Hvers vegna stangast á orð og gerðir í loftslagsmálum?

14. desember, 2018 Þorvaldur Þorvaldsson


Undanfarið hafa leiðtogar fjölmargra ríkja komið saman í Katowice í Póllandi til að ræða um útfærslu Parísarsamningsins um takmörkun losunar gróðurhúsalofttegunda. Það sem við vð blasir er gamalt stef. Þrátt fyrir mikil fyrirheit og háttstemmdar ræður í París fyrir þremur árum hafa áformin ekki gengið eftir. Á síðasta ári varð umtalsverð aukning losunar koltvísýrings eftir tímabundna kyrrstöðu, en eina tímabil samdráttar í losun var í rétt í kjölfar fjármálakreppunnar fyrir áratug. Það þrengist því óðum um möguleikana á að halda hnattrænni hlýnun innan 2 gráða á þessari öld, hvað þá 1,5 gráða eins og bjartsýn áform gera ráð fyrir.

Við hverju má búast?

Ráðamenn halda kunnuglegar ræður um að ekki sé nóg að gert og gera þurfi mun betur. Eflaust eru kynntar til sögunnar ýmsar tæknilegar lausnir á bættri orkunýtingu, vinnslu orku úr vatni, vindi og sólarljósi og fleiri tæknilausnir, bæði ónothæfar en einnig ýmsar, sem gætu stuðlað að samdrætti losunar ef …

Vandinn er bara sá að ríkisstjórnir allra þessara landa eru að fást við önnur verkefni, sem snúa að því að láta auðvaldskerfið ganga áfram á sínum kapítalísku markaðsforsendum. Auðmenn verða að finna fjárfestingarkosti, sem gefa þeim gróða til að skapa störf svo ekki verði atvinnuleysi og hörmungar. Og til að þetta gangi verða fjárfestarnir að fá sitt til baka með hagnaði, þ.e. meðan kapítalisminn ræður ríkjum.

Hagvöxtur og loftslagsbreytingar.

Það er bein fylgni milli hagvaxtar og losunar koldíoxíðs. Ýmsar tæknilegar lausnir hafa verið viðraðar til að stemma stigu við losun, og vísað til þess að markaðurinn muni greiða þeim leið. En þó að eitthvað af þessum tæknilausnum skili nokkrum árangri, þá lítur auðvaldið bara á það sem svigrúm til meiri losunar annars staðar. Á meðan ráðamenn tala fjálglega um að stemma stigu við loftslagavandanum er miklu meiri þungi bak við frelsi auðvaldsins til flutninga á vörum fram og til baka heimshorna á milli, í stað þess að leggja áherslu á að samfélagið sé meira sjálfu sér nægt.

Hér á landi er nýkomin út aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Þar er ekki talað um að draga saman hagkerfið til að vinna á loftslagsvandanum. Þvert á móti er ljóst að stjórnvöld munu beita sér snarlega gegn samdrætti ferðaiðnaðarins, sem er mjög mengandi. En kolefnislosun af millilandaflugi skrifast ekki á reikning ákveðins ríkis og óljóst hvernig hún verður meðhöndluð. En ætli hún valdi ekki loftslagsbreytingum samt? Stóriðjan er líka fyrir utan ábyrgð ríkisins og er hluti af evrópsku viðskiptakerfi. Ekki er komin reynsla á hvernig það þróast, enda hefur iðnaður veriði fluttur í stórum stíl, mest til Asíu undanfarna áratugi, og losunin hefur verið flutt með. En hún heldur samt áfram að valda loftslagsbreytingum.

Nýlega kom fram að hagvöxtur á Íslandi hafi verið 5% á fyrstu 9 mánuðum þessa árs. Það kallar líklega á rúmlega 4% aukna neyslu og kolefnissporið að sama skapi. Það er ekki nóg að kynna til sögunnar nýja tækni, sem lausn á loftslagsvandanum. Það þarf samdrátt í neyslu, sem aftur krefst aukins jafnaðar. Aukinn jöfnuður verður ekki til lengdar nema með umfangsmikilli félagsvæðingu í hagkerfinu.

Ógn við framtíð siðmenningar.

Það er ekki nóg að tala almennum orðum um vilja til að draga úr losun koltvísýrings, en vinna svo að því daglega að viðhalda því kerfi, sem óumflýjanlega eykur losun. Það gagnar heldur ekkert að nefna það í hálfkæringi að kapítalisminn sé nú bara svona, og drepa því svo á dreif.

Þetta er alvörumál, sem ógnar framtíð siðmenningar á jörðinni og það er skammur tími til stefnu. Það er því tími til kominn að þeir, sem vilja láta taka sig alvarlega sem umhverfissinna, horfist í augu við staðreyndir og komi út úr skápnum til baráttu gegn auðvaldskerfinu. Það er lykilatriði til að mögulega verði hægt að vinda ofan af loftslagsvandanum.