Bandaríkin voru að koma miklu heimsveldi fyrir kattarnef

10. júlí, 2023 Michael Hudson

Michael Hudson, bandarískur hagfræðiprófessor, áður efnahagsráðgjafi margra ríkisstjórna og „Íslandsvinur“ fjallar hér um skjóta sjálfseyðingu bandaríska heimsveldisins.

Heródótus (í History, Book 1.53) segir söguna af Krösusi konungi Lýdíu, ca. 585-546 f.kr. í því sem nú er Vestur-Tyrkland og jóníska strönd Miðjarðarhafsins. Krösus hertók Efesus, Mílet og nálæg grískumælandi borgríki og náði þar hyllingu og herfangi sem gerði hann að einum allra auðugasta þjóðhöfðingja síns tíma. En þessir sigrar og auður leiddu af sér dramb og oflæti. Krösus beindi augum sínum í austur með það metnaðar-takmark að sigra Persaveldi sem stjórnað var af Kýrusi mikla. 

Eftir að hafa borið gull og silfur í miklu magni á hið heimsborgaralega hof svæðisins, í Delfí, spurði Krösus Véfréttina hvort honum myndu heppnast þeir landvinningar sem hann hafði áformað. Pýþía-presturinn (kvenkyns) svaraði: „Ef þú ferð í stríð við Persíu muntu eyða miklu heimsveldi.“

Krösus hélt því af stað með her sinn gegn Persíu ca. 547 f.Kr. Herinn marséraði í austur og réðst á Frýgíu, lénsríki Persíu. Kýrus hóf sérstaka hernaðaraðgerð til að hrekja Krösus til baka, sigraði her hans, handtók hann sjálfan og notaði tækifærið til að tryggja sér gull Lýdíu og innleiða eigin persnesku gullmynt. Þannig að Krösus eyddi í raun miklu heimsveldi, en það var veldi hans sjálfs.

Spólum nú fram, að herferð Biden-stjórnarinnar til að auka hernaðarlegt vald Bandaríkjanna gagnvart Rússlandi og – handan Rússlands – Kína. Forseti Bandaríkjanna bað um ráð frá hliðstæðu Véfréttarinnar í Delfí: CIA og tengdum hugveitum. Í stað þess að vara við oflæti espuðu þær upp nýhalds-drauminn um að það að ráðast gegn Rússlandi og Kína yrði til að treysta yfirtökin á heimshagkerfinu sem gæti leitt af sér endalok sögunnar (tilvísun til bókarinnar The End of History and the Last Man eftir Francis Fukuyama, o.fl.)

Eftir að hafa skipulagt valdarán í Úkraínu 2014 sendu Bandaríkin staðgengilsher sinn í austur og fengu Úkraínu vopn til að heyja þjóðernisstríð gegn eigin rússneskumælandi þegnum og breyta rússnesku flotastöðinni á Krím í NATO-virki. Þetta metnaðar-takmark hliðstætt áformum Krösusar  miðaði að því að draga Rússland inn í átök og eyða getu þess til að verjast, eyðileggja efnahag  þess í leiðinni og eyða getu þess til að styðja Kína hernaðarlega eða önnur lönd sem eru í sikti fyrir að ógna bandarískum yfirráðum. 

Eftir átta ár af ögrunaraðgerðum var ný árás gegn rússneskumælandi Úkraínumönnum undirbúin á mjög áberandi hátt nálægt rússnesku landamærunum í febrúar 2022. Rússland forðaði rússneskumælandi nágrönnum sínum frá frekara þjóðernisofbeldi með sinni eigin „sérstöku hernaðaraðgerð“. Bandaríkin og NATO-bandamenn þeirra hrifsuðu strax eða stálu galdeyrisforðanum sem Rússland átti í Evrópu eða N-Ameríku og kröfðust þess af öllum löndum það þau innleiddu refsiaðgerðir gegn innflutningi á rússneskri orku og korni, í þeirri von að það myndi kollvarpa gengi rúblunnar. Hið delfíska Utanríkisráðuneyti ól þá von að þetta myndi fá rússneska neytendur til að gera uppreisn og steypa stjórn Vladimirs Pútín, nokkuð sem myndi gera mögulegt að koma á fót skjólstæðingsfáveldi í Rússlandi, líku því sem ríkti á tíunda áratugnum í stjórnartíð Jeltsíns forseta.  

Aukaafurð árekstranna við Rússland var að treysta yfirráðin yfir verstur-evrópskum fylgiríkjum Bandaríkjanna. Markmiðið með því ráðslagi innan NATO var að loka á draum Evrópu um að græða á nánari viðskipta- og fjárfestingasamböndum við Rússland með því að skipta á eigin iðnvarningi gegn rússneskri hrávöru. Bandaríkin komu slíkum áformum út af sporinu með því að sprengja Nord Stream gasleiðslurnar og hjuggu á aðgengi Þýskalands og annarra landa að ódýru rússnesku jarðgasi. Það gerði fremsta hagkerfi Evrópu háð miklu dýrara bandarísku fljótandi jarðgasi (LNG).  

Í viðbót við það að þurfa að niðurgreiða innlent evrópskt gas til að hindra útbreidd gjaldrot var fjöldi þýskra Leopard skriðdreka, bandarískra Patriotflauga og annarra „undravopna“ frá NATO eyðilögð í átökum við rússneska herinn. Það varð ljóst að herfræði Bandaríkjanna var ekki bara að „berjast til síðasta Úkraínumanns“ heldur einnig til síðasta skriðdreka, skotflaugar og annarra vopna sem fjarlægð eru úr vopnabúrum NATO. 

Þessi eyðing vopnabirgða NATO átti að skapa gríðarlegan endurnýjunarmarkað fyrir hernaðariðnaðarbatterí (military-industrial complex) Bandaríkjanna. Viðskiptavinirnir í NATO fá skilaboð um að auka hernaðarútgjöld sín upp i 3 eða 4 prósent af vergri landsframleiðslu. En vondur árangur í beitingu bandarískra og þýskra vopna gæti hafa eyðilagt þann draum, auk þess sem hagkerfi Evrópu sökkva niður í samdrátt. Og með þýsku iðnaðarframleiðsluna truflaða af erfiðum viðskiptum við Rússland sagði þýski fjármálaráðherrann Christian Lindner við blaðið Die Welt 16. júní 2023 að landið hans hefði ekki efni á að borga nein frekari gjöld til ESB-fjárlaganna þar sem það lengi hefur verið stærsti greiðandi. 

Án hins þýska útflutnings til að styrkja gengi evrunnar mun sá gjaldmiðill lenda í pressu gagnvart dollarnum af því Evrópa þarf að kaupa dýra LNG-gasið og NATO endurnýjar tæmdar vopnabirgðir með því að kaupa vopn frá Bandaríkjunum. Lækkað gengi á evru mun þvinga niður kaumátt evrópsks vinnuafls, og lækkuð samfélagsútgjöld  til að borga fyrir endurvopnun og til að kosta gasniðurgreiðslur hóta að kasta álfunni niður í kreppu. 

Þjóðernisleg viðbrögð við bandarískri yfirdrottnun eykst í evrópskum stjórnmálum, og í stað þess að Bandaríkin treysti yfirtök sín á evrópskum stjórnmálum geta Bandaríkin endað á að tapa – ekki aðeins í Evrópu heldur í öllu hinu hnattræna Suðri. Í stað þess að breyta „rúblunni í möl“ eins og Biden lofaði hefur viðskiptajöfnuður Rússlands batnað og gullforðinn vaxið. Sama á við um gullforða annarra landa þar sem stjórnvöld stefna nú á að afdollarísera hagkerfi sín. 

Það er bandaríska diplómatíið sem hrekur Evrópu og hnattræna Suðrið út af hinni bandarísku braut. Hið hrokafulla bandaríska kerfi einpóla heimsyfirráða var því aðeins hægt að rífa niður svona hratt að það væri gert innan frá. Biden-Blinken-Nuland stjórnin hefur gert það sem hvorki Vladimír Pútín né Xi í Kína gátu vonast til að ná fram á svo stuttum tíma. Hvorugur þeirra var tilbúinn að kasta hanskanum og bjóða valkost við hina bandarísk-miðuðu heimsskipan. En bandarískar refsiaðgerðir gegn Rússlandi, Íran, Venezúela og Kína hafa haft svipuð áhrif og verndartollmúr sem þvingar fram sjálfsþurftarstefnu í því sem ESB-diplómatinn Joseph Borrell kallar „frumskóginn“, heiminn utan við „garðinn“ hjá BNA/NATO. 

Þó að hið hnattræna Suður og önnur lönd hafi kvartað allt frá Bandung-ráðstefnu hlutlausra ríkja árið 1955 hefur vantað „krítískan massa“ (kjarneðlisfræði) í nægu magni til að skapa lífvænlegan valkost. En athygli þeirra hefur nú beinst að eignaupptöku Bandaríkjanna á dollaraforða rússneska ríkisins í NATO-löndum. Það eyðilagði hugmyndina um dollarinn sem örugga höfn fyrir alþjóðlegt sparifé. Eignaupptaka Bank of England á gullforða Venezúela sem geymdur er í London – og loforð um að afhenda hann hinum ekki-kjörnu andstæðingum sósíalískrar rikisstjórnar landsins sem bandarískir diplómatar velja – sýna hvernig evran rétt eins og dollarinn hafa orðið að vopni. Og man einhver hvað kom fyrir gullforða Líbíu?

Bandarískir diplómatar forðast að hugsa um þessar sviðsmyndir. Þeir stóla á hinn eina kost sem Bandaríkin hafa að bjóða þessum löndum: Þau geta látið vera að kasta á þau sprengjum, látið vera að setja á svið litabyltingar undir stjórn National Endowment for Democracy eða komið upp einhverjum nýjum „Jeltsin“ sem afhendir nýju skjólstæðingsfáveldi völdin.

En að sleppa slíkum viðbrögðum er allt og sumt sem Bandaríkin hafa upp á að bjóða. Landið hefur afiðnvætt eigið hagkerfi, og hugmyndin um erlendar fjárfestingar er sú að skapa möguleika á einokunargróða með því að koma tæknilegri einokun og stjórn yfir olíu- og kornverslun í amerískar hendur, eins og það þýði efnahagslega skilvirkni. 

Það sem hefur gerst er breyting í vitundinni. Við sjáum að hnattræni meirihlutinn reynir að skapa óháð og friðsamlega umsamið val um hvers konar heimsskipan hann óskar sér. Markmið hans er ekki bara að skapa valkosti við notkun dollarans heldur nýtt kerfi af stofnanavalkostum við AGS, Alþjóðabankann, SWIFT-greiðslukerfið, Alþjóðlega refsidómstólinn og allt settið af stofnunum sem bandarískir diplómatar hafa rænt frá SÞ.  

Útkoman verður siðmenningarleg að umfangi. Við sjáum ekki endalok sögunnar heldur ferskan valkost við nýfrjálshyggju-fjármálakapítalismann og stefnu hans að stéttar stríði gegn vinnuaflinu, og hugmyndina um að peningar og lán skuli einkavæðast í höndum örlítillar fjármálastéttar í stað þess að vera opinbert afl til að fjármagna efnahagslegar þarfir og batnandi lífskjör.  

Greinin birtist fyrst 28/6 í ritinu Naked Capitalism.