NATO böl Evrópu – NATO og stríð í Evrópu   

17. júlí, 2024 Þórarinn Hjartarson

Þriðja grein

Þar sem fyrri grein lauk hafði spenna byggst upp við vesturlandamæri Rússlands. Grundvallarástæða spennunnar var austurstækkun NATO og vígvæðing NATO við landamærin. Rússland hafði sent NATO og Washington samningsuppkast með kröfum um „öryggistryggingar“ og hótuðu að grípa ella til hernaðaraðgerða ef ekki væri orðið við. Teiknað var „rautt strik“.  BNA/NATO/Vestrið sýndu aldrei merkjanlegan vilja til að koma til móts við áhyggjur og öryggiskröfur Rússa, höfnuðu þeim alfarið, síðast í janúar 2022, og gengu loks hiklaust yfir rauða strikið með því að hafna nefndu samningsuppkasti. „Of course we did not sign that,“ sagði Jens Stoltenberg.

Ólögleg innrás

Rússar framkvæmdu það sem þeir höfðu hótað að gera. Þann 24. febrúar réðust þeir inn í Úkraínu. Þeir kölluðu það „sérstaka hernaðaraðgerð“, sem er þó ekkert annað en innrás. Innrás með ca. 150 þúsund manna her,sem er augljóslega allt of lítill her til að hertaka Úkraínu (sem hafði 700 þúsund manna virkan her 2022). Yfirlýst stríðsmarkmið Rússa voru lík kröfunum í „samningsuppkastinu“ í desember, ívið harðari þó þar sem nú var að auki farið fram á „afvopnun“ Úkraínu og einnig „afnasismavæðingu“ (demilitarisation og denazification).  Hið síðara helst skilið þannig að Maidan-stjórnvöld yrðu að víkja.

Innrásin var augljóslega árásarstríð. Sú regla gildir að árásarstríð ber að fordæma, þau eru ólögleg skv. alþjóðalögum og verða ekki réttlætt, enda var innrásin strax fordæmd af miklum meirihluta ríkja heims. Úkraína hafði löggildan rétt til að verja sig gegn yfirgangi grannans stóra.

En einnig árásarstríð þarf að skilja. Mikilvægt er að átta sig á kringumstæðum þess, hvort það hafi brotist út af einhverju tilefni, hvort árásaraðili  hafi haft ástæðu til að óttast um eigið öryggi eða ekki, hvort árásaraðila var ögrað á einhvern hátt til árásar eða ekki o.fl. Ef ögranir eða önnur tilefni voru fyrir hendi væri grundvöllur fyrir samningum og málamiðlunum milli aðila. Ef hins vegar ekkert slíkt væri fyrir hendi væri samningsvilji og sérhver eftirgjöf jafngildi alræmdrar friðkaupastefnu, sbr. Hitler og Chamberlain 1938.

Línan sem leiðtogar NATO-ríkja og vestrænir fjölmiðlar tóku var þessi: Rússar höfðu ekkert tilefni, enga ástæðu til að hafa áhyggjur, engar undangengnar ögranir („unprovoked aggression“). Á degi innrásarinnar sagði Joe Biden eftirfarandi (væntanlega eftir samráð við strategista úr innsta hring):

Þetta snerist aldrei um raunverulegar öryggisáhyggjur af þeirra hálfu. Það snerist alltaf um nakta árásarhneigð, um löngun Pútíns í heimsveldi með öllum hugsanlegum meðulum, um að kúga nágranna Rússlands gegnum þvingun og spillingu, um að breyta landamærum með ofbeldi og , að lokum, að kjósa stríð án neins tilefnis.

Hér var lína BNA lögð – og óvinamyndin skýrt teiknuð. Hvað skal segja um greiningu Bidens? Ef hún var rétt var enginn grundvöllur fyrir samningum, slíkt væri „friðkaupastefna“ sem myndi  aðeins hvetja Pútín til frekari yfirgangs. Biden jafnaði ekki Pútín við Hitler í þessari fyrstu ræðu en það átti hann eftir að stunda alveg óspart. líkt og bandarískir ráðamenn almennt – og þar með fjölmiðlarnir. Djöflagerð (demonisering) í fjölmiðlum er sálfræðilegt grundvallaratriði hernaðarstefnu, og séreinkenni bandarískrar hernaðarstefnu að líkja andstæðingi  BNA við Hitler á undan öllum „stóraðgerðum“ (Pútín á það sammerkt með Slobodan Milosevic, Saddam Hussein, Muammar Gaddafi og Bashar al-Assad. (sjá eldri grein á Neistum)  Greining Bidens var ekki greining, hér var skorin upp herör, hrópað herkall.

Vestrænir ráðamenn og fjölmiðlar voru samtaka um að eyða öllu tali um að innrásin tengdist NATO, hafna því að áhyggjur Rússa af NATO-útvíkkun og NATO-aðlögun Úkraínu gæti átt þátt í að koma henni af stað. Allt slíkt tal var ýmist sagt  Pútínáróður eða „friðkaupastefna“.

Eins og sýnt var í fyrri grein hefur Jens Stoltenberg spillt þessari rökfærslu og upplýst að að Pútín hafi skömmu fyrir innásina sent NATO kröfur og samningsuppkast einmitt um hlutleysi Úkraínu sem skilyrði fyrir að hann gripi ekki til hernaðaraðgerða. „Of course we didn‘t sign that“ sagði Stoltenberg. Vestrænir ráðamenn (og þar með fjölmiðlar) höfðu valið þann kost að þegja um þessa öryggiskröfu Pútíns: NATO-hlutleysi Úkraínu eða innrás, svo viðurkenning Stoltenbergs á þessari tengingu var algjör undantekning.

Opinber greining Washington og NATO á innrásinni var þessi: Pútín ætlar sér alla Úkraínu, innrásin snýst um „nakta árásarhneigð, um löngun Pútíns í heimsveldi með öllum tiltækum meðulum“ eins og Biden tilkynnti á innrásardaginn og endurtók það í ótal útgáfum. Og hann lætur ekki Úkraínu nægja, ekki frekar en Hitler. If anybody in this room thinks Putinwill stop at Ukraine, I assure you he will not!“ hrópaði Biden í upphafi stefnuræðu sinnar 7. mars 2024 (Sjá State of the Union address).

Hér var alla vega brostin á rússnesk innrás. Og þar með komin alvöru þörf fyrir NATO. En bíðum við! Rússneska innrásin var fyrst og fremst afleiðing af uppbyggingu NATO austur þar. NATO bjó sem sagt til þessa þörf fyrir NATO. Stórkostlega snjallt. Rússneska innrásin bjó síðan til þörf fyrir meira NATO og öflugri vígvæðingu. Þörf hernaðarhyggjunnar uppfyllir sig sjálf.

Fyrsta vikan. Pútín vill stöðva innrás ef Úkraína fellst á hlutleysi

Stærð og aðferð hinnar „sérstöku hernaðaraðgerðar“ (sem ekki er ástæða til að kalla annað en innrás) bendir til að stríðsmarkmið Rússa hafi í raun verið takmörkuð, líklegast einkum þau að þvinga Úkraínu til samninga sem  Rússum tókst ekki að koma á eftir diplómatískum leiðum. Pútínstjórnin sendi ekki út sérstakt herútboð vegna innrásarinnar (fyrr en ár var liðið frá henni) en sendu aðeins starfandi fasther til Úkraínu. Og 150 þúsund manns var vissulega  allt of lítið ef ætti að hertaka landið.  

Annað talar þó ennþá skýrara máli um takmörkuð áform Moskvu með innrásinni. Strax á fyrsta degi hennar leitaði Pútín hófanna um samninga. Í ræðu til þjóðarinnar í lok fyrsta stríðsdags, 24. febrúar, sagði Zelenski forseti:

Í dag heyrðum við frá Moskvu, að þeir vilji ennþá ræða málin. Þeir vilja tala um hlutleysi Úkraínu… Við erum ekki hræddir við að tala um hlutleysisstöðu. 

Slík viðbrögð þótti Kremlverjum væntanlega gott að fá. Hin grófa aðferð til að þvinga Úkraínu að samningaborði virtist semsé ætla að bera árangur svo stríðið yrði trúlega stutt.

 Það var samt ekki víst. Neikvæð afstaða Bandaríkjanna til friðarviðræðna varð skjótt ljós. Þeir gáfu skilaboð um að hafna bæri viðræðum nema með skilyrðum sem nánast útilokuðu þær frá byrjun: Að Rússar bökkuðu fyrst út úr Úkraínu, kæmu svo til að semja, með orðum Ned Price, talsmanns Bandaríkjastjórnar:

Nú sjáum við að Moskva býður samningaviðræður undir byssuhlaupum. Það eru ekki samningaviðræður… Ef Pútín forseta væri alvara með samningviðræðum veit hann hvað hann á að gera, hann á undir eins að stöðva sprengjukast gegn borgurunum og fyrirskipa að herinn dragi sig tilbaka frá Úkraínu…

Það var sem sé afstaða þeirra í Washington, að setja skyldi fyrirfram skilyrði sem augljóslega útilokuðu að friðarviðræður hæfust.

Friðarviðræður hófust engu að síður í byrjun mars. Zelenský forseti hafði haft samband við Bennett forseta Ísraels um að reyna milligöngu, og Bennett hafði samband við Pútín sem tók hugmyndinni vel. Fyrst varð Bennett samt að tryggja sér leyfi helstu NATO-velda til tilraunarinnar – staðfesting á því að stríðið var ekki aðeins milli Rússlands og Úkraínu. Hann bar síðan skilaboð á milli Pútíns og Zelenskýs og einhverjar sendinefndir hittust  samtímis í Hvítarússlandi.

Samkvæmt Bennett höfðu bæði Rússar og Úkraínumenn augljóslega mikinn áhuga á vopnahléi og samningum. Pútín beindi fyrst og fremst sjónum að ógninni af útvíkkun NATO og aðalkrafa hans var um hlutleysi Úkraínu,  en hann var fús að gera „miklar eftirgjafir“ um aðrar kröfur (svo sem um afvopnun og afnasismavæðingu Úkraínu). Zelenský gerði einnig „miklar eftirgjafir“, eða með orðum Bennetts: „Zelenský gaf eftir inngöguna í NATO. „Ég fell frá því“ sagði hann. Þetta eru risaskref báðum megin frá“. Á þeim grundvelli sagðist Pútín mundu „blása innrásina af“. Sjá hér (langt viðtal við Bennett, aðalatriðin á bilinu 2:42- 3:01).

Samt stóð enn út af afstaða þriðja aðilans, NATO. Bennett fór með tillögurnar til Evrópu og bar þær þar undir ráðamenn, Olof Stoltz, Macron, Biden/Sullivan, og Boris Johnson. En NATO-stórmennin tóku hugmyndunum illa, einkum tveir þeir síðasttöldu.

Spyrill: Svo þeir lokuðu á það?

Bennett: Þeir lokuðu á það, og ég taldi það rangt.

Vilji Úkraínu var sem sagt ekki aðalatriðið. Ráðamönnum NATO-velda leist svo illa á samningshugmyndirnar að þeir ákváðu að ekki skyldi tala um þær opinberlega, láta ekki fjölmiðla gera það heldur. Fréttir af þreifingum þessum spurðust út aðeins gegnum Rússa sem mátti afskrifa sem hreint bull, allt þar til viðtal við Bennett birtist í ísraelsku sjónvarpi í febrúar 2023, tæpu ári síðar.

Á meðan mótuðu Washington og NATO-veldin skjótlega afstöðu sína í deilunni og afstaðan var annars vegar sú að hraða vopnun Úkraínu eftir kostum og hins vegar fólst hún í efnahagslegum refsiaðgerðum sem brátt segir frá.

Einnig var mikilvægt að skilgreina málstaðinn. Ned Price talsmaður Bandaríkjastjórnar hélt blaðamannaviðtal 21. mars. Hann sagði að stríðið snerist um miklu meira en frelsi Úkraínu:

Þetta stríð er á margan hátt stærra en Rússland, það er stærra en Úkraína… Aðalatriðið er að hér eru prinsipp í húfi… – það prinsipp að sérhvert land hafi fullvalda rétt til að ákveða utanríkisstefnu sína, hvað snertir bandalög, samstarfsaðila og í hvaða átt það kýs að horfa. Í þessu dæmi hefur Úkraína kosið lýðræðislega braut – kosið að horfa í vestur…

Istanbúl viðræður – NATO bannar Úkraínu að semja

Engu að síður var áfram reynt að semja um örlög Úkraínu, nú að frumkvæði Tyrklandsstjórnar, í Istanbúl, 20.-29. mars. Það auðveldaði málið að afstaða Úkraínu og Rússlands lá að nokkru leyti fyrir frá fyrri umræðum, og því var mikilvægum hindrunum þegar rutt úr vegi.

Að þessir samningar gengu vel og voru mjög langt komnir er staðfest af New York Times nú 15. júní 2024. Í Istanbúl höfðu báðir aðilar komið með mikilvægar eftirgjafir og samkvæmt New York Times var ekki mikið annað eftir en að samningsaðilar undirrituðu, hlutar samninganna voru m.a.s. undirritaðir til bráðabirgða.  Í viðtali á Samstöðinni fjallar Tjörvi Schiödt vel um grein NYT.   Og hér fjalla Foreign Affairs í apríl síðastliðnum um „Viðræðurnar sem gátu endað stríðið“.

En samtímis viðræðunum í Istanbúl áttu aðrir hlutir sér stað. Áður en þeim lauk var annar fundur haldinn sem átti eftir að gjörbreyta stöðunni: NATO-fundur í Brussel 24. mars (réttur mánuður þá liðinn frá innrás Rússa). Þar mætti Joe Biden og aðrir leiðtogar NATO-ríkja. Aðalefni fundarins var eðlilega Úkraínudeilan. Þar ákváðu NATO-leiðtogar að leggjast gegn friðartillögum þeim sem komnar voru fram, og gegn öllum viðræðum við Rússa fyrr en þeir hefðu dregið allt herlið frá úkraínsku landi. Um þetta fjallar m.a. Harald Kujat, sem skömmu áður var hæst settur þýskra hershöfðingja í þýska hernum, Bundeswehr, og hjá NATO. Istanbúlviðræðunum var var frestað án undirritunar. Kominn var 29. mars og aðeins rúmur mánuður liðinn af innrásinni í Úkraínu.

Nú leið vika. Það sem helst gerðist var að Rússar drógu her sinn frá Kiev. Þeir tilkynntu um það 29. Mars (sama dag og viðræðunum var frestað), sögðust gera það til að sýna samningsvilja (þau skilaboð voru þó ekki borin til Vesturlanda). En að því „skipulega undanhaldi“ framkvæmdu, um mánaðarmótin mars/apríl, var hins vegar öðrum viðburði slegið upp í vestrænni pressu sem breytti myndinni af stríðinu, fjöldamorðin í Bútsja: að Rússar hefðu stundað mikil fjöldamorð og fjöldanauðganir á almennum Borgurum í bænum Bútsja þennan mánuð sem hann var hernuminn. Nokkrum dögum síðar voru morðin í Bútsja notuð – af hálfu Úkraínu – sem ástæða þess að samningaviðræðum við Rússa var hætt.

Hjá NATO var undanhald Rússa frá Kiev túlkað sem merki um hvað her þeirra væri slakur og „sérstök hernaðaraðgerð“ að mistakast og því myndi nú horfa vænlega á vígvellinum fyrir Úkraínu og stuðningsmenn. Frásögnin af Rússaher sem ætlaði í byrjun að hertaka  alla Úkraínu en lyppaðist niður við Kiev varð síðan meginatriði í „sigurfrásögn“ NATO af Úkraínustríðinu.

Samningaviðræðunum við Rússa var formlega hætt eftir að Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hafði farið á vegum NATO-ríkja til Kiev þann 9. apríl. Ukrainska Pravda, málgagn sem stendur stjórnvöldum í Kiev nærri, hafði eftirfarandi fréttaskýringu 5. maí um heimsóknina nokkrum vikum fyrr: :

Johnson kom með tvö einföld skilaboð til Kiev. Hið fyrra er að Pútín sé stríðsglæpamaður, það eigi að beita hann þrýstingi, ekki semja við hann. Það seinna er að þó að Úkraína sé tilbúin að undirrita eitthvert samkomulag við Pútín þá sé sameinað Vestrið það ekki. Afstaða Johnsons var að sameinað Vestrið… teldi nú að Pútín væri ekki raunverulega eins öflugur og það hafði áður álitið og því væri möguleiki að „beita hann þrýstingi“.

Davyd Arakhamia, formaður í flokki Zelenskys „Þjóni fólksins“, fór fyrir úkraínsku sendinefndinni í umræddum friðarviðræðum, bæði í Hvítarússlandi og í Istanbúl. Í viðtali við sjónvarpsrásina 1+1 Ukraina haustið 2023 sagði hann beinum orðum að stríðsmarkmið Rússa í friðarviðræðunum hefði verið hlutleysi Úkraínu (ekki hernám Úkraínu).

Þeir [Rússar) raunverulega vonuðu alveg fram á síðustu stundu að þeir myndu þvinga okkur til að undirrita þannig samkomulag að við myndum velja hlutleysi. Það var aðalatriðið fyrir þá. Þeir voru tilbúnir að stöðva stríðið ef við samþykktum – líkt og Finnland eitt sinn gerði – hlutleysi og lofuðum að ganga ekki í NATO. Í raun var þetta lykilatriðið…

Auk þess, þegar við komum frá Istanbúl kom Boris Johnson til Kiev og sagði: „Við undirritum ekki neitt. Við skulum heyja stríð.

Þremur dögum eftir heimför Johnsons til Bretlands tilkynnti Pútín svo opinberlega að viðræðurnar við Úkraínu hefðu siglt í strand. 

Samningaviðræður voru teknar af borðinu, varanlega. Stjórnvöld Úkraínu höfðu látið segjast. Vopnin skyldu fá að tala í staðinn. Allt bendir því til að afskipti NATO og Vesturvelda og hafi ráðið algjörum úrslitum um það. Vesturveldin og NATO unnu með þessu ákveðinn sigur. Sigurinn fólst í því að vinna stjórnvöld Úkraínu yfir á þá stríðslínu sem þau hafa haldið sig á síðan.

Aftur fór svo að vestræn meginstraumspressa kaus að tala ekkert um þessar umræddu  friðarviðræður eins og þær skiptu engu máli, væntanlega skv. skilaboðum ráðamanna í Washington og hjá NATO. Fréttirnar frá Bútsja urðu í staðinn helsta forsíðuefni næstu vikurnar. Aðfarir eins og í Bútsja voru sagðar útiloka allar vonir um frið. (um atburðina í Bútsja hef ég fjallað í sérstakri grein.

Samningaleiðin hafði nú tvisvar verið reynd og tvisvar siglt í strand, ekki þó vegna skorts á samningsvilja formlegu stríðsaðilanna tveggja. Úkraínumönnum var bersýnilega bannað að semja. Vilji þeirra sjálfra var ekki aðalatriðið. Stríðið var „stærra en Úkraína“. Eftir nokkurt japl og jaml hlýddi Úkraína og var eftir það í fyrirskrifuðu hlutverki. Meira en það, Úkraína var ekki lengur sjálfs sín ráðandi heldur fól sjálfsforræði sitt í hendur BNA og NATO.

Ábyrgðardeiling: Rússar báru ábyrgð á ólöglegri innrás sinni 24. febrúar 2024. Allt bendir til að þeir hafi stefnt á stutta hernaðaraðgerð til að þvinga Úkraínu til samninga (það hefur Pútín m.a. sjálfur sagt síðar). En bæði í aðdraganda innrásarinnar og framlengingu hennar eftir 29. mars 2024  sýnist höfuðábyrgðin liggja hjá BNA og NATO.

Lögmál og reglur staðgengilsstríðsins

Þegar Úkraína, líklega eftir bæði gylliboð og þrýsting, gekk undir það jarðarmen  að heyja langt stríð við Rússland frekar en leita sátta (og berjast þar með „fyrir lýðræðið“, „fyrir hinn frjálsa heim“, „fyrir vestræn gildi“…) þá breyttist eðli þessa stríðs. Frá byrjun innrásar hafði stríðið tvöfalt eðli, verandi annars vegar réttmæt þjóðfrelsisbarátta Úkraínu gegn árásarstríði Rússlands og hins vegar stríð milli heimsvelda – NATO og Rússlands – þar sem Úkraína var í hlutverki staðgengils. Eftir að stjórnvöld Úkraínu tóku hlutverk staðgengilsins  varð sá þáttur ráðandi einkenni þessa stríðs.  

Frá vestrænum sjónarhól hefur staðgengilsstríðið fyrst og fremst markmiðið að veikja Rússland, „láta Rússland yfirteygja sig hernaðarlega og efnahagslega“ eins og RAND Corporation boðaði 2019. Lloyd Austin, bandaríski varnarmálaráðherrann var spurður í apríl 2022 hver væru bandarísk markmið í stríðinu, og hann svaraði: „Við viljum sjá Rússland veikjast það mikið að það geti ekki gert þess konar hluti sem það hefur gert við Úkraínu.“

Leon Panetta var varnarmálaráðherra Obama-stjórnarinnar 2011-2013. Í viðtali hjá Bloomberg nokkrum vikum eftir innrásina í mars skilgreindi hann verkaskiptingu Bandaríkjanna og Úkraínu í stríðinu:

Við [Bandaríkin] erum þátttakendur í átökum þarna. Það er staðgengilsstríð við Rússland hvort sem við segjum það eða ekki. Það er það sem í reynd á sér stað. Og af þeirri ástæðu verðum við að vera viss um að við veitum eins mikið af vopnum og mögulegt er … Ekki vera í vafa, diplómatík er gagnslaus nema við höfum áhrif. Og aðferðin til að hafa áhrif er að fara inn og drepa Rússa. Það er það sem Úkraínumenn verða að gera. Við verðum að halda áfram hernaðaraðstoðinni … Af því þetta er valdatafl.

Kollega þessara manna í Úkraínu er á furðu líkum nótum nema hvað hann talar frekar um stríðið sem verkefni NATO en verkefni Bandaríkjanna. Oleksiy Reznikov var varnarmálaráðherra Úkraínu tæp tvö fyrstu árin frá innrás Rússa. Í viðtali í úkraínsku sjónvarpi 5. janúar 2023 talaði hann um hvernig hernaður Úkraínuhers félli að áætlunum og verkefnum NATO og því bæri vestrænum varnarmálaráðherrum að útvega vopnin liðlega. Nánar sagði Reznikov:

Þeir skilja þetta alveg núna. Við sögðum þeim það áður og þeir brostu. En núna segja kollegar mínir, varnarmálaráðherrarnir [í NATO], skýrt í ræðum sínum: „Við gerum okkur grein fyrir að þið verndið allan hinn siðmenntaða heim, allt Vestrið, þið eruð hinn sanni skjöldur siðmenningarinnar.“ Þannig að nú vinnum við ætlunarverk NATO. Þeir fórna ekki blóði sínu, við fórnum okkar blóði, það útheimtir það að þeir sjái okkur fyrir vopnum.

Keith Kellogg, hátt settur bandarískur hershöfðingi, meðal annars öryggisráðgjafi Mike Pence fyrrum varaforseta, svaraði spurningum um Úkraínustríðið frá varnarmálanefnd Öldungadeildarinnar í febrúar 2023 og sagði m.a:

Ágæti senator, ég lít svo á að ef maður getur sigrað hernaðarlegan meginandstæðing án þess að beita neinum bandarískum hermönnum þá sé maður við hápunkt fagmennskunnar (acme of professionalism); með því að láta Úkraínumenn vinna þann sigur þá tekur það hernaðarlegan meginandstæðing af borðinu, og þá getum við einbeitt okkur að þeim sem við eigum að einbeita okkur gegn, sem að þessu sinni er Kína.

Ummæli Kelloggs sýna rökfræði (og siðfræði) staðgengilsstríðsins í hnotskurn. NATO-generalinn Jens Stoltenberg mætti fyrir hina gríðarlega áhrifamiklu bandarísku hugveitu Council on Foreign Relations haustið 2023. Hann lítur stríðið líkum augum og Kellogg og þeir hinir: Hlutverk Úkraínu er að veikja Rússland, en um leið er hún tannhjól í stærra, hnattrænu verkefni.

Þannig að ef Bandaríkin hafa áhyggjur af Kína og vilja snúa sér að Asíu þá verður að tryggja að Pútín vinni ekki í Úkraínu. Vegna þess að ef Úkraína sigrar erum við með næststærsta her Evrópu, úkraínska herinn, bardagahertan okkar megin og við erum búnir að veikja her Rússlands. Og núna höfum við líka Evrópu sem virkilega eykur útgjöld til varnarmála. Það mun líka auðvelda ykkur að einbeita ykkur að Kína…

Efnahagsstríð sem átti að „rústa“ hagkerfi Rússa

Á Vesturlöndum höfðu menn þá trú að hagkerfi Rússlands væri veikara og auðveldara viðfangs en rússneski herinn. Þess vegna væri efnahagsslegur hernaður gegn landinu jafnvel líklegri til góðs árangurs en venjulegur hernaður. Í stefnuræðu forseta 1. mars 1922 lýsti Joe Biden efnahagslegum refsiaaðgerðum gegn Rússlandi vegna nýhafinnar innrásar:

Við skerum rússneska banka frá alþjóðlegu fjármálakerfi; hindrum Seðlabanka Rússlands í því að verka rúbluna, gerum 630 milljarða dollara stríðssjóð Pútíns verðlausan. Við kæfum aðgengi Rússlands að tækni, sem mun veikja efnahagslegan styrk landsins og veikja her þess á komandi árum.

Bandaríkin og Evrópa settu fram efnahagsleg markmið ekki síður en hernaðarleg með viðbrögðum sínum við innrásinni: „að leggja rússneska hagkerfið í rúst í refsingarskyni að heiminum ásjáandi“ skrifaði Yew York Times. Bandaríkin voru ekki ein í sínum aðgerðum. Sama dag og Biden flutti ofanskráðan boðskap sagði franski fjármálaráðerrann, Bruno Le Maire: Vesturlönd „heyja nú allsherjar efnahags- og fjármálastríð gegn Rússlandi“ til þess að „valda hruni rússneska hagkerfisins.“

Hlutir eins og frysting rússneskra eigna og innistæðna í erlendum bönkum og útilokun landsins úr greiðslumiðlunarkerfinu SWIFT voru meðal víðtækustu efnahagsslegu refsiaðgerða í sögunni, og komu ofan á gríðarumfangsmikið viðskiptabann frá  2014 vegna Krím-deilunnar. Í það sinn voru Evrópulönd, og alveg sérstaklega Þýskaland, treg til að taka þátt í efnahagsstríðinu gegn Rússlandi, og var það auðskilið í ljósi hraðvaxandi efnahags- og orkumálasamstarfs milli Rússlands og Þýskalands eftir aldamótin. Þáverandi varaforseti BNA, Joe Biden, fór yfir það í ræðu 3. október 2014 hvernig BNA beygði Evrópu undir vilja sinn:

Hún (Krímdeilan) hefur gefið okkur ástæðu til að safna helstu þróuðu ríkjum heims saman um að leggja verulegan kostnað á Rússland.

Það er satt þau [Evrópulönd] vildu ekki gera þetta. En á ný, það voru stjórnvöld Bandaraíkjanna og forseti okkar sem stóð á því, varð oft nánast að láta Evrópu skammast sín (embarrass Europe) til að standa upp og taka á sig efnahagsleg högg til að valda þeim [Rússum] kostnaði.

Að stöðva Nordstream 2 hefur lengi verið sérstakt áhugaefni Bandaríkjanna, að hindra efnahagslega samþættingu Þýskalands og Rússlands. Áætlun RAND Corporation um að „yfirteygja Rússland“ lagði á ráðin um víðtækar efnahagslegar aðgerðir samhliða hinum hernaðarlegu. Tvær þær mikilvægustu voru að „hindra olíuútflutning“ og „hindra jarðgasútflutning“. Þar stendur: „A first step would involve stopping Nord Stream 2.”

Skömmu fyrir innrás Rússa lýsti Joe Biden yfir að í tilfelli innrásar „munum við binda enda á … Nord Stream 2“. Beinum orðum: „If Russia invades… then there will be no longer a Nord Stream 2. We will bring an end to it.” Eftir að hann lét svo verða af þeirri miklu aðför að þýsku efnahagslífi hafa Olaf Scholz og Þjóðverjar hinir auðmjúkustu látið sem þeir viti ekkert hver eyðilagði leiðslurnar! Þetta er ámátlega æpandi dæmi um það hvernig evrópsk “stórveldi” hafa afhent leifarnar af sjálfsforræði sínu á sviði utanríkismála í hendur NATO – í reynd BNA – og sjálfsforræðið á sviði efnahagsmála fylgir með.

Viðbrögð NATO-landa á efnahagssviðinu [2022] skyldu vera hliðstæð viðbrögðum á sviði varnarmála: að útiloka Rússland frá „det gode selskap“ einangra Rússland efnahagslega frá Evrópu og frá Vesturlöndum. Og það gekk eftir. En nú var Vestrið ekki ígildi alheimsins í sama mæli og áður. Bak við hinar eindæma hörðu aðgerðirnar standa NATO-bandamennirnir (plús Japan og Ástralía). En önnur lönd, heimsmeirihlutinn, neituðu að taka þátt í þeim og litu yfirleitt á þær sem truflandi og skaðlegar viðskiptum sínum og efnahagstengslum. Refsiaðgerðirnar reyndust því vera sjálfsskaðahegðun.

Refsiaðgerðirnar urðu til þess að Rússland sjálft snéri við blaðinu. Annars vegar snéri það til efnahagslegrar sjálfsbjargarstefnu og hins vegar snéri það sér annað: snéri frá vesturmiðaðri utanríkisstefnu/viðskiptum, stefnu sem það hafði fylgt frá 1991 – og í grófum dráttum allt frá Pétri mikla kringum 1700. – Þið hafið svikið mig, sagði Pútín við Vestrið. Rússland snýr sér annað.

Úkraínustríðið olli/flýtti „snúningi“ Rússlands. Í þeim „snúningi“ eru tveir þættir mest áberandi og báðir hafa heimssöguleg áhrif. A) stóraukið samstarf Rússlands og Kína, bæði efnahagslegt og pólitískt. B) hraðari uppbygging á valkosti við „hið góða selskap“, valkosti við hið vestræna og vestrænt stýrða efnahagskerfi. Í stuttu, einfölduðu máli er hinn umræddi valkostur BRICS og stækkað BRICS.

Úkraínustríðið (og Úkraínudeilan frá 2014) varð til þess að Evrópa þjappaði sér um Bandaríkin, allt upp í fang þeirra – en varð um leið til þess að draga aðskinaðarlínu milli BNA/Evrópu og afgangs heimsins með mikinn meirihluta jarðarbúa. Efnahagslega er helsti taparinn Evrópa. Vegna Úkraínustríðsins var Evrópa „þvinguð“ til refsiaðgerða gegn Rússlandi, mikilvægasta viðskiptalandi sínu á sviði orkumála og mjög mikilvægum markaði.

Útkoman er orkukreppa í Evrópu og vaxandi iðnaðardauði. Það er þess vegna óhætt að draga þá ályktun að einnig á efnahagssviðinu sé NATO nú böl Evrópu.

Á vígvellinum

Rússland hertók á fyrstu vikum innrásar einkum rússneskumælandi héruðin í Donbass (sem að stórum hlut höfðu þegar sagt sig úr lögum við Kiev). Fljótlega eftir það læstist stríðið í „þreytistríði“ (war of attrition) í formi stórskotahernaðar. Líkt og herfróðir menn sögðu sér fyrirfram: Rússar hafa yfirburði í stórskotahernaði, yfirburði í skotflaugum, yfirburði í lofti og, mikilvægast, yfirburði í þjálfuðum hermönnum. Úkraína var og er dæmd til að verða undir. Eftir þreytistríð í meira en eitt ár kom síðan margboðuð„skyndisókn“ Úkraínu. Hún mistókst alveg og gekk mjög nærri Úkraínuher. Þreytistríðið hélt svo áfram.

Vont gengi og versnandi horfur ætti að leiða til þess að Úkraína myndi leita sátta. En svo er að sjá að hún fái ekki að gera það, ekki frekar en í mars/apríl 2022. NATO og BNA búktala nú gegnum mann sinn Zelenský. Þau hafa sem strategískt markmið að framlengja stríðið og hafna fyrirfram öllum samningum, í von um að „þreyta Rússland“.

Til að viðhalda stríðinu, framlengja það og helst stigmagna, er meginaðferðin þessi: að hella hundruðum milljarða dollara í stöðugt nýjar vopnasendingar, með stöðugt öflugri og hættulegri vopn, með NATO-ríkin æpandi og hvetjandi á hliðarlínu vígvallarins, en þar sem strísgæfa Úkraínu fer samt versnandi blandar NATO sér smám saman beinna í stríðsreksturinn, með vaxandi hættu á alvarlegri stigmögnun. Stríðið gegn Rússlandi er staðgengilsstríð NATO og engra annarra. Eftir tveggja ára stríð í febr sl. sagði generáll Stoltenberg.

Samanlagt sjá NATO-ríkin um 99% af allri hernaðaraðstoð til Úkraínu. Og áframhaldandi skuldbinding okkar ræður úrslitum í að varðveita frelsi Úkraínu. 

75 ára afmæli í Washington

Leiðtogafundur og afmæli NATO í Washinton DC þann 10. júlí s.l.

Þegar leiðtogar NATO-ríkja hittust í Washington í síðustu viku og héldu upp á 75 ára afmæli bandalagsins yfirskyggði Úkraínustríðið öll önnur málefni. Fundinum var ætlað að vera sýning í einingu og styrk þessa sístækkandi bandalags sem gæti sigrað Rússland sem aldrei mætti semja við, en varð vandræðalegt  út af mörgum og pínlegum elliglöpum æðsta yfirmanns herjanna.

Það er vandamál hjá BNA og NATO að almenningur kann að vera andsnúinn hernaðarstefnunni. The Economist spurði í skoðanakönnun sl. vetur um afstöðu fólks til þess að „Rússland og Úkraína semji vopnahlé núna“ og niðurstaðan var að 68% studdu það en aðeins 8% voru andvíg.

Annað vandamál er ef leiðandi stjórnmálamenn leiðandi landa fá óæskilegar hugmyndir. Kosningar í BNA vofa yfir. CNBC fréttastofan speglar þessar áhyggjur og ræðir gagnráðstafanir NATO:

Við sjáum að leiðtogarnir vilja „Trump-tryggja“ hernaðaraðstoðina við Úkraínu gagnvart mögulegu endurkjöri Trumps, í ljósi þess að forsetaframbjóðandi Repúblíkana hefur verið tvíræður gagnvart yfirstandandi Úkraínuaðstoð… Sem lykilaðgerð til að „Trump-tryggja“ Úkraínuaðstoðina mun NATO taka að sér mikilvæga þætti í því að skipuleggja og samþætta hana í stað Bandaríkjanna.

Það þarf að hindra að lýðræðið hafi óþarfleg áhrif á starf NATO. Samkvæmt tillögu Stoltenbergs samþykkti fundurinn að NATO-lönd skuldbyndu sig fyrirfram til að útvega Úkraínu vopn fyrir a.m.k. 43 milljarða dollara árlega til óákveðins tíma. NATO mun ennfremur koma upp sínum höfuðstöðvum fyrir Úkraínustríðið; í Wiesbaden í Þýskalandi, fyrst í stað með 700 manna starfsliði.

Skilaboð leiðtogafundarins er: NATO breytir ekki um stefnu í Úkraínudeilunni. Stefnan er sú að deiluna skuli útkljá á vígvellinum. Ekki stendur til að semja við Rússland, Úkraína mun ekki fá að semja, fyrr en í fyrsta lagi þegar landið horfist í augu við fullkominn og endanlegan ósigur.

Stefnan um hernaðarstuðning til frambúðar var fyrirliggjandi fyrir fundinn. Varnarmálaráðherrar NATO hittust í Brussel í júní til að undirbúa leiðtogafundinn, og samþykktu þar áætlun um hernaðarstuðninginn, áætlun um: „að koma stuðningi okkar við Úkraínu á komandi árum á traustari grundvöll.“  

NATO hefur gírað sig inn á langt stríð. Í fyrstu var markmiðið að sigra Rússland hernaðarlega og ekki síður efnahagslega með refsiaðgerðum. Eins og fram hefur komið hér að ofan ganga stríðin heldur illa, bæði hið hernaðarlega og hið efnahagslega. En það breytir ekki aðalatriðinu: langt stríð er jafnvel æskilegt út frá þeirri trú að það muni að lokum veikja Rússland, svo stefnan er óbreytt.

Viðhald stríðsins er betur tryggt af því NATO býður Úkraínu „óafturkræfa braut (irreversable path) að NATO-aðild“, vitandi að það er einmitt það atriði sem Rússland mun aldrei sætta sig við eða semja um.

Fundurinn bætti um betur með því að bæta við Kína sem andstæðingi, sem BNA gerði þó enn rækilegar á fundinum.

Lokaorð

NATO er höfuðdriffjöður í þeirri styrjöld sem nú geysar og magnast í Evrópu. NATO er böl Evrópu sem vaxið hefur jafnt og þétt eftir lok kalda stríðsins. Síðasti áratugur má segja að einkennist af NATO-væðingu Evrópu. Grundvallarmeinið liggur í því að NATO er framlengdur hernaðararmur heimsveldis utan álfunnar, sem eftir 1991 hefur fylgt heimsyfirráðastefnu. Með hjálp NATO beygir Evrópa sig undir þetta vald. En þetta vald og þessi stefna mætir óhjákvæmilegri mótspyrnu, jafnvel herskárri mótspyrnu, frá stórveldum sem fyrir eru og í vaxandi mæli mótspyrnu þess meirihluta heimsins sem liggur utan Norður-Ameríku og Evrópu. Friðarhreyfing í Evrópu hlýtur þess vegna að beina skeytum sínum, öllu öðru fremur, að NATO.