Framundan hjá Alþýðufylkingunni

Alþýðufylkingin

Það verður varla hjá því komist að Alþýðufylkingin hafi mörg járn í eldinum næstu mánuðina. Hér er tæpt á því helsta. Þessi greinarstúfur er ekki bara yfirlit. Hann er herútboð!

Innri uppbygging flokksins

Pólitísk uppbygging

Það hefur komið til liðs við okkur margt nýtt fólk undanfarin misseri. Það þarf að fá tækifæri til að starfa með flokknum og undirbúa starf í framtíðinni. Það þýðir að innra fræðslustarf flokksins þarf að vera virkt. Á Facebook hefur þegar verið stofnaður hópurinn Flokksskóli Alþýðufylkingarinnar. Þar koma fram hugmyndir og ábendingar um lesefni, myndbönd og annað fróðlegt, þar skipuleggjum við leshringi og þar eigum við líka eftir að skipuleggja námskeið og vinnusmiðjur. Efnið er eðli málsins fjölbreytt, bæði stéttabarátta, krítík á kapítalismann, sósíalisminn eins og hann birtist okkur í dag, almenn félagsstörf o.fl.

Þá er mikilvægt að vefritið Neistar öðlist þá stöðu að hér fari fram pólitísk umræða sem í senn er skilningsaukandi og boðandi, það er að segja: verði vettvangur fyrir bæði innri umræðu hreyfingarinnar og fyrir boðskap hennar til umheimsins. Neistar eiga ekki að vera prívatmálgagn Alþýðufylkingarinnar; við viljum líka gjarnan birta aðsent efni, til þess að stuðla að frjórri og krítískri umræðu um hvernig ranglæti heimsins verður brotið á bak aftur og háborg siðmenningar reist á rúsum þess.

Kjördæmafélög

Alþýðufylkingin er hvorki búin að stofna kjördæmafélög í Norðvesturkjördæmi né Suðurkjördæmi. Það er ástæðan fyrir að við buðum ekki fram þar í síðustu kosningum. Framundan er því að vinda bráðan bug að því að stofna þessi félög. Framkvæmdastjórn stefnir að því eða gera það í náinni samvinnu við þá félaga sem búsettir eru í kjördæmunum. Augljóslega munu félagarnir sjálfir bera starfið uppi og hvernig það verður eða hversu mikið mun ráðast af þátttöku þeirra. Uppbygging flokksins á landsvísu er mikið forgangsmál og er m.a. forsenda þess að geta boðið fram á landsvísu í næstu Alþingiskosningum.

Sveitarstjórnarkosningar

Til að geta boðið fram í sveitarstjórnarkosningum þarf fleira en formsatriðin ein. Það þarf stefnu, og hún er langt komin í mótun. Það þarf að klára hana. Það þarf að finna í hvaða sveitarfélögum er grundvöllur fyrir framboði Alþýðufylkingarinnar, og hvort/hvar það er í eigin nafni eða í samstarfi við aðra flokka, og þá á hvaða forsendum. Þá eru ótalin öll praktísku verkefnin, svo sem uppstilling, kosningastjórn, undirskriftasöfnun, fjáröflun — og margt fleira.

…og fleira

Alþýðufylkingin hefur í nokkur skipti boðið félögum háskólanema í vísindaferðir. Við höfum sjálf farið í ferðir til að gera okkur dagamun. Við höfum gefið út ýmislegt prentað efni. Við höfum haldið óformlegum en gefandi tengslum við aðra flokka, innanlands og utan. Allt þetta þarf að halda áfram.

Við þurfum að gera okkur gildandi hvar sem fer fram barátta um mikilvæg þjóðfélagsmál. Við þurfum að vera virk í friðarhreyfingunni. Í verkalýðshreyfingunni. Í jafnréttisbaráttunni. Í samstöðuhreyfingum. Í baráttunni gegn Evrópusambandinu. Og víðar.

Það verða mörg handtök sem þarf að vinna á næstunni. Það er það sem við bjóðum upp á: við erum ekki stríðalinn borgaraflokkur sem útdeilir bitlingum til gæðinga, heldur grasrótarflokkur sem þarfnast óeigingjarnrar vinnu sjálfboðaliða. Margar hendur vinna létt verk (þannig séð) — þess vegna erum við flokkur en ekki hvert í sínu horni. Takið þátt, byltum þessu drasli og byggjum réttlátt þjóðfélag!