Fimmtíu ár liðin frá 11. september

11. september, 2023 Katjana Edwardsen

…í Síle, þ.e. hörmungunum sem skipulögð voru af Bandaríkjunum sem opnuðu vestræn augu fyrir utanríkisstefnu heimsveldisins. Það sem við hefðum átt að skilja þá – en flest okkar gerðu ekki – var að mörg lönd, þ.á.m. mitt eigið hafa bæði opinbera og óopinbera utanríkisstefnu. Um Bandaríkin og mitt eigið land (Noreg) þá fáum við þegnarnir að heyra í sífellu, svo annað heyrist ekki, frasa eins og réttarríki, lýðræði, frelsi o.s.frv. Lönd sem við eigum í einhverjum samskiptum við kunna að líta okkur öðrum augum en við sjálf.

Það sem við héldum að við vissum

Fá okkar vissu þann 11. september 1973 að Síle var hvorki fyrsta né síðasta land til að verða krossfest af Bandaríkjunum, að Síle, fyrir Bandaríkin, var bara «business as usual». Því miður gilti það um mig. Ég hélt að Síle væri undantekning.

Sjáiði til, meðan bandarískt valdarán í Síle tók um 3000 mannslíf á nokkrum árum, sem flest höfðu verið pyntuð í hel, voru það önnur lönd sem heiðruð voru af bandarískum íhlutunum sem fengu verri örlög. Til dæmis kostaði Operation Condor gróflega áætlað 30.000 líf í Argentínu einni. En flest okkar heyrðu aldrei um það. Og ef við heyrðum um School of the Americas sem þjálfaði „launmorðingja, dauðasveitarforingja og mannréttindabrotamenn til skítverka í Latnesku Ameríku frá stofnun sinni 1946“ þá afgreiddum við það liklega sem „samsæriskenningu“ (þó ég efist um að við höfum þekkt það hugtak í þá daga).

Hvað um það, fá okkar í Evrópu voru ómeðvituð um hræðilegar ofsóknir gegn hverjum þeim sem voru jafnvel óljóst grunaðir um að vera andstæðingar Pinochet einræðisherra Síle, og fáir Evrópubúar – hvort heldur hægri eða vinstrisinnar – sættu sig við pyntingar og dráp utan dóms og laga (þó að Pinochet virðist hafi verið innilega studdur af Margaret Tatcher). Eins og við litum á hafði Salvador Allende og fylgismenn hans unnið að því að flytja mannrettindi til Síle á meðan Pinochet og handbendi hans höfðu bundið endi á allt sem við – líka hægrisinnað fólk – trúði á.

Af hverju vissu svo mörg okkar um Síle en ekki um Argentínu, Brasilíu, Perú, Úrugvæ, Bólivíu o.s.frv. svo ekki sé minnst á skelfingar Mið-Amerðiku? Ó já: og Íran! Af hverju söngluðu svo mörg okkar: „Un pueblo/unido/jamás será vencido“ og sungu söngva Victor Jara? Ég spyr af því ég held að svarið sé mikilvægt: Sílenska andstöðuhreyfingin hlýtur að hafa gert eitthvað stórkostlega rétt af því hún náði eyrum fólks þrátt fyrir þá staðreynd að hún væri afskaplega klofin.

Ég get ekki sagt hvað hún gerði rétt af því ég veit það ekki. Hugsanlega var það hetjuskapur þjóðlagasöngvarans Vicors Jara sem kom okkur á fætur í æpandi hneykslan. Honum var haldið föngnum ásamt hundruðum annarra háskólastúdenta og kennara á íróttaleikvanginum Estadio de Chile þar sem hann var pyntaður klukkustundum saman og þar sem fyrst fingur hans og síðan tungan voru af skorin til að stöðva söng hans. Þjóðlagasveitin Quilapayún, í útlegð í Evrópu, sá um að nafn hans, söngvar og hetjuskapur gleymdist ekki.

Flest okkar sáum líka dásamlega Costa Garva kvikmynd Missing og lásum skáldsögu Isabel Allende Hús andanna, en hvort tveggja var frá árinu 1982, níu árum eftir valdaránið!

Einn kvikmyndagerðarmaður var þó á sjálfu ballinu,  Patricio Guzmán. Honum tókst að skrásetja sumar misgjörðir þær sem sílenska þjóðin mátti þola á tíma einræðisins. Þríleikur hans frá 1975, 1977 og 1979 – „La batalla de Chile“ – virðist vera almennt aðgengilegur með enskum texta. Hann hefur þjónað sem óafmáanleg heimild um hvað Síle varð fyrir, um hvað Sílebúar höfðu, skamma stund, og hvað þeir misstu. Kvikmyndir Guzmans hafa viðhaldið þeim litla vonareldi sem glæddist í sprengingu, í „estallido“ uppreisninni sem hófst í október 2019.

Stjórnarskráin – fyrsti hluti

Síle undir Pinochet var „tilraunastofa“ fyrir það sem við nú köllum „nýfrjálshyggju“. Vitnum aðeins í Naomi Klein, sem m.a. er höfundur bókarinnar The Shock Doctrine (2007). Hún segir í viðtali við sjónvarpsstöðina Democracy Now:

„Síle var tilraunastofan fyrir það sem kallaðist Chicago hagfræðiskólinn. Það var fyrsti staður í heimi fyrir hinar róttæku hugmyndir Miltons Friedman, sem trúði á einkavæðingu afsalútt alls, fyrir utan herinn… Þetta þóttu sérvitringslegar hugmyndir á 7. áratugnum þegar það var ennþá, þú veist – það var enn tími keynesismans svo að þeir voru enn ekki tilbúnir að innleiða þessar hugmyndir í Bandaríkjunum… Og þess vegna var það aðeins í Síle, í kjölfar hrottalegs valdaráns og dauða Salvador Allende að Chicago hagfræðingarnir fengu sinn litla leikvöll þar sem þeir gátu prufukeyrt margar af þeim hugmyndum sem á endanum voru keyrðar út á heimsvísu.“

Tilraunin virkaði á þann hátt að verg landsframleiðsla æddi upp en verg landsframleiðsla segir ekkert um hvernig þjóðarframleiðslu er útdeilt. Í Síle var henni bara ekkert útdeilt.

Mesti sigur frjálshyggjunnar var stjórnarskráin frá 1980 sem meira og minna gerði einkaeignarréttinn heilagan. Hún var blessun fyrir hina auðugu en böl fyrir aðra íbúa. Með fáeinum viðaukum er hún við lýði enn í dag. Hún kemur tryggilega í veg fyrir uppbyggingu opinberrar heilbrigðisþjónustu og  og opinberrar háskólamenntunar. Allt, þar með talið vatn, er til sölu til hæstbjóðanda. Hinir ungu eiga sér ekki framtíð. Þeir gömlu hafa varla efni á að halda sér á lífi eftir starfslok. 

Fyrir u.þ.b. ári síðan varði ég nokkrum klukkutímum í að lesa uppkast að nýrri stjórnarskrá fyrir Síle (enska þýðingu má lesa hér). Ég hef lesið mörg lagaleg skjöl um dagana en þetta stjórnarskráruppkast er einhver fegursti texti sem ég hef rekist á. Samkvæmt mjög virðingaverðri Wikipedíugrein (frá 13 ágúst 1923) segir í inngangsorðum:

„Við, fólkið í Síle, af ýmsum þjóðernum, veitum okkur þessa stjórnarskrá sem samþykkt er í lýðræðislegu ferli með jöfnum rétti og almennri þáttöku.“

Vissulega var stjórnarskráruppkastið samið af „fólkinu í Síle“ sem kusu sérhvern af hinum 155 fulltrúum í „stjórnlaganefnd“, þ.e.a.s. með beinni kosningu og ekki gegnum þjóðþingið.Ég hvet ykkur til að sjá kvikmynd Patricio Guzmans Mi país imaginario (virðist líka vera í almennri dreifingu með enskum texta) sem rekur gang „sprengingarinnar“, „estallido“ og atburða sem á eftir fóru og sem leiddu til samningar stjórnarskráruppkastsins.

Stjórnarskráin – annar hluti

Því miður, þann 4. september 2022 var hinu fagra stjórnarskráruppkasti fólksins hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og ég hafði reyndar óttast að myndi gerast. Fyrir utan margar endurtekningar í textanum sem auðveldlega mátti stroka út voru líka mistök af gerðinni „of mikið, of hratt“. Þó að flestir Sílebúar æsktu umbóta og myndu trúlega hafa kosið að búa við svokallað „félagslegt lýðræði“ þá er mikil íhaldssemi og þjópernishyggja meðal þeirra. „Kynja- og kynferðislegur breytileiki og afbrigði“ sem er endurtekið 6 sinnum í textanum mun hafa búið til tortryggni og jafnvel viðbjóð, ringulreið og jafnvel reiði.

Eins og við var að búast gerðu fjölmiðlarnir, yfirgnæfandi hægrisinnaðir, sér mat úr ringulreiðinni og tortryggninni og vöruðu lesendur sína við að ef stjórnarskráin yrði samþykkt yrði útkoman fjöldaatvinnuleysi, enn meiri verðbólga, meiri glæpir og jafnvel ólöglegur innflutningur fólks. Þar að auki yrðu heimili fólks tekin eignarnámi, fóstureyðingar fara úr böndum, auk almenns kynruglings (kynusla) og óeðlis.

Það er mín reynsla að ef þú segir fólki að ef það geri ekki það sem þú biður það um muni það tapa vinnunni og afadæturnar breytast í afasyni og öfugt – þá muni það gera það sem þú segir því að gera. Sérstaklega ef þú hefur haldið frá því mannsæmandi menntun svo að það sjái ekki í gegnum blekkingu þína. Þetta kallast fjárkúgun.

Svo að við erum aftur á byrjunarreit. Yfirgnæfandi hægrisinnað þing hefur fengið verkefnið að semja nýja stjórnarskrá. Svokölluð Sérfræðinganefnd skipuð 24 fulltrúum sem þingið tilnefnir hefur þegar undibúið fyrsta uppkast og breytingartillögum síðan verið bætt við og þetta verður rætt af svokölluðu stjórnlagaráði með 50 meðlimi, en 33 þeirra eru frá ysta hægri. Örlög stjórnarsrkárinnar ráðast í þjóðaratkvæðagreiðslu 17. desember 2023.

Fyrir þá sem lesa spænsku má lesa uppkast Sérfræðinganefndarinnar og breytingartillögurar við það  hér. Það sem er ljóst er að sumar breytingartillögurnar frá ysta hægri boða allt annað en gott. Samkvæmt Ciperchile bera 11 þeirra öll merki pinochet-isma. Sjá hér fáein dæmi um breytingar á uppkasti Sérfræðinganefndarinnar:

  • Breytingar við stjórnarskrána verða nú að fá samþykki 66,6% þingsins. Af þeim sökum er nánast ómöglegt að koma á breytingum. Ysta hægrið vill hafa það þannig af því það hefur næg tök á þinginu (Sérfræðinganefndin samþykkti að lækka hlutfallið í 60%).
  • Ysta hægrið vill líka viðhalda  valdi Stjórnlagadómstólsins til að stöðva löggjöf  (Sérfræðinganefndin dregur úr valdi Stjórnlagadómstólsins og skilgreinir hann sem ráðgefandi).
  • Ysta hægrið vill viðhalda því sem Ciperchile vísar til sem “dreifræði-líkan ESB“, gott mál e.t.v. fyrir ESB en ekki fyrir Chile. Í reynd virkar það svona: ríkið má aðeins taka þátt í starfsemi ef einkafjárfestar eiga þar engra hagsmuna að gæta. Dæmi: Ef allir hafa rétt á að velja hvort þeir borga fyrir opinbera eða einkarekna sjúkratryggingu verða opinber sjúkrahús undirfjármögnuð eða ekki til. Sama gildir um stofnanir hærri menntunar, og félagsleg öryggisnet þ.á.m. ekki síst ellitrygging og atvinnuleysissjóðir.

Þetta eru lykilspurningar fyrir þá sem tóku þátt í uppreisninni, í þessu felst auðvitað að opinber sjúkrahús og háskólar o.s.frv. mundu útheimta einhvers konar þrepaskipt (prógressíft) skattkerfi. Allt samfélagið krefst þess að þeir ríku borgi miklu hærra skattahlutfall en þeir fátæku. Jafnvel í Evrópu er þörf á mun meiri þrepaskiptingu í sköttun.

  • Ysta hægrið viðurkennir bara mannréttindasáttmála ef þeir samræmast sílensku stjórnarskránni.
  • Ysta hægrið vill takmarka rétt verkafólks til að fara í verkfall.
  • Ysta hægrið vill banna fóstureyðingar.
  • Ysta hægrið vill takmarka réttindi þjóðernisminnihluta frumbyggja.

Stjórnarskráin – vatnsmálin

Þú veist e.t.v. að Síle hefur liðið af alvarlegum vatnsskorti í mörg ár. Á miðlægum þéttbýlustu svæðunum verður að miðla vatninu með tankbílum. Það sem hefur þó ekki verið sagt frá sem skyldi er að þetta er ekki bara afleiðing af loftslagsbreytingum. Eitt slagorð mótmælendanna í „estallido“ var: “Það er ekki þurrkur, það er þjófnaður.“

Þú heldur kannski að vatn sé mannréttindi. Ekki í Síle, þar sem eignaréttur á vatni gengur kaupum og sölum og núverandi stjórnarskrá tekur sérstaklega fram að vatnsréttindi séu einkaeign. Vatnseign útheimtir ekki einu sinni landareign svo það eru vatnseigendur sem eiga ekkert land og landeigendur sem eiga ekkert vatn.

Í  grein í  Resilience.org má t.d. lesasegir hann, til dæmis:

„Antonio Walker Prieto landbúnaðarráðherra [í ríkisstjórn Piñera til ársins 2020] og fjölskylda hans eiga meira en 29.000 sekúndulítra sem er jafngildi vatnsframboðs sem notað er af 17 millljón manns.“

Síðasta tilvitnun, að þessu sinni frá Earth.org,eimilum hljóðar svo:

„Kerfið gerir landbúnaðar- orku- og námufyrirtækjum kleift að kaupa og selja vatnsból eins og þau væru hlutabréf. En á meðan þetta hefur komið til góða blómstrandi útflutningsgreinum með því að breyta Síle í stórútflytjanda af afurðum frá kopar til avókadó og víns hafa miljónir manns verið skilin eftir. Bændur út um land hafa séð mörg ár af vinnu hverfa  upp í reyk þar sem þurrkur hefur smám saman étið uppskeru þeirra og stofnað í hættu uppskeru svo sem kartöflum, hrísgrjónum, maís, baunum, ávaxtatrjám og víngörðum. Samtímis hafa hundruð bændasamfélaga sem hafa misst allt sitt ekki átt annars kost en að selja land sitt og flytja til bæjanna.“

Efnahagur Síle – sá stærsti í Suður-Ameríku í landsframleiðslu á mann – er grundvallaður á þremur mjög vatnsfrekum atvinnugreinum: námugreftri, landbúnaðí og skógrækt. Studdur af einkaeignarkerfinu hefur sá síðasttaldi – sem leggur aðeins til 3% af vergri landsframleiðslu – yfir að ráða nærri 60% af vatnsbirgðum Síle. Önnur 37% fara til landbúnaðar, sem skilur þá eftir aðeins um 2% fyrir almenna neyslu.

Það var mikil umræða í Sílenskum fjölmiðlum um vatn í undirbúningi að Stjórnarskrá fólksins. Hvað sem þvi veldur sé ég orðið „vatn“ nánast ekki nefnt í stjórnarskráruppkasti þingsins. Ég býst við að enginn trúi að ysta hægrið muni nokkurn tíma gefa eftir eignarréttindin yfir vatninu. Hafir þú séð kvikmynd Patricio Guzmáns Mi país imaginario hefur þú kannski tekið eftir að stundum er þar talað um þjóðþingið sem klíku innbyrðis tengdra fjölskyldna.

Ég held að ég hafi sýnt fram á að ríkisvaldið og þingið í Síle þjóni augljóslega fyrst og fremst hagsmunum örlítils hluta Sílensku þjóðarinnar. Innanlandsstjórnmál Síle sýnast einkennast af mikilli kaldhæðin. Eru þau undantekning? Ég held að spyrja megi eftirfarandi spurningar: Þjónar mín eigin ríkisstjórn og þjóðþing hagsmunum fólksins í landinu?