"Höfð að háði og spotti"

4. desember, 2020 Björgvin Leifsson



Við skulum hins velta aðeins fyrir okkur afleiðingum þess að loka landinu alfarið í marga mánuði, jafnvel heilt ár, og fullyrðingu Ingu Sæland, alþingismanns, um að þannig hefði verið komið veg fyrir í eitt skipti fyrir öll að kórónuveiran hefði getað borist til landsins.

Ofangreinda fyrirsögn mátti lesa á mbl.is í síðustu viku. Þar fullyrðir Inga Sæland, alþingismaður, að hefði hún mátt ráða hefði hún lokað landamærum Íslands í upphafi kórónaveirufaraldursins og þannig komið í veg fyrir að veiran hefði nokkurn tíma getað borist til landsins. Kvartar hún yfir því að í stað þess að fara eftir ráðleggingum hennar hafi hún verið "höfð að háði og spotti" og jafnvel "tekinn fyrir í Kastljósi allra landsmanna og sallaður þar niður eins og hálfgerður bjáni".

Nú sá ég ekki umræðuna á alþingi. Ég horfði hins vegar á viðkomandi Kastljóssþátt og fæ ekki með nokkru móti séð að þáttastjórnandinn hafi gert annað en að reyna að fá alþingismanninn til að svara sjálfsögðum spurningum en hún farið undan í flæmingi.

Við skulum hins velta aðeins fyrir okkur afleiðingum þess að loka landinu alfarið í marga mánuði, jafnvel heilt ár, og fullyrðingu alþingismannsins um að þannig hefði verið komið veg fyrir í eitt skipti fyrir öll að veiran hefði getað borist til landsins.

Það má þá byrja á íslenskum ferðamönnum, sem voru erlendis í upphafi faraldursins, til dæmis þeim sem voru á himum alræmdu skíðasvæðum í ítölsku og ekki síður austurrísku Ölpunum. Átti þá ekki að hleypa þeim heim? Hver hefði þá átt að borga læknis- og hugsanlega sjúkrahússkostnað fyrir þá sem sýktust af veirunni? Líklega voru ekki allir með virkt sjúkratryggingakort og þau eiga það líka til að renna út. Sömuleiðis verður að spyrja hver hefði átt að greiða fyrir uppihald alls þessa fólks í allan þennan tíma. Ég fæ ekki betur séð en að íslenska ríkið hefði orðið að taka það að sér.

Fullkomin lokun landamæra þýðir að enginn kemur til landsins – en engum er heldur hleypt út úr landinu. Þetta þýðir að allt flug og allar skipaferðir hefðu lagst af – og svo væri enn. Þar með hefði allur inn- og útflutningur stöðvast, þ.m.t. á matvælum, lyfjum, íslenskum afurðum o.s.frv. Líklega hefði þetta haft meiri áhrif á efnahag landsins en áhrif veirunnar sjálfrar.

Gott og vel, setjum sem svo að fragtflutningar í lofti og á láði hefðu verið leyfðir. Þá eru komin á einhver lágmarkssamskipti á flugvöllum og í höfnum (t.d. hafnsögumenn) og þar með búið að opna á mögulegar leiðir veirunnar inn í landið. Þá má ekki gleyma því að veiran getur haldið virkni sinni (ég segi ekki "lifað" því að veirur eru strangt tekið ekki lifandi) á yfirborði hluta í nokkra daga, svo sem hluta í millilandafragt, og eykur það enn fremur á líkur þess að veiran geti borist á milli.

Fleira mætti tína til en ég læt þetta duga. Fullkomin lokun ytri landamæra Íslands er galin hugmynd og hefði aldrei gengið upp.

Merki