Gegnum Kófið

1. maí, 2020 Þorvaldur Þorvaldsson



Samkomubann kom í veg fyrir göngur og hefðbundna fundi 1. maí. En á útifundartíma, kl. 14 þann dag, stóð Rauður 1. maí fyrir gjörningi á Ingólfstorgi. Þorvaldur Þorvaldsson trésmiður formaður Alþýðufylkingarinnar hélt þar hvatningarávarp til alþýðu og söng að því loknu öll erindi Internasjónalsins og fundarmenn tóku undir. Þessu var jafnóðum streymt á netið.

Streymið má nálgast hér.


Félagar.

Síðan 1923 hefur alþýðan safnast saman hér í miðbæ Reykjavíkur til að árétta hagsmunamál sinnar stéttar. Nú er sérstök ástæða til að segja ekki skilið við þá hefð heldur tjalda því sem til er þó að þátttakendur séu því miður ekki saman komnir hér á torginu, heldur hver heima hjá sér. En þó vík sé milli vina er þörf á að samræma hugsanir okkar og viðhorf til þeirra aðstæðna sem nú birtast við sjónarrönd.

Covid 19 er líklega skæðasti heimsfaraldur í 100 ár og varpar ljósi á ýmislegt sem vert er að gefa gaum. Hvað sem segja má um ýmsar stefnur í sóttvarnarmálum þá hefur tekist betur til þar sem heilbrigðiskerfi eru félagslega rekin og ekki reynt að gera sóttvarnir að pólitísku bitbeini. Þeim mun ömurlegra er það þegar reynt er að nota faraldurinn og afleiðingar hans til að auka einkavæðingu innviða í samfélaginu, eins og reifað hefur verið.

Heimsfaraldurinn hefur undirstrikað mikilvægi fæðuöryggis og að það er ekki sjálfsagt í markaðsvæddum heimi. Það er kaldhæðnislegt að alþingi er nýbúið að samþykkja lög, sem grafa undan matvælaframleiðu í landinu með auknu frelsi í innflutningi, meðal annars á frosnu kjöti. En góðu heilli eru víða uppi áform um aukna ræktun matvæla í landinu til að tryggja framboðið. Það hefur sýnt sig skýrar en fyrr að störf eru mismikilvæg fyrir samfélagið. Mikilvægast er að uppfylla frumþarfir fólksins. Öll þurfum við mat, húsnæði, föt, menntun, menningu, heilbrigðisþjónustu, orku og afþreyingu svo nokkuð sé nefnt. Þetta eru grunnþarfir, sem markaður kapítalismans getur ekki tryggt okkur. Hann getur ekki einu sinni tryggt okkur störf til að við getum unnið fyrir grunnþörfunum.

Vísindamenn hafa haldið því fram að orsök faraldursins eigi rætur sínar í því að útþensla kapítalískra umsvifa hafi þrengt óhóflega að búsvæðum dýra, og búast megi við aukinni tíðni svona atburða í framtíðinni. Kreppan sem fylgir í kjölfarið hefur hins vegar valdið slíkum samdrætti í hagkerfunum að álaginu léttir af vistkerfunum um stundar sakir. En aðeins um stundar sakir. Kapítalisminn getur ekki lifað til lengdar án hagvaxtar og hann verður sóttur með harðfylgi.

Vaxandi raddir heyrast um það að þegar kemur að enduruppbyggingu samfélagsins verði hún að byggjast á gerólíkum forsendum. En hvaða forsendum? Um það verður tekist á á næstu misserum og árum. Auðvaldið reynir að leggja þessa umræðu undir sig og skapa tiltrú á að hægt verði að bjarga loftslaginu og öðrum umhverfisvanda með tæknilegum lausnum sem það sjálft getur grætt á. En við vitum að eina leiðin til að skrúfa niður í hagkerfinu og stilla það inn á að uppfylla þarfir fólksins en ekki þarfir auðvaldsins fyrir hagvöxt og gróða, eru félagslegar lausnir.

Með aðferðum hamfarakapítalismans er nú reynt að skapa samstöðu um aðgerðir „á fordæmalausum tímum“ með þeim orðum að allir séu á sama báti. En krefst ekki samstaða þess að hún sé gagnkvæm? Ef alþýðan á að styðja aðgerðir stjórnvalda verða þau að hlusta á fólkið og hleypa því að ákvarðanatöku. En það er ekki í vændum enda erum við ekki á sama báti. Þó að vaxandi vitund sé nú um að kapítalisminn er ófær um þoka samfélaginu til betri vegar, eru öll máttarvöld samfélagsins að vinna að því að koma öllu aftur í gamla farið. Endurreisa hagvöxtinn og gróða auðvaldsins hvað sem það kostar.

Við, alþýða þessa lands, verðum að rýna í gegnum kófið og reisa okkar eigin áform um framtíðana. Áform sem byggjast á stéttarhagsmunum alþýðunnar, hagsmunum heildarinnar og sátt við jörðina og komandi kynslóðir. En auðstéttin og ríkisvald hennar hafa önnur áform og eru á fullri ferð að hrinda þeim í framkvæmd. Þeirra áform ganga út á það að reisa við kapítalismann í fyrri mynd þar sem allt stjórnast af möguleikum hagvaxtar og gróða þeirra ríku. Þau ætla engu að breyta, nema kannski því sem nauðsynlegt er til að koma í veg fyrir breytingar.

Í kreppunni fyrir áratug, þegar skuldavandi heimilanna var mest aðkallandi og ógnaði fjölmörgum fjölskyldum með upplausn og húsnæðisleysi, mátti alls ekki þvinga fjármálafyrirtækin til að gefa eftir af okurvöxtum og verðtryggingu og jafnvel vísað til eignarréttarákvæðis í stjórnarskrá. Nú kveður við annan tón enda horfir efnahagsvandinn öðruvísi við. Nú er ríkiskassinn opnaður og eignarréttur þjóðarinnar á honum virðist ekki tiltökumál. Það er bara „gakktu í sjóðinn og sæktu þér hnefa,“ en ekki fyrir hvern sem er.

Þó að fyrstu efnahagspakkar ríkisstjórnarinnar virtust fara vel af stað, og ganga út á að tryggja störf og stöðu einyrkja, þá koma sífellt nýir pakkar sem í vaxandi mæli eiga að bjarga stórum fjárfestum í ferðaþjónustu og öðrum greinum. Við stöndum frammi fyrir mesta pilsfaldakapítalisma sögunnar þar sem bara launagreiðslur úr ríkissjóði á uppsagnarfresti í einu fyrirtæki nema nokkrum milljörðum. Það er beinn styrkur til fyrirtækisins og þetta er bara byrjunin. Forstjóri Icelandair sagði að hann vildi engin ríkisafskipti, en hann vildi bara fá peninga frá ríkinu. Lítil skilyrði eru sett vegna fyrirgreislu til stórfyrirtækja. Fyrirtæki sem nota aflandsfélög til að koma sér undan skatti eða greiddu sér milljarða í arð daginn áður, geta komið glaðbeitt og tekið við milljörðum úr ríkissjóði. Það er nefnilega ekki þannig að gróðinn frá góðu árunum sé notaður til að mæta áföllum. Flest stór fyrirtæki setja gróðann í aflandsfélög eða eignarhaldsfélög, þar sem hvorki mölur, ryð né kreppa fá honum grandað. Svo er reksturinn í öðru félagi sem er bara sett á hausinn þegar á móti blæs, nema ríkið borgi. Þetta er kennitöluflakk „fína fólksins.“

En hvaða afstöðu eigum við að taka í þessari stöðu? Við eigum að hafna styrkjum til auðvaldsins án þess að félagslegt eignarhald komi á móti. Við eigum að verja störfin en ekki auðstéttina. Gróðafíkn auðstéttarinnar er botnlaus hít. Kapítalisminn er í alhliða kreppu. Covid-kreppan er bara ein hlið á henni. Vistkreppan er önnur hlið, sem ekki verður aðskilin frá kjarnanum í kerfi kapítalismans. Kapítalisminn viðheldur ójöfnuði, eymd og stríðshættu. Þetta eru nægar ástæður til að fara nýjar leiðir út úr Covid-kreppunni. Með því að setja skilyrði um félagslegt eignarhald á móti styrk til fyrirtækja getum við aukið vægi félagslegra lausna í samfélaginu. Þannig getum við bæði tryggt að ávinningurinn skili sér til samfélagsins og einnig tekið lýðræðislegar ákvarðanir um hvaða starfsemi sé þörf fyrir til að uppfylla þarfir fólksins án þess að ganga á gæði náttúrunnar og möguleika komandi kynslóða. Þetta er eini möguleikinn til betri framtíðar. Sósíalisminn er ekki fyrirfram ákveðið kerfi. Hann einkennist aðeins af því að alþýðan hefur ekki lengur auðvaldið til að stjórna sér og arðræna. Hvernig við útfærum þetta er á okkar ábyrgð, fólksins í landinu. Það er inntak raunverulegt lýðræðis og því fylgir ábyrgð.

Ef alþýðan trúir því að eini möguleiki hennar til vinnu og betra lífs sé velgengni og viðgangur kapítalismans getur það aðeins leitt til endurtekinna vonbrigða og eyðileggingar fyrir framtíðina. Við erum ekki á sama báti og auðvaldið. Við erum alla vega ekki á sama farrými. Okkur verður ekki hleypt í björgunarbátana eins og reynslan sýnir. Við verðum því að taka stjórn á þjóðarskútunni og sigla henni betri sjó. Það varðar framtíð og heill afkomenda okkar og Móður Jarðar.

Að lokum langar mig til að lýsa yfir fullum stuðningi við verkfall Eflingar, sem nú hefur hafist að nýju og verið rægt og grafið undan því af andstæðingum og reynt að höfða til Covid-kreppunnar sem ástæðu til að knésetja það með lagasetningu eða öðrum aðferðum. Við vitum að Eflingarfólk lætur ekki hótanir beygja sig.

Lifi Efling !

Niður með auðvaldið !