Gegn orkupakka. Ræða Þorvaldar á Austurvelli 1. júní

2. júní, 2019 Þorvaldur Þorvaldsson


Þorvaldurraeda

Kæru fundarmenn.

Það er einkennandi fyrir umræðuna um 3. orkupakkann að þau sem mæla fyrir honum fást ekki til að taka þátt í málefnalegri umræðu um hann. Þau skýla sér á bakvið lögfræðileg álit um að þetta eða hitt sé ekki að finna í pakkanum. Þá tala þau eins og það sé nánast formsatriði að samþykkja pakkann og beinlínis dónaskapur gagnvart öðrum Evrópuríkjum, og sérstaklega veslings Noregi, að hafna honum. Sumir hafa jafnvel sagt að höfnun pakkans sé brot á EES-samningnum. En ef svo væri þyrfti líklega ekki að bera hann upp til afgreiðslu. Lengi vel var því haldið fram að 3. orkupakkinn breytti engu þar sem við erum ekki tengd við orkukerfi meginlandsins. Ef hann breytir engu tel ég það meiri ástæðu til að hafna honum en samþykkja. Þá hefur verið talað um að hann feli í sér neytendavernd, en tilfellið er að besta neytendaverndin, sem við eigum völ á, er sú að halda orkumálaunum í félagslegum rekstri á öllum stigum, framleiðslu, sölu og dreifingu.


Bara þjóðernispopúlistar á móti?

Það er sérstaklega ömurlegt hvernig stuðningsfólk 3. orkupakkans hefur gefið í skyn að það sé afmarkaður hópur, sem hafnar honum. Nefnilega að það séu hægrisinnaðir þjóðernispopúlistar, ef ekki nasistar, einangrunarsinnar sem fyrirlíta samstarf þjóða, eða í skásta falli Miðflokksmenn. Staðreyndin er hins vegar sú að meirihluti þjóðarinnar er andvígur innleiðingu 3. orkupakkans. Nú hefur auk þess forysta stærstu samtaka launafólks í landinu tekið af skarið og andmælt 3. orkupakkanum, en því hefur lítill gaumur verið gefinn. Helst að forsvarsmenn þeirra hafi orðið fyrir aðkasti fyrir vikið.

En innihald pakkans verður ekki allt fundið í lagatextum, heldur er um að ræða pólitískan gjörning sem verður að leggja pólitískan skilning í. Mér er t.d. til efs að það standi í nokkrum lögum að auðstéttin skuli drottna yfir hverju fótmáli alþýðunnar, raka saman auði á kostnað hennar og á kostnað umhverfisgæða. Þetta er samt afleiðing af þjóðfélagskerfi, sem haldið er utanum með lagabákni sem gefur allt annað í skyn.


Markaðsvæðing

En út á hvað gengur 3. orkupakkinn og af hverju eru svona margir orkupakkar? Af hverju er ekki fyrirkomulagið ákveðið í einum áfanga? Það er í stuttu máli vegna þess að það hefur þótt erfitt að troða allri pylsunni ofan í kokið á þjóðum Evrópu í einu lagi, og þess vegna er hún skorin í sneiðar. Einkunnarorð Evrópusambandsins er markaðsvæðing. Þannig verða þeir ríku ríkari á kostnað hinna. Og þeim mun ríkari sem markaðssvæðið er stærra. Í sumum ríkjum ESB hefur raforkan lengi verið markaðsvara en hér á landi hefur verið litið á hana sem einn af innviðum samfélagsins.

Markaðstrúin gerir ráð fyrir að kapítalískur markaður kalli fram hámarkshagkvæmni og þar með sparnað. Það er hins vegar bábylja, sem á sér enga stoð í veruleikanum. Við fengum það m.a. staðfest þegar markaðsvæðing raforkunnar hófst hér með tveimur fyrstu orkupökkunum, sem fólu í sér aðskilnað framleiðslu, sölu og dreifingu raforku. Það leiddi strax til hækkunar á kostnaði fyrir almenna notendur. Svo hófst barátta fyrir því að koma orkufyrtækjum í hendur einkafyrirtækja. Hún stóð sem hæst fyrir 10 árum þegar ráðandi hlutur HS orku var seldur erlendu skúffufyrirtæki, og forysta VG og Samfylkingar lögðu sig mjög fram um að koma ekki í veg fyrir það.

Vert er að velta fyrir sér afstöðu VG í þessum málum. Í orði kveðnu var flokkurinn á móti tveimur fyrstu orkupökkunum. Stuttu seinna var hann í lykilstöðu við að greiða fyrir einkavæðingu eins af stærstu orkufyrirtækjum landsins og brjóta þannig ísinn að vissu leyti. Nú styður flokkurinn 3. orkupakkann þó hljóðlega fari, og helst má skilja að ástæðan sé sú að hann bæti litlu við og „öll vötn falli nú til Dýrafjarðar“ eða að markaðstvæðingin hafi sigrað hvort eð er. En í pólitík er ekkert „hvort eð er.“ Fólk með sjálfsvirðingu yfirgefur ekki verðugan málstað af því að hann hafi farið halloka um tíma. Það er miklu frekar tilefni til að snúa vörn í sókn. Með samþykkt 3. orkupakkans yrði í fyrsta lagi erfiðara að vinda ofan af þeirri markaðsvæðingu, sem þegar hefur verið innleidd. Í öðru lagi yrðu ýmis ný skref stigin til að brjóta niður félagslegt eignarhald á orkufyrirtækjum. Í þriðja lagi yrði markaðsvæðingin knúin áfram með frekara stofnanavaldi með aðild að ACER- orkustofnun ESB. Í fjórða lagi er markaðsvæðing innviða samfélagsins á einu sviði vatn á myllu markaðsvæðingar þeirra á öðrum sviðum. Hvað með heilbrigðiskerfið til dæmis? Það er sanni nær að VG hafi í raun lengi verið áfram um nálgun við Evrópusambandið.


Fullveldi

Ein hliðin á þessu máli er sú að auk markaðsvæðingar í orkumálum snýst það um að sveipa íslenskt samfélag svo kyrfiega í vef Evrópusambandsins að ekki verði aftur snúið, nema kannski með svo háum bótagreiðslum til erlendra auðfyrirtækja, að þær knésetji samfélagið.

Hvað sem túlkun á stjórnarskránni líður er 3. orkupakkinn alvarlegur hnekkir fyrir fullveldi landsins. Fullveldið já, hvað er nú það? Samkvæmt Samfylkingunni er fullveldið fyrst og fremst réttur til að afsala sér fullveldinu. Þeim er tíðrætt um réttinn til að gera skuldbindingar á alþjóðavettvangi. En þá hlýtur að fylgja rétturinn til að hafna þeim skuldbindingum, sem við teljum ekki réttmætar. Það er ekki hægt að bera saman aðild að Mannréttindasáttmála Evrópu og 3. orkupakkann eins og þingmaður Samfylkingarinnar gerði í eldhúsdagsumræðunum. Það er ekkert annað en forheimskun.

Þó að oft sé talað í hálfkæringi um fullveldi þjóðarinnar og látið að því liggja að það snúist um það hvort Engeyjarættin eða Evrópuauðvaldið drottni yfir okkur þá er sannleikurinn sá að það er ekkert náttúrulögmál að við höfum alltaf einhverja drottnara yfir okkur. Fullveldið er m.a. réttur og möguleiki þjóðarinnar til að varpa af sér öllu oki, bæði frá íslensku og erlendu auðvaldi, og leiða mál til lykta með félagslegum lausnum eftir lýðræðislegum leiðum. Það er meðal þess sem ESB-sinnarnir óttast mest, að þjóðin varpi af sér oki auðstéttarinnar, og þess vegna vilja þeir þvæla okkur í vef ESB til að gera hlassið þyngra, sem velta þarf.

Þetta ber allt að sama brunni. Þeir sem eru fylgjandi nálgun við ESB og markaðsvæðingu innviða samfélagsins styðja innleiðingu 3. orkupakkans. Þar á meðal eru þeir sem eru að undirbúa að hrifsa til sín auðlindirnar. Fylgjendur eru í meirihluta á Alþingi að svo stöddu. En þeir sem hafna aðild að ESB og markaðsvæðingu raforkunnar og annarra innviða samfélagsins vilja hafna honum. Þar er meirihluti þjóðarinnar. Þarna er nokkur gjá milli þings og þjóðar, eins og sagt hefur verið. Til að reyna að fylla að nokkru í hana hefur verið reynt að hræða fólk til að fallast á málið m.a. með því að fá til landsins hátt setta menn til að vitna um að höfnun 3. orkupakkans muni hafa afleiðingar. Hvaða afleiðingar skiptir ekki öllu máli. Aðalatriðið er að þetta hljómi ógnandi. En ætlum við að lifa við ógn að eilífu? Kannski er þetta eins og með draugana, ef við kveikjum ljós þá hverfa þeir.

Þó að vopnahlé sé í þessu máli á þingi er ekki séð fyrir endann á því. Það sýnir þó að málið er ekki tapað. En ekkert bendir til að andstæðingar okkar séu að gefast upp í þessu máli og það skulum við ekki gera heldur.

Þorvaldur Þorvaldsson