Góða löggan / vonda löggan
—
Höfundur Caitlin Johnstone
Þýðing, Júlíus K. Valdimarsson
Greinin birtist áður á heimasíðu höfundar.
Vopn NATO eru notuð í stærstu innrás í Rússland frá síðari heimsstyrjöldinni, sem samkvæmt Úkraínuforseta sannar að Rússar séu að bulla um „rauðar línur“ sínar og að það sé óhætt fyrir NATO að vera eins árásargjarnt og því sýnist innan landamæra Rússlands.
Á svipuðum nótum eru Bandaríkin að undirbúa kjarnorkustríð samtímis við Rússland, Kína og Norður-Kóreu. New York Times greinir frá því að Biden-stjórnin hafi heimilað nýja kjarnorkuáætlun sem „beinist að því að búa Bandaríkin undir mögulegar samræmdar kjarnorkuögranir frá Kína, Rússlandi og Norður-Kóreu“, til að „kanna í nánum atriðum hvort Bandaríkin séu reiðubúin til að bregðast við kjarnorkuáskorunum sem ættu sér stað samtímis eða í samfellu, með blöndu af kjarnorkuvopnum og öðrum tegundum vopna”.
❖
Munurinn á repúblikönum og demókrötum er sá að repúblikanar munu drepa milljón Palestínumenn og segja að þeir séu að gera það svo Jesús komi aftur, en demókratar munu drepa milljón Palestínumenn á meðan þeir gera hávaða með munninum og láta út úr sér orð eins og „vopnahlé“ og „tveggja ríkja lausn“.
Þetta er í rauninni svona; annar gerir illt á vondan hátt á meðan hinn framkvæmir sömu illskuna með mjúkum rómi. Repúblikanar vilja drepa múslima af illum ástæðum eins og að vegna þess að þeir séu allir hryðjuverkamenn og óafturkræfir heiðingjar, á meðan demókratar vilja drepa múslima af ástæðum sem líta betur út, eins og að hjálpa Ísrael að verja sig og koma á friði og stöðugleika á svæðinu. Þeir vilja báðir drepa borgara í Miðausturlöndum, en annar þeirra mun drepa borgara í Miðausturlöndum á þann hátt að frjálslyndum líði vel með sjálfum sér.
Þetta er bara hin klassíska góða löggan og vonda löggan rútínan. Annar leikur vin þinn og hinn leikur óvin þinn, allt eftir því hvar í hinni fölsku hugmyndafræðilegu gjá sem ríkir í Bandaríkjunum þú lendir. En í rauninni vilja þeir báðir það sama — í þessu tilviki að myrða fólk um allan heim með algeru refsileysi án þess að kveikja heimilisóróa heima fyrir.
❖
Framfarasinnaðir Bandaríkjamenn segja oft; „að minnsta kosti er hægt að þrýsta á demókrata til að binda enda á morðið á Gaza!
Skrambinn, það eru meira en tíu mánuðir síðan. Hvernig hefur „þrýstingur“ þinn virkað hingað til?
Sama fólkið, sem segir þér að demókratar séu betri kosturinn til að hjálpa Palestínumönnum vegna þess það sé hægt að þrýsta á þá til að bjarga Gaza, munu öskra á þig, þegar þú reynir að þrýsta á demókrata að bjarga Gaza, að þú sért að reyna að fá Donald Trump kjörinn.
❖
Það er ekki einn palestínskur Bandaríkjamaður sem talar á aðalsviði landsþings demókrata. Öll mögulegar lýðfræðileg öfl eru fulltrúar á þessari hrollvekjandi pop-heimsvaldahátíð, nema palestínskir Bandaríkjamenn, af einhverjum undarlegum og dularfullum ástæðum.
❖
Alltaf þegar fólk segir að Biden-Harris stjórnin hafi verið staðföst við Netanyahu, meinar það að honum hafi verið gefin ströng viðvörun um að ef hann hætti ekki styðja þjóðarmorð svona opinskátt, þá neyðist þau til að harka af sér og gefa honum aðra stranga viðvörun.
❖
Fullyrðingar sem verjendur Ísraels hafa sett fram í gegnum árin sem hafa verið rækilega afsannaðar með sönnunargögnum síðustu tíu mánaða:
– Að það sé rangt og ósanngjarnt að grannskoða Ísrael meira en aðrar þjóðir.
– Að gagnrýnin á Ísrael sé sprottin af hatri á gyðingum.
– Að átök Ísraela og Palestínumanna séu mjög flókin og erfitt að skilja.
– Að í deilu Ísraela og Palestínumanna séu vondir menn á báða bóga að báðir séu jafn slæmir.
– Að ofbeldi Ísraels sé varnarlegt í eðli sínu, sem eigi upptök í tilefnislausum árásum múslima í þeim heimshluta.
– Að loftárásir IDF á Gaza drepi svo marga almenna borgara vegna þess að Hamas noti þá sem „mannlegan skjöld“.
– Að Ísrael hafi alltaf verið og muni alltaf vera tilbúið til að samþykkja tveggja ríkja lausn.
– Að vandamál Palestínumanna séu palestínskri forystu að kenna, eða að minnsta kosti jafnt sök palestínskrar forystu og ísraelskrar forystu.
– Að ef ekki væri fyrir Hamas og aðrar palestínskar fylkingar myndu Palestínumenn lifa í friði með réttlæti og hamingju fyrir alla.
– Að Ísrael eigi skilið vestrænan stuðning vegna þess að það standa vörð um frelsi, lýðræði og réttlæti á svæði sem annars væri svift þessum gildum.
– Að ill meðferð af hendi Ísraela hafi ætíð snúist um allt annað en kynþáttafordóma og nýlendustefnu.
– Að stuðningur Vesturlanda við Ísrael hafi snúist um allt annað en að ná landfræðilegum yfirráðum á auðlindaríku svæði.
– Að glæpaverk Ísraels megi rekja til lítils öfgahægri þáttar innan ríkisstjórnar þeirra, frekar en til þess ofbeldis sem hefur verið innbyggt í Ísrael frá upphafi.
– Að þú getir stutt tilveru Ísraels án þess að styðja það ofbeldi, aðskilnaðarstefnu, þjófnað og misnotkun sem Ísraelsríki getur bókstaflega ekki verið án.