Raunveruleikinn um efnahagsstöðu Íslands

12. október 2021 — Jón Karl Stefánsson

Vöruskiptahalli íslenska hagkerfisins í ágústmánuði 2021 var 36,2 milljarðar bandaríkjadala. Þetta er næstmesti halli í sögu íslenska lýðveldisins. Mesti vöruskiptahalli sögunnar átti sér stað í júnímánuði á þessu ári, 47,7 milljarðar bandaríkjadala.

Vöruskiptahalli Íslands frá 1980 til 2021
Vöruskiptahalli Íslands frá 1980 til 2021 (tekið frá https://tradingeconomics.com/iceland/balance-of-trade)

Til samanburðar þá var vöruskiptahallinn í kjölfar síðasta efnahagshruns mestur tæplega 30 milljarðar bandaríkjadala. Efnahagsstjórnin eftir hrun virtist nokkuð góð og Íslendingar eyddu ekki um efni fram í nokkur ár frá 2010 til 2016, en síðan þá virðast Íslendingar hafa verið kaupglaðir miðað við efni. Það kann að hafa verið í fjárfestingarskyni. Byggja átti upp undirstöður fyrir ferðamannaiðnaðinn á borð við hótel, farartæki og vörur til sölu á síðustu árum. Byggingakranar prýddu landslagið í stærri bæjum á Íslandi og Eimskip flutti inn tól og tæki í gríð og erg svo gróðinn í framtíðinni yrði hámarkaður. Þetta hefði kannski gengið þar til 2020 rann í garð. Ferðamannastraumurinn þornaði og hótelin stóðu tóm, bílarnir ryðguðu í stæðunum. Við áttum kannski ennþá möguleika á að snúa þróuninni við í sumar, en þegar ákveðið var að halda áfram með lokanir og íþyngjandi reglur vegna covid; reglur sem hafa verið afnumdar í öðrum Norðurlandaþjóðum, urðu horfurnar aðrar.

graf2
Vöruskiptajöfnuður í Danmörku
grafmynd3
Vöruskiptajöfnuður í Noregi
grafmynd4
Vöruskiptajöfnuður í Svíþjóð
grafmynd5
Vöruskiptajöfnuður á Íslandi
grafmynd6
Hagvöxtur á Íslandi frá 2006 til 2020 (frá heimasíðu Hagstofu Íslands).

Hagvöxtur á Íslandi var neikvæður upp á 6,9% árið 2020. Þetta er næstversta staða lýðveldissögunnar, á eftir árinu 2009 þegar hagvöxtur var neikvæður um 7,7%. Þó eru bjartsýnisraddir allsráðandi í samfélaginu. Nýjustu hagtölur, fyrir fyrstu tvo ársfjórðunga, sýna hressilega aukningu á vergri landsframleiðslu. Þjóðhagsspá hagstofunnar lofar miklu vaxtaskeiði næstu árin. Fréttir af komandi loðnuvertíð eru lofandi. En þegar helsta ástæðan fyrir bjartsýni um framtíðarhorfur íslenska hagkerfisins er skoðuð betur, þá vakna spurningar.

Í þjóðhagsspá Íslandsbanka frá því í maí s.l. er sagt að „hagvöxt á árinu [2021] má að stærstum hluta þakka vexti í ferðaþjónustu ásamt hóflegum vexti neyslu og fjárfestingar. Spárnar sem Íslandsbanki miðar við eru að til Íslands komi um 700 þúsund ferðamenn árið 2021, 1,3 milljónir árið 2022 og 1,5 milljónir árið 2023. Gangi þetta upp reiknar Íslandsbanki með því að verg landsframleiðsla aukist um 2,7% árið 2021, 4,9% árið 2022 og 2,9% árið 2023.

Eru þetta raunhæfar spár hjá Íslandsbanka? Þegar þær voru settar fram var t.d. sérstaklega tekið fram að þó „enn sé nokkur óvissa um þróun ferðamanna á þessu ári fer óvissan minnkandi með hækkandi hlutfalli bólusettra hérlendis sem erlendis og tilslökunum á landamærunum.“ Þetta bendir til þess að þessi þjóðhagsspá hafi verið sett fram þegar menn trúðu því enn að bólusetning myndi koma í veg fyrir smit og að með bólusetningu myndi ferðafrelsi verða nánast það sama og árið 2019. En reyndin hefur orðið önnur. Þegar í ljós kom að bólusettir bæði smitast og smita út frá sér, og ný covid-bylgja hófst, virtist í fyrstu sem að Íslendingar myndu taka sömu ákvörðun og hinar Norðurlandaþjóðirnar; að líta á framhaldið á svipaðan hátt og árstíðabundna flensu og opna að öðru leyti hagkerfið.

En 18 mánuðir af hræðsluáróðri hafa skilað sínu. Enn eru þær reglur í gildi að þeir sem smitast af sars-cov-2, eða hafa verið í nálægð við einhvern smitaðan, eru lokaðir inni í 2 vikur í sóttkví. Fyrirtæki og stofnanir þurfa að vaða eld og brennistein, loka starfsstaðnum og senda starfsfólk í langa sóttkví komi upp smit af nákvæmlega þessari veiru. Einkennalaus börn og foreldrar eru enn send í sóttkví. Ferðafrelsi Íslendinga er enn skert, ýmis fyrirtæki lifa við íþyngjandi höft, m.a. með tilliti til leyfilegan fjölda kúnna og opnunartíma. Í sumar komu vissulega ferðamenn til Íslands, kannski þökk sé eldgosi. En í september hrundi koma ferðamanna á ný, í kjölfar áframhaldandi íþyngjandi sóttvarnaraðgerða. Talsmenn Isavia eru nú logandi hræddir um að ferðamannastraumurinn klikki alveg í vetur. Það virðist vera að ferðamenn séu ekkert sérstaklega spenntir fyrir því að þurfa að vera í sóttkví í á aðra viku á Íslandi og missa af fluginu til baka.

Önnur óorðuð forsenda virðist svo vera sú að annars staðar í heiminum sé að hefjast eitthvað frelsis- og hagvaxtartímabil sem skili sér svo í því að fólk flykkist í ferðir til Íslands eins og fyrr. En víða um heim eru hreinlega fasískar aðgerðir, t.d. Ástralíu, Litháen og Kanada, að fara af stað og blikur eru á lofti í nokkrum stærstu hagkerfum heims; m.a. Bandaríkjunum og Kína. Talað er um eitthvað nýtt norm þar sem valdakerfið leyfir sér að fylgjast með öllum ferðum og orðum þegna sinna, annars. Þróunin á heimsvísu gefur ekki ástæðu til bjartsýni.

Hér vantar tilfinnanlega nýja þjóðhagsspá; spánni sem gerir ekki ráð fyrir stöðugri fjölgun ferðamanna til Íslands á næstu misserum. Þá spá þarf svo að bera saman við þessar bjartsýnisspár hjá nýseldum Íslandsbanka. Á hverju ætlum við að lifa ef við fáum ekki þessa ferðamannapeninga?

Kramin milli nýfrjálshyggju og ofsahræðslu

Nýfrjálshyggjan á heiður af því að Íslendingar hafa selt frá sér raunverulegar eignir og fengið þess í stað gervipeninga til að nota í fjárfestingar. Frá því nýfrjálshyggjuvæðingin hófst á tíunda áratugnum hefur Ísland breyst gríðarlega mikið. Ein birtingarmynd þess er heilbrigðiskerfi Íslands. Árið 1990 gátu Íslendingar stært sig af því að eiga rúmlega 16 sjúkrarými fyrir hverja 1000 íbúa landsins. Árið 2020 áttu Íslendingar 2,6 sjúkrarými á hverja 1000 íbúa. Heilbrigðiskerfið er nú svo veikt að jafnvel þótt ekkert sérstakt sé að gerast þarf að geyma sjúklinga sem þurfa á bráðaþjónustu að halda á göngum og skrifstofum. Hið opinbera á nú ekki fasteignir eða þjónustufyrirtæki; þau eru seld og nú þurfa opinberar stofnanir að leigja það sem þau áður áttu. Hinu opinbera er bannað að eiga fyrirtæki sem geta gefið arð í þjóðarkassann. Gróðinn af sjávarútvegi endar of oft aflandsfélögum og æ fleiri fyrirtæki eru að enda í eigu erlendra fjárfesta. Gróðinn af vinnu landsmanna fer í of litlu mæli í sameiginlegan sjóð. Innlendur iðnaður samanstendur nærri einungis af hráefni; áli og fiski. Allar aðrar tekjur koma frá ferðamönnum. Við virðumst nú lifa á kreditkortinu, og það getur varla talist góð heimilishagfræði.

Hagkerfið stjórnast nú alfarið af þessari hugmyndafræði. Ekkert sýnir það betur en hegðun VG í stjórn síðustu ára. Þegar Katrín forsætisráðherra afhenti fjárfestum Íslandsbanka í vor með bros út að eyrum, og þegar Svandís Svavarsdóttir samþykkti að minnka fjárframlög til hjúkrunarheimila fyrir þetta ár, þá varð alveg ljóst að vinstrikratarnir hafa alfarið brugðist alþýðunni. Hjá þeim er ekkert eftir sem líkist þeirri hugsjón sem ríkti áður en nýfrjálshyggjan fór af stað: Að við ættum að reisa samfélag sem byggðist á samhjálp og réttri dreifingu tækifæra. Gamla Ísland er horfið.

Það eina sem hefur heyrst frá íslenskum krötum í nærri tvö ár eru endalaus, dagleg óttaboð um að við verðum að halda veiru frá íslensku blóði. Þetta breyttist ekki eftir heimsmet í bólusetningum; óttaboðin renna stanslaust um íslenska fjölmiðla. Það er eins og menn átti sig ekki á því að í venjulegu ári deyja um 3000 Íslendingar. Í fyrra mátti rekja minna en 1% dauðsfalla til covid-19. Missi íslenska ríkið meiri tekjur verður ekki hægt að byggja upp heilbrigðiskerfi Íslendinga. Í slíkri stöðu gæti dauðsföllum af öðrum orsökum fjölgað gríðarlega, einfaldlega þar sem ekki verður hægt að bregðast nógu vel við heilsubresti hjá landsmönnum. Hjartaáföll og krabbamein drepa um 1500 Íslendinga ár hvert. Ef tíðni þessara sjúkdóma eykst um einungis 2% mun það þýða 30 mannslíf ár hvert. Er búið að reikna heildaráhrifin af þessum sóttvarnaraðgerðum að fullu?

Birtingarmyndir kreppu

Fyrir leikmann virðist íslenska hagkerfið standa á brauðfótum, í besta falli. Vera má að hér vanti eitthvað í myndina og að það skipti ekki svo miklu máli að miðað við viðskiptajöfnuð lifum við um efni fram. Handan við hornið sé mikill viðsnúningur sem getur borgað upp skuldir síðustu 18 mánaða eða svo. En ef svo er hafa þessir sérfræðingar ekki verið neitt sérstaklega háværir í að útlista í hverju sá viðsnúningur felst. Miðað við þau áform sem hafa verið sett fram að undanförnu byggir þessi komandi viðsnúningur á skuldasöfnun Íslands á endurkomu ferðamanna sem munu svo dæla peningum aftur í hagkerfið. Miðað við þróunina bæði hér á landi, með áframhaldandi mjög íþyngjandi sóttvarnaraðgerðum, og erlendis þar sem víða er erfitt fyrir fólk að ferðast langt vegna jafnvel enn grófari aðfara að ferðafrelsi fólks, þá er margt sem mælir gegn því að þessi endurkoma ferðamannaiðnaðarins sé nánast í höfn. Hitt er svo það að meintir sérfræðingar í efnahagsmálum á Íslandi hafa ekki beinlínis söguna með sér hvað varðar að vara almenning við ef stefnir í ranga átt. Þeir sem sáu hvert stefndi fyrir síðasta hrun voru duglegir við að losa sig við eignir áður en skellurinn kom þá. Hinir gengu um með lepp fyrir augum og neituðu að horfast í augu við að skuldasöfnunin þá hlyti að taka enda.

Ef við spyrjum okkur hvort kreppa sé á leiðinni eða ekki, þá vaknar upp önnur áleitnari spurning: Hvað felst í þessu orði; kreppa? Nú, beina skilgreiningin á orðinu „efnahagskreppa“ er einfaldlega mikil lægði í atvinnustarfsemi með tilheyrandi atvinnuleysi. Miðað við þá skilgreiningu þá hefur Ísland þegar verið í kreppu í um 19 mánuði. Þetta einkenni kreppu kann að snúast við á næstu misserum. En önnur birtingarmynd kreppu er svo hrun á opinberri þjónustu til almennings. Sú kreppa hefur verið að dýpka hægt og bítandi í þrjá áratugi, og hún er enn að versna. Augljósasta merki þess er að sjá í heilbrigðiskerfi Íslands. Eins og áður sagði þá hefur sjúkrarýmum á hverja þúsund íbúa fækkað úr tæplega 17 niður í 2,6 síðan árið 1990. Það er einmitt mjög lýsandi að síðast þegar alþjóðlegur faraldur reið yfir heimsbyggðina, með Hong-Kong flensunni árin 1968-70 sem lagði allt að 4 milljónir manneskja í gröfina, þá höfðu Íslendingar einmitt nýlega byggt nýtt sjúkrahús, borgarspítalann. Fæstir muna eftir þeirri farsótt og þessi ár eru kennd við allt annað en faraldur. Í þá daga var ekkert tal um að loka samfélaginu til að minnka álag á sjúkrahúsin. Ef við hefðum átt að læra eitthvað af árinu 2020, þá er það nauðsyn þess að byggja nýtt sjúkrahús og hafa þó ekki sé nema álíka ástand á heilbrigðiskerfinu og er í Færeyjum, þar sem geta sjúkrahúsanna fer nánast aldrei yfir 65% (hún er að jafnaði á milli 130-200% hér á Íslandi). En í stað þess að rætt sé um byggingu nýs sjúkrahúss eða almennt opnun fleiri deilda, þá heldur nýfrjálshyggjustefnan áfram í átt tril frekari einkavæðingar. Heilbrigðiskerfi á að verða gróðastarfsemi, og þá gildir einu hvort almenningur líði fyrir.

Ísland í nýrri heimsmynd

Lokaspurningin sem við verðum að hafa í huga er sú, hvert stefnir efnahagur Íslands í stærra samhengi? Á síðasta ári, og enn í dag, þá hafa innlend fyrirtæki, smá, meðalstór og jafnvel stór fyrirtæki, barist fyrir lífi sínu. Það er gríðarlega erfitt fyrir sprotafyrirtæki að borga laun og reikninga þegar þau geta varla náð nokkrum tekjum. Á sama tíma tryggja alþjóðasamningar sem við höfum skrifað undir síðustu 30 árin opnað landið fyrir erlendum „fjárfestum“. Æ fleiri risar ryðja sér rúms á Íslandi og taka smám saman yfir markaðinn. Ef fer fram sem horfir þá heldur þessi þróun áfram. Costco og Walmart munu taka við af Bónus og Hagkaup, Ryanair tekur við af flugleiðum, erlend fyrirtæki kaupa útgerðir og framleiðslufyrirtæki, starbucks tekur yfir kaffitár o.s.frv. Mesta innreiðin verður eflaust Amazon, sem smátt og smátt er að taka yfir netverslun á heimsvísu. Athugið að á meðan minni fyrirtæki í heiminum hafa misst gífurlega mikið fjármagn í covid-kreppunni, þá hafa þessi stærstu fyrirtæki mokgrætt.

Þegar þessi þróun hefur fengið að ganga nógu lengi verður ekkert til sem heitir íslenska hagkerfið. Við verðum bara lítið tannhjól í gríðarstóru kerfi þjóðlausra einkafyrirtækja. Ef við teljum okkur eiga fullt í fangi með íslensk fyrirtæki í kjarabaráttu, bíðið þangað til samningsaðilinn heitir Amazon. Engin raunveruleg umræða hefur enn farið af stað um þá staðreynd að komandi kynslóðir munu vinna í færiböndum Amazon og Walmart. Nýtt efnahagshrun vegna skuldasöfnunar flýtir einfaldlega fyrir þeim veruleika.

Þess vegna verðum við að nema staðar tafarlaust og skoða hvar við stöndum og svo hvert við viljum stefna. Ef við gerum það ekki hefur framtíð okkar þegar verið ráðin. Við getum snúið við þessari þróun og tekið sjálf ábyrgð á efnahagskerfinu. Við þurfum ekki að vera fangar ferðamennskunnar og við þurfum ekki að trúa hverju orði sem kemur frá almannatengslaskrifstofum risafyrirtækjanna.

Þjóðarskútan stefnir í átt að skeri og við verðum að skipta um stefnu. Við verðum að vakna.