Byltingin hér og nú – í minningu Ragnars Stefánssonar

10. júlí, 2024 Einar Ólafsson

Ragnar Stefánsson var rúmum áratug eldri en ég. Ég var rétt skriðinn úr menntaskóla um tvítugt þegar ég kynntist honum um 1970, hann þá fyrir nokkru kominn heim eftir langt háskólanám í Svíþjóð og byrjaður að fá þá virðingu sem vísindamaður, jarðeðlisfræðingur með jarðskjálfta sem sérsvið, sem færði honum nafnið Ragnar skjálfti þegar róandi og traust rödd hans heyrðist í útvarpi eftir að jarðskjálfti hafði dunið yfir, þessi náttúruógn sem enginn ræður við. Viðurnefni sem sumir tengdu kannski líka pólitískum umsvifum hans sem ollu talsverðum skjálfta í þjóðlífinu. Lífsstarf hans var að rannsaka og spá fyrir um jarðskjálfta sem gætu ógnað lífi okkar og tilveru, en jafnframt að kalla fram þá skjálfta í samfélaginu sem nauðsynlegir eru til að hrista burt það sem kemur í veg fyrir gott samfélag.

Það er sá þáttur í lífsstarfi hans sem ég ætla að fjalla um hér, og þá með áherslu á viðhorf hans sem ég kynntist vel gegnum meira en hálfrar aldar kynni. Hann gerði þeim líka góð skil í endurminningum sínum, Það skelfur, sem kom út árið 2013 og ég gríp hér ofan í. Þar sagði hann líka frá viðhorfum sem hann kynntist í æsku og höfðu áhrifin á hann.


Vald verkafólks hér og nú

Ragnar Stefánsson var alinn upp meðal sósíalista, faðir hans var róttækur verkamaður og félagi í Kommúnistaflokknum og Sósíalistaflokknum, föðurbróðir hans var Brynjólfur Bjarnason forystumaður í þessum flokkum frá upphafi og menntamálaráðherra í nýsköpunarstjórninni svokölluðu sem var mynduð undir stríðslok, haustið 1944.

Í endurminningum sínum fjallar Ragnar nokkuð um deilur í Sósíalistaflokknum, meðal annars um þátttöku í ríkisstjórn. Hann rifjar upp (bls. 82) að faðir hans hafi verið í hópi þeirra sem taldi rangt að ganga til liðs við hina flokkana, það er Sjálfstæðisflokkinn og Alþýðuflokkinn, þegar nýsköpunarstjórnin svokallað var mynduð. Ekkert hafi þeim fundist fáránlegra en að öll mál leystust bara með því að flokkurinn færi í ríkisstjórn. „Við það yrði forysta flokksins enn nátengdari arðræningjunum,“ sögðu þeir (bls. 86-87). En Einar Olgeirsson, sem átti hvað mestan þátt í að þessi ríkisstjórn yrði að veruleika, hafi útskýrt það svo að markmið stjórnarsamstarfsins hafi verið að nýta „stríðsgróðann“ sem íslenska ríkið átti við lok styrjaldarinnar til að byggja upp háþróað iðnaðarsamfélag á Íslandi, en í samræmi við algengar kenningar marxismans hafi það verið grundvöllur þess að hægt væri að koma á sósíalisma (bls. 90). Aðrir töldu hins vegar að ekki ætti að fara í ríkisstjórnir nema afl væri á bak við til að gera raunverulegar breytingar á samfélaginu, ríkisstjórnir þar sem flokkar verkalýðsins eru með meirihlutafylgi á bak við sig (bls. 89).

Hann segir líka frá fyrstu verkföllunum sem hann kynntist, verkfallinu 1952, þegar hann var fjórtán ára og faðir hans var mikið á verkfallsvöktum, og líka verkfallinu 1955, en þá tók hann sjálfur, kominn í menntaskóla, þátt í verkfallsvöktum. „Í verkfallinu kynntist ég því sem kalla mætti nýtt og sjálfstætt samfélag innan okkar kapítalíska ríkis, samfélag verkafólks“ (bls. 91). Hann rifjar upp þau andmæli gegn verkfallinu að með einföldu reikningsdæmi mætti sýna fram á að launatapið í verkfallinu myndi aldrei nást til baka í hærri launum. Verkfallsmenn hafi hins vegar sagt að verkföllin væru liður í langvinnri baráttu fyrir betri kjörum. „Sumum verkfallsmönnum fannst annað ennþá mikilvægara en hækkun launa. Í verkfallinu voru þeir frjálsir, ekki aðeins það, heldur voru þeir að stjórna samfélaginu í andstöðu við það valdakerfi sem stöðugt var að níðast á þeim“ (bls. 92).

Ég minnist þess, þegar ég á Fylkingarárum mínum var að lesa marxísk fræði, sem ég hef svo sem aldrei hætt að lesa, las ég einhvern tíma grein eftir Lenín frá vorinu 1917 þar sem hann fjallar um „tvíveldið“ (í enskri þýðingu The Dual Power), það er þegar stéttabaráttan er komin á það stig, meðal annars í víðtækum verkföllum, að verkalýðsstéttin hafi með samtakamætti sínum náð til hliðar við hina borgaralegu ríkisstjórn vissri stjórn á samfélaginu. Hér var Lenín vissulega að fjalla um ástand sem var komið talsvert lengra en til dæmis í verkfallinu á Íslandi 1955, hann vísar meðal annars til Parísarkommúnunnar í Frakklandi 1870, en í víðtækum verkföllum verður þó til vísir að slíku tvíveldi. En meðan við, sumir yngri félagar Ragnars, vorum að lesa slíkt í greinasöfnum marxískra fræðimanna og byltingarmanna hafði Ragnar lært það sama á æskuárum sínum af reykvískum verkamönnum. Og hann bar ekki síður virðingu fyrir þeim en frægum mönnum og annáluðum spekingum eins og Marx og Lenín, sem hann þekkti svo sem ágætlega. Það minnir mig líka á að um það bil sem Úrvalsrit Marx og Engels og helstu rit Leníns voru að koma út á íslensku um 1970, sem ég sökkti mér í, kynntist ég nýgenginn í Fylkinguna bók Jóns Rafnssonar (1899-1980), Vor í verum. Jón hafði tekið þátt í uppbyggingu verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi og helstu átökum í kjarabaráttunni á fyrri hluta síðustu aldar og í þessari bók rakti hann þá sögu. Þessi bók var jafn ómissandi í skólun okkar, eða allavega minni, og rit þeirra Marx, Engels og Leníns – og Trotskís. Margir eldri félagar, þar á meðal Ragnar, höfðu kynnst Jóni persónulega.


Byltingin hér og nú

„Kommúnistarnir sögðu að róttæk byltingarstefna væri fólgin í því að gera kröfur um kjör og jafnrétti út frá hagsmunum alþýðunnar eingöngu en takmörkuðu sig ekki við það sem kapítalistarnir teldu sig þola, og jafnvel umfram það sem kapítalískt kerfi þyldi. Róttæk byltingarstefna væri líka fólgin í því að gera kröfur sem sameinuðu verkalýðsstéttina, jafnt innanlands sem alþjóðlega, og gera stéttina sem slíka þannig hæfari í baráttu sinni við andstæðing sinn, auðvaldið. Lokamarkmiðið var vissulega að kollvarpa auðvaldinu, hvort sem væri með fjöldaaðgerðum eða með beitingu þingræðis“ (bls. 46-47).

Í þeirri róttæknibylgju ungs fólks, sem hófst þegar leið á sjöunda áratug síðustu aldar, varð sem kunnugt er talsverður ágreiningur milli þeirra fjölmörgu tiltölulega litlu samtaka sem þá urðu til, meðal annars vegna gagnrýninnar afstöðu til Sovétríkjanna og mismunandi greiningar á sögu og eðli þeirra. Sumir litu þá til Kína og hölluðust að svokölluðum maóisma en kenndu sig þó frekar við marx-lenínisma. Ragnar rifjar það upp (bls. 224) þegar hann hafði nýlega árið 1966 verið kosinn formaður, eða forseti eins og það hét, Æskulýðsfylkingarinnar boðaði sendiherra Sovétríkjanna hann á sinn fund. „Við ræddum málin eins og félagar sem þó höfðu mismunandi skoðanir á flestum hlutum. Ég var hrifinn af mörgu sem hafði verið að gerast í Kína árin á undan en hann mjög gagnrýninn.“ Ýmislegt fleira ræddu þeir en þetta er til marks um hvernig ungir sósíalistar á þeim tíma voru leitandi þegar ljóst var að þróun Sovétríkjanna hafði verið á nokkuð annan veg en eldri kynslóðir höfðu vonað og stólað á. Og sú leit gat vissulega borið misjafnan árangur.

Fylkingin átti sér, öfugt við þau nýju samtök ungra sósíalista sem spruttu upp á árunum upp úr 1970, alllanga sögu frá því að vera upphaflega æskulýðssamtök tengd Sósíalistaflokknum, þá undir heitinu Æskulýðsfylkingin – samband ungra sósíalista, en Ragnar varð félagi í henni á unglingsárum um 1953. Í endurminningum sínum segir Ragnar frá þeim ágreiningi sem varð meðal sósíalista varðandi kosningabandalag Sósíalistaflokksins og vinstri krata undir forystu Hannibals Valdimarssonar, Alþýðubandalagsins, 1956 og þátttöku í vinstristjórninni 1956 til 1958 og síðan þegar Sósíalistaflokkurinn var lagður niður árið 1968 og Alþýðubandalagið gert að sameinuðum stjórnmálaflokki. Tekist var á um þetta í Æskulýðsfylkingunni á þeim tíma sem Ragnar kom heim frá námi í Svíþjóð vorið 1966 en á landsþingi hennar um haustið varð samstaða um hann sem formann. Æskulýðsfylkingin var ekki skipulagslega tengd Sósíalistaflokknum en þó nátengd honum. En í þessu umróti varð hún æ sjálfstæðari og svo fór að meirihlutinn lagðist gegn því að Sósíalistaflokkurinn yrði lagður niður og Alþýðubandalagið gert að flokki. Með því var ekki lengur um að ræða æskulýðsfylkingu tengda stjórnmálaflokki heldur algerlega sjálfstæð sjórnmálasamtök og í samræmi við það var nafninu breytt árið 1970 í Fylkingin, baráttusamtök sósíalista.

Á þessum árum fór starf Fylkingarinnar að einkennast æ meir af aktífisma og var það í samræmi við þá róttækniþróun ungs fólks víða erlendis sem áður er getið og þar skipti andófið gegn Víetnamstríðinu miklu máli auk annars. „Aðgerðatímabilið var að bresta á, en svo nefni ég tímabilið 67-71 í sögu Fylkingarinnar,“ segir hann í endurminningum sínum (bls. 200). Hann bendir reyndar á (bls. 218) að þetta aðgerðatímabil á Íslandi hafi skorið sig að mörgu leyti úr því sem kallað var 68-uppreisn í mörgum öðrum löndum, þar sem háskólastúdentar höfðu frumkvæðið, til dæmis framan af í Frakklandi. „Þótt Félag róttækra stúdenta við Háskóla Íslands hefði verið virkt á aðgerðatímabilinu kom námsfólk aðgerðatímabilsins frekar úr úr framhaldsskólum og iðnskólum en úr Háskólanum. En það var ekki bara námsfólk sem bar uppi aðgerðir tímabilsins. Það var alltaf mikil þátttaka venjulegs launa- og almúgafólks.“ Því má þó bæta við að eftir 1970 urðu háskólastúdentar miklu virkari eins og sjá má til dæmis af því að um nokkurra ára skeið einkenndust 1. desember-hátíðarhöld stúdenta af baráttu gegn hersetunni og Víetnamstríðinu í stað hinnar hefðbundnu og upphöfnu þjóðernisrollu sem áður hafði tíðkast.

Eins og fram kemur í endurminningum Ragnars taldi hann grasrótarbaráttuna mjög mikilvæga. Ragnar hafði kynnst baráttunni gegn Víetnamstríðinu meðan hann var í námi í Svíþjóð og jafnframt hvernig sænsk verkalýðsstétt hafði vanist því að leggja traust sitt á forystu Sósíaldemókrataflokksins öfugt við það sjálfstæði hjá róttækum íslenskum verkamönnum sem hann hafði kynnst á bernsku- og æskuárum sínum.

En andóf gegn vaxandi tækifærissinnaðri umbótastefnu og stéttasamvinnustefnu sósíalísku hreyfingarinnar auk gagnrýni á Sovétríkin og önnur ríki sem kölluðu sig sósíalísk kallaði á fræðilega skólun og hún var mjög stunduð í þeim sósíalísku smásamtökum sem þá fóru að spretta upp víða um lönd. Það var þó ekkert nýtt fyrir Fylkingarfélaga, fyrstu kynni Ragnars af Æskulýðsfylkingunni var reyndar þegar hann fór í leshring um marxísk fræði á unglingsárum.

Án þess að ég muni það glöggt finnst mér í endurminningunni að ýmsir hafi haft meiri forystu en Ragnar í hinni fræðilegu skólun en það er kannski vegna þess að hann var svo mikilvægur í forystu þegar kom að aðgerðum – mikilvægur segi ég en ekki fyrirferðarmikill, því það var hann ekki þótt hann væri mikill á velli. Og kannski var þáttur hans meiri en ég man af því að fyrirferðin var aldrei mikil þrátt fyrir afgerandi forystu.

Einhverjir voru farnir að pæla í trotskíisma en það var svo líklega mest fyrir tilstilli félaga sem voru við nám í Svíþjóð upp úr 1970 og höfðu tengst trotskíistasamtökum þar að Fylkingin tók árið 1976 upp tengsl við Fjórða alþjóðasambandið, sem var alþjóðasamband trotskíista. En Ragnar segir frá því í endurminningum sínum (bls. 171) að þegar hann gerði stutt hlé á námi sínu í Svíþjóð 1962 hafi Gísli Gunnarsson, síðar prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, verið nýkominn frá námi í Skotlandi þar sem hann hafði kynnst hreyfingu trotskíista „og tókst honum að gera mig að aðdáanda hans líka“.

Árið 1978 gaf Fylkingin út rit sem Leon Trotskí skrifaði og Fjórða alþjóðasambandið tók upp sem sína samþykkt á stofnþingi þess 1938, rit sem venjulega er kallað Umbyltingarstefnuskráin. Þessi örstutta tilvitnun í orð Ragnars hér að framan um það í hverju róttæk byltingarstefna væri fólgin er í rauninni kjarni þessa rits Trotskís, hvort sem Ragnar hefur haft það í huga þegar hann skrifaði þau árið 2013 eða bara minningarnar af kynnum sínum af íslenskum kommúnistum úr verkalýðsstétt á æskuárum hans. Það síðara er þó sennilegra, þótt flestir þeir sem þá vissu eitthvað um Trotskí í röðum íslenskra sósíalista hafi verið sannfærðir um að hann væri svikari við byltinguna. Fyrir tilstilli Ragnars kynntist ég Brynjólfi föðurbróður hans á efri árum og átti við hann mörg gefandi samtöl. En aðspurður um Trotskí kvaðst hann þess viss að mál hefðu ekki þróast á betri veg í Sovétríkjunum undir hans stjórn. Trotskí naut þess kannski hversu valdastaða hans stóð stutt án þess ég fullyrði neitt um það. En Umbyltingarstefnuskráin stendur alveg fyrir sínu og þá ekki síður hin gagnorða umbyltingarstefnuskrá Ragnars Stefánssonar.


Grasrótin hér og nú

Ragnar víkur síðar aftur að þessu í bók sinni (bls. 190-193). Hann bendir á að margir gamlir kommúnistaflokkar og krataflokkar hafi talið leiðina vera þá að hin kúgaða stétt tæki fyrst völdin og nýttu sér svo valdaaðstöðuna til að breyta innviðunum og flest nýju byltingarsamtökin hafi verið á sömu línu. Munurinn hafi verið sá að algengast hafi verið meðal hinna nýju að valdataka fólksins yrði í kjölfar almennrar uppreisnar meðal fjöldans fremur en með kosningasigri verkalýðsflokks, sem hafi verið algengasta skoðun gömlu flokkanna. Ég skal ekki þvertaka fyrir að á þeirri skoðun hafi líka örlað í Fylkingunni. En umræða byltingarsinnaðra samtaka á sjöunda áratugnum og raunar meðal sósíalista löngu fyrr hafi leitt til þess, segir Ragnar, „að þær hugmyndir fengu víðtækari stuðning að uppbygging hins nýja samfélags hinna undirokuðu ætti að hefjast hér og nú með kröfum um réttindi og lýðræði þeim til handa, og án þess að takmarka sig við hvað væri talið hagstætt eða hollt fyrir núverandi kerfi, auðvaldsskipulagið“. En þetta sé ekki stefna sósíaldemókrata sem segja í reynd að aðalatriðið sé að komast inn í ríkisstjórnir þegar færi gefst og að bæta samfélagið smám saman ofan frá. „Þetta er ekki heldur stefna þeirra sem segja: Kollvörpum kapítalismanum og þá ætti hið samfélagslega réttlæti að koma í kjölfarið.“ Það sé hin sjálfstæða skipulagning fólksins sem skipti máli og sú hreyfing sé eins konar skuggastjórn (samanber hugmyndina um tvíveldið) en setjist ekki á valdastól nema í nýju samfélagi sem byggist eingöngu á hag almennings en ekki í samfélagi sem áfram hygli efnahagslegu forræði og hagsmunum auðvaldins. Og hin sjálfstæða skipulagning fólksins sé ekki ein samtök heldur mörg. „Það sem er sameiginlegt er virkt lýðræði innan hópanna og í samskiptum þeirra á milli, og framtíðarmarkmiðið er samstjórn fólksins í eigin samfélagi, í samfélagi sem lýtur lögmálum fólksins. […] En þetta gerist ekki eftir einni línu og væntanlega verða mörg bakslög.“

Og enn víkur hann að þessu þar sem hann fjallar um umræður í Fylkingunni 1970 (bls. 262-267) þegar nýtt fólk hafði komið til liðs við hana, sem fannst heldur mikill stjórnleysisbragur á þessum aðgerðasinnuðu samtökum. „Sumir kölluðu þetta stjórnleysisstefnu. Í ljósi seinni reynslu finnst mér réttara að kalla þetta umbyltingarbaráttu hér og nú. […] Þetta er það sem ég kalla núna að byltingin eigi að hefjast hér og nú, í aðgerðum sem smám saman gera auðvaldinu og flokkum þess ókleyft að stjórna“ (bls. 265).

Þegar leið á níunda áratuginn kom upp ágreiningur í Fylkingunni sem varð til þess að Ragnar og við nokkur fleiri hurfum á brott og fáum árum seinna voru dagar hennar taldir. Allt á sér sinn tíma. Með viðskilnaðinum við Fylkinguna má segja að dregið hafi úr forystuhlutverki Ragnars, enda hafði hann fleira á sinni könnu sem forystumaður í vísindalegum rannsóknum, þar sem sömu eiginleikar hanns nutu sín raunar og í pólitíska starfinu. En hann hélt áfram pólitísku starfi sem einkenndist af þeim hugsjónum og hugmyndum sem hér hefur verið tæpt á. Undir aldamót tók hann þátt í þeim umræðum sem urðu með uppstokkun vinstri flokkanna, meðal annars með þátttöku í félagsskap sem nefndist Stefna, og var síðan meðal stofnfélaga í Vinstrihreyfingunni grænu framboði og var þar í senn hvetjandi og gagnrýninn eins og honum var lagið. Og þarf engum að koma á óvart að hann kunni ekki eins vel við sig þar eftir að flokkurinn komst í ríkisstjórn eftir hrun.

Hann skrifaði bókina, sem hér hefur verið vitnað til, meðan hann dvaldist í Berlín, austurhluta borgarinnar, gömlu Austur-Berlín, á árunum 2011 til 2012. Þegar hann kemur heim er búið að bjarga efnahagskerfinu, það er bankakerfinu, bankarnir farnir að blómstra eins og fyrir 2007, engin grundvallarbreyting á samfélaginu (bls. 279). „Það sem vekur mér þó bjartsýni er að það kraumar í grasrótinni sem leitar leiða til nýs framhalds, nýs samfélags.“

Þegar hann lítur til baka undir lok bókarinnar segir hann (bls. 271 – sjá líka bls. 281 og áfram): „Í pólitíkinni er ég sannfærðari um það en áður að það sé grasrótarbarátta meðal almennings sem muni skila mestum árangri í að breyta og bylta samfélaginu í samfélag sem byggi á velfarnaði allra manneskja, í samfélag sem er undir beinni stjórn fjöldans á grundvelli jafnréttis.“

Þegar Ragnar var við nám í Uppsölum kynntist hann íslenskum presti, sem þangað kom í framhaldsnám, heittrúuðum manni. Með þeim tókust góð kynni og áttu þeir margar góðar viðræðustundir. Í framhaldi af þeirri upprifjun skrifar Ragnar:

„Í hita og stælum augnabliksins gleymum við því alltof oft að innst inni eigum við sömu drauma og þrár og margir pólitískir og trúarlegir andstæðingar okkar. Við ættum öll að hugleiða þetta og hætta að reisa veggi milli okkar, heldur reyna í umræðum að finna það sameiginlega.

Það er ekki síður í pólitíkinni en trúarbrögðunum sem fólk er flokkað í heittrúaða eða trúleysingja Ég á ekki við að fólk þurfi allt að vera sammála í pólitík, heldur að fólk ástundi að leita sannleikans eða lausnanna sameiginlega. Ég á alls ekki við að alþýða manna og sósíalistar eigi að leggja stéttabaráttuna niður. Heldur að menn reki stéttabaráttuna út frá hugsjóninni um jöfnuð, ekki út frá því að allir sem hafa aðra skoðun séu annaðhvort fædd illmenni eða vanvitar, eins og alltof oft ber á í umræðu um þjóðfélagsmál.

Við byggjum upp hið nýja samfélag réttlætis, hér og nú. Við sköpum innviði þess hér og nú með hegðun okkar og þátttöku í umræðum og starfi. Hið nýja samfélag á að vera samfélag okkar allra. Við þurfum öll að skynja að við erum þátttakendur í því sköpunarverki, þótt við séum oft ósammála. Það er hætta á ferðum þegar allir eru orðnir sammála, þá erum við kannski komin á braut yfirskilvitlegrar hræsni í sköpunarstarfinu.

Ég ólst upp á kommaheimili þar sem aldrei var talað illa um fólk þótt skoðanir og markmið væru gagnrýnd. Mér var kennt að illmælgi um pólitíska andstæðinga stafaði af skorti á hugsjónalegri staðfestu, að dólgslegar árásir á andstæðinginn kæmu í staðinn fyrir framtíðarsýn um betra samfélag.“