Harmleikurinn í Portúgal 17. júní 2017
—
Þann 17. júní 2020 ákváðum við hjónin að halda upp á þjóðahátíðardaginn með því að fara út að borða í næsta þorpi. Við fengum borð hjá Rui, þar sem fá má bæði ódýran, góðan og vel útilátinn portúgalskan heimilismat. Við ákváðum að kaupa rauðvínsflösku í tilefni dagsins í stað þess að fá kassavín innifalið í verðinu og sögðum Rui frá tilefninu. Þá kom á hann skrýtinn svipur. Það tók okkur nokkra stund að átta okkur. Honum hefur líklega þótt það skrýtið að við værum að fagna á sama tíma og heimamenn rifja upp einhvern mesta harmleik, sem átt hefur sér stað í héraðinu.
Líklega eiga öll lönd heimsins við einhvers konar náttúruvár að stríða. Á Íslandi má nefna jarðskjálfta, eldgos, ofanflóð, sjávarflóð og stórhríðir. Í Portúgal eru helstar stórrigningar, brim, jarðskjálftar (stórir skjálftar sjaldgæfir en gerast þó) og skógareldar
Þegar við fluttum til litla þorpsins Várzeas í Pedrogão Grande í september 2019 voru nágrannar okkar fljótir að bjóða okkur velkomin, bæði innfæddir og aðfluttir útlendingar og urðum við fljótt málkunnug þá að portúgalskan okkar hafi ekki verið upp á marga fiska
Nokkru síðar var okkur boðið í ristaðar kastaníur og rauðvín og þá fengum við söguna. Hinn 17. júní 2017 brustu á mestu skógareldar í héraðinu í manna minnum. Í litla þorpinu okkar dóu 14 manns, bæði fullorðnir og börn og fólk missti eigur sínar. Nágranni okkar missti eiginkonu og tvö ung börn og forldrar hans þar með tengdadóttur og barnabörn. Reyndar slasaðist afinn svo mikið við að reyna að bjarga barnabörnunum að hann missti bæði skjaldkirtill og rödd. Aðrir nágrannar okkar, Skotar, sem voru nýfluttir til Várzeas, hlupu út í bíl á náttfötunum og tókst að keyra í burtu og fengu inni hjá leigusala sínum þar til allt var yfirstaðið. Þau keyptu svo seinna brunarúst fyrir 20.000 evrur og gerðu upp.
Alls dóu 66 manns (opinberar tölur), flestir á flótta í bílum sínum á veginum milli Pedrogão Grande sýslu og næstu sýslu, Castanheira de Pêra .
Nú er það svo hér í Portúgal að sum tryggingafyrirtæki taka ekki að sér brunatryggingar á eldhættusvæðum og sumt fólk her hefur hreinlega ekki efni á brunatryggingu. Skömmu eftir eldana var ákveðið að þeir sem fóru illa út úr skógareldunum skyldu fá bætur frá ríkinu en jafnvel núna, 5 árum síðar, hafa sumir ekki fengið neitt enn þá. Verið er að reisa minnisvarða um þennan skelfilega atburð og mun kostnaðurinn verða kringum 2 milljónir evra. Ekki eru allir á eitt sáttir með það að láta minnivarðann þannig hafa forgang fram yfir bæturnar. Þá eru málaferli í gangi gegn fyrrum stjórnendum í Pedrogão Grande, sem virðast hafa forgangsraðað bótum til vina og skyldmenna.
Í Portúgal rignir helst á veturna, oft mjög mikið og vetrarflóð oft valdið miklu tjóni. Veturinn 2016-2017 var hins vegar óvenjulega þurr og strax í maí brast á mjög öflug og langvarandi hitabylgja þar sem hitinn fór jafnvel upp 40° C á dag. Eldarnir spruttu upp víða í Pedrogão Grande þessa hörmungarnótt og náðu strax mikilli útbreiðslu vegna vinds og urðu hreinlega að eldstormi, sem engu eirði.
Hér er gríðarlega mikið af Eucalyptus, sem er mjög fljótsprettandi og eldfim trjátegund og er mikið notuð í pappírsframleiðslu. Á síðastliðnum 10 árum hefur hún meira eða minna útrýmt öðrum trjátegundum á svæðinu (með góðri hjálp pappírsframleiðenda). Árið 2020 var hún felld á 10 metra svæði kringum alla vegi á svæðinu. Nú er hún næstum fullsprottin aftur.
Nú vill svo til að síðasti vetur var líka óvenjuþurr og núna er hitabylgja í héraðinu þar sem hitinn fer upp í 37°. Vonandi veit það ekki á neitt þó að það sé 100% öruggt að það verða skógareldar í Portúgal í sumar. Nógur er eldsmaturinn.