Friður, friður, friður?
—
Öll veröldin hlustaði, langþreytt, löðrandi í blóði
líf hennar kvaldist á veiku blaktandi skari:
Bóndinn og kona hans báðust fyrir í hljóði,
barnið hélt sig með leikföngin sín í vari,
og blómið varla upp úr moldinni mjaka sér þorði
– milljónum tára rigndi á blöðin þess niður.
Öll veröldin hlustaði, beið eftir einu orði
og orðið var: friður… friður… friður… friður.
Svo mælti Jóhannes úr Kötlum í ljóðinu Friður (1939). Ég er mikill áhugamaður um frið, rétt eins og hann. Ég hef staðið fyrir friðargöngum á Þorláksmessu í mínu bæjarfélagi í 24 ár. Samt hef ég strangt tekið aldrei talið mig „friðarsinna“, pacifista, þann sem aðhyllist friðarhyggju og boðar það að aldrei skuli gripið til vopna. Maður þarf ekki að aðhyllast friðarhyggju til að berjast fyrir friði.
Aðhyllist ekki „friðarhyggju“
Andstaða mín við skilyrðislausa friðarhyggju stafar af tvennu: a) af því ég er byltingarsinni. Ég álít það réttmætt og æskilegt að alþýðan geri uppreisn til að hnekkja því kúgandi valdi sem heldur henni niðri. Alþýðan hefur vissulega allt að vinna á því að leið hennar til valda sé friðsamleg. En reynslan er þessi: ef auðstéttin telur stöðu sinni ógnað af alþýðu hefur hún sterka tilhneigingu til að beita miklu ofbeldi, og ef alþýðan er ekki við því búin að svara því ofbeldi með harðri og skipulegri valdbeitingu á móti munu hennar að líkindum bíða hrakfarir og miklir ósigrar (afturhaldið beitir ofbeldinu enn frekar þegar heimsvaldasinnar standa því að baki).
b) hin ástæðan: af því ég er and-heimsvaldasinni. Á vettvangi alþjóðamála ráða heimsvaldasinnar mestu og þeir fara um með ofbeldi. Þeir þvinga fram vilja sinn og sveigja þjóðir til hlýðni í krafti hervalds þegar annað dugir ekki til. Þar liggur uppspretta styrjaldanna. Í þessu samhengi skilgreini ég mig ekki sem friðarsinna heldur andheimsvaldasinna. Án andheimsvaldastefnu er friðarbaráttan því miður gagnslítil.
Í meira en öld hefur heimsvaldastefna og heimsvaldaeðli verið innbyggt í kapítalismann. Hið heimsvaldasinnaða auðvald nútímans er samþætt í eitt kerfi og hefur eina miðju. Sú miðja er í Washington. Þaðan eru runnar styrjaldir nútímans. Heitustu stríðs-pottarnir síðustu misserin eru Venezúela, Miðausturlönd, Úkraína (og hitnandi pottur er auk þess á Suður-Kínahafi).
Það er nefnilega undantekningarlítil regla að bandaríska/vestræna heimsveldið (Veldið) stendur á bak við styrjaldirnar (ásamt nánustu bandamönnum, í NATO). Fyrst í líki ofurveldis (hegemóns) meðan Bandaríkin réðu lögum og lofum í heiminum, bæði efnahagslega og pólitískt, og framfylgdu því valdi eins og heimslögregla, í krafti alhliða yfirburða sinna. En á síðasta áratug eða svo stundar það stríðsrekstur sinn sem hnignandi veldi, án hinnar fyrri efnahagslegu drottnunarstöðu.
En hinir töpuðu efnahagsyfirburðir valda því, að til þess að koma fram sinni heimsvaldasinnuðu arðránspólitík beitir Veldið pólitískri áhrifastöðu sinni og hráu hernaðarlegu valdi einfaldlega meira þar sem áður dugðu efnahagslegar aðferðir, vald yfir fjármálakerfi og slíkt. Veldið verður m.ö.o. ennþá hernaðarsinnaðra en áður.
Það þarf varla að taka fram, að ef þú spyrð Þorgerði Katrínu eða vestrænt forritaða fréttastöð eins og RÚV færðu önnur svör, nefnilega þau að stríðshætta nútímans stafi frá Rússlandi og Kína, einnig Íran, N-Kóreu og einhverjum slíkum, með því að einangra þau og berja niður fæst friðurinn. Nóg um það.
Vandinn er ekki vopnin sjálf heldur í hvers þágu þeim er beitt
Þegar hin ytri alþjóðlegu skilyrði stjórnmálanna einkennast af yfirgangi voldugasta heimsveldisins – Veldisins – íhlutunarstefnu þess og valdbeitingu er sem sagt mjög til efs hvort það sé eitthvert hollráð til handa fátækari hluta jarðarbúa og þjóðum þeim, stórum og smáum, sem stynja undan áðurnefndum yfirgangi, að þær eigi skilyrðislaust að kasta frá sér vopnum sínum og verjum. Það verður að aðgreina réttláta og rangláta beitinbgu vopnavalds.
Tökum nú þrjú skólabókardæmi sem varpa ljósi á yfirgang heimsvaldasinna í nútímanum og jafnframt á spurninguna um stríð og frið.
Íran
Eftir seinni heimsstyrjöld tóku Bandaríkin við af Bretum sem mestráðandi í Miðausturlöndum, þau eiga þar t.d. á annað hundrað herstöðvar (þ.m.t. „herstöðina“ eða „ósökkvandi flugmóðurskipið“ Ísrael). Eftir fall Sovétríkjanna 1991 tók BNA upp afar herskáa stefnu gegn öllum löndum í þessum heimshluta sem ekki lutu nógu vel vestrænum aga og arðráni – með innrásum, staðgengilsstríðum og valdaskiptaaðgerðum – stefnandi á full svæðisbundin yfirráð. Oft var Ísrael þar stríðsverktaki. Mikið blóð hefur síðan flotið og nokkur árangur náðst í að hrekja burt „óþæg“ stjórnvöld á svörtum lista Bandaríkjanna. En yfirráð Bandaríkjanna og Vestursins á svæðinu hafa samt í heild ekki styrkst.
Það sem mest hefur staðið í vegi heimsvaldasinna er staðfast viðnám Írans og herstyrkur Írans, sem og „Andspyrnuöxullinn“ í nálægum löndum (Líbanon, Sýrlandi, Íkrak, Jemen, Palestínu). Án þess hernaðarlega styrks og viðnáms væri yfirgangur heimsvaldasinna takmarkalítill eða takmarkalaus, og ógæfa þjóðanna á svæðinu í samræmi við það.
Rússland/Úkraína.
Sókn Bandaríkjanna og Vestursins á hendur Rússlandi eftir fall Sovétríkjana fólst í því að þenja NATO upp að landamærum Rússlands, framkvæma síðast valdarán í Úkraínu og vígvæða hana gegn Rússlandi eins og mest mátti við koma. Hörmungar 10. áratugarins gáfu Rússum forsmekk af því lífi sem vænta mátti í Rússíá undir forsjá og arðráni vestræns fjármálavalds.
Það þarf ekki að taka það fram að hvers konar afvopnun Rússlands hefði verið verra en glapræði. Það má deila um hvort ólögleg innrás Rússlands í Úkraínu hafi verið óhjákvæmileg (frá sjónarhól Rússlands) en víst er að grunnorsök stríðsins þar er ekki hernaðarsókn Rússa til vesturs heldur hernaðarleg sókn NATO til austurs. Líka ljóst að Rússar hafa margsinnis boðið viðræður um hlutleysi Úkraínu ásamt öryggistryggingum fyrir Rússland í vesturátt, en NATO hefur hingað til tekist að slá slíkt út af borðinu. Í ljósi ósigurs á vígvellinum er vandséð að NATO geti lengi enn forðast slíka friðarsamninga, a.m.k. ekki nema koma sjálft með enn beinni hætti inn í styrjöldina – og þá væri friðarvonin framundan smá og dökk.
Venesúela.
Í 200 ár hafa Bandaríkin meðhöndlað Rómönsku Ameríku sem áhrifasvæði og sem bakgarð sinn, með tilvísun til Monroe-kenningarinnar, og m.a. framkvæmt þar óteljandi íhlutanir og valdaskiptaaðgerðir. En þrátt fyrir það hefur það gerst á síðustu árum, á tíma „fjölpólunar“ með nýjum framvaxandi valdapólum, að einkum efnahagsleg áhrif Kína á svæðinu hafa vaxið eftir leiðum hnattvæðingar, og Kína er nú stærsti viðskiptaaðili Rómönsku Ameríku, stórveldið Brasilía er í BRICS og fleira má telja.
Ný þjóðaröryggisstefna BNA er í stuttu máli viðbrögð Bandaríkjanna við „fjölpóluninni“, einkum á efnahagssviðinu. Eins og Ben Norton segir:
Bandaríkjastjórn vill ná fullum yfirráðum í Rómönsku Ameríku, koma þar á óstöðugleika og steypa af stóli öllum sjálfstæðum ríkisstjórnum á svæðinu sem eru í bandalagi við Kína og Rússland. Þess vegna heyja Bandaríkin nú stríð gegn Venesúela.
Bandaríkin ætla að gera álfuna aftur að „hreinu“ efnahagssvæði fyrir sig sjálf og útiloka alla hugsanlega keppinauta, uppræta áhrif þeirra. Afnema með því frjálslynda hnattvæðingarstefnu en taka upp beinni og hraðvirkari stjórn. Fyrir viku síðan endurtók Trump stefnuna frá sl. vetri að: „við verðum að fá Grænland“. Allt þetta er á margan hátt afturhvarf til nýlendustefnu 19. aldarinnar. Trump beitir nú óspart pólitískum og efnahagslegum þrýstingi til að hafa áhrif á kosningar á svæðinu og sjá til þess að löndin verði tryggir fylgihnettir BNA. Ef það nægir hins vegar ekki beitir hann hervaldi.
Lula Brasilíuforseti og hans nánustu ráðgjafar hefa nú sagt að ef BNA geri innrás í Venezúela verði það „annað Víetnam“. Það verðum við einfaldlega að vona. Þar er allt komið undir pólitískum styrk, og þó enn frekar herstyrk, Maduros. Ef Bandaríkin eiga auðveldan leik í því að steypa Maduro og Chavistum með hernaði mun það auðvitað hvetja þau til að endurtaka leikinn hvar og hvenær í álfunni, sem þau telja nauðsynlegt.
Vilji Trumps til að draga sig út úr Úkraínudeilunni er merki um að Veldið vilji ekki „yfirteygja sig“ og vilji geta einbeitt sér að Kína. Þessa sama mun gæta á hinum vígvöllunum: ef Bandaríkin draga sig ofan í stríðsfen í Venezúela eiga þau erfitt með að einbeita ser að Íran. Yfirteyging er falli næst, og flýtir því falli.
„Styðjum Þjóðfrelsisfylkinguna til sigurs!“ var kjörorð Víetnamhreyfingarinnar 1970. Styðjum Venezúela til sigurs! verður að vera kjörorð okkar í stríði Venezúela við Bandaríkin.







