Haldið áfram að gera það sem þið gerðuð í dag

7. nóvember, 2023 Viðar Þorsteinsson

Kæru fundarmenn.

1

Fjöldaflutningur evrópskra Gyðinga til Palestínu byrjaði á fyrri hluta tuttugusta aldar. Þeir komu til landsins sem þátttakendur í pólitískri hreyfingu, zíonistahreyfingunni, sem hafði það að markmiði að taka Palestínu yfir og breyta landinu í þjóðríki Gyðinga.

Hreyfingin var innblásin af yfirburðasinnaðri þjóðernishyggju Evrópumanna og hugðust leiðtogar hennar notfæra sér yfirráð Breta yfir Palestínu til að breyta landinu öllu í landtöku-nýlendu, eða “settler-colony”.

Á þeim tíma var ekkert Hamas.

2

Palestínumenn, hin innfædda þjóð, mótmæltu þessu að sjálfsögðu. Þeir andmæltu í ræðu og riti og skipulögðu fjöldamótmæli.

En hvorki evrópsku Gyðingarnir né Breska heimsveldið hlustuðu á mótmæli þeirra. 

Árið 1936 braust út fyrsta uppreisn Palestínumanna, sem stóð í þrjú ár þangað til hún var brotin niður af mikilli hörku af breska herliðinu. Frægt ljóð Kristjáns frá Djúpalæk, “Slysaskot í Palestínu”, fjallar um ofbeldi breska hersins gegn óbreyttum palestínskum borgurum og börnum í uppreisninni 1936-39.

Á þeim tíma var ekkert Hamas.

3

Á árunum 1947-1949 háðu hersveitir zíonista hryðjuverkastríð gegn arabískum íbúum Palestínu. Aðferðirnar voru þær að ráðast inn í þorp Palestínumanna, brenna þar allt til grunna og myrða íbúana. Um 750 þúsund Palestínumenn, gróflega áætlað, hröktust á flótta og hafa aldrei snúið aftur til heimila sinna. Evrópskir Gyðingar náðu undir sig 78% af landi sögulegrar Palestínu.

Á þeim tíma var ekkert Hamas.

4

Árið 1967 réðist Ísraelsríki inn í Egyptaland og Sýrland. Það var kallað Sex daga stríðið. 

Um 300 þúsund Palestínumenn voru reknir á flótta, til viðbótar við þá sem höfðu þegar orðið landflótta 20 árum fyrr. Í þessu stríði kláruðu zíonistar það verk að leggja undir sig allt land sögulegrar Palestínu.

Á þeim tíma var ekkert Hamas.

5

Fljótlega eftir Sex daga stríðið fór að bera á nýrri tegund af landtöku. Ísraelskir borgarar byrjuðu að hreiðra um sig inni á milli byggða Palestínumanna á Vesturbakkanum og Gaza. Landnemarnir nutu verndar hersins og sérstakra styrkja úr ríkissjóði Ísraels. Þeir urðu snemma alræmdir fyrir ofbeldi og hryðjuverk gagnvart palestínskum almenningi.

Á þeim tíma var ekkert Hamas.

6

Góðir fundarmenn.

Árið 1987 hófst uppreisn almennings á hernumdu svæðunum. Hún hlaut nafnið Intifada-uppreisnin. Palestínumenn mótmæltu kúgun, mismunun, mannréttindabrotum, áframhaldandi landráni og þrúgandi lífi undir hernámi.

Þá voru 15 ár liðin frá því að landnemar byrjuðu að setjast að á stolnu landi innan um byggðir Palestínumanna.

Þá voru 20 ár liðin frá Sex daga stríðinu, þegar hernámið á Vesturbakkanum og Gaza hófst.

Þá voru 40 ár liðin frá stríðinu 1947-49, þegar aðfluttir evrópskir Gyðingar sölsuðu undir sig meira en þrjá fjórðu af Palestínu.

Þá voru 50 ár liðin frá fyrstu uppreisn Palestínumanna gegn stofnun landtöku-nýlendu Evrópumanna á landi þeirra.

Í Intifada-uppreisninni höfðu Palestínumenn engin vopn, eldflaugar eða hríðskotabyssur. Uppreisnin var í grunninn mótmælaaðgerð, en ungmenni köstuðu stundum grjóti að skriðdrekum og vígbúnum hermönnum Ísraels. Herinn svaraði með því að myrða 1.376 mótmælendur.

Það var á þeim tíma sem Hamas varð til.

7

Um 1990 lauk Intifada uppreisninni. Um sama leyti gerðust þau tíðindi að hin fyrrum herskáu frelsissamtök Palestínu, PLO, lögðu niður vopn og viðurkenndu tilvist Ísraelsríkis.

Þetta gerðu PLO gegn einu skilyrði: Að fundin yrði leið til að stofna sjálfstætt palestínskt ríki á hernumdu svæðunum.

Hið svokallaða “Oslóar friðarferli” hófst í kjölfar þessa og stóð í tæpan áratug. Á þeim tíma studdi meirihluti Palestínumanna friðarferlið. Þeir sem lögðust gegn því voru í minnihluta.

Í þessum minnihluta voru Hamas.

8

Oslóar-friðarferlið átti að skila lokaniðurstöðu árið 2000. Þá varð ljóst að Ísrael ætlaði sér ekki að samþykkja sjálfstætt ríki Palestínumanna eða binda enda á hernámið. Það kom kannski ekki á óvart, í ljósi þess að Ísrael fjölgaði landnemum jafnt og þétt allan tímann sem svokallað friðarferli stóð yfir, samtals um 60%. Friðarferlið beið endanlegt skipbrot.

Í dag eru liðin meira en 30 ár síðan að PLO lögðu niður vopn og viðurkenndu Ísrael í skiptum fyrir loforð um palestínskt ríki og endalok hernámsins.

Sjálfstætt palestínskt ríki er þó ekki til og hernámið situr sem fastast.

Búið er að reisa margra metra háan steypumúr, svokallaðan aðskilnaðarmúr, í kringum borgir og bæi Palestínumanna á Vesturbakkanum. Herkví um Gaza hefur gert lífið þar verra og vonlausara en nokkru sinni fyrr. Landnemabyggðunum fjölgar með hverju árinu og ofbeldi landnemanna eykst.

Gamli PLO-flokkurinn Fatah, sem stjórnar nokkrum afmörkuðum landspildum á Vesturbakkanum, á engar hersveitir sem geta verndað íbúa gegn ofbeldi hersins og landnema.

Þetta eru kringumstæðurnar þar sem Hamas varð loks að leiðandi hreyfingu meðal Palestínumanna.

9

Þann 30. mars árið 2018 hófu Palestínumenn á Gaza friðsamlega mótmælaaðgerð sem nefndist “the Great March of Return” eða Endurkomu-gangan mikla. Kröfur mótmælenda voru endalok herkvíarinnar um Gaza og viðurkenning á rétti flóttamanna til að snúa aftur til heimkynna sinna. Göngur fóru fram vikulega í um eitt og hálft ár.

Ísrael brást við með því að siga hernum á mótmælendur. Samtökin Læknar án landamæra, sem reyndu að sinna miklum fjölda særðra, þurftu að þrefalda mannafla sinn, en höfðu ekki undan. 4.380 sjúklingar voru innritaðir á bráðadeildir Lækna án landamæra á meðan á mótmælunum stóð og samtökin framkvæmdu í heildina 3.966 skurðaðgerðir á 1.797 sjúklingum vegna áverka sem Ísraelsher veitti þeim í þessum vikulegu mótmælagöngum. Um 200 mótmælendur voru myrtir.

Hamas skipulagði ekki Endurkomu-gönguna miklu.

10

Kæru fundarmenn.

Ég hef varið mestu af þeim tíma sem mér var úthlutað í dag án þess að tala um atburði síðustu vikna.

Enginn veit hvað kann að gerast á næstu dögum, vikum og mánuðum.

Eitt er þó víst. Landtökunýlendan Ísrael nýtur einlægs stuðnings valdastéttarinnar í okkar heimshluta.

Það var í skjóli þess stuðnings sem að palestínska stúlkan í ljóði Kristjáns frá Djúpalæk var myrt.

Það var í skjóli þess stuðnings sem þjóðernishreinsun var framin í Palestínu.

Það var í skjóli þess stuðnings sem Vesturbakkinn og Gaza voru hernumin. 

Það var í skjóli þess stuðnings sem ólöglegar landnemabyggðir voru og eru enn byggðar.

Það var í skjóli þess stuðnings sem Palestínumenn voru sviknir um loforð friðarferlisins. 

Það var í skjóli þess stuðnings sem friðsamir mótmælendur í Endurkomu-göngunni miklu voru myrtir og örkumlaðir.

Og það er í skjóli þess stuðning sem meira en 9000 Palestínumenn hafa verið myrtir á síðustu 4 vikum, sem er þó aðeins byrjunin á blóðbaðinu sem leiðtogar Ísraels hafa boðað.

11

Kæru fundarmenn. Kæru félagar.

Mín lokaorð hér í dag verða 4 áskoranir.

1. Gangið í Félagið Ísland-Palestína og gefið til neyðarsöfnunar félagsins.

2. Setjist niður með stálpuðum börnum ykkar og unglingum og reynið að útskýra. Þar er hægt að mæla með stuttri heimildarmynd frá Amnesty International sem er til á íslensku.

3. Lækið og deilið góðu efni á samfélagsmiðlum. Gerið athugasemdir við vont efni. Rökræðið við fólk í kringum ykkur augliti til auglitis, í einkaskilaboðum og í kommentaþráðum.

4. Að lokum: Haldið áfram að gera það sem þið gerðuð í dag og sem þið hafið gert síðustu vikur – við Tjörnina, við ráðherrabústaðinn, við utanríkisráðuneytið og á Austurvelli – en það er að mæta í eigin persónu, fjölmenn, hávær og sterk á alla auglýsta fundi og viðburði. Það er mikilvægasta leiðin til að sýna samstöðu í verki.

Takk fyrir.

Ræða Viðars Þorsteinssonar á samtöðufundi Félagsins Ísland-Palestína í Háskólabíói 5. nóvember.