda áfram. Við sigrum með því að rjúfa þessi tengsl, eða réttara sagt: leiða baráttuna til lykta. Við þurfum að grafa okkur upp úr því hugarfari að vinnandi fólk þurfi alltaf að vinna fyrir atvinnurekanda, við þurfum að vinna að breyttu fyrirkomulagi þar sem atvinnurekandinn og vinnufólkið eru sömu aðilarnir. Þar sem fyrirtæki eru fyllilega í lýðræðislegri eigu starfsmannana sem þar vinna. Þar sem vinnandi fólk ákveður í sameiningu hvað er framleitt, hvernig það er framleitt og hvað er gert við verðmætin.

Í ritgerðinni „What do we really know about worker co-operatives?“ eftir hagfræðinginn Virginie Pérotin eru skoðuð starfsmanna-samvinnufélög í Evrópu, Bandaríkjunum og Rómönsku-Ameríku, sem er stærsta rannsókn sinnar tegundar, kemur fram að slík félög eru hagkvæmari í rekstri, bæði út af því að þau þurfa ekki að borga út arð og endurfjármagna meira aftur í reksturinn; og vegna þess að starfsfólkið vinnur betur og „gáfulegar“. Þetta er í takt við þá hugmynd, að fólk vinni betur ef það á eitthvað í því sem það gerir.

Launamunurinn er minni á milli yfirmanna og almenns vinnandi fólks, enda myndi starfsfólkið aldrei samþykkja ofurlaun fyrir fáa.

Þeirri hugmynd er haldið á lofti, að ríkið geti ekki rekið neina framleiðslu af því að það sé enginn hvati til staðar þegar fólk á ekki neitt í verðmætunum sem það skapar. Af hverju hundsum við þessi rök þegar kemur að kapítalískum fyrirtækjum? Þar græðir hinn almenni starfsmaður ekkert á því að fyrirtækinu gangi vel.
Í samfélagi sem montar sig af lýðræðislegum gildum, af hverju finnst okkur nóg að hafa pólitískt lýðræði en ekkert efnahagslegt lýðræði; þar sem fólk eyðir mestum sínum tíma á einkareknum, kapítalískum vinnustöðum, stjórnað af litlum einræðisherrum?

Núna eru kosningar til stjórnar VR og ég er í framboði. Of margir skipta sér ekki af þessum kosningum og leifa því öðrum að taka þessar ákvarðanir fyrir sig. Ef við viljum sjá endann á þessari eilífu baráttu þá þurfum við að vinna fyrir því. Það er vinna sem ég vill taka að mér í stjórn VR.