Glæpur eða góðverk? Um flutning úkraínskra barna til Rússlands

19. september, 2025

Það hefur komið fram í máli íslenskra ráðherra og í fréttaskýringum m.a. á RÚV að Rússar hafi „stolið“ tugþúsundum barna frá Úkraínu og flutt þau til Rússlands til innrætingar í rússneskri menningu, þjálfunar í hernaði og að verið sé að setja þau í ættleiðingarferli í Rússlandi.  RÚV-greinin byggir annars vegar á Guardian-grein og hins vegar frásögn Þórdísar Kolbrúnar Gylfadóttur. Fullyrðingar The Guardian  eru byggðar á fjórum rannsóknarskýrslum frá Yale University HRL (Humanitarian Resarch Lab), um flutning á börnum frá Krím og austurhéruðum Úkraínu til Rússlands. Rannsóknarstofnunin fékk styrki frá bandarískum stjórnvöldum til að vinna skýrslurnar en vegna aðgerða Trumpstjórnarinnar hafa þeir nú verið felldir niður og stofnunin hefur auglýst eftir nýjum styrktaraðilum.

Í fyrstu skýrlunni frá febr. 2023 voru rússnesk yfirvöld sögð hafa flutt börn skipulega í net 43ja æfingabúða,  þar sem þau fengju endurmenntun í rússneskri menningu og sum voru talin hafa fengið fræðslu í hermennsku.

Börnin sem fjallað er um eru 6000 talsins frá Krím og austurhéruðum Úkraínu en þar hafði verið stríð milli Úkraínuhers og aðskilnaðarsinna frá árinu 2014 sem hafði mikil áhrif á líf barnanna.  Börnin voru sum frá barnaheimilum eða foreldralaus. Flest þeirra sneru aftur heim úr búðunum en einhverjum heimferðum seinkaði. Það kemur fram í aðferðafræðilýsingu skýrslunnar að skýrsluhöfundar heimsóttu ekki þessar stofnanir heldur staðsettu þær eftir gervihnöttum og símum þar sem hægt var að fylgjast með flutningum. Skýrsluhöfundar tóku ekki viðtöl við börnin heldur byggðu á heimildum á opnum aðgangi á netinu.   

Eftir að gefin var út handtökuskipun á Pútín og Mariu Lvova-Belova af Alþjóðlega glæpadómstólnum, ICC, 17. mars 2023, fóru félagarnir á The Grayzone ofan í málið. Þáttur þeirra er á Youtube: ICC Putin warrant based on bogus report. Þeir heimsóttu einn þessara staða og komust að því að um var að ræða tónlistarakademíu þar sem stríðshrjáðir unglingar fengu að dvelja um tíma og stunda tónlistarnám undir leiðsögn og fóru svo heim. Ekki er vitað um hvað nákvæmlega fram fór á öðrum stöðum. Það kom út vídeó á Youtube, „Inside a Russian Youthcamp condemned by the ICC“. 

Í annarri skýrslunni frá 12. des  2023 er fjallað um hlut Belarús í barnaflutningunum. Þar er fjallað um 2.442 börn sem voru flutt tímabundið til 13 staða í Belarús frá austurhéruðunum sem Rússar höfðu yfirráð yfir. Þau eru öll talin hafa farið aftur heim. Börnin komu flest af barnaheimilum, voru foreldralaus eða frá fátækum heimilum. Þau voru talin hafa fengið „endurhæfingu“, sum læknisþjónustu og sum hafa verið send í einhvers konar ungliðabúðir frá hernum. Eftir sem áður er notast við staðsetningargögn frá gervitunglum og símum og opnum heimildum en ekki rætt við börnin sjálf eða forráðamenn.

Í þriðju skýrslunni frá 3. desember 2024 er fjallað um fóstur og meinta ættleiðingu 314 úkraínskra barna í Rússlandi. Sum höfðu verið sett í tímabundið fóstur hjá fjölskyldum og önnur höfðu verið skráð í gagnagrunna til ættleiðingar. Stofnunin hefur unnið gagnagrunn yfir þessi börn og hvert þau voru send og hefur afhent úkraínskum yfirvöldum hann. Ætlunin er að nota gagnagrunninn til að aðstoða forráðamenn við að finna börn sín. Rétt er að það komi fram að það er unnið að því að aðstoða foreldra við að endurheimta börn sín.

Í fjórðu skýrslunni, núna frá 16. september 2025 er sjónum beint að stofnunum, flestum í ríkiseigu sem börnin dvöldu á um lengri eða skemmri tíma og meintri innrætingu barnanna. Börnin eru frá austurhéruðum Úkraínu en ekki kemur fram í skýrslunni hve mörg börn er um að ræða en það er tekið fram að upplýsingar sem fram koma í fyrri skýrslum séu notaðar í þessari. Sömu aðferðir eru notaðar og í fyrri skýrslum, staðsetningargögn og gervitunglamyndir auk efnis á opnum aðgangi, svosem á rússneskum samfélagsmiðlum, auglýsingar og útgefið efni. Búið er að finna 210 staði sem ætlað er að börnin hafi dvalið á en ekki hægt að fullyrða hve mörg börn dvelja þar í dag né hve mörg hafa snúið aftur heim. það er tekið fram að á a.m.k. 49 stöðum hafi einhverjar byggingaframkvæmdir farið fram á tímabilinu sem gætu bent til áætlaðrar fjölgunar barna. Höfundar telja að á 130 af þessum stöðum hafi börnin fengið „endurmenntun“ í rússneskri menningu og á 39 stöðum  hafi þau fengið einhverja herþjálfun. Staðirnir eru flokkaðir eftir tegund og hve margir staðir eru af hverri tegund:  8 framhaldsskólar með áherslu á hernaðartengt námsefni, 143 sumarbúðir og hressingarhæli, 16 fjölskyldumiðstöðvar og munaðarleysingjaheimili, 1 hótel, 8 heilsuhæli, 1 herstöð, 1 trúarleg stofnun (klaustur), 32 framhaldsskólar og háskólar. Rússnesk og úkraínsk börn dvelja þarna saman og eru ekki aðskilin. Skýrsluhöfundar treysta sér ekki til að fullyrða að herþjálfunin beinist sérstaklega að úkraínskum börnum frekar en rússneskum en telja að hún sé liður í stefnu stjórnvalda um aukna herþjálfun ungmenna. Nefnt er sérstaklega svonefnt Warrior program, og staðir eins og All Russian Center „Change“, Snegiri Young Patriot og Olympic Children í þessu sambandi. Þó það sé ekki liður í rannsókninni segja höfundar að dæmi séu um að úkraínsk ungmenni hafi verið skráð í rússneska herinn. Hin menningarlega innræting felst samkvæmt skýrslunni í fræðslu um sögu og alþjóðapólitik, heimsóknir á sögustaði og söfn, rússneska söngva og fræðslu um þjóðlegt eða þjóðernislegt efni.

Það vekur mann til umhugsunar að Rússar virðast líta á þessa barnaflutninga sem góðverk en Vesturlönd líta á þá sem glæp.  Börnin eru frá austurhéröðum Úkraínu, þar sem meirihluti fólks hefur rússnesku að móðurmáli, og tilheyrir rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni. Yfirvöld í Kiev bönnuðu fólki að tala rússnesku og bönnuðu rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna. Fólk var m.a.s. hvatt til að henda eða brenna rússneskar bækur sínar.

Auk þeirra barna sem fjallað er um í skýrslunum er ljóst að fjöldi barna frá austurhéruðum Úkraínu dvelur í Rússlandi. Í tilkynningu frá Yale HRL segir að tæp 20.000 hafi verið flutt ólöglega til Rússlands frá austurhéröðum Úkraínu og þar gæti skipt máli að mikill fjöldi fólks hefur flúið til Rússlands og má ætla að þar á meðal séu líka foreldralaus eða fylgdarlaus börn eða börn sem hafa orðið viðskila við foreldra sína. Barnaverndaryfirvöld í  Rússlandi sögðu að árið 2022 hefðu 730.000 börn frá Úkraínu komið til Rússlandi  með fjölskyldum sínum  sem flýðu til Rússlands. Mikill fjöldi úkraínskra barna er svo auk þess í öðrum löndum sem foreldrar þeirra hafa flúið til.

Yale-skýrslurnar fjórar:

Russia‘s Systematic Program for the Re-education and Adoption of Ukraine‘s Children. 14 February 2023. Yale School of Public Health.

Belarus‘ Collaboration with Russia in the Systematic Deportation of Ukraine‘s Children. 12 December 2023. Yale School of Public Health.

Intentional, Systematic & Widespread: Russia‘s Program of Coerced Adoption and Fostering of Ukraine‘s Children. 3. december 2024. Yale School of Public Health.

Ukraine‘s Stolen Children: Inside Russias Network of Education and Militarization. 16 September, 2025. Yale School of Public Health.

Forsíðumynd: Marija Lvova-Belova umboðsmaður barna fyrir Rússlandsstjórn og börn á leið frá Donbas til Rússlands. Ljósm: Konrad Adenauer Stiftung