Endalok vestrænna fjármálayfirburða í Afríku í sjónmáli – mun sagan í Líbíu endurtaka sig?

21. júní, 2023 Jón Karl Stefánsson

Ríki um alla Afríku stigu stórt skref í átt til efnahagslegs sjálfstæðis frá Vesturlöndum um helgina með því að koma af stað tryggingakerfi sem gerir þeim mögulegt að stunda milliríkjaviðskipti án aðkomu Bandaríkjadals eða annarra vestrænna gjaldmiðla. Síðast þegar þetta var reynt, með forystu Líbíu, voru viðbrögð Vesturlanda hryllileg. Mun þetta ganga betur nú?

Um helgina stigu Afríkuríki stórt skref í átt til aðskilnaðar frá vestrænum fjármálastofnunum er „afríski innflutnings- og útflutningsbankinn“ (African Export-Import Bank – Afreximbank) í samstarfi við Fríverslunarstofnun Afríku (African Continental Free Trade Area (AfCFTA)) gangsetti nýtt tryggingakerfi sitt fyrir milliríkjaviðskipti innan heimsálfunnar. Þetta nýja kerfi, sem ber nafnið Pan-African Payments and Settlement System (PAPSS) og er undir stjórn undirstofnunarinnar AFREXinsure, er ætlað að auðvelda Afríkuríkjum að stunda milliríkjaviðskipti í eigin gjaldmiðlum. Þetta mun gera þessum ríkjum kleift að sniðganga í æ meira mæli Bandaríkjadal og Evru. Þrátt fyrir að bankinn sjálfur hafi starfað síðan árið 1993, þá hefur ekki áður þótt mögulegt að komast hjá því að ríkin þurfi fyrst að verða sér úti um dollara. Þetta nýja kerfi starfar í þökk Afríkuráðsins og afrískra seðlabanka og Afreximbank áætlar að um 20 ríki munu notast við kerfið við árslok. Þetta verður mikil lyftistöng fyrir efnahag Afríkuríkja, en um leið mikið áfall fyrir bandaríska heimsveldið.

Draumur Gaddafis

Síðasta tilraun til að koma á fót svipuðu kerfi endaði með sviplegum hætti árið 2011. Drög að áætlun um efnahagslegt sjálfstæði Afríkuríkja með samvinnu höfðu verið teiknuð upp á fundi Afríska þjóðarráðsins árið 1991 í Abuja, opinberri höfuðborg Nígeríu. Þar samþykktu stjórnmálaleiðtogar 52 Afríkuríkja að koma á fót afrísku efnahagssvæði og að hefja uppbyggingu á sameiginlegum afrískum seðlabanka. Seðlabankinn skyldi verða opnaður árið 2028, en sameiginlegur afrískur gjaldmiðill átti þegar að vera kominn í gagnið árið 2023. Á fundi í Sirte í Líbíu var samþykkt að hraða uppbyggingu sameiginlegra fjármálastofnanna fyrir Afríkuríki og stefnt var að því að pan-afríski seðlabankinn yrði opnaður árið 2020 í stað 2028 (ECA, 2009). Það var ekkert launungarmál að Líbía, þá best stæða Afríkuríkið, var algerlega leiðandi í þessu ferli.

Skilti með Gaddafi í Líbanska bænum Ghadames.

13. desember 2010 hittust fjármálaráðherrar Afríkuríkja í Yaounde i Kamerún. Aðalumræðuefnið var skýrsla vinnuhóps um stofnun afrísks gjaldeyrissjóðs (African Monetary Fund), en hann skyldi taka við hlutverki Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í heimsálfunni. Þau samtök sem höfðu krafist af Afríkuríkjum að þau seldu eignir sínar og gert Afríkuríki háð fyrrverandi nýlenduríkjum um efnahagsaðstoð myndu þar með missa tangarhald sitt á heimsálfunni. Frumsögumenn skýrslunnar voru bjartsýnir: Allt leit út fyrir að afríski gjaldeyrissjóðurinn yrði starfshæfur við lok ársins 2011. Á fundinum höfnuðu Afríkuríkin um leið tilboði evrópskra ríkja um þátttöku í sjóðnum í skiptum við að leggja fram stofnfé, enda gengi slíkt gegn grundvallarhugmynd sjóðsins.

Tilgangur afríska gjaldeyrissjóðsins var að tryggja þjóðhagslegan hagvöxt Afríkuríkja, hvetja til aukinna viðskipta milli Afríkuríkja og skapa sameiginlegan afrískan markað. Sjóðurinn myndi jafnframt leiða sameiginlega framtíðarsýn heimsálfunnar í efnahagsmálum, vernda efnahagslegan stöðugleika og aðstoða ríki sem áttu í efnahagslegum vandræðum á forsendum ríkjanna sjálfra (Mimboe, 16.10.2010).

En afríski gjaldeyrissjóðurinn var ekki opnaður á tilsettum tíma, og óvíst er hvort hann komist yfir höfuð á laggirnar nokkurn tímann. Ástæða þess er einföld. Þremur mánuðum eftir að fundurinn var haldinn var langstærsti fjárfestir hans tekinn úr umferð.

Fjárfestingarsjóður Líbíu hafði ákveðið að nota að minnsta kosti 30 milljarða bandaríkjadala í stofnfé sjóðsins. Þetta var langstærsti hluti hins 42 milljarða stofnfjár bankans. Þessir 30 milljarðar skyldu að mestu fengnir með því að flytja fé úr fjárfestingum í Evrópu og Bandaríkjunum, en það fyrsta sem Natóríkin gerðu eftir að ákveðið var að ráðast gegn þáverandi stjórnvöldum í Líbíu, Jamahiriya-stjórninni, var að einmitt „frysta“ þessar eignir (Kamboon, 22.09.2011).

Yfirburðum vesturlanda ógnað

Afríski gjaldeyrissjóðurinn var einungis fyrsta stofnunin af þremur sem stofna átti í Afríku sem lið í átt að efnahagslegri sjálfstæðisyfirlýsingu. Hinar tvær voru áðurnefndur afrískur seðlabanki sem opna átti í Abuja í Nígeríu, og svo afríski fjárfestingarbankinn (AIB) sem opna átti í Trípolí í Líbíu. Hinn sameiginlegi gjaldmiðill Afríku átti að byggja á gullfæti, en afrísk ríki eiga gríðarstóra gullforða. Þessi gjaldmiðill átti að leysa af hólmi hina fjölmörgu gjaldmiðla Afríku. Margir gjaldmiðlanna eru fastir við franska frankann, breska pundið og Bandaríkjadollar og ljóst er að þeir gjaldmiðlar myndu hríðfalla í verði sama dag og Afríkudollarinn kæmist í umferð.

Á sama tíma var einnig gert áhlaup á hernaðarlega yfirburði Vesturlanda í Afríku. Á þingi Afríkubandalagsins árið 2009, sem haldið var í Líbíu, ákváðu aðildarríkin að stofna sérstakt afrískt varnarráð undir forystu nýrrar yfirþjóðlegrar al-afrískrar stofnunar. Þetta var bein ögrun og ógn við hernaðarumsvif vesturlanda í Álfunni, en þar var AFRICOM, deild bandaríska hersins, með algjöra yfirburði. Ráðamenn í Bandaríkjunum voru uggandi vegna þess yfirlýsta markmiðs að þó að almennur tilgangur afríska varnarráðsins væri að ganga á milli stríðandi fylkinga innbyrðis ætti einnig að koma til varnar aðildarríki- eða ríkjum sem yrðu fyrir árásum utanaðkomandi afla

En þann 17. febrúar 2011 söfnuðust öfgafullir stjórnarandstæðingar saman í „degi bræðinnar“ í borgum Líbíu, með dyggum stuðningi vestrænna leyniþjónusta og hófu byltingu. Atlantshafsbandalagið, ásamt Katar og Sádí Arabíu, studdi næstu mánuðina blóðþyrsta byltingarmenn til dáða og almenningur á Vesturlöndum fékk söguna um vonda einræðisherrann í 6-milljón manna ríkinu Líbíu. Eftir mikið sprengjuregn var ríkið lagt í rúst og Gaddafi drepinn. Meðal þess sem fór þá í súginn var tilraun Líbíu til að leiða Afríku í átt til efnahagslegs og  pólitísks sjálfstæðis

En fái hið nýja verkefni Afríska inn- og útflutningsbankans að dafna, gæti þessi draumur um Pan-Afrískt sjálfstæði frá Vestrænum yfirburðum loks orðið að veruleika. Það verður fróðlegt að sjá hvort, og þá hvernig, Bandaríkin og Evrópa bregðist við í þetta sinn.

Ítarefni

Jean-Paul Pougala, „Why the West wants the fall of Gaddafi? An analysis in defense of the Libyan Rais“ Rights Monitoring, 16.04.2011.

Kamboon, K. 22.09.2011. The Libyan Tragedy. Trinidad Express Newspapers.

Mimboe, P. R. 16.10.2010. Cameroon: African Monetary Fund operational in 2011. Ai Yaoundé: Africa Info.

Steigan, J. 2023. Kenya gjenoppliver den afrikanske planen om å droppe dollar.

United Nations Economic Commission for Africa  [ECA]. 09.09.2009. Sirte Declaration. Sirte, Great Socialist People’s Libyan Arab Jamahiriya: ECA. Sótt þann 13.10.2011 frá uneca.org.