Heimssögulegur dagur – 14. júlí
—
Í dag eru 230 ár liðin frá frönsku byltingunni. Þjóðhátíðardag Frakka, 14. júlí (Bastille-daginn), þjóðsönginn (la Marseillaise) og þjóðfánann þrílita (bláan, hvítan og rauðan) má rekja til frönsku byltingarinnar 1789–1794.
Marat greinir stéttareðli byltingarinnar
„Þegar uppreisnin var í algleymingi ruddi fjöldinn sérhverri hindrun úr vegi. En þótt afl alþýðu væri í upphafi mikið var hún að lokum svikin af lævísum burgeisum, sem voru uppfullir af svikum og prettum. Hinir menntuðu og tungulipru svikarar voru í byrjun andsnúnir harðstjórunum en snerust síðan gegn alþýðu, svikust aftan að henni notfærðu sér mátt hennar og létu hana lyfta sér í valdastól fyrrverandi harðstjóra. Þeir sem gerðu byltinguna og héldu henni til streitu voru lægstu stéttir þjóðfélagsins – daglaunamenn, handverksmenn, smábúðaeigendur og leiguliðar, lýðurinn – þeir ólánsömu menn, sem blygðunarlausir ríkisbubbar kalla canailles (hunda) og Rómverjar nefndu af óskammfeilni próletara (eiginlega þeir sem vinna ríkinu ekkert gagn nema að eiga börn). En hástéttirnar hafa alltaf leynt því að byltingin hefur eingöngu komið landeigendum, lögmönnum og bröskurum til góða“.
Þannig lýsti læknirinn Jean Paul Marat, talsmaður hins fátæka vinnulýðs í Frakklandi, því sem gerðist í frönsku stjórnarbyltingunni. Þetta var rétt og sönn mynd af byltingunni, því þegar henni lauk hafði borgarastéttin náð pólitískum og efnahagslegum völdum í Frakklandi. Forréttindum erfðastéttanna hafði verið kollvarpað en forréttindum auðsins komið á. M.ö.o. byltingin var háborgaraleg, enda óhugsandi að hún hæfist meðal lágstéttanna. Óbreyttir verkamenn sem sáu ekki út fyrir verkahring sinn voru ófærir um að hrinda henni í framkvæmd, hvað þá heldur að stjórna henni. Þeir kvörtuðu að vísu yfir lágum launum og vaxandi dýrtíð og áttu það til að stofna til uppþota, en þegar hér var komið höfðu þeir ekki öðlast vitund um að þeir væru stétt út af fyrir sig. Eymdin veldur stundum uppþotum, en hún getur ekki vakið meiri háttar þjóðfélagsbyltingar. Þær spretta ávallt af misvægi milli stétta. Byltingin braust samt ekki út í örsnauðu landi, eins og einhver kynni að halda, heldur í nokkuð blómlegu ríki þótt tómahljóð væri í ríkiskassanum. Marat (1743–1793) var auðvitað ekki marxisti, enda myrtur aldarfjórðungi fyrir fæðingu Karls Marx (1818–1883). Samt gæti hver marxisti verið fullsæmdur af skilningi Marats á byltingunni og aðdraganda hennar. Kapítalískir framleiðsluhættir höfðu þróast innan lénsskipulagsins smám saman eftir því sem borgarastéttinni óx fiskur um hrygg. Sú stétt fór á stjá í siðbótarhreyfingunni á 16. og 17. öld og völdin hrifsaði hún á Englandi með byltingum þar 1640 og 1689 og í hinum ungu Bandaríkjum var borgarastéttin sterkasta aflið. Með frönsku byltingunni fékk lénsskipulagið högg sem um munaði og borgarastéttum annarra landa var gerð greiðari leið til valda. Mannréttindayfirlýsingunni, sem þingið samþykkti í ágúst 1789, og stjórnarskránni, sem samin var 1789–1791 var ætlað, og sú varð líka raunin, að túlka og standa vörð um hagsmuni borgarastéttarinnar. Í þessi plögg sóttu konservatismi, líberalismi, nationalismi og sósíalismi vopn í baráttu sína.
Helstu fylkingar og foringjar
Helstu fylkingar borgarastéttarinnar voru Girondínar og Jakobínar og síðar, eftir að Jakobínalýðveldið komst á laggirnar (Jakobínalýðveldið 2. júní 1793 – 28. júlí 1794), Fjallið og Sléttan. Þær hreyfingar er áttu hvað dýpstar rætur meðal lágstétta voru hins vegar Hébertistar og „hinir óðu“. Allt frá árinum 1789 létu byltingarsinnaðir kvennahópar að sér kveða í mörgum borgum og börðust fyrir stjórnmálaréttindum kvenna og félagslegum umbótum. Þekktasti hópurinn af þessu tagi var stofnaður í París árið 1793 og nefndist „Byltingarsinnaðar baráttukonur lýðveldisins.“ Þessi félagsskapur átti að nokkru samleið með „hinum óðu“. Jakobínar vou flestir borgaraættar, eins og raunar Gírondínar einnig. Stéttastefna þeirra var því ekki runnin undan rifjum alþýðunnar. Hún var hentistefna, „plebejísk aðferð – eins og Karl Marx orðaði það – til að vinna bug á kóngunum, klerkunum, aðlinum og öllum fjandmönnum byltingarinnar!“ Jakobínar voru svo sannarlega ekki samstæð heild skoðanalega. Það er út í hött að nefna í sömu andránni, án frekari umfjöllunar, þá Marat, Robespierre og Danton eins og sumum hættir til, Marat einlægan málsvara lágstéttanna, Robespierre „fyrsta læriföður lýræðisins, ímynd göfgi veglyndis og hreinlyndis í Frakklandi byltingarinnar“, svo notuð séu orð hins þekkta franska sagnfræðings, Alberts Mathiez, og Danton, mútuþægan, hentistefnumann á kafi í vafasömu fjármálavafstri, eins konar samnefnara þess þjóðskipulags, sem franska byltingin fæddi af sér, sjálfs kapítalismans.
Byltingarlok – og samt ekki
Ýmsir áhrifavaldar í Frakklandi hvöttu til styrjaldar, af ýmsum ástæðum. Hægfara öfl trúðu því að styrjöld myndi fylkja þjóðinni um konung. Ýmsir róttæklingar hvöttu til stríðs í því skyni að breiða byltinguna út til annarra landa. Loks litu konungur og ýmsir útlagar svo á að styrjöld auðveldaði þeim að afla sér bandamanna til að brjóta byltinguna á bak aftur. Allir höfðu þessir aðilar rangt fyrir sér. Robespierre og samherjar hans vöruðu einir allra við stríði. Robespierre taldi að byltingin gæti ekki orðið að útflutningsvöru og „vopnaðir trúboðar hafa aldrei verið neinir aufúsugestir“, sagði hann. Þann 26. júlí 1794 flutti Robespierre hvassyrta ræðu gegn andstæðingum sínum. Þeir skildu það svo, að ekki væri lengur til setu boðið. Næsta dag samþykkti þjóðþingið handtöku Robespierre, Saint Just og Georges Couthons en Francois Hanriot kom með þjóðvörðinn og leysti þá úr haldi. En frelsi þeirra varð skammvint, því að kvöldi 28. júlí 1794 voru þeir félagar leiddir undir fallöxina ásamt Augustin Robespierre (bróður Maximilens Robespierre) og Hanriot og 17 öðrum.
Franska stjórnarnbyltingin hafði runnið sitt skeið á enda. Mikilvægum kafla í sögunni var lokið – en samt ekki lokið því að áhrifin voru gríðarleg og segja má að sagan allt til okkar daga fjalli um framhald frönsku byltingarinnar.
(greinin birtist í Morgunblaðinu 13. júlí)