Hvað stendur í ályktun SÞ og breytingartillögu Kanada?

30. október, 2023 Einar Ólafsson

Föstudaginn 27. október samþykkti neyðarfundur Sameinuðu þjóðanna (Tenth Emergency Special Session) ályktun sem varðaði ástandið á Gasa og sneri að verndun almennra borgara og lagalegum og mannúðlegar skyldum (Protection of civilians and upholding legal and humanitarian obligations). Ályktunin var samþykkt með 120 atkvæðum gegn 14 en 44 ríki sátu, þar á meðal Ísland. Samdægurs birtist frétt um þetta á vef utanríkisráðuneytisins og er þar vísað til vísað til atkvæðaskýringar Íslands. Hér má finna ályktun Allsherjarþingsins (document A/ES-10/L.25) og breytingartillögu Kanada (document A/ES-10/L.26).

Í frétt utanríkisráðuneytisins segir: „Því miður reyndist ómögulegt að ná samstöðu um texta ályktunarinnar sem tók ekki til grimmdarverka Hamas og tók ekki með beinum hætti á gíslatöku Hamas, en yfir 200 manns eru enn í haldi, þar af 30 börn. Kanada lagði fram breytingartillögu þar að lútandi í þeirri von að ályktunin myndi spegla allar hliðar málsins.“

Í atkvæðaskýringunni er sagt að Ísland hafi stutt breytingartillögu Kanada „sem hefði bætt við mjög nauðsynlegu samhengi og jafnvægi í ályktunina“ (which would have added a much-needed context and balance to the resolution).

Breytingartillaga Kanada fólst í að við ályktunina bættist svohljóðandi grein:

[Allsherjarþingið] mótmælir og fordæmir eindregið hryðjuverkaárásum Hamas, sem áttu sér stað í Ísrael og hófust 7. október 2023, og gíslatökum, krefst öryggis, velferðar og mannúðlegrar meðhöndlunar gíslanna samkvæmt alþjóðalögum og krefst þess að þeir verði tafarlaust og skilyrðislaust látnir lausir.

(Unequivocally rejects and condemns the terrorist attacks by Hamas that took place in Israel starting on 7 October 2023 and the taking of hostages, demands the safety, well-being and humane treatment of the hostages in compliance with international law, and calls for their immediate and unconditional release)

En hvernig var ályktunartillagan?

Hún er talsvert löng í fjórtán greinum ásamt þrettán inngangsmálsgreinum. Hér verður því aðeins gerð grein fyrir meginefni hennar.

Í ályktuninni er lýst áhyggjum af vaxandi ofbeldi eftir árásirnar 7. október og alvarlegri stigmögnun ástandsins á svæðinu, einkum á Gasa-svæðinu og annars staðar á hinu hernumda palestínska svæði sem og í Ísrael. Ofbeldi gagnvart palestínskum og ísraelskum borgurum er fordæmt, þar á meðal öll hryðjuverkastarfsemi, ögranir og eyðilegging. Kallað er eftir vernd óbreyttra borgara samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum og óháðum rannsóknum þar að lútandi. Lýst er miklum áhyggjum af skelfilegu ástandi á Gasa-svæðinu hjá almennum borgurum og ekki síst börnum. Stuðningi er lýst við ákall aðalritara Sameinuðu þjóðanna að brugðist verði við grundvallarþörfum almennra palestínskra borgara á Gasasvæðinu.

Þetta er samantekt af inngangsgreinum ályktunarinnar.

Í þeim fjórtán greinum sem síðan fylgja er þetta helst:

Kallað er eftir að skipun Ísraels um að palestínskir borgarar og starfsmenn Sameinuðu þjóðanna og aðrir hjálparstarfsmenn hverfi frá norðurhluta Gasa-svæðisins til suðurhlutans verði afturkölluð. Kallað er eftir að borgurum, sem er haldið föngnum, verði tafarlaust og skilyrðislaust sleppt. Krafist er að allir aðilar fari nú þegar og algerlega eftir skyldum þeirra við alþjóðalög, sérstaklega hvað varðar vernd almennra borgara og hjálparstarfsmenn og aðgengi að nauðsynjum og nauðsynlegri þjónustu á Gasa-svæðinu. Þessi krafa er síðan áréttuð í einstökum atriðum, sem er reyndar meginefni ályktunarinnar. Ítrekað er að þessari kröfu sé beint til allra aðila.

Loks er áréttað að endanleg lausn á átökunum milli Ísraels og Palestínu verði einungis náð á friðsamlegan hátt sem byggist á ályktunum Sameinuðu þjóðanna í samræmi að alþjóðalög og á grundvelli tveggjaríkja-lausnarinnar.

Af þessu sést að ályktunin snýr eingöngu að núverandi ástandi og hvað þarf að gera hér og nú. Í henni er enginn einhliða fordæming. Eina fordæmingin kemur fram í því að ofbeldi gagnvart palestínskum og ísraelskum borgurum er fordæmt, þar á meðal öll hryðjuverkastarfsemi, ögranir og eyðilegging (Condemning all acts of violence aimed at Palestinian and Israeli civilians, including all acts of terrorism and indiscriminate attacks, as well as all acts of provocation, incitement and destruction) (7. málsgrein í inngangi).

Af þessu sést að breytingartillaga Kanada er algerlega út í hött, með henni átti að fordæma einhliða hryðjuverkaárásir Hamas meðan í ályktuninni kemur í raun hvergi fram önnur fordæming en á ofbeldi gagnvart palestínskum og ísraelskum borgurum. Sú viðbót hefði einmitt raskað öllu jafnvægi í ályktuninni öfugt við það sem utanríkisráðuneyti Íslands segir.

Breytingartillagan er augljóslega lögð fram til að raska þessu jafnvægi og um leið gefa ríkjum hlýðnum Bandaríkjunum ástæðu til að greiða atkvæði gen henni eða sitja hjá.

Þá er líka vert að benda á að utanríkisráðuneytið segir að ályktunin hafi ekki verið tekið með beinum hætti á gíslatöku Hamas. Það er á vissan hátt rétt, en í ályktuninni er þó kallað er eftir að borgurum, sem er haldið föngnum, verði tafarlaust og skilyrðislaust sleppt. Það orðalag er í rauninni alveg í samræmi við anda ályktunarinnar sem ekki felst í fordæmingum heldur ákalli um að brugðist sé við því ástandi sem nú er á Gasa. Utanríkisráðherra eða ráðgjafar hans hafa bersýnilega ekki skilið þann anda, eða ekki viljað skilja hann.