Fjall, haf og múr

14. október, 2023 Einar Ólafsson

Ég hef heyrt af múr
í fjarlægu landi,
ég lít til fjalla, ég lít til hafs.

Bak við fjallið býr systir mín,
handan hafsins býr bróðir minn.

Handan við bláma fjarlægðarinnar,
handan við bláma víðáttunnar,
handan við víðáttu frelsisins
hef ég heyrt af múr
reistum af manna höndum.

Ég klíf fjallið,
ég sigli yfir hafið.

Ég hef heyrt af múr
í fjarlægu landi
og vopnuðum vörðum.

Ég hef heyrt af fólki
handan múrsins,
handan ókleifra vopna.

Bak við múrinn,
handan vopnanna
búa bræður mínir,
búa systur mínar
svo fjarri og þó svo nærri.

2. desember 2012 — Í nóvember 2012 gerði Ísraelsher loftárásir á Gazasvæðið í Palestínu. Birtist í ljóðabókinni Í heiminum heima 2015.