Baráttan um verkó—Tímabær átök um grundvallarstefnu
—
Baráttan um verkalýðshreyfinguna snýst um það hver fær að sitja í bílstjórasætinu: Sérfræðingaveldið á skrifstofum stéttarfélaga þar sem menntaða millistéttin hefur komið sér fyrir eða forystufólk verka- og láglaunafólks sem stýrir stærstu stéttarfélögum landsins og vill byggja upp baráttusinnaða verkalýðshreyfingu.
Þingi ASÍ var frestað fram á næsta ár eftir að meirihluti fundarmanna gekk á dyr, þar á meðal nær allir fulltrúar og formenn tveggja stærstu verkalýðsfélaga landsins. Ragnar Þór Ingólfsson hefur sagt í viðtölum við fjölmiðla að tilraun hans og félaga hans í VR og Eflingu til að sameina ASÍ fyrir komandi kjaraviðræður hafi ekki borið tilætlaðan árangur. Kornið sem fyllti mælinn hafi verið tilraun hóps fundarmanna undir forystu ritara Eflingar, Ólafar Helgu Adólfsdóttur, til að reka af þinginu fulltrúa Eflingar auk ásakana Halldóru Sveinsdóttur, formanns Bárunnar, um meint ofbeldi Ragnars Þórs og ofbeldismenningar sem hann og Sólveig eigi að hafa innleitt á vettvangi hreyfingarinnar.
Átökin innan verkalýðshreyfingarinnar snúast hins vegar um annað og meira en persónulegar deilur. Um er að ræða stéttaátök og málefnalegan ágreining þar sem fléttast saman átök milli þeirra flokka sem hafa undanfarna áratugi farið með völdin innan ASÍ annars vegar og hins vegar nýrrar forystu sem komið hefur fram á sjónarsviðið á síðustu árum. Leiðtogar þeirrar forystu eru Ragnar Þór og Sólveig Anna auk Vilhjálms Birgissonar hjá Verkalýðsfélagi Akraness sem lengi vel var jaðarsettur á vettvangi sambandsins þar til honum barst liðsstyrkur.
Ekki komist lengra í bili
Í viðtölum við fjölmiðla hefur Sólveig Anna skýrt hvað hafi sannfært hana um að ekki væri þess virði að halda áfram baráttunni innan ASÍ. Einbeittur vilji íhaldsaflanna innan ASÍ til að hleypa upp þinginu hafi sýnt hvað koma skyldi ef ný forysta yrði kjörin í ASÍ. Þessi framkoma hafi sannfært hana og Ragnar um að andstæðingurinn myndi ekki linna látum og að of mikil orka myndi fara í átökin á sama tíma og mikilvægir kjarasamningar eru framundan.
Þessa greiningu hafa fleiri tekið undir líkt og Sigurður Péturssonar sagnfræðingur gerði í Morgunútvarpinu á RÚV og í viðtali á Samstöðinni með Guðmundi Ævari Oddssyni félagsfræðingi. Ragnar og Sólveig hafi kosið að einbeita sér að eigin félögum, sem þurfi ekki að þýða minni slagkraft fyrir baráttuna fram undan enda séu það verkalýðsfélögin sjálf sem hafi samningsumboðið. ASÍ hafi í raun lítil völd og sé aðeins regnhlífarsamtök. Það var líka raunin í Lífskjarasamningunum en þá voru það VR og Efling, ásamt nokkrum smærri félögum, sem leiddu samningana og því er ekkert sem kemur í veg fyrir að svo verði aftur að þessu sinni.
Raunverulegur ágreiningur
Það vakti athygli eftir átökin á þinginu hvernig reynt hefur verið að persónugera ágreininginn og afneita því að hann sé málefnalegur eða hugmyndafræðilegur. Því er haldið fram að Ragnar Þór og Sólveig ásælist aðeins völd, valdanna vegna. Í fréttum RÚV eftir þingið var rætt við fyrrverandi framkvæmdastjóra ASÍ, Höllu Gunnarsdóttur, en þar mátti heyra þetta viðhorf. Halla sagðist ekki kannast við neinn málefnalegan ágreining. Þetta er mjög í takt við skoðanir Drífu Snædal sem sagði í viðtali við Mannlíf eftir afsögn sína að málefnalegur ágreiningur lægi ekki ljós fyrir.
Sólveig Anna hefur hins vegar lýst nokkuð ítarlega ýmsum málefnalegum ágreiningi og rakti hún hann meðal annars í greinaflokki á Kjarnanum frá í sumar. Sólveig Anna hefur nefnt vilja Drífu Snædal til að semja við ríkisstjórnina og SA um að hafa af verkafólki umsamdar launahækkanir í kórónaveirukreppunni, „hvítþvottaryfirlýsingu” í tengslum við vinnudeilu Icelandair árið 2020, glatað tækifæri til að koma á viðurlögum gegn launaþjófnaði, og síðast en ekki síst svokallaða Grænbók sem Sólveig og fleiri verkalýðsleiðtogar segja tilraun að endurvekja SALEK samkomulagið. Af þessu má sjá að hér er um skýran ágreining að ræða þegar kemur að afstöðu til stórra og smárra mála sem hefur verið á dagskrá innan verkalýðshreyfingarinnar.
Undir niðri liggur hins vegar líka mun djúpstæðari ágreiningur sem rekja má langt aftur á síðustu öld. Hugmyndafræðileg barátta sem snýst um hvort barátta verkalýðsfélaga sé háð á grunni stéttabaráttu eða stéttasamvinnu, og hvort að notast sé við félagslegan mátt félagsmanna í verkalýðsfélögum — sér í lagi verkfallsaðgerðir — eða hvort að eingöngu sé teflt fram skýrslum og útreikningum sérfræðinga. Sólveig Anna hefur gagnrýnt hugmyndafræðina sem ASÍ tók upp á nýfrjálshyggjutímanum. Hún hefur bent á að lítið hafi breyst í baráttuaðferðum sambandsins þrátt fyrir nýjar áherslur hennar og Ragnars Þórs. Áherslur þeirra hafi einfaldlega ekki fengið að njóta sín innan sambandsins og hugmyndir þeirra og sigrar á síðustu árum hafi verið hunsaðir þrátt fyrir að þau leiði tvö stærstu stéttarfélög landsins.
SALEK
Fyrrverandi forysta ASÍ undir stjórn Gylfa Arnbjörnssonar hóf SALEK verkefnið í samstarfi við BSRB, KÍ, BHM, SA, ríkið og sveitarfélög og átti það að verða leiðarvísir að nýju vinnumarkaðsmódeli fyrir Ísland. Módelið tekur mið af sambærilegu fyrirkomulagi á Norðurlöndunum en gagnrýnendur hafa bent á að til að hægt sé að taka upp slíkt fyrirkomulag verði fyrst að innleiða aukinn jöfnuð á Íslandi og velferðarkerfi sem sé sambærilegt, ef það sé þá yfir höfuð ásættanlegt að takmarka samningsumboð og verkfallsrétt stéttarfélaga með þeim hætti sem verkefnið gerir ráð fyrir.
Í dag er það samdóma álit andstæðinga SALEK að stjórnvöld með aðkomu ASÍ og undir stjórn Drífu Snædal hafi haldið áfram vinnu við að koma þessu verkefni á koppinn, en nú undir nafni svokallaðar Grænbókar. Svo virðist sem að ef ekki hefði verið fyrir andstöðu Eflingar hefði verkefninu verið ýtt áfram af fullum krafti. Kannski er þetta skýrasti ágreiningurinn á milli stríðandi fylkinga.
Hugmyndin um SALEK er mjög í takt við Þjóðarsáttarsamningana sem undirritaðir voru árið 1990. Rökin eru þau að ef laun hækka of mikið skapi það óstöðugleika og verðbólgu sem leiði til þess að allir tapi. Líka launafólk. Svarið við þessu sé að skilyrða kjaraviðræður þannig að laun geti ekki hækkað umfram vöxt hagkerfisins, og að bili milli launa verkafólks og hinna hærra launuðu sé ekki breytt. Ákvörðun um launahækkanir verður sett í nefnd skipuð sérfræðingum eða í "nefnd sem skipuð væri aðilum vinnumarkaðarins, fulltrúum stjórnvalda og óháðum sérfræðingum" eins og segir í skýrslu Steinars Holden frá árinu 2015. Til að undirstrika markmið verkefnisins segir í skýrslunni að hóflegar launahækkanir séu "almannagæði sem koma öllum vel".
Þessi hugmynd um meint skaðleg áhrif launahækkana er mjög í takt við orðræðu hægrisins og atvinnurekenda sem vilja beina athyglinni frá eigin ábyrgð á óstöðugleika hagkerfisins og orsökum verðbólgu. Samkvæmt þessum hugmyndum er það fyrst og fremst verkafólk sem þarf að bera ábyrgðina á stöðugleikanum en ekki atvinnurekendur sem hafa eftir faraldurinn greitt sér út met hagnað. Hvergi er minnst á efnahagshrunið 2008 í rökstuðningnum fyrir SALEK, og ætíð talað eins og efnahagslegur óstöðugleiki sé undantekningalaust launafólki að kenna. SALEK samkomulagið mun auðvitað ekki setja neinar hömlur á fjármálabrask, arðgreiðslur eða verðhækkanir fyrirtækja sem munu eftir sem áður hafa fullt frelsi til að haga sínum málum án inngripa ríkisins.
Vilhjálmur Birgisson hefur verið duglegur að gagnrýna þessar hugmyndir og hefur oftar en ekki vísað í skýrslu Steinars Holdstein máli sínu til stuðnings. Hann hefur bent á að í skýrslunni komi fram að breytingarnar muni leiða til aukins hagnaðar atvinnurekenda en að sama skapi verði verkafólk að treysta því að það muni koma öllum til góðs í formi fleiri starfa og fjárfestinga:
„Þar sem hóflegar launahækkanir leiða til aukins hagnaðar fyrirtækjanna er mikilvægt að meðlimir stéttarfélaganna sjái þær hafa jákvæð áhrif á fjárfestingar og atvinnustig en hafi ekki eingöngu í för með sér hærri arðgreiðslur eða launahækkanir æðstu stjórnenda.“
Verkafólk þarf því að binda vonir sínar við að aukinn hagnaður fyrirtækja muni á endanum falla niður af borðum atvinnurekenda í formi hærra atvinnustigs og "fjárfestinga". Tengsl launahækkana og verðbólgu eru hins vegar umdeild svo vægt sé til orða tekið. Hagfræðingurinn Ásgeir Daníelsson, fyrrverandi forstöðumaður á hagfræði- og peningastefnusviði Seðlabanka Íslands, upplýsti nýlega í kynningu innan bankans að engin merki finnist síðustu áratugi sem bendi til þess að launahækkanir hafi leitt til hærra verðlags.
Millistéttarvæðing baráttunnar
Frá lokum seinna stríðs hefur hin menntaða millistétt stækkað mikið og náð miklum áhrifum í stjórnmálum. Hún hefur einnig tekið yfir stjórn margra stofnana samfélagsins, ekki síst stéttarfélaga. Þessi millistéttarvæðing samfélagsins hefur leitt til þess að láglaunafólk og verkafólk hefur orðið jaðarsett. Þessi þróun á ekki síður við um stjórnmálaflokka eins og Samfylkinguna sem hafa þróast í þessa átt og að mörgu leyti misst tengsl við verkafólk.
Sérfræðinga- og stjórnendastéttin (Professional-managerial class) er hugtak sem sett var fram af Barböru og John Ehrenreich í ritgerð árið 1977 og er tilraun til að skilgreina með nákvæmari hætti þennan stækkandi hóp innan millistéttarinnar. Markmiðið var að varpa ljósi á ólíka hagsmuni verkafólks annars vegar og hins vegar þess hóps millistéttarfólks sem byggir stöðu sína á vinnumarkaði á því að búa yfir formlegra viðurkenndri fagmenntun og sækist í krafti þess í stjórnendastörf. Fólk í þessari stétt vinnur ekki erfiðisvinnu með líkamanum og býr ekki við lág laun heldur kemur sér í efri lög skrifstofu- og stjórnsýslustarfa í krafti langskólamenntunar. Þetta er stéttin sem situr á milli verkafólks og eignastéttarinnar fyrir ofan, fámenns hóps kapítalista sem eiga fyrirtækin. Markmið Ehrenreich hjónanna var líka að greina hvað stéttirnar eigi sameiginlegt.
Ef við skoðum átökin innan Eflingar hafa þau að stóru leyti birst sem átök á milli skrifstofunnar annars vegar, bæði innan félagsins sjálfs og ASÍ, og hins vegar félagsmanna. Efling er annað stærsta stéttarfélag landsins og meirihluti félagsfólks eru láglaunafólk. Félagsmenn Eflingar hafa nú kosið Baráttulistann og leitt Sólveigu Önnu til formanns í annað sinn þrátt fyrir harða andstöðu. Það var ljóst strax frá upphafi að starfsfólk skrifstofunnar myndi ekki aðstoða Sólveigu Önnu við að taka við stjórninni heldur þvert á móti. Fyrrum skrifstofustjóri, fjármálstjóri og fleiri starfsmenn Eflingar hófu strax árið 2018 mikinn hernað gegn Sólveigu og nutu stuðnings fyrrum lögfræðings ASÍ, Láru V. Júlíusdóttur, auk þess að fá ásakanir sínar birtar í Morgunblaðinu og í fréttatímum Stöðvar 2. Í kjölfar þingsins mátti líka heyra svipaða orðræðu í fjölmiðlum um hvað myndi gerast ef að Sólveig og Ragnar næðu yfirráðum yfir skrifstofu ASÍ. Andstæðingar Sólveigar og Ragnars voru byrjaðir að undirbúa jarðveginn. Morgunblaðið skrifaði frétt þar sem kom fram að margir starfsmenn skrifstofunnar myndu hætta ef Ragnar Þór yrði formaður.
Í fyrstu grein Sólveigar Önnu um átökin sem birtist í Kjarnanum nýlega fjallar hún um forystu Eflingar áður en hún tók við. Þar kemur fram að formenn Eflingar höfðu ávallt komið innan úr sömu pólitísku hópum og forystufólk ASÍ: "það er að segja gömlu íslensku vinstriflokkunum tveimur: Alþýðubandandalaginu og Alþýðuflokknum og síðar arftökum þeirra Vinstri grænum og Samfylkingunni".
Það er þess vegna vel við hæfi að opinberlega hafi andstaðan við framboð Ragnars Þórs og Sólveigar Önnu meðal annars komið frá Verkalýðsmálaráði Samfylkingarinnar. Flokki sem mætti lýsa sem stjórnmálaflokki menntuðu millistéttarinnar. Það vakti óneitanlega athygli í mars síðastliðnum þegar tilkynnt var um nýja stjórn ráðsins að þar mátti sjá nöfn þeirra Halldóru Sveinsdóttur í Bárunni og Agnieszka Ewa Ziolkowska varaformans Eflingar.
Ekki ríkti fullkomin sátt um málið innan flokksins því Birgir Dýrfjörð sem átti sæti í flokksstjórn skrifaði við tilefnið grein á Vísir.is þar sem hann gagnrýndi kosninguna harðlega og fullyrti að hún stæðist ekki lög flokksins. Birgir velti einning upp hvers vegna ákvörðunnin hafi verið tekin því meðal þeirra sem nú ættu sæti í ráðinu væru einstaklingar sem „vegið hafa með þeim hætti að mannorði forystufólks Eflingar, að það getur aldrei orðið sá tengiliður milli Samfylkingar og samtaka launafólks, sem verklýðsmálaráð var og er stofnað til að vera“.
Stuðningsfólk Samfylkingarinnar hafa hins vegar keppst við að afneita því á samfélagsmiðlum að flokkurinn hafi tekið afstöðu í málinu, þrátt fyrir að verkalýðsráðið hafi verið kosið af framkvæmdastjórn flokksins. Þegar þessi grein er skrifuð berast fréttir af því að Ólöf Helga Adólfsdóttir hafi verið kjörin í ráðið á landsfundi flokksins sem nú stendur yfir. Samkvæmt frétt Samstöðvarinnar er ný stjórn Verkalýðsráðsins nú skipuð fjórum af fimm stjórnarmönnum sem hafa stillt sér upp gegn róttækari armi verkalýðshreyfingarinnar og „þeim hluta sem í reynd leiðir stærsta hluta hennar“ eins og segir í fréttinni.
Endurreisn baráttunnar
Ein af þeim hugmyndum sem róttæki armurinn hefur lagt áherslu á er mikilvægi þess að endurreisa baráttusinnaða verkalýðshreyfingu sem hafnar samvinnu við atvinnurekendur og þeirri hugmynd að hreyfingin verði að eiga sæti við borð valdastéttarinnar. Þessi samvinnu-hugmyndafræði gengur út að beita aldrei félagslegu afli heldur að verkalýðshreyfingin eigi að takmarka sig við það eitt að "vera við borðið" þar sem valdastéttin tekur sínar ákvarðanir – sama hversu illilega þær ákvarðanir munu skaða verkafólk. Sólveig Anna hefur nefnt þessa hugmynd um „sæti við borðið” sem eina af grundvallar hugmyndum fráfarandi forystu ASÍ.
Róttæki armurinn vill harðari baráttu sem byggir á stéttabaráttu þar sem verkafólk sækir aukin réttindi og kjör með félagslegum mætti, skipulagðri baráttu og verkföllum en ekki með samvinnu við Samtök Atvinnulífsins og ríkisstjórnina. Það sem margir átta sig ekki á er áratuga löng stöðnun verkalýðshreyfingarinnar hefur leitt af sér máttlausa hreyfingu, miklu máttlausari en tölur um háa stéttarfélagsaðild Íslendinga gefa til kynna. Sú aðferðafræði sem áratugum saman hefur tíðkast innan ASÍ á rætur að rekja til skrifræðis- og stofnanavæðingar stéttarfélaga. Aðferðafræði sem er í raun bein höfnun á stéttabaráttu og yfirlýsing um sátt við núverandi tekju- og lífsgæðaskiptingu eins og einmitt SALEK samkomulagið gerir ráð fyrir.
Slík stéttabarátta telur launafólk, fyrirtæki og atvinnurekendur eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta í stað þess að líta á hagsmuni verkafólks og atvinnurekenda sem andstæður. Sannleikurinn er sá að innan kapítalismans er það þannig að þegar verkamenn vinna, þá tapa atvinnurekendur, og það sem atvinnurekendur vinna, tapa verkamenn. Þegar við missum sjónar á þessu og tökum upp íhaldssamari nálgun á baráttuna leiðir það til þess að hreyfingin útvatnar kröfur sínar, forðast átök við atvinnurekendur og vonar í staðinn að hægt sé að ná fram breytingum með því að höfða til siðferðis eða skynsemi þeirra.
Baráttusinnuð verkalýðsbarátta krefst þess að stéttarfélög hafni samvinnu við atvinnurekendur og virkji þess í stað félagsmenn og samstöðu verkafólks á bak við skýrar og öflugar kröfur. Eitthvað sem Sólveig Anna og Ragnar Þór hafa lagt áherslu á og náð töluverðum árangri þrátt fyrir orðræðu andstæðinga þeirra um að allt logi í deilum innan félaganna. Deilurnar hafa vissulega verið til staðar en þær hafa að miklum hluta verið á milli forystunnar og skrifstofunnar. Ekki félagsmanna.
Valdskipti
Í stuttu máli þá eru átökin á milli verkafólks og hinnar menntuðu millistéttar sem hefur haft völdin innan ASÍ. Deilurnar snúast um valdaskipti, sem hefðu undir eðlilegum kringumstæðum átt að eiga sér stað með innkomu Sólveigar og Ragnars. En forystufólk stærstu verkalýðsfélaga landsins mun ekki taka við stjórn Alþýðusambandsins að sinni.
Andstæðingar þríeykisins hafa vikið sér undan að ræða ágreining, hugmyndafræði og leiðir í verkalýðsbaráttunni og jafnvel afneitað því að um nokkurn ágreining sé að ræða. Þess í stað hefur verið fullyrt að Sólveig og Ragnar Þór sækist aðeins eftir auknum völdum, valdanna vegna. Þríeykið sé þess vegna ekki raunverulega að berjast fyrir hagsmunum verkafólks heldur aðeins eigin hagsmunum.
Andstæðingar þessara sögulegu valdaskipta hafa beitt sér af hörku undanfarna mánuði og gert sitt besta til að grafa undan trúverðugleika þríeykisins með fólskulegum persónuárásum. Í stað þess að takast á um hugmyndir og stefnu hefur verið blásið til mikillar fordæmingarherferðar. Ásakanir um ofbeldi og ofbeldismenningu hafa ítrekað verið settar fram. Stækur McCarthyismi hefur ríkt í umræðunni þar sem Sólveigu Önnu hefur ítrekað verið gerðir upp einræðistilburðir og henni líkt við Stalín og aðra einræðisherra. Þrátt fyrir það njóta þau Sólveig og Rangar Þór vinsælda og trausts innan sinna félaga þar sem þau hafa bæði sigrað hverjar kosningarnar á fætur annarri.
Staðreyndin er sú að það er ekki baráttuglatt verkafólk eða leiðtogar þeirra sem okkur stafar ógn af heldur stétt atvinnurekenda. En menntaða millistéttin sem síðustu áratugi hefur stýrt flestum stofnunum samfélagsins hefur líka brugðist. Stéttin sem hefur stjórnað ASÍ og verkalýðshreyfingunni undanfarna áratugi hefur neitað að viðurkenna rætur vandamálanna sem við stöndum frammi fyrir, neitað að gagnrýna kapítalismann, og hefur með baráttuleysi sínu aukið á misskiptingu. Þvert á yfirlýst markmið hefur láglaunafólk og ungt fólk það verr í dag en kynslóðirnar á undan. Menntaða millistéttin er í sjálfu sér hvorki ill né góð, en leiðtogar hennar hafa með afneitun sinni á róttækri stéttabaráttu stefnt baráttunni fyrir efnahagslegu réttlæti niður botnlanga stéttasamvinnu og stofnanavæðingar.
Þvert á það sem fráfarandi forysta ASÍ hefur haldið fram stendur baráttan einmitt um djúpstæðan málefnalegan og hugmyndafræðilegan ágreining. Ágreining um það hvernig verkalýðsheyfingin nái raunverulegum árangri fyrir verkafólk.