Misskipting drepur: Niðurstaða sóttvarnaraðgerða

31. mars, 2022 Jón Karl Stefánsson

Á hverjum degi eignast heimurinn 26 nýja milljarðamæringa. Á sama eina sólarhring er áætlað að í það minnsta 21.300 manneskjur látist af völdum fátæktar, tæplega 8 milljónir á hverju einasta ári. Þetta kemur fram í nýjustu skýrslu Oxfam International, sérfræðistofnun í rannsóknum á fátækt og misrétti. Það er fullkomlega réttlætanlegt að segja það að 808 fátækir þurfi að deyja úr fátækt til að gefa af sér einn milljarðamæring. Þessar tvær tölur eru alfarið tengdar. Ríkidæmi krefst fátæktar, arðrán er ómögulegt ef sá sem veitir vinnuaflið fær borgað það sem vinnuafl hans gefur af sér.

Sóttvarnaraðgerðir á heimsvísu vegna covid-19 hafa skapað gjörsamlega viðurstyggilegt ástand hvað eigna- og tekjumisrétti varðar. Á einungis tveimur árum hefur eftirfarandi gerst:

Auður 10 ríkustu einstaklinga heims hefur tvöfaldast. Á tímum covid-19 græddu hinir 2755 milljarðamæringar heimsins meira en þeir höfðu gert á síðustu fjórtán árum á undan. Ríkasta 1 prósentið í heiminum á nú tuttugu sinnum meira en fátækustu 50% jarðarbúa. 252 einstaklingar eiga meiri auð en allur milljarður kvenna í Afríku og Suður Ameríku samanlagt.

Á sama tíma hafa um 150 milljónir einstaklinga endað á stað sem er flokkaður sem sárafátækt. Það er fátækt sem er svo alvarleg að nærri ekkert má út af bregða svo að lífið haldist. Hætta er á hungurdauða, meiðsli geta fljótt leitt til dauða, og lífið hjá fjölskyldum í þessari stöðu er martröð. Rúmlega 99% jarðarbúa hafa nú lægri tekjur en áður en sóttvarnaraðgerðirnar hófust í mars 2020. En hinir allra ríkustu hafa aukið hlutdeild sína um nærri 100 prósent. Ein manneskja deyr nú á fjórðu hverri sekúndu úr fátækt.

Á tímum covid-19 hafa einkaaðilar sölsað meira undir sig af almannaeignum í gegnum einkavæðingu en nokkurn tímann fyrr í sögu mannkyns. Neysla hinna ríkustu er svo mikil að áætlað er að 20 ríkustu einstaklingar heimsins mengi 8000 sinnum meira en fátækasti milljarður mannkyns.

Misskipting auðs og valds drepur. Þetta er faraldur sem drepur 8 milljónir manna ár hvert. Hún er eðlilegur hluti hins óheilbrigða efnahagskerfis sem við búum við, en það sem hefur gerst síðustu tvö ár á sér samt ekkert fordæmi. Aldrei fyrr í sögu mannkyns hefur ójöfnuður á heimsvísu aukist svo mikið á svo skömmum tíma.

Verkalýðnum fórnað

Þó að Ísland sé meðal auðugri ríkja heims hefur hið sama átt við hér. Síðustu tvö ár hafa opinberað hverjir hafa völd og tjáningarfrelsi, hverjum er í lagi að fórna og hverjir njóta góðs af sameiginlegri vinnu þjóðarinnar. Meðal þess sem við höfum lært síðustu tvö árin er það að sama starfsfólk og telst ómissandi hluti af gangi samfélagsins: Heilbrigðis- og umönnunarstarfsfólk, matvælaframleiðendur og smásölustarfsmenn, iðnaðarmenn og ræstingafólk, og aðrir sem voru á ferli meðan aðrir á Vesturlöndum hnipruðu sig undir teppi í nafni sóttvarna, er einmitt sama fólkið og er svo fórnað þegar hættan er liðin hjá. Verkafólkið sem brann í Bræðraborgarstíg, eða lést þegar það var sent alla leið til Ísafjarðar svo það myndi nú ekki smita neinn í Keflavík, er gleymt. Heilbrigðisstarfsfólk sem áður var klappað fyrir er nú útbrunnið og fær ekki frekari launahækkun, þ.e. þeir sem ekki voru flæmdir burt fyrir að vilja ekki láta bólusetja sig eða tjáðu sig á óvinsælan hátt. Valdastéttin hélt því fram að þessi sótt væri svo hættuleg að menn þyrftu helst að loka sig inni til að forðast hana, þ.e. nema auðvitað þeir sem héldu uppi samfélaginu á sama tíma. Völdin eru enn í höndum þeirra sem gátu verið í heimavinnu og látið verkafólkið sækja heimsótta matinn fyrir sig og tæma ruslaföturnar.

Vitað var að þessar sóttvarnaraðgerðir myndu kosta óheyrilega mikið fé. Það sem við vitum fyrir víst nú er það að það voru enn á ný hinir allra fátækustu sem eru látnir borga brúsann. Sumir þeirra með lífi sínu. Og þetta er bara rétt að byrja. Heimskreppa er yfirvofandi. Skuldir hins opinbera um allan heim hleypur á tugum trilljóna Bandaríkjadala og risafyrirtækin eru farin að nudda saman lófunum. Hvað verður um þá sem Alþjóðaefnahagsráðið kallar nú hina „óþörfu“?

Mun íslenska ríkið hafa efni á því að halda uppi opinberu heilbrigðiskerfi í kjölfar þessa fjárausturs og skuldasöfnunar? Mun menntakerfið geta boðið börnunum okkar upp á einhverja lífvænlega framtíð í nýjum heimi? Eða hefur þegar verið ákveðið að einkageirinn taki nú við og bjóði upp á úrvalsþjónustu fyrir þá sem hafa efni á henni, og svo rusl fyrir þá sem hafa það ekki? Þeir sem munu taka ákvarðanir um það verða einmitt þeir hópar sem hafa att hinum raunverulega verkalýð landsins fyrir framan sig þegar hætta steðjaði að.

Alþjóðleg samstaða

Þriðja heimsstyrjöldin er löngu hafin. Hún er á milli verkalýðsins og svo borgaranna: Fjármálaeigendanna, og smærri borgara í stjórn hins opinbera. Borgararnir eru með pálmann í höndunum. Við, verkalýðurinn, erum tvístruð, tætt, skortir athygli og samtakamátt. Okkur skortir málgögn og pólitíska skipulagningu. Stjórnmálaflokkarnir sem þóttust styðja verkalýðinn eru fyrir löngu búin að ganga til liðs með nýja Kratismanum; nýfrjálshyggju með merkingarlausan „vinstri“merkimiða. Það gerðu þau þegar þau samþykktu starfsmannaleigurnar fyrir rúmum 20 árum og belgdu út skriffinskuræðið með tilheyrandi kostnaði. Þau eru nú svo blind á eigin stöðu að þau sjá ekki einu sinni hvernig þau hafa komið fram við verkalýðinn í nafni sóttvarna. Hin pólitíska forysta „vinstri“armsins er komin í hlýja ábreiðu valdsins. Þeir stjórnmálaflokkar sem reyna að hala inn atkvæði okkar eru ekki hagsmunasamtök þeirra sem eru að missa allt.

Þetta er það sem gerði sóttvarnaraðgerðirnar á heimsvísu svo pervertískar. Sá faraldur sem drepur 8 milljónir manna á hverju ári, fátækt, hefur fengið að grassera og versnar dag frá degi. Þegar öllu hagkerfi heimsins var umturnað til að berjast gegn sjúkdómi sem einkum herjaði á hinn ríkasta hluta heimsins, var látið eins og það væri eðlilegur fórnarkostnaður. Leiðum hugann að þessu. „Okkur“ var sama þótt við fórnuðum hinum fátæku til að bjarga hinum ríku. Að halda öðru fram, og vara við svo miklu offorsi í sóttvörnum var túlkað sem mannvonska, heimska og andvísindi. Líf hinna raddlausu skipti ekki meira máli en það.

Eina von okkar nú er að við munum hinn gamla sannleik: Allt verkafólk er á sama báti. Það skiptir engu frá hvaða landi við erum, hvort við erum veik, hvernig við erum á litinn eða hvaða kyni við tilheyrum. Við verðum að standa saman og koma í veg fyrir tilraunir til að draga okkur í dilka. Það er bara ein barátta, baráttan fyrir afnámi arðráns. Missum ekki sjónar á því.