Baráttan við braskaraauðvaldið
—
Nú liggja fyrir frumvarpsdrög frá atvinnuvegaráðuneytinu um innflutning á hráu kjöti. Enn einu sinni opinberast hvernig hagsmunir hins hnattvædda braskaraauðvalds eru teknir fram yfir hagsmuni alþýðunnar. Nú hefur vesalingurinn sem settur var í atvinnuvegaráðuneytið lyppast niður fyrir hótunum braskaranna. Engu er skeytt um matvælaöryggi, sjúkdómavarnir eða náttúruvernd því hinn ,,heilagi réttur‘‘ braskaranna skal öllum landslögum æðri. Svona hefur þetta gengið undanfarna áratugi að þótt haldnar hafi verið ráðstefnur og gerðir sáttmálar er varða náttúruvernd (m.a. loftslagssáttmálar) og afkomu alþýðunnar, þá hafa hagsmunir auðhringanna ætíð ráðið ferðinni þegar til framkvæmda kom og gert öll áform og skuldbindingar að engu. Það er löngu tímabært að brjótast undan oki þessa braskaravalds og rifta þessum nauðungar samningum.
Sama er uppi á teningnum varðandi kjarasamninga. Auðræðisöflin með seðlabankastjórann í broddi fylkingar byrja að hóta verkalýðnum áður en kjarasamningar renna út og minna fólk á hverjir hafi nú vald til að hirða árangur kjarabaráttunnar með einu pennastriki. Hótað er með vaxtaokri, verðbólgu og atvinnuleysi. Dreginn fram hver hagfræðingurinn á fætur öðrum sem lýsa því fjálglega hversu stóhættulegar kjarakröfur verkalýðsins séu. Ekki megi raska stöðugleika arðránsins þar sem fjámagnseigendur raka til sín milljörðum og tugum milljarða á hverju ári. Fjölmiðlar éta svo upp lygar og útúrsnúnínga fjármálaráðherra og fulltrúa auðvaldsins athugasemdalítið.
Lengi hefur viðgengizt stórfellt arðrán gegnum hið eftirlitslausa falsbréfakerfi fjármálaauðvaldsins sem var innleitt hér samfara frjálshyggjunni. Lægstu stéttir voru sviftar eigum sínum með vaxaokri, ólöglegri lánastarfsemi og bolabrögðum auðvaldsklíkunnar. Þúsundir manna sviftir heimilum sínum svo nú eru u.þ.b. 40% framteljenda sem ekkert eiga. Það er því glapræði að skrifa undir kjarasamninga án þess að sett séu ströng ákvæði gegn vaxtaokri og lögleitt verði hámark á húsaleigu. Ekkert dugar annað en samtakamáttur verkalýðsins gegn vaxtaokursmaníu Seðlabankans sem ekki á sér hliðstæðu á byggðu bóli. Auðstéttin hefur með skattlitlu og földu falsbréfabraskinu sölsað undir sig 90% allra eigna í landinu meðan samgöngukerfi og heilbrigðiskerfi hafa verið svelt svo stórslys hafa hlotist af á hverju ári.
Staðan er að líkjast því sem viðgekkst hér fyrr á öldum með leiguliðaánauð og vistabandi. Á síðast fjórðungi 19. aldar flýði fólk til Ameríku undan jarðaleigu okri en nú flýr fólk til Spánar undan húsaleiguokri. Hið nýja vistaband birtist í boði íslenzkra stjórnvalda í formi 30 þrælasölufyrirtækja sem vista fólk frá
öðrum löndum í herbergiskytrum og daunillum kjallaraholum, stela af því launum og réttindum og ef það slasast er það rekið bótalaust úr landi á framfæri ættinga sinna. Fulltrúar auðræðisins í Borgarstjórn Reykjavíkur fara nú hamförum því ef til vill hefur einhverjum úr hinni nýju vinnuhjúastétt orðið á sá geigvænlegi glæpur að greiða atkvæði í síðustu kosningum. Auðvaldið mun reyna af fremsta megni að fela þessa nýju vinnuhjúastétt sína í örbirgð í kompum og kjöllurum og halda henni óupplýstri um réttindi sín.
– G.Beck