Bráðum verður bylting: kvikmyndagagnrýni
—
Nú er sýnd í Bíó Paradís heimildamyndin Bráðum verður bylting, sem fjallar um róttæknibylgju, sem barst til Íslands kringum 1970. Miðpunktur myndarinnar er frásögn af því þegar íslenskir námsmenn í Svíþjóð tóku sendiráð Íslands í Stokkhólmi, ráku starfsfólkið út, drógu rauðan fána að hún á sendiráðsbyggingunni og lásu fjölmiðlum yfirlýsingu, þar sem jöfnum höndum var gagnrýndur aðbúnaður íslenskra námsmanna erlendis og farið fram á úrbætur, en einnig lýst yfir nauðsyn sósíalískrar byltingar.
Í kjölfarið urðu nokkrar umbætur á kjörum námsmanna, enda höfðu þeir farið mjög illa út úr ítrekuðum gengisfellingum, sem átu upp námslánin með húð og hári. En þó er líklegt að hinn hluti yfirlýsingarinnar, um nauðsyn byltingar og sósíalisma, hafi haft meiri áhrif, því í kjölfarið voru stofnuð kommúnistasamtök á Íslandi (kannski fleiri en góðu hófi gegnir), sem entust í aðalatriðum út 8. áratuginn.
Myndin gerir sendiráðstökunni góð skil með ágætum myndskeiðum, að mestu frá sænska sjónvarpinu, en einnig viðtölum við 6 af þeim 11, sem fóru inn í sendiráðið. Með viðtölunum er skotið inn gömlum myndum af þeim og fjölmargar góðar ljósmyndir skreyta myndina. Auk þess eru viðtöl og myndir birtar af nokkrum öðrum, sem komu við sögu, þar á meðal í Osló og Kaupmannahöfn. Upphaflega voru áformaðar aðgerðir samtímis í sendiráðum þessara þriggja borga, þá líklega hófsamari bæði í framkvæmd og kröfum, en svo virðist sem námsmönnum í Gautaborg og Uppsala hafi þótt hætta á að það myndi leysast upp í eitthvert miðjumoð.
En sendiráðstakan kom ekki upp úr þurru. Í myndinni er fjallað um áhrifaþætti vaxandi róttækni á þessum tíma. Þar ber Víetnamstríðið einna hæst. Einnig stúdentauppreisnir í París og Berín 1968. Mikil þreyta var orðin á langvarandi pólitískri stöðnun kalda stríðsins. Ný kommúnistahreyfing var komin fram á sjónarsviðið á Norðurlöndum, sem ekki fylgdi Moskvu að málum. Talsverður hópur íslenskra námsmanna tengdist þessari hreyfingu og sendiráðstakan markaðist verulega af því.
Í myndinni er gerð nokkuð góð grein fyrir uppbygingu kommúnistasamtaka á Íslandi, auk fleiri hreyfinga, svosem Rauðsokkahreyfingarinnar. Þá var almennt fjallað um áhrifin á andrúmsloftið í samfélaginu, með myndskeiðum, ljósmyndum og viðtölum. Þar á meðal eru nokkur gömul viðtöl um afstöðu fólks á götunni til sendiráðstökunnar. Sum ansi skemmtileg.
Í heildina er myndin afar góð heimild um þessa atburði og tíðarandann, vel uppbyggð og heldur vel athygli. Það eina sem ég tel misheppnað, er í lokin þar sem skeytt er inn viðtölum við tvo pírata. Það hefur líklega átt að tengja á einhvern hátt við nútímann. En píratarnir koma eins og skrattinn úr sauðarleggnum, með allt önnur sjónarmið en yfirlísing sendiráðstökunnar um náusyn byltingar og sósíalisma. Ef á annað borð er ástæða til að tengja við nútímann, hefði verið mun áhugaverðara að tengja við það í nútímanum, sem rímar við yfirlýsinguna frá sendiráðstökunni.
Þetta er þó minni háttar mál og kemur lítt niður á megingildi myndarinnar. Ég hvet alla sem vettlingi geta valdið til að sjá myndina Bráðum verður bylting í Regnboganum, meðan tækifæri gefst.