Brýnast í Borginni
—
Ég heiti Þorvaldur Þorvaldsson. Ég er trésmiður, á þrjár fullorðnar dætur og tvö barnabörn, og býð mig fram til að leiða R-lista Alþýðufylkingarinnar í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík.
Það er þörf fyrir gagngera stefnubreytingu á flestum sviðum borgarmálanna. Markaðshyggjan hefur verið alls ráðandi á flestum sviðum. Borgin hefur mjög lítið framboð af leiguhúsnæði á sínum snærum, en fjárfestar ráða lögum og lofum og leigja út íbúðir á uppsprengdu verði. Á sama tíma hafa litlar skorður verið settar við útleigu íbúðarhúsnæðis til ferðamanna. Það íbúðarhúsnæði sem nú er í byggingu virðist ekki ætla að slá á þann húsnæðisvanda sem verið hefur landlægur undanfarin ár og ýtt undir margvísleg félagsleg vandamál. Með samstilltu átaki í framboði borgarinnar á ódýru leiguhúsnæði, störfum við allra hæfi, og velferðarþjónustu sem tekur mið af þörfum fólksins, er hægt að bæta lífskjör alþýðunnar í Reykjavík og auka jöfnuð.
Óánægja hefur farið vaxandi meðal kennara undanfarin ár vegna kjara og slæmra starfsaðstæðna og vaxandi álags. Þetta hefur leitt til þess að stór hluti menntaðra kennara hefur valið að starfa á öðrum sviðum. Á leikskólunum hefur það undanfarin ár leitt til tímabundinna lokana á deildum vegna manneklu. Við verðum að hlusta á kennara og vinna með þeim að brýnum umbótum í skólakerfinu til að tryggja bætta menntun og aukin lífsgæði.
Í samgöngumálum er brýnt að efla almenningssamgöngur og hvetja til aukinnar notkunar þeirra, til að létta álaginu af gatnakerfinu og auka loftgæði. Til þess er nauðsynlegt að auka tíðni vagna á flestum leiðum og tryggja öryggi í tímasetningum. Fljótvirk aðferð til að auka notkunina er að fella niður fargjöldin. Fyrir utan sparnað notendanna, flýtir það fyrir og sparar kostnað við innheimtu.
Í þessum anda er hægt að bæta lífið í Reyjavík á flestum sviðum, þegar tekist er á við vandamálin frá sjónarhóli almennings, en ekki út frá „þörfum“ fjármagnsins. Það mun Alþýðufylkingin gera með virkri þátttöku borgarbúa.
Þorvaldur Þorvaldsson, trésmiður
Oddviti R-lista Alþýðufylkingarinnar í Reykjavík