Evran er mjög árangursrík – án gríns
—
Greinin eftir Palast. Vésteinn þýddi með leyfi.
Það er hættulega barnaleg hugmynd að evran hafi „brugðist“. Evran er að gera nákvæmlega það sem faðir hennar – og hið ríka 1% sem tók hana upp – spáði og ætlaði henni.
Þessi faðir er Robert Mundell, höfundur „framboðs-hagfræðinnar“ (e. supply-side economics), áður hagfræðingur við Chicago-háskóla, nú prófessor við Columbia-háskóla, sem ég kynntist í gegn um tengsl hans við minn eigin Chicago-prófessor, Milton Friedman, áður en rannsóknir Mundells á gjaldmiðlum og gengi gátu af sér uppdráttinn að myntbandalagi Evrópu og sameiginlegum evrópskum gjaldmiðli.
Í þá daga var Mundell upptekinn af baðherbergisinnréttingunum sínum. Prófessor Mundell, sem á bæði Nóbelsverðlaunapening og fornt setur í Toscana-héraði á Ítalíu, sagði mér, og var mikið niðri fyrir:
„Þeir leyfa mér ekki einu sinni að fá klósett! Þeir eru með reglur sem segja mér að ég megi ekki hafa klósett í þessu herbergi! Geturðu ímyndað þér!?“
Satt að segja á ég erfitt með það. En ég á ekki ítalskt setur, svo ég þekki ekki gremjuna sem fylgir reglugerðum um salernisfyrirkomulag.
En hinn kanadísk-bandaríski Mundell er maður sem leysir málin, og hann ætlaði sér að gera eitthvað í þessu: finna vopn sem gæti rutt burt reglum stjórnvalda og verkalýðsfélaga. (Hann virkilega hataði félagsbundnu pípulagningamennina sem rukkuðu hann um heilt seðlabúnt fyrir að færa hásætið hans til.)
„Það er mjög erfitt að reka verkamenn í Evrópu,“ kvartaði hann. Og svar hans: evran.
Evran mundi í rauninni vinna vinnuna þegar kreppan skylli á, útskýrði Mundell. Með því að svipta ríkisstjórnirnar valdinu yfir gjaldmiðlinum, væri hægt að koma í veg fyrir að litlir, ljótir embættismenn notuðu keynsískar aðferðir í peningastefnu og ríkisfjármálum til að draga þjóðirnar upp úr svaðinu.
„Peningastefnan verður þá komin utan seilingar fyrir stjórnmálamenn,“ sagði hann. „[Og] án peningastefnu, er eina aðferð þjóða til að halda í störfin að keppast um að afnema reglugerðir á fyrirtæki.“
Hann nefndi lög um vinnumarkaðinn, reglugerðir um umhverfismál og, auðvitað, skatta. Öllu þessu mundi evran sturta niður. Lýðræði fengi ekki að skipta sér af markaðnum – og heldur ekki af pípulögnunum.
Eins og annar Nóbelsverðlaunahafi, Paul Krugman, hefur bent á, þá braut stofnun evrusvæðisins hagfræðireglu sem er þekkt sem „hagkvæmasta myntsvæði“. Það var reyndar regla sem Bob Mundell setti sjálfur fram.
Það angrar Mundell ekki. Fyrir honum snerist evran ekki um að breyta Evrópu í þróttmikla, samheldna efnahagslega heild. Hún snerist um Reagan og Thatcher.
„Ronald Reagan hefði ekki verið kjörinn forseti án áhrifa Mundells,“ skrifaði Jude Wanniski einu sinni í Wall Street Journal. Framboðs-hagfræðin, sem Mundell boðaði, varð að kennilegu skapalóni fyrir „reaganomics“ – eða, eins og George Bush eldri kallaði það, „vúdú-hagfræði“: trúin á þær töfralækningar frjáls markaðar, sem einnig veitti frú Thatcher innblástur.
Mundell útskýrði fyrir mér að í raun væri evran af sama toga spunnin og reaganomics: „Agi í peningamálum agar stjórnmálamenn líka í ríkisfjármálum.“
Og þegar koma kreppur, geta efnahagslega afvopnaðar þjóðir fátt gert annað en að sópa burt regluverki stjórnvalda og einkavæða ríkisfyrirtæki í stórum stíl, lækka skatta og horfa á evtir evrópska velferðarríkinu ofan í niðurfallið.
Þannig að við sjáum að forsætisráðherra Ítalíu, Mario Monti (sem enginn kaus), krefst „umbóta“ í vinnulöggjöf, sem mundi auðvelda vinnuveitendum eins og Mundell að reka þessa toskönsku pípulagningamenn. Og forkólfur Seðlabanka Evrópu, Mario Draghi (sem enginn kaus), kallar á „skipulagsbreytingar“ – sem er veigrunarorð fyrir það að kremja verkafólk. Þeir vitna í þá þokukenndu kenningu um að ef laun lækka í hverju einasta landi, þá verði öll löndin samkeppnishæfari.
Monti og Draghi geta ekki útskýrt hvernig nokkurt land bætir samkeppnisstöðu sína með því að þau lækki öll launin. En þeir þurfa ekki að útskýra stefnuna sína; þeir láta markaðina bara vinna á skuldabréfum landanna. Þannig að myntbandalag er stéttastríð, háð með öðrum aðferðum.
Frá kreppunni í Evrópu og eldunum í Grikklandi stafar heitum bjarma þess, sem hugmyndafræðilegur konungur framboðs-hagfræðinganna, Joseph Schumpeter, kallaði „skapandi eyðileggingu“. Lærisveinn Schumpeters og trúvarnarmaður hins frjálsa markaður, Thomas Friedman, flaug til Aþenu og heimsótti „helgan dóm“, brunna bankabyggingu, þar sem þrjár manneskjur biðu bana þegar anarkistar úr röðum mótmælenda köstuðu eldsprengju. Þar notaði hann tækifæri til að messa um hnattvæðingu og „ábyrgðarleysi“ Grikkja.
Eldtungurnar, fjöldaatvinnuleysið, brunaútsalan á opinberum eignum, mundu marka „endurfæðingu“ Grikklands og, á endanum, alls evrusvæðisins. Þannig að Mundell og aðrir sem eiga sín eigin setur geti sett klósettin sín hvar í fjandanum sem þeim sýnist.
Evran, barnið hans Mundells, hefur alls ekki brugðist, heldur hefur náð árangri langt umfram villtustu drauma föður síns.
— — — —
Þessi grein birtist fyrst í bandarísku útgáfu Guardian þann 26. júní 2012 og birtist hér með leyfi höfundar.
Þýðing: Vésteinn Valgarðsson. Áður birt á vefritinu Eggin.is