Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmáli staðfestur af yfirdeildinni

2. desember, 2020 Björgvin LeifssonFullveldisdagurinn í ár verður sjálfsagt lengi í minnum hafður í ljósi þeirrar sérstöku gjafar sem yfirnefnd Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) sendi Íslandi. Þar er staðfest að fyrrverandi dómsmálaráðherra, Sigríður Á. Andersen, braut íslensk lög þegar hún vék frá tillögum hæfisnefndar um skipan dómara við nýstofnaðan Landsrétt vorið 2017 með því að skipta út fjórum dómaraefnum hæfisnefndar fyrir fjóra flokksgæðinga íhaldsins. Enn fremur braut alþingi lög með því að staðfesta tillögu dómsmálaráðherra og að greiða atkvæði um öll 15 dómaraefnin í einu lagi í stað þess að greiða atkvæði um hvert dómaraefni um sig. Með þessu athæfi nálgast Ísland óneitanlega þann bekk, sem Pólland, Ungverjaland og Tyrkland skipa, þ.e. þau ríki Evrópu, sem líklega eru komin hvað lengst á þeirri braut að innleiða fasmisma á ný í álfunni (https://www.ruv.is/frett/2020/12/01/stadfestir-afellisdom-yfir-vinnubrogdum-radherra).

Á þessum tíma, vormánuðum 2017, var skammlíf ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar enn við völd. Landsréttur tók til starfa 1. janúar 2018, skipaður hinum 15 dómurum, sem Sigríður Á. Andresen lagði til að yrðu skipaðir og alþingi féllst á. Strax á því ári var málsmeðferð réttarins kærð til MDE á þeirri forsendu að einn dómarinn í viðkomandi máli, Arnfríður Einarsdóttir (eiginkona Brynjars Níelssonar alþingismanns íhaldsins, sem gaf eftir 1. sætið á lista flokksins í Reykjavík suður fyrir Sigríði í alþingiskosningunum 2017), hefði verið ólöglega skipaður. MDE tók málið fyrir og dæmdi í mars á síðasta ári að dómsmálaráðherra og alþingi hefðu brotið íslensk lög með skipan hinna 15 dómaraefna skv. lista dómsmálaráðherra á vormánuðum 2017. Þessir fjórir dómarar, sem Sigríður skipti inn fyrir önnur fjögur dómaraefni hæfisnefndar, tóku sér frí frá störfum við Landsrétt skömmu síðar en sögðu EKKI af sér á þeim tímapunkti. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, núverandi dómsmálaráðherra íhaldsins, skipaði svo þrjú þeirra aftur dómara við réttinn síðastliðið haust, þ.e. ÁÐUR en dómur yfirnefndarinnar hafði fallið, sem lýsir fullkomnum hroka og óvirðingu við bæði MDE og yfirnefndina.

Í mars 2019 þegar dómur MDE féll hafði íhaldsríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, formanns hinna svokölluðu Vinstri grænna tekið við með Sjálfstæðisflokkinn í broddi fylkingar þó ekki væri það með formlegum hætti. Í stað þess að sætta sig við niðurstöðuna ákvað þessi ríkisstjórn að bíta höfuðið af skömminni með því að áfrýja málinu til yfirnefndar MDE, sem staðfesti svo dóm MDE frá því í fyrra eins og áður sagði. Verður fróðlegt að sjá hvernig VG ætlar að klóra sig út úr þessu máli, sem mun verða þeim til ævarandi háðungar og skammar.

Landsréttarmálið afhjúpar djúpstæða og rótgróna spillingu í æðstu valdastöðum á Íslandi. Í frétt á RÚV 2017 (https://www.ruv.is/frett/domararnir-15-aettir-politik-og-vidskipti) segir m.a.: "Dómarar við nýjan Landsrétt hafa margir tengsl við íslenskt viðskiptalíf og stjórnmál. Lögregla gerði húsleit heima hjá einum þeirra eftir hrun. Sá sami er kvæntur stjórnarmanni í þremur stórfyrirtækjum. Einn dómari situr í stjórn fjármálafyrirtækis og stórrar heildsölu, á hlut í Klíníkinni í Ármúla og er kvæntur stjórnarformanni Klíníkurinnar, annar er giftur eiganda fjármálafyrirtækis og einn er giftur eiganda stórs verktakafyrirtækis." Er þessi frétt öll hin fróðlegasta lesning.

Þessari grein er ekki ætlað að vera sérstök úttekt á spillingu í valdakerfinu á Íslandi. Hins vegar verður að athuga hverjir bera ábyrgð á klúðrinu:

  1. Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra og núverandi þingmaður íhaldsins.
  2. Þáverandi ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar.
  3. Alþingi Íslendinga eins og það var skipað á vormánuðum 2017.
  4. Núverandi ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.
  5. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra með endurskipan þriggja af hinum fjórum ólöglegu dómurum við Landsrétt.
  6. Alþingi Íslendinga eins og það er skipað í dag, krefjist það ekki afsagnar eftirfarandi:

a) Allra þeirra sem sátu í ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar á vormánuðum 2017 og enn eiga sæti á alþingi. Sigríður Á. Andersen tilheyrir þessum hópi.

b) Allra þeirra alþingismanna, sem greiddu atkvæði með tillögu Sigríðar Á. Andersen 2017 og enn sitja á alþingi.

c) Allra þeirra annarra alþingismanna, sem ekki gerðu athugasemd við eða mótmæltu meðferð málsins 2017 og enn sitja á alþingi.

d) Allra þeirra sem sitja í núverandi ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Áslaug Arna tilheyrir þessum hópi.

e) Hinna þriggja dómara úr hópi þeirra fjögurra sem MDE dæmdi ólöglega og voru endurskipaðir við Landsrétt í haust.

PS Þegar þetta er skrifað birtist ný frétt á RÚV þar sem forsætis- og dómsmálaráðherra reyna að klóra í bakkann (https://www.ruv.is/frett/2020/12/01/nidurstada-mde-vonbrigdi-segir-aslaug-arna). Viðbrögðin eru eins og búast mátti við og ljóst að enginn mun þurfa að segja af sér vegna þessa máls.

Um yfirklór Sigríðar Á. Andersen (https://www.ruv.is/frett/2020/12/01/sigridur-segir-dominn-politiskt-at-og-skilaboda-dom) þarf ekki að hafa orð. Nema hvað formaður VG hlýtur að vera ánægð í svona fínum íhaldsfélagsskap.