Einkavæðing almannafjár

3. febrúar, 2021 Björgvin LeifssonTvö einkavæðingarmál hafa verið nokkuð í umræðunni undanfarið. Annars vegar er fjölmiðlafrumvarp mennta- og menningarmálaráðherra, þar sem lagt er til að einkareknir fjölmiðlar verði styrktir af ríkinu, þ.e. almannafé, og hins vegar ákvörðun fjármálaráðherra (væntanlega með samþykki ríkisstjórnarinnar) að hefja sölu á ríkisbankanum Íslandsbanka eigi síðar en í desember á þessu ári.

Nú er ríkisstyrkur til einkarekinna fjölmiðla ekki einkavæðing í þeim skilningi, sem oftast er lagt í það orð. Hins vegar er óumdeilt að ríkisstyrkur til einkaaðila er ekkert annað en tilfærsla á skattfé almennings til einkarekinna fyrirtækja, sem almenningur fær engan arð af, þ.e. einkavæðing þess sama skattfjár.

Einhvern tíma var mér tjáð að að ríkið ætti ekki að vasast í fyrirtækjarekstri, hvorki beint né óbeint, enda væri hinn frjálsi, almáttugi markaður fullfær að sjá um sig og gætu jafnvel fallið brauðmolar af himnum ofan þegar vel gengur. Þessi fræði eiga greinilega ekki við þegar illa gengur. Þá skal seilst í skattfé almennings og er nærtækt að nefna hið lífsnauðsynlega einkarekna flugfélag Icelandair sem dæmi. Það er enginn munur á einkareknum fjölmiðlum og öðrum einkareknum fyrirtækjum. Þeir eru í einkaeign, sem þýðir að eigendur þeirra ráða öllu sem þeir vilja, svo sem fjárfestingum, stefnu og tilreiðslu þess efnis, sem miðillinn kýs að birta, svo sem fréttum.

Nær væri að ríkisstjórnin stóryki framlög til Ríkisútvarpsins (og losaði það undan OHF kvöðinni) en að dæla skattfé í misvel rekin einkafyrirtæki. Ríkisútvarpið er almannaþjónusta í eigu almennings og gegnir þar hlutverki, svo sem öryggis- og menningarhlutverki, sem einkareknir fjölmiðlar eru ófærir að gegna og hafa almennt lítinn áhuga á.

Allir vita að ríkið á ekki að eiga banka, enda einkaaðilar mun færari að valda bankahruni en nokkur ríkisbanki. Svo ekki sé nú talað um ef bankinn skilar hagnaði til almennings, sem mun betur væri kominn hjá hluthöfum úti í bæ.

Það kemur ekkert á óvart að íhaldið vilji selja Íslandsbanka. Hitt er áhugaverðara að það eina, sem stjórnarandstöðunni þykir gagnrýnivert er að salan sé ekki á réttum tíma!? Með öðrum orðum er stjórnarandstaðan, hvort sem það eru ESB kratar eða íhald, ekki á móti bankasölunni, bara tímasetningunni. Enn fremur má velta fyrir sér út á hvaða fúafen hinn svokallaði sósíalíski flokkur forsætisráðherra er kominn.

Með einkavæðingu banka hækka þjónustugjöld um leið og þjónusta við almenning er skert eins og dæmin sanna og gildir þetta raunar um alla einkavæðingu. Skyldur einkabanka eru fyrst og fremst við hluthafa en ekki almenning og er því bankinn rekinn með gróða en ekki hagsmuni almennings að leiðarljósi.

Nær væri að ríkið sameinaði Landsbankann og Íslandsbanka í einn öflugan, samfélagslega rekinn banka með lágum vöxtum og engum þjónustugjöldum, sem einkabankarnir ættu í erfiðleikum með að keppa við. Almenn bankaþjónusta er í grunninn almannaþjónusta og einkaaðilar ættu þar hvergi að koma nærri.