Hvers má vænta í komandi kreppu?

9. nóvember, 2020 Þorvaldur Þorvaldsson



Þegar Covid-19 faraldurinn breiddist út um heiminn snemma á þessu ári varð fljótt ljóst að mikil kreppa var í uppsiglingu. Ferðabransinn þurrkaðist nánast út, truflun hefur víða orðið á ýmissi framleiðslu og þjónustu vegna sóttvarnaraðgerða og ýmis vítahringsáhrif hafa orsakað vaxandi atvinnuleysi og fátækt.

Viðbrögð stjórnvalda einkenndust af því að fylgja ráðum sérfræðinga í sótvarnarmálum og lofa efnahagslegum mótvægisaðgerðum til að bæta tekjutap vegna lokana af völdum farsóttarinnar. Höfðað var til samstöðu gegn utanaðkomandi ógn og framan af töluðu flestir um að vera tilbúin að taka upp þráðinn að áliðnu sumri og allt færi í samt lag.

Smám saman hefur komið í ljós að heimsfaraldurinn er langdregnari en reiknað var með og kannski ekki eins stutt í bóluefni eins og vænst hafði verið. Líklega er enn langt í land að honum linni. Þrátt fyrir endurnýjuð áform um frekari stuðning við fyrirtæki er líklegt að hann hrökkvi skammt fyrir mörg þeirra. Atvinnuleysi nálgast nú 10% og búist er við að það aukist enn talsvert fram á næsta ár. Ekki er heldur séð fyrir hvernig stuðningsaðgerðir nýtast. Aðgerðirnar í vor, sem fólust m.a. í greiðslu launa á uppsagnarfresti úr ríkissjóði runnu að verulegu leyti til eins fyrirtækis, Icelandair, sem hefur komið fram af miklum hroka og lögleysu við sitt fyrrum starfsfólk.


Samanburður við „Hrunið“

Það er freistandi að bera aðstæður núna saman við þær sem voru uppi fyrir rúmum áratug. Þó að vissir þættir séu sameiginlegir flestum kreppum, hefur hver kreppa sín séreinkenni. Fyrir áratug var skuldavandi heimilanna mest aðkallandi. Þá vildu stjórnvöld ekki grípa inn í til að bjarga alþýðuheimilum. Verðbólga og vextir fóru í tveggja stafa tölur og á fáum misserum voru um tíu þúsund fjölskyldur reknar út á götu. Fyrirtæki og fjárfestar fengu hins vegar niðurfelldar skuldir upp á þúsundir milljarða. Fjárfestar fengu kjörin tækifæri til að fjárfesta í íbúðum sem teknar voru af alþýðufólki í þúsundavís og leigja þær út fyrir ört hækkandi verð. Almenningur var hins vegar hindraður í að kaupa sér húsnæði með ströngu greiðslumati.

Þessi saga er enn sem fleinn í holdi þjóðarinnar og hugsanlegt að það hafi einhver áhrif á komandi aðgerðir. Þannig er látið í veðri vaka að tekjufallsstyrkir verði fyrst og fremst ætlaðir fyrir lítil fyrirtæki. Tilhneigingin er hins vegar oft sú að, þegar á reynir, finni stærri aðilar sér leið til að koma ár sinni fyrir borð. Nú eru einnig boðaðir viðspyrnustyrkir eftir áramótin til að koma atvinnulífinu aftur á skrið. Það er sláandi að bera tregðuna til að koma almenningi til bjargar eftir hrun og beina hjálp við fjárfesta til að nýta sér neyð fólksins, saman við viljann til að koma fyrirtækjum til hjálpar nú þegar kreppan bitnar beint á þeim.

Útilokað er að sjá fyrir hvernig gengur að endurreisa efnahagslífið, þrátt fyrir styrki. Ferðaþjónustan er sú grein sem langverst hefur orðið úti. Jafnvel þó hún byrji að rétta úr kútnum þegar líður á næsta ár, er ólíklegt að hún verði nema lítill hluti af því sem hún hefur verið undanfarin ár. Auk þess er óljóst hvort hegðunarmynstur almennings breytist það mikið í kjölfar farsóttarinnar að eftirspurn eftir þjónustu breytist varanlega á ýmsum sviðum. Þá getur samdrátturinn náð til fleiri greina vegna peningaleysis og vítahringsáhrifa.


Atvinnuleysi – atvinnuleysisbætur

Ef atvinnuleysið eykst frekar og dregst á langinn hlýtur sú krafa að liggja beint við að verkalýðssamtökin krefjist hækkunar atvinnuleysisbóta þar sem fleiri þurfa að reiða sig á þær til lengri tíma, en ekki bara sem millibilsástand. Þá kemur upp spurningin hvort leggja eigi áherslu á almenna hækkun eða aukna tekjutengingu. Fólk með hærri tekjur mun eflaust krefjast þess að tekjutenging nái til lengri tíma og hámarksbætur verði hækkaðar. Þó hlýtur að teljast meiri sanngirni og réttlæti að sameiginlegum fjármunum verði frekar varið til að hækka lágmarksbætur, sem ná til allra. Það ættu verkalýðssamtökin að setja á oddinn.

Fjármalaráðherra hefur tekið mjög illa í að hækka atvinnuleysisbætur, sérstaklega almenna hækkun. Þar hefur kveðið við gamalkunnugt stef, sem byggist á þeim fordómum að hærri bætur letji til vinnu. Þetta hefur m.a. komið fram í viðtölum við fjármálaráðherra. Það er ótrúleg hræsni að þeir sömu sem halda því fram að þörf sé á að svelta verkafólk til að það fáist til að vinna, halda því gjarnan á lofti að mikilvægt sé að ausa fé í auðmenn og fjárfesta til þess að þeir geri það sem vænst er, að fjárfesta og skapa störf.


Forsendur endurreisnar

Nú stendur samfélagið frammi fyrir því að komast gegnum farsóttina með lágmarksáföllum. Það verður ekki auðvelt. Þetta getur orðið langdregin marglaga kreppa, menningarleg, félagsleg, sálræn og ekki síst efnahagsleg. Eitt af því sem á við um allar efnahagskreppur í kapítalismanum er það að þeir ríkustu neyta allra bragða til að hagnast á kreppunni. Það á ekki bara við um þá sem höndla með lækningavörur og annað sem tengist farsóttinni. Mörg fyrirtæki verða gjaldþrota á næstu misserum og einhverjir munu hagnast á því. Einnig verða eignir seldar frá opinberum aðilum til einkaaðila undir því yfirskyni að borga þurfi kreppuskuldir. Það á t.d. við um sölu Hafnarfjarðarbæjar á hlut sínum í HS-orku.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra hefur í viðtölum kveðið skýrt á um að efnahagsleg endurreisn verði að vera á forsendum einkarekstrar. Það veit ekki á gott og þýðir væntanlega að mikill pilsfaldakapítalismi er framundan, þar sem miklir fjármunir fara úr sameiginlegum sjóðum í einkarekstur á sama tíma og samþjöppun fjármagns er líkleg í kjölfar kreppunnar.

Eina leiðin til að draga úr ójöfnuði, fátækt og öðrum afleiðingum kreppunnar er að beina sem mestu af samfélagslegu kapítali í félagslegar fjárfestingar. Efling innviða samfélagsins og markviss félagsvæðing er eina leiðin til að tryggja félagslegan stöðugleika, örugga framfærslu allra og aukinn jöfnuð. Allt tal um að í kjölfar kreppunnar þurfi að endurhugsa samfélagið, er innantómt nema átt sé við veikingu eða uppgjör við kapítalismann og markaðsvæðinguna. Reynslan af hruninu staðfestir það.

Þessi kreppa hefur reynt á þolrifin og svo getur orðið talsvert enn. Þegar fjárhagsáhyggjur leggjast saman við félagslega einangrun, menningarmál í upplausn og óvissu um framtíðina er eðlilegt að mörgum fallist hendur og hugsi hvort hér séu endalok heimsins eins og við höfum þekkt hann.

Leiðin fram á við fyrir alþýðuna liggur gegnum samstöðu um þær kröfur sem geta bætt hennar hlut, bæði í lengd og bráð. Aukinn jöfnuður með framfærslöryggi fyrir alla og átak í félagslegri atvinnuuppbyggingu og eflingu innviða.


Þorvaldur Þorvaldsson.