Hvernig Trump gæti frelsað Evrópu. Einangrunarstefna hans er tækifæri
—
Versta martröð ESB hefur ræst: Donald Trump snýr aftur í Hvíta húsið. Það er ekki erfitt að ímynda sér skelfinguna sem margir leiðtogar hljóta að finna fyrir þegar þeir koma saman í Búdapest til leiðtogafundar Evrópusambandsins [7. nóv]. Flestir þeirra hafa á síðustu fjórum árum grafið undan heildarhagsmunum ESB með því að samsama sig í undirgefni hinni óhugnalegu utanríkisstefnu Bidens-stjórnarinnar , allt frá Kína til Gaza. Niðurstaðan? Evrópa er í dag pólitískt, efnahagslega og hernaðarlega meiri lénsmaður Bandaríkjanna en nokkru sinni frá 1945.
Það sem meira er, evrópska elítan hefur leyft sér að láta Washington draga sig út í hörmulegt staðgengilsstríð gegn Rússum í Úkraínu og dæmt íbúa sína til að taka þátt í hruni atvinnulífsins og hækkandi verðlagi. Það er jafnvel á sama tíma og átökin í Austur-Evrópu gera álfuna berskjaldaða fyrir fordæmalausri hernaðarlegri hættu, þar á meðal raunverulegum möguleika á kjarnorkustríði. En þrátt fyrir allar þessar fórnir, allan þennan ákafa í að hlýða boðum Pentagon, þýða einangrunartilhneigingar Trumps það að allt þetta gæti að lokum reynst hafa verið til einskis.
Undanfarin ár hafa leiðtogar ESB rammað alla utanríkisstefnu sína inn í bandarískt samhengi. Útþenslustefna NATOríkjanna, efnahagsleg aftenging við Rússland, stuðningur við stefnuna um „sigur Úkraínu“ hvað sem það kostar – hefur hvert um sig verið réttlætt í nafni þess að varðveita hið hernaðarlega bandalag yfir Atlantshafið, jafnvel á kostnað raunverulegra hagsmuna Evrópu. Undir stjórn Bidens þýddi það að taka upp dagskrá stríðshaukanna sem grundvallaðist á því að ráðast af hörku gegn öllum áskorunum við yfirráð Bandaríkjanna, og það allt sagt vera hluti af tilvistarlegri baráttu lýðræðis gegn harðstjórn (alræði).
En með Trump aftur við stjórnvölinn og líklega einangrunarstefnu í stjórn hans er hætta á að allar þessar fórnir séu unnar fyrir gíg. Þótt ólíklegt sé að hinn kjörni forseti segi alfarið skilið við NATÓ hefur hann sett fram gagnrýni á bandalagið í kosningabaráttu sinni. Þar hefur hann meðal annars gagnrýnt Evrópuríki fyrir að ná ekki markmiðum um útgjöld til varnarmála og jafnvel gefið í skyn að Bandaríkin myndu ekki vernda NATO-lönd ef þau stæðu sig ekki m.t.t. hernaðarútgjalda.
Það er auðséð hvers vegna þessi framtíðarsýn vekur ugg hjá ESB-stofnuninni. Um langt árabil hefur hún stutt „gagnkvæmt styrkjandi hlutverk“ NATO og Evrópusambandsins, bæði sem virki gegn Rússlandi og til að tryggja yfirráð Vesturlanda á heimsvísu. Veikari skuldbinding Bandaríkjanna gagnvart NATO ógnar því grunnstoðum nýfundinnar hugmyndafræðilegrar sjálfskenndar ESB: framlengingu á bandarísku regnhlífinni. Ekki er síður mikilvægt að hugsanlegt brotthvarf bandarískra vopna og reiðufjár frá Kænugarði myndi hamla verulega getu ESB til að halda áfram staðgengilsstríðinu í Úkraínu á eigin spýtur, sérstaklega í ljósi þröngra fjármála og þunglamalegs her-iðnaðarbatterís í mörgum aðildarríkjum. Sjálfur hefur Trump bent í þessa átt og gagnrýnt Volodymyr Zelenskyy fyrir að hafa átt upptökin að stríðinu við Pútín.
Líklegra að Trump vopni Kív áfram en láti Evrópu borga
Trump hefur jafnvel gefið í skyn að hann gæti einhliða gert vopnahlé og friðarsamning milli Rússlands og Úkraínu. Það er ólíklegt að það gerist: Rússar, sem eru sigurvegarar á vígvellinum, munu knýja fram það harða samninga að jafnvel Trump gæti átt í erfiðleikum með að sætta sig við þá. Líklegri niðurstaða er því sú að ný ríkisstjórn repúblikana muni halda áfram að afhenda vopn til Kænugarðs en biðja Evrópu um að greiða reikninginn – ástand sem myndi gera það að verkum að átökin myndu halda áfram, jafnvel þegar Evrópa yrði fátækari. Þrátt fyrir að jafnvel vestrænir fjölmiðlar viðurkenni nú að stríðið í Úkraínu sé tapað.
Ef til vill væri hægt að komast hjá þessari niðurstöðu: ef leiðtogar Evrópuríkja hefðu skilið að það samræmdist grundvallarhagsmunum og öryggishagsmunum álfunnar að binda enda á stríðið í Úkraínu og koma á eðlilegum samskiptum við Rússland. Ef þeir væru klókir myndu þeir jafnvel grípa á lofti eðlislæga einangrunarstefnu Trumps og sjálfir knýja fram samninga [við Rússland].
En í ljósi þess að þetta myndi skylda elítu Evrópuríkja til að snúa algerlega við stefnu sinni gagnvart Úkraínu – og viðurkenna þar með eigin mistök – er það ólíkleg niðurstaða. Þetta er þeim mun sannara þegar haft er í huga að slík umskipti myndu skylda Evrópubúa til að taka loks öryggissjónarmið Rússa alvarlega, en það myndi umsvifalaust grafa undan þeirri Moskvu-fjandsamlegu frásögn sem þeir hafa haldið uppi um árabil. Í ljósi þess mikla efnahagslega sársauka sem afstaða ESB til Úkraínu hefur valdið venjulegum Evrópubúum, myndi pólitískt bakslag sem af þessu leiddi augljóslega vera mjög skaðlegt fyrir ríkjandi valdaflokka.
En fyrir utan þessar skammtímaáhyggjur liggja dýpri geopólitískar vangaveltur. Í fyrsta lagi myndi það þvinga leiðtoga Evrópuríkja til að viðurkenna loks þá fjölpóla skipan sem nú gerir sig gildandi um allan heim, veruleika þar sem frjáls og sjálfstæð Evrópa gæti virkað sem brú milli Vesturlanda og nýrra evrasískra stórvelda á nýrri öld. Í öðru lagi myndi það þvinga þá til að átta sig á því að framtíð þeirra felst í því að losna undan stjórn Washingtons og hafna örvæntingarfullum tilraunum þess síðarnefnda til að viðhalda völdum sínum.
Einangrunastefna Trumps sem tækifæri
En ef litið er á hina vaxandi einangrunarhyggju Trumps sem tækifæri en ekki ógn, þá er ekki von á svo dramatískri endurstillingu: að minnsta kosti ekki um hríð. Flestir leiðtogar ESB eru of bundnir við Atlantshafsbandalagið – hugmyndafræðilega, sálfræðilega og efnislega – til að sleppa alveg, óháð því hver situr í Hvíta húsinu. Þess vegna deili ég ekki bjartsýni þeirra sem halda því fram að áhersla Trumps á „Bandaríkin fyrst“ muni ýta ESB til að sækjast eftir auknu sjálfstæði í hernaðarlegu tilliti. Hvað sem öðru líður, svo lengi sem fólk eins og Ursula von der Leyen stjórnar valdastöðum í Brussel, væri „evrópskt NATÓ“ líklega enn harðara í garð Rússlands en Biden-stjórnin.
Jafnframt er varla við því að búast að Trump myndi glaður „sleppa“ Evrópu, þrátt fyrir einangrunarhljóðið í honum. Orðum það þannig: að Trump vilji að Evrópa borgi fyrir eigin varnir þýðir ekki að hann styðji geópólitískt sterkari heimsálfu. Horfum bara á þá viðleitni sem ríkisstjórn hans lagði á sig til að stöðva lagningu Nord Stream-leiðslunnar. Öll skref í átt að auknu sjálfstæði Evrópu í hernaðarlegu tilliti myndu því óhjákvæmilega framkalla bakslag frá Bandaríkjunum. Það er óhætt að segja að slík áætlun útheimti staðfestu, framtíðarýn og vitsmunalega færni – engu slíku er beinlínis til að dreifa meðal stjórnmálastétta Evrópu.
Til skamms tíma litið er líklegast að leiðtogar ESB-ríkjanna reyni að aðlaga sig forsetatíð Trumps og forðast vandræðaleg átök. Tónninn kann að verða annar, en búast má við að Evrópubúar haldi áfram að sætta sig við undirskipun gagnvart bandarískum hagsmunum.
Erfiðara er að spá fyrir um langtímaáhrif sigurs Trumps á evrópska stjórnmál. Sigur hans mun eflaust hvetja og uppörva leiðtoga hægri popúlista í álfunni, allt frá Viktor Orbán í Ungverjalandi til Giorgiu Meloni á Ítalíu. Það getur síðan veikt meginstraumsflokkana enn frekar og að lokum hraðað endurskipulagningu álfunnar. Til að hafa það á hreinu: Þetta hefur ekki tafarlaus pólitísk áhrif, sérstaklega í ljósi þess að evrópskir popúlistar hafa innbyrðis ólíka stefnu gagnvart Úkraínu og í öðrum utanríkismálum.
Til lengri tíma litið gæti efling þjóðernissinnaðrar íhaldssemi á Vesturlöndum þó haft umtalsverðar landfræðipólitískar afleiðingar. Í fyrsta lagi: höfnun Rússlands á óhófi frjálslyndisstefnunnar gerir það að „náttúrulegum“ bandamanni vestrænna íhaldsmanna, einkum í heimi þar sem hugmyndafræðin er í auknum mæli sett fram sem „þjóðernissinnuð“ í stað „alheims-hnattvæðingarsinnaðrar“ íhaldsstefnu. Enn fremur, að því marki sem íhaldsmenn hafna framsækinni algildishyggju [progressive universalism] heima fyrir og halda á loft menningarlegri sérstöðu landa sinna, ættu þeir einnig að vera andsnúnir sömu hugmyndum á alþjóðavettvangi. Það væri því vissulega skynsamlegt að styðja tilraunir Kína, Rússlands og annarra BRICS-þjóða til að efla virðingu fyrir sérstöðu og hefðbundnum gildum allra þjóða, en um leið hafna ESB og þeirri frjálslyndu algildishyggju sem það stendur fyrir. Í þeim skilningi gæti Trump óafvitandi reynst mikilvægur, bandamaður í tilraunum BRICS til að byggja upp „íhaldssamari“ heimsskipan. Það er líklega það sem tækni-hnattvætt valdakerfi ESB ætti að óttast meira en nokkuð annað.
Grein þessi birtist á vefritinu UnHerd 7. nóvember. Thomas Fazi er ítalskur blaðamaður, rithöfundur og sósíalisti. Hefur m.a. skrifað bækurnar The Battle for Europe: How an Elite Hijacked a Continent og Reclaiming the State: A Progressive Vision of Sovereignty for a Post-Neoliberal World