Flugfélagið Bláfugl ræðst að grunnréttindum vinnandi fólks

31. janúar, 2021 Þorvaldur Þorvaldsson



Oft er látið í veðri vaka að fyrirtæki á Íslandi séu almennt meðvituð um samfélagslega ábyrgð sína og fari að lögum, og réttindi verkafólks séu þar með vel tryggð. Því er hins vegar ekki þannig farið og jafnvel spurning hvort það sígi ekki heldur á ógæfuhliðina.

Flestum er í fersku minni þegar Icelandair fór fram á ystu nöf síðastliðið sumar með ögrunum í garð flugfreyja til að knýja fram launalækkanir í skugga heimsfaraldurs. Nú gengur Flugfélagið Bláfugl skrefinu lengra og segir upp þeim 11 flugmönnum sem eru á launaskrá og félagsmenn í Félagi íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA). Tilgangurinn er sá að ráða eingöngu flugmenn á svokölluðum verktakasamningum (gerviverktöku) á mun lakari kjörum og án allra félagslegra réttinda. Ekki er þar um að kenna tekjufalli vegna heimsfaraldursins, því Bláfugl flýgur eingöngu með frakt og hefur hagnast á faraldrinum frekar en hitt. Þetta snýst aðeins um að auka gróðann á kostnað starfsfólks. Og einnig á kostnað flugöryggis eins og Jón Þór Þorvaldsson, formaður FÍA bendir á í grein á visir.is 7. janúar s.l.


Lögleysa

Flugmannasætin mannar félagið gegnum starfsmannaleigu, sem ekki er skráð hér á landi. Það er eitt af brotum fyrirtækisins í þessu máli. Auk þess að víkja fólki úr starfi fyrir aðild að stéttarfélagi. Það tíðkaðist fyrir 100 árum. Til að koma í veg fyrir það var forgangsréttur félagsbundins starfsfólk settur í lög um stéttarfélög og vinnudeilur árið 1938 eftir áralanga baráttu verkalýðssamtakanna fyrir viðurkenningu og samningsrétti. Framganga fyrirtækisins virðist njóta fulls stuðnings frá Samtökum atvinnulífsins, sem koma fram fyrir hönd fyrirtækisins við samningaborð.

Það er ekki óþekkt að fólk sé útilokað frá vinnu vegna aðildar eða virkni í stéttarfélagi. Það er hins vegar óvenjulegt að það gerist jafn grímulaust og formlega og hér er gert, eins og verið sé að láta reyna á hve langt er hægt að ganga. Ef þetta háttalag fær að viðgangast, og jafnvel ryðja sér til rúms sem viðmið á vinnumarkaði, er það gróf atlaga að félagafrelsi og samningsrétti vinnandi fólks sem taka verður alvarlega.


Hvað er til ráða?

Einn vandinn er sá, að þó lög kveði á um ýmis réttindi vinnandi fólks, eru yfirleitt engin refsiákvæði vegna brota á þeim. Þar við bætist að stofnanir ríkisvaldsins hafa yfirleitt engan áhuga á að beita sér gegn brotastarfsemi fyrirtækja gegn réttindum verkafólks. Í þessu máli væri t.d. hægt að svifta flugféagið lendingarleyfi nema það fari að lögum og virði réttindi starfsfólks. En ekki sjást nein merki um að slíkt verði gert.

Miðstjórn ASÍ samþykkti nýverið ályktun þar sem fordæmd er tilraun Bláfugls til félagslegra undirboða í flugrekstri hér á landi. Í lokin er skorað á Vinnumálastofnun „að rísa undir hlutverki sínu og nota allar þær heimildir sem hún hefur til að tryggja að ekki séu stunduð félagsleg undirboð og lögbrot á íslenskum vinnumarkaði.“ Fátt bendir til að Vinnumálastofnun muni svara þessu kalli, né heldur aðrar opinberar stofnanir. En hvað er þá til ráða? Hvaða meðul hefur verkalýðshreyfingin til að snúa vörn í sókn?

Athuga mætti hvort rétt væri að stefna ákvörðunum Bláfugls til Félagsdóms. Það gæti þó verið undir lagatæknilegum útfærslum komið hvort sú leið er fær. Önnur leið, sem líklegri er til árangurs er verkfallsleiðin. Verkafólk sem sér um flugafgreiðslu hlýtur að vera í félögum innan Starfsgreinasambandsins. Þau félög geta sett afgreiðslubann á Bláfugl og leitað til Alþjóðasambands flutningaverkafólks til að útiloka Bláfugl frá flugafgreiðslu. Fleiri verkallsleiðir gætu komið til greina sem vert væri að skoða.


Snúa vörn í sókn

Bláfuglsmálið er ekki aðeins prófsteinn á styrk verkalýðshreyfingarinnar og getu til að verja sig. Hinu megin borðsins er það einnig til marks um það hve langt er hægt að ganga gegn réttindum alþýðunnar. Ennfremur lætur ríkisvaldið reyna á hversu það getur komið sér undan ábirgð á að halda uppi lögum.

Mikilvægt er því að Verkalýðssamtökin stígi fast til jarðar í þessu máli og reyni að beita því til að færa til viðmið í rétta átt, varðandi samskipti á vinnumarkaði. Í samningnum fyrir tæpum tveimur árum, sem kallaður hefur verið Lífskjarasamningurinn, lofaði ríkisstjórnin m.a. að beita sér fyrir aðgerðum gegn lögleysu á vinnumarkaði, svosem launaþjófnaði. Það gæti ekki síður átt við mál af þessu tagi. Mikilvægt er að knýja frekar á um efndir á þessu, sem ekki hefur vottað fyrir hingað til. Verkalýðssamtökin þurfa að hafa öflugt frumkvæði í þessu málum og upplýsa félagsmenn sína um gang mála.

Það skiptir öllu máli að hrinda árásum á undirstöður verkalýðshreyfingarinnar, sem eru samningsrétturinn og félagafrelsið. Vitund félagsmanna um þetta og viljinn til að beita sér í sókn og vörn ræður úrslitum um viðgang hreyfingarinnar.