Fulltrúar 80% jarðarbúa kalla eftir nýrri heimskipan í efnahagsmálum
—
Eitt hundrað þjóðarleiðtogar og fulltrúar ríkisstjórna G77 + Kína hittust í Havana 15. og 16. september s.l. Í löndunum sem áttu þarna fulltrúa búa yfir 80% jarðarbúa og samanlögð þjóðarframleiðsla ríkjanna er 49% af allri framleiðslu heimsins. Leiðtogarnir lýstu allir sem einn vilja til þess að sameina krafta sína og rödd hins hnattræna suðurs fyrir fund Sameinuðu þjóðanna sem haldinn var vikunni á eftir á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar.
Í „Havana yfirlýsingu“ hinna 77 landa sem samþykkt var í lok leiðtogafundarins voru dregnar fram þær hindranir sem blasa við þróunarlöndunum og kallað eftir því sem þau nefna – bein tilvitnun – „nýrri heimsskipan í efnahagsmálum“ (New World Economic Order). Þjóðarleiðtogarnir samþykktu einnig einróma kröfu um afnám þeirra efnahagsþvingana sem BNA beitir enn gagnvart Kúbu.
G-77 er hópur innan Sameinuðu þjóðanna sem stofnaður var 1964 af 77 svonefndum þróunarríkjum. Hópurinn heldur sínu heiti af sögulegum ástæðum en meðlimum hans hefur fjölgað í 134 lönd – af 193 núverandi aðildarríkjum SÞ. Hópurinn hefur markað sér stefnu á efnahagslegu og pólitísku sviði á síðari árum sem hefur beinst markvisst að því að byggja upp margpóla heim sem leysi af hólmi efnahagslegt einpóla ofurvald Bandaríkjanna og yfirburðastöðu dollarans í heimsviðskiptum. Stofnun BRICS hópsins í kringum síðustu aldamót markaði þáttaskil í þessu ferli en sá hópur og dregur nafn sitt af upphafsstöfum landanna sem að honum stóðu þ.e. Brasilíu, Rússlands, Indlands, Kína og Suður Afríku.
Tæpum mánuði fyrir fund G77 landann og Kína þann 24. ágúst sl. var haldinn heimssögulegur fundur BRICS landanna (Brasilíu, Rússlands, Indlands, Kína og Suður Afríku) í Jóhannesarborg í Suður Afríku þar sem 6 ný lönd bættust í hópinn. Þessi nýju lönd eru Sádi-Arabía, Egyptaland, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Argentína, Íran og Eþíópía.
Lítið var fjallað um þennan fund á meginstraumsfjölmiðlum Vesturlanda og eru RÚV og aðrir skyldir íslenskir miðlar meðtaldir. Gott dæmi um undantekningu frá þessari meginreglu er pistill Kristins Hrafnssonar sem hann skrifaði á fésbókarsíðu sinni þann 24. ágúst sl.
Kristinn skrifar um heimssögulegt mikilvægi þessa fundar og grípur m.a. í því samhengi til líkingar við jarðsögulegar flekahreyfingar, hann skrifar:
„Gríðarlegur áhugi á BRICS klúbbnum endurspeglar að hluta þessar flekahreyfingar en nú stendur yfir leiðtogafundur ríkjanna fimm sem standa að sambandinu (Brasilía, Rússland, Indland, Kína og Suður-Afríka). Um 40% af íbúum Jarðar tilheyra þessum 5 ríkjum og um fjórðungur af landsframleiðslu heimsins er í þessum löndum. Þessi ríkjahópur er rísandi og ef fram fer sem horfir stækkar hópurinn á næstu árum. Alls hafa 40 ríki lýst áhuga á að verða meðlimir BRICS og hafa 23 lönd þegar sótt um aðild.“
Það sem meginmáli skiptir varðandi framþróun BRICS landanna og nú síðast metnaðarfull áform G77+ Kína fundarins í Havana 15. og 16. september er þróun á heimsvísu í átt til fjölpóla heims á nýjum forsendum friðsamlegar sambúðar þjóða, samvinnu og gagnkvæmrar virðingar fyrir fullveldi hverrar annarrar.
Í upphafsferli BRICS virtist umræðan að mestu leyti óhlutbundin. Það var hins vegar ekki fyrr en árið 2014 að BRICS fór að taka alvarleg skref í átt að aukinni sameiningu, þ.e. þegar upphafsbandalagið, þá ásamt Suður-Afríku, setti af stað Nýja þróunarbankann með stofnfjármagni upp á 50 milljarða dollara. Þessi ákvörðun þýddi að hópurinn væri nú tilbúinn að stíga sín fyrstu raunverulegu skref í átt til þess að ögra yfirráðum Vesturlanda yfir alþjóðlegum peningastofnunum, nánar til tekið Alþjóðabankanum og AGS.
Þótt þessari heimssögulegu framvindu hafi ekki, eins og áður var sagt, verið gerð skil á vettvangi meginstraumsfjölmiðla Vesturlanda gildir ekki það sama um fjölmiðla hins hnattræna suðurs sem hafa flestir fylgst náið með þróun mála.
Hér í lokin er stutt myndband – 2:22 mínútur – þar sem Aljazeera, alþjóðlega fréttaveitan, fjallar um fundinn í Havana og þar sem sjá má og heyra málflutning nokkurra þjóðarleiðtoga sem skýra og upplýsa nánar um helstu málefni og kröfur fundarins.
Hér má að lokum lesa „Havana yfirlýsinguna“ sem samþykkt var í lok fundarins þann 16. september sl.