Brunnmígarnir í íslenskum fjölmiðlum og Stríðið gegn Sýrlandi

25. apríl, 2018 Jón Karl Stefánsson

Staða og styrkur tjáningarfrelsisins felst ekki einungis í þeim lögum og reglum sem gilda í þjóðfélagi, heldur felst það einnig í þeirri umræðuhefð sem myndast í því. Hér eru blaðamenn í lykilhlutverki, enda byggir stór hluti af samfélagslegum umræðum á þeim fréttum, greinum og ábendingum sem þeir láta frá sér. Hægt er að leggja dóm á það hversu vel menn standa sig í að viðhalda heilbrigðum viðhorfum til tjáningarfrelsisins í því sem þeir senda frá sér. Samtök á borð við „Fairness and Accuracy in Reporting“ í Bandaríkjunum eru til komin til að halda vörslu um heiðarlega umræðuhefð og sannleika í framsetningu upplýsinga. Hið sama gildir um fyrirbæri eins og Wikipedia, en í stefnumótun síðunnar hefur verið rætt ítarlega um hvað hugtakið „hlutlæg umfjöllun“ beri með sér. Meðal þess sem þar kemur fram er þetta:

„Ein algengasta tegund brota á reglunni um hlutlæga umfjöllun er að velja sérstaklega úr upplýsingar sem styðja ákveðið sjónarhorn en halda frá eða gera lítið úr upplýsingum sem kasta rýrð á það sjónarhorn. Með þessu er hægt að sýna algerlega misvísandi mynd af- eða leyna þeirri upplýsingaflóru sem tiltekið málefni hefur“ (úr umfjöllun Wikipedia um „information suppression“).

Í umfjöllun Wikipedia um upplýsingaþöggun er svo fjallað um ýmsar óheiðarlegar aðferðir í upplýsingaveitu, meðal þeirra eru:

„Að ritstýra á þeim forsendum að ákveðið sjónarhorn sé „rétt“ og því hafi önnur sjónarhorn ekkert efnislegt innihald, eða hafi ekkert til að verja sig með, og nota þetta sem ástæðu til að ræða þau lítið eða ekki:

Að alhæfa um sjónarhorn sem „sumir“ eða „flestir“ hafa eins og það sé sjónarhorn „allra“ (eða „allra trúverðugra“) heimildamanna, en gefa í skyn að enginn trúverðugur einstaklingur haldi fram gagnstæðu sjónarmiði.

Að hunsa gagnstætt sjónarhorn, vefengja eða ræða punkta í málflutningi á þeim forsendum að þeir sem haldi honum fram séu sagðir vera að misskilja.

Að leyfa ekki sjónarhorni einhvers að tala fyrir sjálft sig, eða að endurpakka „heimsmyndinni“ sem það sýnir frá sjónarhóli þess sem ræðir um hann.

Að halda eftir, hunsa eða eyða sjónarhornum, rannsóknum eða upplýsingum sem að öllu jöfnu standast allar kröfur Wikipedia. (Þetta er kannski gert á hentugleikagrunni, s.s. að heimildin sé „ekki nógu gild“).

Að leyna upplýsingum sem skipta máli eða segja rangt frá þeim (hlutdræg umfjöllun) um feril heimildamannsins og eru mikilvægar til að leggja dóm á upplýsingarnar.“

Brunnmígar

Hver staða heiðarleika og hlutlægrar umfjöllunar er í samfélaginu kemur best fram þegar ræða á málefni sem vekja miklar tilfinningar og þar sem ólík sjónarhorn ríkja. Slíkur prófsteinn kom upp fyrr á þessu ári þegar sjálfstætt starfandi blaðakona að nafni Vanessa Beeley hélt erindi í Safnahúsinu á Hverfisgötu um leið og bók ástralska stjórnmálahagfræðiprófessorsins Tims Andersons, Stríðið gegn Sýrlandi, kom út í íslenskri þýðingu. Í kjölfar þessa erindis, og reyndar líka áður en það fór fram, komu fram umfjallanir blaðamanna sem einkenndust af því sem kallað hefur verið rökvilla brunnmígsins, en hún felst í því að gera lítið úr málflutningi einhvers eða einhverra með því að draga úr trúverðugleika og sannfæringarmætti þess sem um ræðir. Með þessu er reynt að fá aðra til að hafna fyrir fram málflutningnum sjálfum.

Ótal aðferðir eru í vopnabúri brunnmígsins, en þær eiga allar það sameiginlegt að vera það sem á latínu útleggst sem Non sequitur, og þýðir „þetta fylgir ekki“. Í formlegri rökfræði er rökfærsla non sequitur ef niðurstaðan leiðir ekki röklega út frá forsendunni. Allar rökvillur eru ákveðin tegund Non sequitur. Annað vopn brunnmígsins er að forðast að ræða málefnið efnislega; röksemdafærslum eða upplýsingum er algerlega hafnað fyrirfram. Reynt er að koma í veg fyrir að áheyrendur spyrji sig spurninga eins og: Ef aðdróttanir brunnmígsins um tengsl, uppnefningar o.s.frv. eru teknar frá, hverjar eru staðreyndirnar og efnið sem um ræðir? Hið þriðja sem einkennir brunnmíga er það sem norski heimspekingurinn Hans Skjervheim hefur lýst sem hlutgervingu viðfangsins í stað samræðna við það. Ekki er beint rætt við þann sem á að skíta út, heldur er honum eða henni lýst úr fjarlægð.

Umfjöllun blaðamanna

Kjartan Hreinn Njálsson, blaðamaður hjá Fréttablaðinu, byrjaði skoðanagrein sína, „upplýsingastríð“ á því að lýsa fyrir lesendum hina „réttu“ útgáfu af sögunni um Sýrlandsstríðið. Við skulum skoða þá sögutúlkun síðar en einbeita okkur að þeim brunnmígsbrögðum sem koma fram í greininni, en hún heldur áfram með þessum orðum:

Það upplýsingastríð sem geisar um borgarastyrjöldina er svívirða af öðrum toga. Áróðursvél rússneskra og sýrlenskra yfirvalda hefur sáð fræjum efasemda um flestallt sem viðkemur átökunum og ýtt undir þær með hjálp samsæriskenningasmiða og nettrölla…

Augljósasta brunnmígsbragðið sem kemur hér fram eru stóryrtar uppnefningar, „samsæriskenningasmiðir“ og „nettröll“. Uppnefning er að gefa hugmynd slæmt orð og ætlast til að henni sé hafnað án þess að þau gögn sem standa henni að baki séu skoðuð. Einstaklingur eða hugmynd er þá tengdur við hugtak sem hefur neikvæða ímynd í hugum fólks. Ætlunin er að áheyrandinn hafni hugmyndinni sem greint er frá vegna hinni neikvæðu ímynd í stað þess að líta á þau rök og gögn sem hún færir fram. Fínlegri útgáfa er að nota orðasambönd sem hafa fengið á sig neikvæðan blæ með einhverjum hætti: samsæriskenningar, óábyrgur, róttæklingur o.fl. Lesandi sem er gagnrýninn á slíkan áróður ætti að spyrja sig eftirfarandi spurninga: Hvað merkir orðið, eru einhver rök borin fyrir því að orðið eigi við þann sem um ræðir, er verið að útiloka hugmynd með því að uppnefna þann sem segir hana og, hvað stendur eftir ef orðið er tekið burt?

Greinin heldur áfram:

Þeir sem bera út boðskap rússneskra yfirvalda hafa stuðlað að enn frekara aðgerðaleysi…. er það aðeins til þess fallið að gera illt verra að vilja „opna umræðuna“ með því að hefja hana á forsendum þeirra sem tala fyrir áframhaldandi mannvonsku og hörmungum….

Hér er aftur sett fram órökstudd samsæriskenning; að „boðskapurinn“ sé runnin undan rifjum rússneskra yfirvalda, auðvitað án nokkurra sannana. Hún er samt sett upp eins og engra sannana þurfi við. Þetta er lúmsk fortöluaðferð, tengingarbragðið, þar sem flytjendur skilaboða eru tengdir við eitthvað sem hefur sterka jákvæða eða sterka neikvæða merkingu í hugum almennings, í þessu tilfelli „Rússa“ og „Sýrlandsstjórnar“. Þessi neikvæðu tengsl eru yfirfærð á þann sem á að útmála svo að lesendur hafni fyrir fram skilaboðum hans.

Kjartan heldur áfram:

Það var raunin í Safnahúsinu á dögunum þegar áhrifamikill bloggari, Vanessa Beeley, sem telur SÞ ljúga um átökin í Sýrlandi, var fengin til að halda erindi á fundi sem bar yfirskriftina „Er verið að segja okkur satt um stríðið í Sýrlandi?“.

Hér er tilfærslubragðið notað í hina áttina með falskri vísun í kennivald, Sameinuðu þjóðirnar. Kjartan gefur í skyn að lesendur geti valið milli tveggja valmöguleika; að trúa Sameinuðu þjóðunum, eða „bloggaranum“ Vanessu Beeley. Aftur er innihaldið látið mæta afgangi.

Hann heldur svo áfram með eftirfarandi perlu:

Hálfri milljón mannslífa seinna, þegar forn og göfug þjóð mætir hörmungunum einangruð og einsömul, er þetta umræðan sem við erum hvött til að taka.

Í þessari stuttu málsgrein nær Kjartan að beita mörgum brögðum brunnmígsins. Gefið er í skyn að Kjartan og annað gott fólk viti það mikilvægasta um Sýrlandsstríðið. Þeir sem segja hið gagnstæða eru „nettröll“, „samsæriskenningasmiðir“ eða vitlaus fórnarlömb, „sýrlenskra og rússneskra áróðursvéla“. Þeir sem dirfast að gera slíkt eru enn fremur vont fólk sem „stuðlar að enn frekara aðgerðarleysi“ (án þess að taka fram hvaða aðgerðum hann mælir með). Hann botnar þetta með að þetta fólk sé að tala fyrir „áframhaldandi mannvonsku og hörmungum“. Persónuníð, tenging við slæm öfl (Rússar og sýrlensk stjórnvöld, sem áður var búið að taka fram að væru sjálf illskan holdi klædd), uppnefningar og hljómsveitalestin fá öll að njóta sín til fulls. Hann gerir enga tilraun til að færa rök fyrir máli sínu, ekki heldur illa dulbúnum ásökunum um vafasöm tengsl við illa aðila. Kjartan gengur meir að segja svo langt að gera sér mat út úr því að einhverjir vilji „opna umræðuna“; að það væri svívirða. Vanvirðing hans fyrir frjálsum upplýsinga- og skoðanaskiptum í lýðræðissamfélagi er algjör. Skilaboðin eru ljós: Ekki vefengja viðtekinn sannleik, ekki kynna ykkur málflutning þessa fólks; fordæmið bara og kastið á bálið.

Þema hans, upplýsingastríðið, kemur víðar fram. Hugmyndin er sú að þeir sem vilja vekja athygli á staðreyndum, sem stangast á við söguskoðunina sem við höfum séð svo oft, séu annað hvort útsendarar Rússlands og Sýrlands í áróðursstríði, eða óviljandi verkfæri þessara afla. Tilgangurinn sé að koma „óreiðu“ á umræðuna sem eyðileggi fyrir góðum aðgerðum og sannleika.

Egill Helgason skrifar þannig svipaða grein á bloggi sínu á vefmiðlinum Eyjunni, en hún ber heitið „Geðþekkur augnlæknir“ þar sem hann beitir rauðu síldinni svokölluðu og dregur fram það sem honum finnst veikur hlekkur í málflutningi Tims Andersons, höfund bókarinnar Stríðsins gegn Sýrlandi. Það er fróðlegt að fara í gegnum þessa grein.

Hann er margvíslegur lággróðurinn á alnetinu og margt gert til að villa um fyrir fólki og rugla umræðuna. Hér er til dæmis vefsvæði á Facebook sem nefnist Stríðið í Miðausturlöndum. Á þriðja þúsund manns fylgist með þessu og sumir gera það örugglega í góðri trú…

Þetta eru sömu aðilar og hafa beitt sér fyrir því að þýða bók sem nefnist Stríðið gegn Sýrlandi eftir ástralskan furðufugl, Tim Anderson að nafni, en hann gefur sig út fyrir að vera sérfræðing um stríðið í Sýrlandi. Anderson er samherji Vanessu Beeley sem kom hér á dögunum og hélt erindi á vegum Ögmundar Jónassonar. Þarna eru margir einstaklingar yst af vinstri væng stjórnmálanna.

Hér eru auðvitað ýmsar staðreyndavillur, eins og að vefsvæðið sem um ræðir sé undir stjórn sömu aðila og þýddu þessa bók, en það er annað mál. Ekkert er rætt um efnistök bókarinnar, en tengd umfjöllun dæmd sem „lággróður“. Höfund bókarinnar afgreiðir Egill einfaldlega með uppnefningunni „furðufugl“ sem „gefur sig út fyrir að vera sérfræðing“. Tim Anderson er í raun prófessor í stjórnmálahagfræði við háskólann í Sydney í Ástralíu og á hann yfir 60 ritrýnda titla. Hann einbeitir sér að sjálfsákvörðunarrétti þjóða í fátækari hlutum heimsins, sér í lagi þjóða sem eiga undir högg að sækja, s.s. frumbyggjar í Ástralíu, Asíu og Suður-Ameríku, en einnig þjóðríkja víða um heim. Bók hans um Sýrland hefur einmitt sem meginþema spurninguna um alþjóðalög í samhengi við Sýrland, en á bakvið bókina liggur mjög ítarleg heimildavinna. Þetta er nákvæm bók fræðimanns sem þeir, sem hafa áhuga á að auka við þekkingu sína um Sýrlandsstríðið, ættu að taka fagnandi. En Egill tekur í sama streng og fyrrnefndur Kjartan og afgreiðir þetta með réttnefndri samsæriskenningu: Þetta er allt saman úthugsað áróðursbragð Rússa um að koma „óreiðu á umræðuna“. Menn ættu að forðast þessa bók, ellegar lenda í liði rugludalla „yst af vinstri vængnum“, en detta úr skrúðgöngulest ábyrgra manna. Rökvillan um skrúðgöngulestina kemur fljótlega aftur fram.

Hann vísar svo í kennivald sitt, Ólöfu Ragnarsdóttur sem hefur kennt arabísku og sögu Sýrlands við Háskóla Sýrlands. Hún segir að „enginn fræðimaður“ taki mark á honum, né heldur Vanessu Beeley. „Enginn veit hver hann er“.

Hér beita Egill og Ólöf þekktri rökvillu. Rökvillan argumentum ad populum, eða höfðað til fólksins, felst í því að ákvarða að tillaga sé sönn vegna þess að margt eða allt fólk telur að svo sé; gert er ráð fyrir því að „ef margir trúa því að svo sé, er það svo.” Þessi villa kemur einnig fram í siðfræði, þegar gert er ráð fyrir því að finnist mörgum eitthvað ásættanlegt sé það ásættanlegt. Í áróðri hefur þessi rökvilla verið notuð í skrúðgöngulestartækninni.

Skrúðgöngulestin er tilraun til að sannfæra hóp um að gera eitthvað „sem allir eru að gera“. Þessi tækni er notuð til að sannfæra hóp um að einhver stefna sé sprottin úr óstöðvandi fjöldahreyfingu og að það sé í þeirra þágu að ganga til liðs við hana. Áhersla er gjarnan lögð á að höfða til þjóðerniskenndar eða bæjarstolts, trúarbragða eða starfsgreinar og svo fram eftir götunum. Skrúðgöngulestin býður þeim sem eru ekki þegar í henni að ganga til liðs við þá sem þegar eru á leið til öruggs sigurs. Þeir sem eru að fullu eða að hluta til í lestinni fá um leið staðfestingu á því að það að halda sér um borð sé rétta leiðin. Orðfæri sem einkennist af þessari tegund biðlunar er t.d. „flestir eru sammála um að…“.

Rökvillu Ólafar og Egils má útskýra með dæmi. Enginn veit hver Ólöf Ragnarsdóttir er. Það breytir engu um verk hennar. Það breytir engu um að rannsóknarvinna sem Ólöf Ragnarsdóttir er aðskilin henni og sú vinna getur verið mjög gagnleg. Ef afgreiða ætti alla vinnu út frá því hversu þekktur einstaklingurinn er stæðum við eftir með ákaflega rýr bókasöfn. Það er reyndar ógnvekjandi að kennari við Háskóla Íslands skuli fullyrða nokkuð svo heimskulegt sem „enginn veit hver Tim Anderson er“. Hún meinar varla enginn manneskja í heiminum, enda er Tim nokkuð þekktur í háskólanum sem hann vinnur í, margir hafa lesið verk hans og hann hefur skilað af sér nokkuð ríflegu lífsverki. Hún á væntanlega við fólk sem hún hefur talað við og við höfum ekki aðgang að því hverjir eru í mengjunum „allir“ og „enginn“ hjá henni. Hún getur heldur ekki bæði haldið fram setningunum „enginn fræðimaður tekur mark á honum“ og „enginn veit hver hann er“, enda þarf maður að vita af einstaklingi til að meta hvort maður taki mark á honum. Sem kennivald er Ólöf Ragnarsdóttir kannski ekki heppilegur kostur fyrir Egil. Hér voru sum sé vísun í kennivald rökvillan, tengslarökvillan, uppnefning og skrúðgöngulestin öll samankomin. Það er ekki fræðimanni sæmandi.

Egill mígur í brunninn um þessa bók og uppnefnir höfund hennar, gefur í skyn að þýðendur hennar séu að taka þátt í áróðursherferð sem skipulögð er í Rússlandi og Sýrlandi. Fyrir þessu leggur hann auðvitað engar sannanir. En hann þarf þess kannski ekki. Hann veit að hlutverk hans er að finna leiðarstyttingar fyrir lesendur sína í heimi stjórnmálanna. Því valdi misbeitir hann að vild.

Beinir andstæðingar upplýstrar umræðu

Fleiri blaðamenn kusu að vega að Vanessu, Tim Anderson og ýmsum sem komu að því að koma málaflutningi þeirra til skila á svipaðan hátt. Þessir sömu blaðamenn ákváðu hins vegar að hafa ekki samband við þessa aðila beint, heldur hlutgerðu þessa aðila og vógu að þeim úr fjarlægð með uppnefningum, aðdróttunum og öðrum brunnmígsaðferðum. Þetta var þrátt fyrir að Vanessa hafi verið á landinu í heila viku og bauð öllum sem vildu að ræða við sig. Undantekningin á þessu var Ögmundur Jónasson, en fyrirlestur Beeleys var hluti af langri fyrirlestrarröð sem hann stendur fyrir. Í stað þess að hrósa Ögmundi fyrir að gefa almenningi kost á að kynna sér þessi mál, eins og hann hefur gert um önnur (síðasti fyrirlestur í röðinni fjallaði um réttindabaráttu Kúrda, þar áður um baráttu Grikkja gegn efnahagsþvingunum og svo mætti lengi telja) var hann kallaður „miðaldra karl með Rússablæti“ og gagnrýndur fyrir að „leyfa“ þessari konu að tala.

Ekki er ósennilegt að áróðursmönnunum hafi tekist ætlunarverk sitt. Almenningur á tæplega eftir að lesa bók „furðufugls“ sem „sérfræðingar“ hafa hafnað. Að minnsta kosti eiga fáir eftir að þora því að kaupa hana og hvað þá láta aðra vita af þeirri fífldirfsku. Þeir væru þar með að koma sér í óvinsælan hóp afneitara, Bashar Assad-talsmanna og Pútínelskara. Bókin hefur verið afgreidd, kæfð í fæðingu. Efni hennar verður ekki rætt.

En þessi niðurstaða var enginn sigur fyrir upplýsta umræðu. Viðbrögð þessara blaðamanna og álitsgjafa á því að upplýsingar voru færðar á framfæri um mikilvægt mál eru vanvirðing við heiðarlega blaðamennsku, hugsjónina um að hafa beri það sem réttast er og um leið tjáningar- og fundarfrelsi. Þau eru til marks um að langt er í land þar til umræðuhefð á Íslandi kemst á það stig að geta talist þroskuð og uppbyggjandi.

Það að blaðamenn leyfi sér að beita svo óheiðarlegum brögðum ætti ekki að líðast. Neytendur fjölmiðla ættu ætíð að vera á varðbergi gagnvart blaðamönnum og álitsgjöfum sem beita rökvillum og óheiðarlegum brögðum til að forðast efnislega umræðu. Aðferðir brunnmíganna eru vopn ritskoðara og áróðursmanna og óskandi væri ef þær ættu sér engan samastað í blaðamennsku nokkurs ríkis. Sem betur fer er víða í heiminum nokkuð sterk hefð fyrir samskiptareglum í opinberri umræðu og brunnmígar eru oftast fljótir að verða fyrir gagnrýni. Svo ætti líka að vera á Íslandi.

Opin, heiðarleg og málefnaleg umræða er nauðsynleg til að tryggja raunverulegan framgang tjáningarfrelsisins, eins hornsteina lýðræðisins. Þetta á sérstaklega við um alvarleg málefni sem eru þess eðlis að geta valdið ágreiningi. Þroskað lýðræðissamfélag er í stakk búið til að halda uppi umræðum um jafnvel mestu hitamál og mælikvarði á styrk tjáningarfrelsisins er ekki einungis þau lög og reglur sem gilda um það, heldur einnig hvernig leikmenn í samfélaginu takast á við ágreining. Hér skiptir viðhorf leikmanna miklu máli. Viðhorf sem hlýtur að teljast vinsamlegt tjáningarfrelsinu er hið fornkveðna, að hafa skuli það sem sannara reynist og að til að komast að því sé nauðsynlegt að skoða þau gögn sem til eru um málefni á heiðarlegan hátt og meta sannleiksgildi þeirra.