Hvers vegna við þurfum íslenskan marxisma

10. september, 2024 Andri Sigurðsson

Nýlega kom út bókin „Why We Need American Marxism“ eftir hinn Kúbverska-Ameríska Carlos L. Garrido. Bókin er gefin út af Marxísku hugveitunni Midwestern Marx Institute þar sem Carlos er meðstjórnandi en hann starfar að auki sem leiðbeinandi í heimspeki hjá Suður-Illinois Háskóla. Bókin er framhald af fyrri bók hans The Purity Fetish sem kom út í fyrra. 

í bókinni reynir Carlos að greina stöðu sósíalismans í Bandaríkjunum auk þess að tæpa á sósíalískri sögu Bandaríkjanna en Carlos heldur því fram í bókinni að sósíalismi sé best til þess fallinn að raungera þær hugmyndir um frelsi og velmegun sem finna má í sjálfstæðisyfirlýsingu og stjórnarskrá Bandaríkjanna. Carlos er hluti af nýrri hreyfingu ungra kommúnista í Bandaríkjunum sem hafa notið talsverðar eftirtektar á samfélagsmiðlum á síðustu árum.

Eitt af grunnstefjum bókarinnar er að sósíalismi sé ekki til einangraður frá samfélaginu eða „abstrakt“. Hann taki ávalt á sig þjóðlegt form og byggi á sögu og menningu hvers samfélags. Það sé þess vegna ekki hægt að afrita sósíalisma í einu landi yfir á annað land heldur verði hvert samfélag að þróa sinn eiginn sósíalisma.  Fyrir Lenín, Maó, Fídel, og Ho Chi Minh hafi spurning aldrei verið hvort landið þeirra hafi verið nógu hreint til að þar mætti rækta sósíalisma heldur var spurningin „hvernig getum við notað þjóðlegar hefðir rótgrónar í skynsemi og þjóðarsál fólksins til þess að berjast fyrir sósíalisma?“ [1]. Þannig hafi Kínverjar þróað kínverskan marxisma, Latín Ameríkanar þróað latín-amerískan marxisma og þannig verði Bandaríkjamenn að þróa amerískan marxisma* og Íslendingar íslenskan marxisma, ef sósíalismi eigi raunverulega að skjóta rótum á Íslandi.

Nokkur stór hluti bókarinnar fer í að skoða sögu sósíalískra hreyfinga í Bandaríkjunum á fyrri hluta síðustu alda en kommúnistar og sósíalistar voru fyrirferðarmiklir í samfélaginu á þeim tíma og áttu stóran þátt í uppbyggingu verkalýðshreyfingarinnar í landinu. Carlos skoðar einnig aðrar framfarasinnaðar hreyfingar og hugsuði á nítjándu öld sem má telja til einskonar frumsósíalista. Þar má nefna mannfræðinginn Lewis Henry Morgan (sem hafði áhrif á Marx og Engels), landnámsmanninn Roger Williams, auk hugsuðanna Langdon Byllesby, Cornelius Blatchley, William Maclure, og Thomas Skidmore sem á fyrri hluta nítjándu aldar höfðu hafið að þróa sósíalisma á grunni Sjálfstæðisyfirlýsingarinnar. Á tuttugustu öld hafi W.E.B. Dubois risið yfir aðra sósíalista en Carlos telur að bók hans Black Reconstruction þoli samanburð við verk líkt og Critque of Pure Reason eftir Kant, Science of Logic eftir Hegel og Capital eftir Marx. 

Önnur mikilvæg hugmynd sem Carlos fjallar um í bókinni er það sem hann kallar þjóðernisníhilisma vinstrisins í Bandaríkjunum sem hafni í raun eigin sögu og telji Bandaríkin vara ónýtt land byggt á rasisma og nýlendustefnu. Þess vegna þurfi að tortíma Bandaríkjunum og öllu sem landið standi fyrir og byrja frá byrjun. Þessu hafnar Carlos sem bendir á að margt mikilvægt hafi gerst í sögu landsins sem sýni fram á hið gagnstæða þó mörg séu vandamálin og glæpirnir sem Bandaríkin hafi framið í gegnum árin. Þar á meðal nefnir Carlos byltinguna 1776 þegar Bandaríkin börðust fyrir sjálfstæði frá Bretum. Borgarastríðið 1861-1865 sem Du Bois skilgreinir sem byltingu svarts verkafólks til að frelsa sig frá þrælahaldi þess tíma. í þriðja lagi nefnir Carlos Réttindabyltinguna á tuttugustu öld, leidda af Dr. Martin Luther King, sem hafi ekki aðeins verið hreyfing heldur bylting sem hafi komið á „de jure“ jafnrétti fyrir svarta í Bandaríkjunum. Og þó enn lifi í glæðum rasisma í landinu hafi þróunin síðustu áratugi verið töluverð sem sjá megi í því að stærstu mótmæli seinni tíma í Bandaríkjunum hafi blossað upp í kringum Black Lives Matter hreyfinguna. Þetta sýni að rasismi sé ekki lengur fyrirstaða við að sameina verkafólk í baráttunni líkt og áður var.

Í bók sinni frá því í fyrra skilgreinir Carlos það sem hann kallar hreinleikablæti vinstrisins á Vesturlöndum. Hreinleikablætið sé það sem einkenni vinstrið í dag og það taki á sig þrjú form: Í fyrsta lagi telji vinstrið á Vesturlöndum að íhaldssamari hluti verkafólks sé of afturhaldssamur og rasískur svo hægt sé að höfða til þess og skipuleggja. Í stað þess að reyna að ná til þessa hóps verkafólks hafi vinstrið gefist upp og eftirlátið hægrinu atkvæðin eins og má sjá víða í Evrópu í dag og með sigri Trumps árið 2016. Í öðru lagi hafni vinstrið á Vesturlöndum öllum raunverulegum sósíalisma sem til sé í dag (e. Actually existing socialism) og má finna í löndum á borð við Kína, Kúbu, og Víetnam. Þessi lönd séu að sama skapi of afturhaldssöm og óhrein til að hægt sé að styðja þau eða jafnvel að telja þau sósíalísk. Þessu er haldið fram þó þessi samfélög hafi byggst upp undir gríðarlegum þrýstingi og stanslausum árásum heimsvaldastefnunnar sem reyni að drepa allar tilraunir til sósíalisma í fæðingu. Í þriðja lagi telur Carlos að þjóðernisníhilismi vinstrisins sé form hreinleikablætisins sem leiði vinstrið á Vesturlöndum til þess að hafna eigin sögu. 

Carlos telur að jarðvegurinn í Bandaríkjunum í dag sé frjór fyrir byltingu en að það sem standi í vegi sé skortur á kommúnistaflokki sem geti látið til sín taka. Traust á stjórnvöldum og fjölmiðlum sé lítið sem ekkert í sögulegu samhengi og ójöfnuður og fátækt fari sívaxandi.

Fyrir okkur á Íslandi er áhugavert að bera þetta saman en að mörgu leyti er staðan ekki ósvipuð hjá íslensku verkafólki þó ójöfnuðurinn sé ekki eins gríðarlegur enn sem komið er. Eins er nauðsynlegt fyrir Íslenska sósíalista að greina ástandið betur og skoða að hvaða leiti þjóðernisníhilismi hafi skotið rótum hér. Margir Íslendingar telja að sjálfstæðistilraunin hafi mistekist og það sé best að ganga í Evrópusambandið. Íslendingar séu of spilltir til að ráða sér sjálfir. Það er skoðun sem margir innan vinstrisins og millistéttarinnar hafa tileinkað sér. Ef við hlustum á ráðleggirngar Carlosar og ef Íslenskir sósíalistar ætla að láta til sín taka á næstu áratugum ætti fyrsta skrefið að vera þróun Íslensks marxisma. 

*Carlos notar orðið „Ameríka“ um Bandarísk samfélag því það sé það orðalag sem almennt sé notað. Verkafólk þar í landi líti á sig sem Ameríkana og það geri í raun hreyfing innfæddra líka sem kalli samtök sín The American Indian Movement svo dæmi sé nefnt.

Tilvísanir:

1. Ernesto Guevara, Che Guevara Reader (New York: Ocean Press, 2003)